CoVid-19 og evran

Stefán E. Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, er skarpur greinandi.  Þann 18. marz 2020 birti hann í Viðskipta-Mogganum stórmerkilega "skoðunargrein" sína undir fyrirsögninni:

"Endalok evrunnar",

sem ástæða er til að birta hér og leggja út af:

"Það fór ekki vel af stað hjá Christine Lagarde, þegar hún kynnti fyrsta alvarlega inngrip Seðlabanka Evrópu, frá því að hún tók við stofnuninni síðastliðið haust.  Glannaleg yfirlýsing, sem mátti túlka sem svo, að bankinn myndi ekki bakka upp hagkerfi Ítalíu, þegar öll sund eru lokuð, olli því, að markaður með ríkisskuldabréf landsins fór á annan endann.  Hún baðst í kjölfarið afsökunar á framgöngu sinni - en skaðinn er skeður." ?! [Erlendur hortittur í lokin-innsk. BJo.]

Christine Lagarde endurómaði væntanlega þarna umræðurnar innan Seðlabanka evrunnar (ECB), þegar hún tók við stöðu formanns bankastjórnar hans.  Þar sem ítölsku ríkisskuldabréfin fóru í ruslflokk við þessi ummæli, er ljóst, að fjárfestar telja þau illseljanleg á markaði, nema ECB bjóðist til að kaupa þau.  Það er hins vegar ekki víst, að ECB hafi í þetta skiptið getu til að kaupa nóg af þeim.  Það má búast við, að mörg ítölsk fyrirtæki lendi í vanskilum við banka sína á næstu vikum og mánuðum, af því að þau hafa litlar eða engar tekjur haft vikum saman.  Bankarnir eru veikir fyrir, og ríkisstjórnin mun reyna að bjarga einhverjum þeirra, en lausafjárþurrð mun líklega reka bankana og ítalska ríkissjóðinn í þurrð.  

Seðlabanki evrunnar mun þurfa í fleiri horn að líta, t.d. til Spánar og Grikklands, en einnig norður fyrir Alpana.  Deutsche Bank stóð tæpt fyrir þetta áfall, og núverandi hagkerfislömun og vafalaust lausafjárskortur í Evrópu fyrir vikið mun geta riðið honum að fullu. Þýzki ríkissjóðurinn mun sennilega teygja sig langt til að bjarga einhverju af þessum risa, svo að Þýzkaland verður líklega ekki aflögufært fyrir björgunaraðgerðir utan landamæra Sambandslýðveldisins.  Allar þessar sviptingar hljóta að hafa veikjandi áhrif á evruna, sem gæti kannski upplifað fall í líkingu við fall norsku krónunnar, NOK, í viku 12/2020, er hún féll um fjórðung m.v. USD, líklega aðallega vegna helmingunar á verði hráolíu, sem þýðir, að allir olíuborpallar Noregs eru nú reknir með tapi.     

Á óróa- og óvissutímum leita fjárfestar í bandaríkjadal, USD. Þótt forseta Bandaríkjanna hafi brugðizt bogalistin illilega við að veita landinu forystu í vörnum þess gegn CoVid-19 veikinni með þeim afleiðingum, sem Bandaríkin munu væntanlega þurfa að súpa seyðið af (nú er 80 þúsund manns spáð dauðdaga í BNA af völdum SARS-CoV-2 veirunnar), þá er evran þegar farin að tapa talsverðu verðgildi m.v. USD eða tæplega 5 % á vorjafndægri 2020 m.v. marzbyrjun.  Aðeins glannar spá fyrir um gengi gjaldmiðla, en það er hægt að leyfa sér að ýja að því, að núverandi lömun hagkerfa af völdum CoVid-19 pestarinnar muni geta leitt til þess, að evran verði um hríð ódýrari en dalurinn.

"Ríkin í Suður-Evrópu, sem hafa barizt í bökkum allt frá fjármálahruninu 2008, ekki sízt vegna drápsklyfjanna, sem alþjóðlegar fjármálastofnanir fengu að hengja á ríkissjóðina, horfa nú fram á enn eitt rothöggið.  Nú er enginn peningur í kassanum til að bregðast við, og ríkin, sem gátu komið til hjálpar þá, eiga þess varla kost nú.  Merkel þarf ekki að neita þeim um aðstoð; hún er einfaldlega ekki aflögufær."

Þarna stiklar Stefán Einar á stóru um orsakir efnahagsvandræða Suður-Evrópu og þar með orsakir ógnana, sem nú steðja að evrusamstarfinu.  Því miður gliðnaði hin óbrúanlega gjá, sem efnahagslega liggur um Alpana og Rín, enn við hrossalækningu ESB og AGS við fyrstu evrukrísunni, sem náði hámarki 2012. Nokkrar afskriftir lána áttu sér raunar stað, en meginþungi aðgerðanna fólst í því, að stórbankar Frakklands, Bretlands og Þýzkalands, voru losaðir úr prísund áhættusamra lánveitinga og skuldaklafi ríkissjóða Suður-Evrópu aukinn að sama skapi.  Þetta hefur virkað svo vaxtarhamlandi á þessi ríki, að þau hafa ekki borið sitt barr síðan. 

 

Eðlilega mega þau ekki við neinum ytri áföllum við þessar aðstæður, og greiðsluþol ríkissjóða Suður-Evrópu mun verða í uppnámi, þegar hvert fyrirtækið á fætur öðru verður gjaldþrota vegna tekjubrottfalls af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem tekur feiknarlegan toll af þessum ríkjum.  Þetta eru ill tíðindi fyrir evruna, því að seðlabanki hennar í Frankfurt getur ekki einbeitt sér að björgun Suður-Evrópu, þar sem öll Evrópa er lömuð af völdum veirunnar.  Skyldi nokkurn vísindaskáldsöguhöfund hafa órað fyrir því, að efnahagstjónið yrði jafnmikið af völdum lungnabólguveiru og raunin verður af þessari, en það mun hlaupa á tugum trilljóna bandaríkjadala á heimsvísu áður en yfir lýkur ? 

"Þegar veiran hefur gengið yfir með öllum sínum eyðileggingarmætti, ekki sízt í efnahagslegu tilliti, þurfa ríkin hvert og eitt að ræsa efnahagskerfi sín að nýju.  Það verður nánast ómögulegt innan sameiginlegs myntsvæðis.  Ríkin í suðri þurfa veikara gengi en Frakkar og Þjóðverjar, og við þeim bráða vanda er aðeins ein lausn.  Hún liggur í augum uppi, en enginn vill verða fyrstur til að benda á. Draumurinn um evruna er úti."

 Höfundur þessa vefpistils er alveg sammála málatilbúnaði og höfuðályktun Stefáns E. Stefánssonar hér að ofan, nema honum er til efs, að Frakkar muni fylgja Norður-Evrópu, heldur fremur Suður-Evrópu. Evran er hugarfóstur Frakka til að afnema ráðandi stöðu þýzku myntarinnar, DEM, á fjármálamörkuðum Evrópu.  Þá átti frammistaða franska frankans meira skylt við líruna og pesóann en þýzka markið.  Frakkar urðu ítrekað að biðja Vestur-Þjóðverja um að hækka gengi þýzka marksins til að þurfa ekki að lækka gengi frankans.  Frakkar héldu, að þeir hefðu leyst gjaldmiðilsvanda sinn með evrunni, en misreiknuðu sig.  Þýzka hagkerfið, skilvirkni og framleiðnivöxtur Þjóðverja, hefur haft mest áhrif á gengi evrunnar og haldið því uppi, en nú verða mjög líklega þau kaflaskil, að evran mun veikjast út á við og inn á við.  Til þess þurfti aðeins örsmáan próteinklasa frá Kína, sem sezt að í frumum manna um allan heim og reynir á þanþol og mótstöðukraft ónæmiskerfis þeirra.    

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vonandi er Ásgeir farinn að skipta evrusafni Más út fyrir dollara.

Gunnar Heiðarsson, 26.3.2020 kl. 19:31

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Gunnar, það er lán í óláni á þessum síðustu og verstu tímum veirufárs, sem hrundið hefur heimskreppu af stað, að í Svörtuloftum er nú stjórnað af skynsamlegu viti.  Okkur leggst jafnan eitthvað til, þegar hæst þarf að hóa. 

Bjarni Jónsson, 26.3.2020 kl. 21:04

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Því miður eru INNLIMUNARSINNARNIR nokkuð sterkir innan Seðlabanka Íslands og sem dæmi má nefna að Þórarinn Pétursson hefur komið sér vel fyrir og hætt við að hann standi fast á "bremsunni" ef á að fara að losa sig við MATTADORPENINGANA (evrunar).........

Jóhann Elíasson, 27.3.2020 kl. 14:20

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Mér virðist téður Þórarinn nú vera eins og mús undir fjalarketti. 

Bjarni Jónsson, 27.3.2020 kl. 17:51

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hún er ekki betri sú músin sem læðist en sú sem stekkur.......

Jóhann Elíasson, 28.3.2020 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband