6.6.2020 | 18:01
Þingmaður stingur á kýli
Sjálfstæðasti þingmaðurinn á núverandi Alþingi, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á ófremdarástandi skipulagsmála verklegra framkvæmda í innviðum á Íslandi í Morgunblaðsgrein 20. maí 2020:
"Tafaleiðir framkvæmda og stjórnun í þágu fjöldans".
Í mörgum tilvikum þvera þessir innviðir fleiri en eitt sveitarfélag, og slík tilvik eru skipulagslega erfiðust. Hér er um að ræða klúður löggjafans, sem hann verður að bæta úr. Hann verður að einfalda og straumlínulaga þetta ferli, sem er allt of dýrt í framkvæmd. Sumir ráðherranna hafa verið að grisja reglugerðarfrumskóginn frá ráðuneytum sínum, þótt sparnaðurinn af því nemi aðeins broti af því, sem sparast mundi með einföldun að hætti Ásmundar.
Grein sína hóf Ásmundur á því að minna á, hversu léttvægar gjörðir mannanna eru enn gagnvart náttúruöflunum, og innviðaframkvæmdir snúast nú á dögum í mörgum tilvikum um að auka nothæfni innviða, þegar verulega reynir á þá, t.d. vegna náttúruaflanna.
"Í vetur hafa náttúruöflin svo sannarlega minnt okkur á, hvaða kraftar það eru, sem raunverulega ráða ríkjum. Veikleikar í raforkukerfinu, sem Landsnet hefur í mörg ár bent á, voru afhjúpaðir. Samgöngur stöðvuðust, og hefur Öxnadalsheiðin til dæmis verið ófær 12 sinnum í vetur. Þá lágu fjarskipti niðri."
Nú er ekki víst, að lokið væri nýrri 220 kV Byggðalínu alla leið frá Klafastöðum í Hvalfirði og til Hryggstekks í Skriðdal, þótt nýtt straumlínulagað skipulags- og leyfisveitingaferli hefði verið við lýði í t.d. 5 síðastliðin ár, en hún hefði örugglega verið komin vel á veg, sem hefði hugsanlega nýtzt til að draga úr því stórtjóni, sem varð á Norður- og Austurlandi í vetur vegna mjög langdregins straumleysis. Fjarskiptin lágu niðri vegna straumleysis, þó í allt of langan tíma, en það er önnur sorgarsaga.
Síðan bendir Ásmundur á, að kerfið sjálft fari ekki að lögum, heldur hundsi tímafresti mjög gróflega. Í raun ætti kerfið að vera þannig, að opinberar stofnanir komist ekki upp með að taka sér lengri afgreiðslutíma en áskilinn er í lögum. Ef ekkert gerist í máli að áskildum tíma liðnum hjá viðkomandi stofnun, sé viðkomandi tillaga eða umsókn talin samþykkt, og málið haldi þannig áfram í ferlinu. Ásmundur hélt síðan áfram:
"Uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku- og vegakerfisins í landinu. Sérlega verndað umhverfi hefur skapazt, þar sem stöku sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar, geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar, þrátt fyrir að málefnaleg rök liggi fyrir um nauðsynlega uppbyggingu grunninnviða okkar. Þetta eru ára- og áratugalangar tafir. Við búum við svo margflókið kerfi leyfisumsókna og kæruferla, að ekkert nágrannaríki okkar býr við annan eins reglufrumskóg. Hér verða rakin raunveruleg dæmi, sem Landsnet hefur þurft að þreyta í gegnum kerfið mánuðum og árum saman, langt fram úr öllum lögbundnum frestum áður en hægt er að byrja hina eiginlegu vinnu við framkvæmdina. Þá hafa sveitarstjórnir nýtt sér tafaleiðir laganna þrátt fyrir að hafa áður samþykkt kerfisáætlun Landsnets."
Þetta er ljót lýsing á hegðun Skipulagsstofnunar, nokkurra sveitarfélaga og félagasamtaka, sem brugðið hafa fæti fyrir framfaramál. Ef skýr rök eru fyrir hendi um notagildi eða jafnvel nauðsyn opinberrar framkvæmdar, þá eiga að vera mjög þröngir tafamöguleikar fyrir hendi, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa innleitt hjá sér. Hvernig stendur á því, að hér hafa flækjufætur komið ár sinni rækilega fyrir borð, svo að laga- og reglugerðafrumskógur um téðar framkvæmdir er hreinn óskapnaður ?
"Tökum sem dæmi Reykjanesbrautina, þar sem nú er unnið að því að ljúka tvöföldun brautarinnar, sem er um 50 km löng að Hafnarfirði. Lokaáfanganum, 5 km kafla frá Hvassahrauni að Krísuvíkurafleggjara, hefur verið breytt í samræmi við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar innan iðnaðarsvæðis, og þarf breytingin að fara í kerfislega þungt, langt og rándýrt umhverfismat þrátt fyrir augljósan kost við breytinguna."
Umræddur kafli færist frá því að eiga að fara ótroðnar slóðir sunnar og að gamla veginum. Heilbrigð skynsemi kallar ekki á umhverfismat fyrir slíka breytingu. Löggjafinn verður að opna á skemmri skírn greinargerðar um umhverfisáhrif, þegar í raun er eingöngu verið að breikka gamlan veg eða annað sambærilegt. Það er engu líkara en kerfissnötum hafi í sumum tilvikum tekizt að búa til algerlega óþörf verkefni í tengslum við framkvæmdir.
Að lokum skrifaði Ásmundur:
"Líkt og ég hef rakið hér að framan, er ljóst, að kerfið er ekki í neinu samræmi við almennan vilja í samfélaginu. Það er því nauðsynlegt, að endurskoðun laganna horfi til einföldunar, svo að fámennir hópar geti ekki stöðvað eða tafið framkvæmdir, sem varða afkomu og lífsgæði íbúa á heilum landsvæðum árum og áratugum saman."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Hér á Íslandi er þingræði, Ásmundur Friðriksson er þingmaður og þar að auki í stjórnarmeirihlutanum.
Hann fer því létt með að tala við sjálfan sig og aðra á Alþingi.
Ásmundur er síður en svo feiminn og fer í kaffi og kleinur úti um allar koppagrundir, eins og akstursreikningar hans sýna.
Sjálfstæðasti þingmaðurinn á Alþingi er hins vegar Andrés Ingi Jónsson, sem er utan þingflokka.
Þorsteinn Briem, 6.6.2020 kl. 19:34
Leggja á raflínur í jörð í stað heljarinnar raflínumastra úti um allar koppagrundir, sem spilla hér góðu útsýni til allra átta og er að sjálfsögðu mikils virði fyrir okkur Íslendinga almennt og ferðaþjónustuna, þann atvinnuveg sem skapar hér langmestu útflutningsverðmætin.
Þorsteinn Briem, 6.6.2020 kl. 19:38
Raflínur í jörð - Einfaldlega hagkvæmast
Raflínur í jörð - Danmörk
Raflínur í jörð - Frakkland
Þorsteinn Briem, 6.6.2020 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.