CoVid-19-örlagavaldur

Heimsbyggðin er nú undirlögð af veiru, og hagkerfi heimsins eru lömuð um ófyrirsjáanlegan tíma.  Heilsufarslegar afleiðingar, fjöldi ótímabærra dauðdaga, efnahagslegar, peningalegar og pólitískar afleiðingar, eiga eftir að koma í ljós, en hægt er nú þegar að fullyrða, að sumt af þessu verður ærið stórskorið.

Margir alvarlegir sjúkdómar herjuðu á mannkynið á 20. öldinni, og voru margir þeirra kallaðir barnasjúkdómar, sem gengu á Íslandi t.d. á 6. áratuginum, þegar höfundur þessa pistils var að slíta barnsskónum og tók þá flesta þessara sjúkdóma, sem bóluefni voru síðan þróuð fyrir. Nú er verið að þróa bóluefni gegn CoVid-19, en það fer í fyrsta lagi í almenna dreifingu 2021.

Skaðlegasta veirupestin á 20. öldinni var þó líklega Spænska veikin, sem lagðist á öndunarfærin svipað og CoVid-19 nú.  Í Spænsku veikinni smituðust 63 % íbúa í þéttbýli á Íslandi, og var dánarhlutfall þeirra 2,6 % eða um 500 manns hérlendis.  Dánarfjöldi hérlendis af völdum CoVid-19 verður fyrirsjáanlega aðeins brot af þessari tölu, innan við 10, ef fer fram sem horfir, svo er einfaldlega aðgerðum sóttvarnayfirvalda fyrir að þakka, hvað sem gagnrýni á þau líður.

Hver smitberi er talinn hafa smitað 2-3 í kringum sig í spænsku veikinni, sem er sama smitnæmi og fyrir CoVid-19, en meðgöngutíminn var samt aðeins 2 dagar þá, sem er mun skemmri meðgöngutími en nú.  Spænska veikin lagðist þungt á aðra aldurshópa en CoVid-19, þ.e. 20-40 ára í stað elztu aldurshópanna nú, en þá voru reyndar þjóðfélagsaðstæður allt aðrar en nú og miklu minna af háöldruðu fólki. Ein af ástæðum skelfilegs ástands og hárrar dánartíðni á Ítalíu af völdum CoVid-19 er talin vera hár meðalaldur á Ítalíu.  Hann mun vera sá næst hæsti í heimi á eftir Japan, en þar í landi voru gagnráðstafanir líklega mun skeleggari frá upphafi en á Ítalíu.  Hérlendis var frá upphafi tekin upp róttæk stefna til að vernda elztu borgarana.   

Þar sem heilbrigðiskerfi almennings er öflugt, er dánartíðnin lægri en hún var í Spænsku veikinni, en þar sem það er vanþróað eða hefur kiknað undan álaginu, þar verður dánartíðnin hærri af völdum CoVid-19. Öflug smitrakning og sóttkvíun hérlendis hefur berlega dregið úr dreifingunni, og þar með standa góðar líkur til, að álagið á íslenzka heilbrigðiskerfið muni verða innan marka afkastagetu þess, þ.m.t. gjörgæzlan. 

Í byrjun þessarar aldar kom upp stórhættulegur veirusjúkdómur í Vestur-Afríku, sem fékk nafnið ebóla. Það varð mannkyni til happs þá, að hún dreifðist ekki í lofti og náði aldrei til þéttbýlis. Með fórnfúsu heljarátaki heilbrigðisstarfsmanna víða að tókst að hemja þessa veiru og ráða niðurlögum hennar, a.m.k. um sinn. Hún olli innvortis blæðingum, og dánarhlutfall sýktra var yfir 60 %.   

Mannkynið er alltaf óviðbúið veirufaröldrum.  Því verður að breyta.  Á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, þurfa þjóðir heims að sameinast um "varnarlið" heilbrigðisstarfsmanna, sem hafa beztu rannsóknarstofnanir í veirufræðum sem bakhjarla og er reiðubúið að fara á staðinn, þar sem grunur leikur á um veirusmit af nýju tagi og aðstoða heimamenn við að ráða niðurlögum veirunnar sem fyrst. Hérlendis þarf að rýna hönnun nýs Landsspítala m.t.t. einangrunarrýma og stækkunar gjörgæzluaðstöðu.  Þetta mundi líka gagnast baráttunni við fjölónæma sýkla. 

Skilyrði þess, að takast megi að hefta útbreiðslu, er, að grípa strax til gagnráðstafana og hafa opið upplýsingaflæði í viðkomandi landi og um allan heim um þróun mála.  Það virðist algerlega hafa brugðizt í Kína, a.m.k. að þessu sinni, því að talið er, að vart hafi orðið við veiruna í Wuhan í nóvember 2019, og sorgleg er sagan af hálffertugum lækni þar, sem vildi hringja aðvörunarbjöllum í Kína út af áður óþekktum veirufaraldri þegar í desember 2019, en yfirvöld stungu hausnum í sandinn og lögðu áherzlu á að þagga málið niður.  Ungi læknirinn, sem reyndi eftir megni að hjálpa fjölmörgum sjúklingum á sjúkrahúsum í Wuhan í miklu veiruumhverfi, smitaðist sjálfur af CoVid-19 og lézt úr sjúkdóminum í lok janúar 2020, þótt hraustur væri fyrir. Annað eins og þetta má aldrei endurtaka sig, enda má hafa mjög þung orð um slíka framvindu.  Síðan hafa kínversk stjórnvöld reynt að bæta ráð sitt og staðið sig vel í að hefta útbreiðsluna í Kína, en veiran náði samt að dreifa sér út fyrir landamærin, m.a. til Alpanna tiltölulega fljótt, eins og alræmt er.

Það er rannsóknarefni út af fyrir sig, hvers vegna svo margar veirupestir, eins og dæmin sýna, eiga upptök sín í Kína, og er þá skemmst að minnast SARS-veikinnar 2003 af völdum minna smitandi kórónu-veiru en CoVid-19, svo að hún barst ekki á okkar slóðir. Bent hefur verið á matarmarkaðina í Kína, þar sem ægir saman alls kyns kvikindum, lifandi og dauðum, sem Kínverjar leggja sér til munns.  Í þessum kvikindum eru alls kyns veirur, og ein tilgátan er sú, kórónaveirurnar finni sér nýjan hýsil á þessum mörkuðum.  CoVid-19 stökk úr leðurblöku yfir í "homo sapiens" samkvæmt þessari kenningu, en hún veldur þessum nýja hýsli skaða, þótt sambýlið hafi ekki verið svo slæmt við gamla hýsilinn.  Aðferð til að draga úr þessum veiruuppsprettum er þá að auka þrifnað og sóttvarnir á þessum mörkuðum, og enn róttækara væri að hætta að éta þessi kvikindi, en það er nú kannski svipað gagnvart Kínverjum og að biðja Íslendinga um að hætta að éta hangiket. 

Wuhan er mikil háskólaborg, og þar er miðstöð veirurannsókna í Kína.  Önnur tilgáta um uppruna veirunnar er sú, að hún hafi verið þróuð í hernaðarskyni á rannsóknarstofu í Wuhan, en sloppið þaðan út.  Sérfræðingur í veirufræðum hefur látið að því liggja, að CoVid-19 hafi orðið til við að skeyta erfðaefni úr HIV-eyðniveirunni við SARS til að gera hana meira smitandi en kóróna-veirur eru alla jafnan, sbr SARS (Severe Acute Respiratory Syndrome).

Auðvitað vita Kínverjar hið sanna í þessu máli, en leyndarhyggja þeirra veldur tortryggni, sem verður síðan gróðrarstía gróusagna.  Þeir meinuðu WHO aðgang að landinu í upphafi, sem út af fyrir sig er grafalvarlegt mál í ljósi þeirra geigvænlegu afleiðinga, sem útbreiðsla veirunnar hefur um gervallan heim. Sams konar þöggunartilburða í Kína gætti gagnvart upptökum SARS-veirunnar.  Í kjölfarið sögðu yfirvöld, að slíkt myndi ekki endurtaka sig vegna styrkrar stjórnar átrúnaðargoðsins, sem nú fer með æðstu völdin í Kína, en hið sama varð samt uppi á teninginum í Wuhan í a.m.k. 2 mánuði, og á meðan lék veiran lausum hala, og fólk ferðaðist óheft til og frá hinu sýkta svæði og einnig til útlanda. Þar með varð fjandinn laus.

Þótt takist að stöðva dreifingu veirusýkinnar CoVid-19 alls staðar í heiminum í sumar, þá er engin trygging fyrir því, að hún gjósi ekki upp aftur næsta vetur, jafnvel stökkbreytt og þá enn erfiðari viðfangs.  Það er algerlega óbærilegt, að fólk þurfi að búast við því nokkrum sinnum á sama áratugi, að tilvera þess og jafnvel líf verði í fullkomnu uppnámi.  Slíkt ástand mun hafa mjög slæm áhrif á lífskjör almennings hvarvetna í heiminum.  Það eru gríðarlegir sameiginlegir hagsmunir í húfi, og árangur í þessari baráttu næst alls ekki með leynimakki og einleik hverrar ríkisstjórnar fyrir sig, eins og við höfum horft upp á undanfarna daga og vikur, heldur með samstilltu átaki, þar sem höfuðáherzla verður lögð samstundis og veiran uppgötvast á einangrun, sóttkví, að rekja slóðir sýktra og læknisfræðilega aðstoð við upprunalandið á fyrstu dögum, eftir að grunsemdir vakna. Tíminn skiptir öllu máli hér sem oftar. Að sólunda honum er dýrt spaug, kostar tugþúsundir mannslífa og efnahagskreppu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Vel mælt Bjarni.

En hvort sem Kína er gróðastía sýkla eður ei, þá er það ekki Kínverjar sem flutt framleiðslu Vesturlanda til landsins, þar var að verki hagtrú kennd við hið frjálsa flæði, í þessu tilviki gróða örfárra.

Við þann fjanda tók Trump slaginn, og hlaut bágt fyrir.

Andskotinn átti sér svo birtingarmynd í orkupakka 3, hið frjálsa flæði orku yfir landamæri.

Ef Kína fengi að vera það sem það er, lokað kommúnistaríki, í stað þess að vera verksmiðja þrælahalds glóbalvæðingarinnar, þá hefðum við engar áhyggjur að smitsjúkdómum þaðan.

Nema hagstofan, hún þarf að uppfæra tölur um mannfjölda í heiminum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.3.2020 kl. 15:13

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar;

Eftir dauða Maos, formanns, varð Kínverjum ljóst, að þeir yrðu að velja á milli fátæktar kommúnismans eða að leyfa auðvaldskerfinu að skjóta rótum hjá sér.  Þeir gerðu upphaflega tilraun með kapítalismann í nokkrum héruðum við ströndina og áttuðu sig á sprengikrafti erlendra fjárfesta og tækniþekkingar fyrir efnahaginn.  Þá varð ekki aftur snúið.  Þeir voru mjög móttækilegir, þannig að enginn tróð upp á þá auðvaldskerfinu.  Nú eru þeir að skapa nýtt kerfi, sem engum datt í hug að prófa á Vesturlöndum, þ.e. auðvaldskerfi undir stjórn kommúnistaflokks.  Alls er óvíst, hversu lengi þetta sambýli þrífst.

Bjarni Jónsson, 20.3.2020 kl. 22:50

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Kínverjum er aldrei að treysta.Opinbert lygaríki fanta. 

Aðeins Trump og hans ríki getur bjargað okkar mannheimi. 

Fyrsta bólusetningin fór í hana Jenny í dag.Kaiser og Moderna og fleiri eru á fullu. Vírushelvítið er ekki ódrepandi, það er bara að finna próteinið sem stoppar hann, þá er hann búinn.

Og það verður að ráðast gegn helvítis sóðaskapnum í Kína, þaðan sem allar pestir incl kvef koma.

Halldór Jónsson, 21.3.2020 kl. 17:53

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Halldór;

Donald er í djúpum skít núna, því að hann vanmat gjörsamlega þessa kínversku veiru og hefur komið með yfirlýsingar í sambandi við veiruna, sem sýna, að hann er gjörsamlega úti að aka um hættuna af þessari veiru.  Vitað er, að í heiminum eru stundaðar veirurannsóknir í hernaðarskyni.  Vonandi erum við ekki fórnarlömb brjálæðinga, sem eru að prófa "vopnið". Heimurinn er nú í fyrsta skipti vitni að eyðileggingarmætti skaðræðis veiru fyrir samfélög og hagkerfi, en verstar eru mannfórnirnar.

Bjarni Jónsson, 21.3.2020 kl. 20:31

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Rót vandans er einræðið og kúgunin í Kína. Hefði þetta brotist út í Bandaríkjunum er enginn vafi á að menn hefðu ráðið niðurlögum sjúkdómsins tafarlsust, enda ekki hægt að hindra flæði upplýsinga í frjálsu landi.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.3.2020 kl. 21:33

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég er í grundvallaratriðum sammála þér, Þorsteinn Siglaugsson, en í framkvæmd er ég ekki sannfærður um skilvirkni bandarískrar stjórnsýslu á þessu sviði.  Mér sýnast varnir alríkisstjórnarinnar vera í skötulíki, en allmörg fylki hafa nú gripið til örþrifaráða (útgöngubanns).

Bjarni Jónsson, 22.3.2020 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband