Rangar ákvarðanir í orkumálum verða afdrifaríkar

Ef hrapað er að stefnumörkun í orkumálum, getur það hæglega haft afdrifaríkar afleiðingar á þjóðarbúskapinn, því að nýttar orkulindir landsins leika stórt hlutverk í verðmætasköpun þjóðfélagsins.  Jafnvel Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem oft hefur opinberlega sýnt megna andúð á starfsemi stóriðjufyrirtækja í landinu af ástæðum, sem ekki styðjast við rökræna hugsun, þykist þó átta sig á mikilvægi "skynsamlegrar" orkulindanýtingar.  Hætt er þó við, að "skynsamleg orkulindanýting" leiði umræðuna út um víðan völl og út í "eitthvað annað", því að það er eins og gengur; það, sem einum þykir skynsamlegt, finnst öðrum óskynsamlegt.  Að henda inn þessu lýsingarorði án þess að útskýra merkinguna neitt nánar er þess vegna út í hött og leiðir umræðuna aðeins í hringi, sem eru endalausir, eins og kunnugt er.

Björt skrifaði rislitla grein í Morgunblaðið 27. febrúar 2020, sem hún nefndi:

 "Landsvirkjun og Rio Tinto".

Hún kveður "Mining Journal" hafa sagt frá samrunatilraun Rio Tinto og Glencore og heldur, að við það versni samningsstaða einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar við stóriðjuna á Íslandi. Hún lætur sér hins vegar einokunarstöðu Landsvirkjunar á sviði stórsölu raforku í réttu rúmi liggja og horfir algerlega fram hjá því tjóni, sem misbeiting Landsvirkjunar á þeirri einokunarstöðu í landinu hefur haft og mun hafa, ef stjórnendur á þeim bæ ekki bæta ráð sitt.  Miðað við þögn stjórnar Landsvirkjunar  hingað til og hrokafullt framferði forstjórans er slíkt borin von. 

Það hefur reyndar lengi verið ljóst, að boltinn eða öllu heldur "heita kartaflan" er hjá ríkisstjórninni, og hún þarf ekki að halda, að CoVid-19 dragi úr nauðsyn þess, að hún grípi til aðgerða á þessu sviði, því að veiran sú hefur þegar valdið aðalmjólkurkúnni doða (ferðamannastarfseminni), og þá ríður á að gefa hinum kúnum í fjósinu betra hey en hingað til, svo að þær veslist ekki upp og drepist.  Þetta verður einn af prófsteinum ríkisstjórnarinnar á síðari hluta þessa kjörtímabils.  Hún á að geta ráðið við þetta, en til þess nægir þó ekki fagurgali eða reykmerki, heldur verður að hafa bein í nefinu til framkvæmda.  Ef það er ekki fyrir hendi, eru nægir slíkir í þingliði Sjálfstæðisflokksins til að taka við keflinu, þegar á reynir.  Þeim mun ekki vaxa þetta verkefni í augum.

Téð grein Bjartrar Ólafsdóttur hófst þannig:

"Þessa dagana er tekizt á um mikla hagsmuni Íslendinga í deilu Rio Tinto og Landsvirkjunar.  Ég er með raunveruleikann alveg á hreinu.  [Svona skrifa aðeins sanntrúaðir, en þessi sanntrúaði lifir reyndar í sýndarveruleika, eins og fram gengur síðar í þessum pistli - innsk. BJo.] 

Skynsamleg auðlindanýting hefur verið undirstaða allra þeirra ríkja í heiminum, sem hefur í gegnum söguna vegnað vel.  [Það er ekkert annað, en hvað með þær, sem hafa ekki komizt "í gegnum söguna" ?  Þær hafa líklega ekki beitt "skynsamlegri" auðlindanýtingu að mati Bjartrar.  Það mun fara eftir duttlungum Bjartrar, hvað er "skynsamlegt" í þessum efnum, en hvorki mati einkaframtaksins né Skipulagsstofnunar.]  Ef ríkjum hefur svo tekizt að bæta þar ofan á fjölbreyttum leiðum til verðmætasköpunar, í gegnum [svo !?] nýsköpun og aðra snilli, þá hefur þeim áfram vegnað vel, og lífsskilyrði borgaranna hafa verið stöðug og góð."

Þetta er loftkenndur, dönskuskotinn og flatneskjulegur texti, enda vantar raunverulega hugsun í hann, þ.e. að drifkraftur fjárfestinga, atvinnusköpunar og framfara er auðvitað markaðurinn, en ekki stjórnvöld.  Þá gildir einu, hvort um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda eða úrvinnsluiðnað, og þessi markaður verður að hafa hvata til að starfa, þ.e. starfsskilyrðin verða að vera samkeppnishæf.  Þar stendur hnífurinn í kúnni núna á Íslandi, og þess vegna er hluti gjaldeyrissköpunarinnar hérlendis að stöðvast um þessar mundir. 

Mannvitsbrekkan, hin stóriðjufjandsamlega Björt Ólafsdóttir, hefur áttað sig á því, að stefna og verk Landsvirkjunar eru nú að rústa stóriðjunni í landinu, sem Björt hefur lengi dreymt um, að gerast mundi, og þess vegna tók hún sig til í lok þessa fimbulfambs og bar lof á Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson, sem eru hetjurnar hennar Bjartrar nú um stundir, en skamma hríð verður hönd höggi fegin.  Grein sinni lauk Björt þannig:

 "Það hefur því miklu meiri áhrif á Rio Tinto að fara fram af ruddaskap [hver er ruddinn ? - innsk. BJo] við Íslendinga, sem lætur þá líta illa út í öllu samstarfi (lækkar þeirra ESG) [= "Environment, Social and Governance" samkvæmt útskýringu Bjartrar] en að lækka raforkusamning hér.  Verkefni stjórnmálanna hlýtur því að vera það að styðja við þá Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson til að standa fast á okkar.  Stjórnmálamenn og hagsmunasamtök geta einmitt gert gagn með því að láta þau skilaboð berast skýrt til þeirra erlendu aðila á mörkuðum, sem Rio Tinto reiðir sig á í miklu stærra samhengi en bara á litla Íslandi.  Svo væri lag að ræða um framtíðina, hvernig ætlum við að halda áfram að auka verðmætasköpunina fyrir auðlindina okkar." 

Þetta er nú meiri endemis samsetningurinn og ekki amalegt fyrir þá Landsvirkjunarkumpána að geta nú hóað í þetta ESG, sem ekkert hefur þó spurzt til áður, þegar mest liggur við.  Ef hins vegar Björt, þessi, Ólafsdóttir hefði snefil af jarðsambandi, þá myndi hún spyrja og svara því í sömu grein, hvernig á að útvega þeim 1250, sem Hagfræðistofnun HÍ kveður hafa beinan og óbeinan starfa af starfseminni í Straumvík, vinnu, sem ekki er síður vel borguð en sú, sem þau hafa nú.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæll bjarni, þau hafa ekki bein í nefinu!!!

Eyjólfur Jónsson, 11.3.2020 kl. 19:50

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Skynsamleg nýting" hefur nú reyndar alla tíð verið nánast verið einokað orðaval af þeim, sem setja samasemmerki við það og stóriðjuna. 

Ómar Ragnarsson, 11.3.2020 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband