Hömlulosun

Ætíð er fengur að blaðagreinum Jóhannesar Loftssonar, verkfræðings.  Hann setur oftast fram frumleg og vel rökstudd sjónarmið.  Oft fjallar hann um það, sem efst er á baugi.  Allt á þetta við um Morgunblaðsgrein hans 

"Sumarið er tíminn".

Þar leggur hann til með rökstuddum hætti, að opna ætti landið nú þegar án sýnatöku og greiningar við komuna.  Hann nefnir ekki tilmæli yfirvalda um smitrakningarapp í farsíma ferðamanna, enda kostar slíkt fjárhagslega lítið, og Persónuvernd er búin að leggja blessun sína yfir gjörninginn með þeim varnöglum, sem þar eru. (Áður var reyndar svo að skilja, að appið yrði krafa.)

Við upphaf greinarinnar veltir Jóhannes vöngum yfir þróun bóluefnis.  Hann færir fyrir því rök, að það muni ekki vera væntanlegt á næstunni:

"Þróun bóluefnis fyrir kórónuvírus er vandasamt verkefni.  Slíkt bóluefni hefur aldrei verið þróað fyrir þessa tegund vírusa og óvíst er, hvort það takist frekar en fyrir HIV-vírusinn. Ef það tekst, mun þróunin alltaf taka langan tíma, enda er að mörgu að huga, þegar heilbrigt fólk er "sýkt" með bóluefni.  Bæði þarf að tryggja, að lækningin sé ekki hættulegri en sjúkdómurinn, og verndin, sem bólusetningin veitir, sé nægjanleg, til að áhættan borgi sig.  Óhætt er að segja, að fyrstu væntingar yfirvalda um skjóta úrlausn á kórónufaraldrinum fyrir lok maí [2020] hafi verið óskhyggja.  Nú sjá flestir, að langt er í bóluefni, og gefur framtíðarsýn Lyfjastofnunar Evrópu til kynna, að ár sé í slíkt, ef það þá yfirhöfuð finnst."

 Hafi einhver talið, að vandamál samfara SARS-CoV-2 veirunni á heimsvísu mundu hverfa í maí 2020, er sá hinn sami ekki með báða fæturna á jörðunni.  Þótt veiran hverfi af Íslandi í maí, sem gerðist ekki alveg, þá er hún grasserandi í mörgum löndum, sem við eigum í miklum samskiptum við og verðum að hefja eðlileg samskipti við eigi síðar en 15. júní 2020, ef efnahagurinn á að eiga sér viðreisnar von á næstunni. Nú hefur dómsmálaráðherra tilkynnt, að við munum fylgja Evrópusambandinu (Schengen) að málum, sem ætlar ekki að opna ytri landamæri sín fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí 2020.

Bólusetning kann að vera moðreykur einn, því að áhættulítið bóluefni verður varla komið í almenna dreifingu fyrr en 2022 (og verður líklega rándýrt), og þar sem téð veira er "ólíkindatól", kann hún að hafa breytzt nægilega, þegar þar kemur sögu, til að bóluefni virki ekki sem skyldi.  Vona verður, að breytingarnar verði hvorki í átt til meira smitnæmis né þungbærari sýkinga. Venjulega hafa stökkbreytingar virkað til minni skaðsemi þessara veira, en það flýgur fjöllunum hærra, að þessi sé manngerð.  

Hins vegar hafa verið gerðar rannsóknir á virkni veirulyfs, sem beitt hefur verið gegn malaríu og eyðni með góðum árangri, á COVID-19 sjúkdóminn, og gefa niðurstöður til kynna, að sjúklingunum batni fyrr og dauðsföllum fækki mikið.  Ekki var getið um aukaverkanirnar.  Heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum eru nú að leyfa notkun þessa lyfs gegn COVID-19, og mun því áreiðanlega verða beitt hérlendis og annars staðar í Evrópu, ef önnur bylgja faraldursins ríður hér yfir.  

 

 "Lág dánartíðni er ekki það eina, sem svipar með kórónuveiki og flensu.  Vísbendingar eru þegar komnar fram um, að árstíðasveiflur séu í kórónusmitum líkt og þekkt er fyrir flensu.  Á sama tíma og hægt hefur á smitum á norðurhveli jarðar, hefur orðið stökk í smitum í nokkrum löndum á suðurhveli (Síle, Argentínu og Suður-Afríku) samhliða því, að vetur hefur gengið í garð."

 Rúmlega 1800 manns er vitað til, að smitazt hafi hérlendis.  Það er aðeins um 0,5 % íbúanna.  Slembiúrtak ÍE gaf til kynna innan við 1 % smit, en mælingar á ónæmisefnum í blóði bentu til 1,5 %. Það er trúlegt, að þrefalt fleiri hafi smitazt en skráðum smitfjölda nemur.  Sóttvarnalæknir hefur nefnt, að smitfjöldi gæti numið allt að 5 % þjóðarinnar.  Ef svo er, nemur fjöldi dauðsfalla af völdum COVID-19 sjúkdómsins aðeins 0,05 % smitaðra, sem er sambærilegt við venjulegan flensufaraldur.  Í ljósi þessa virðast viðbrögð yfirvalda vítt og breitt um heiminn hafa verið úr hófi fram.  Annars konar áherzlur verður að leggja við næsta sambærilega faraldur.  Beitt hefur verið aðgerðum, sem viðeigandi væru væntanlega við ebólu. 

Þjóðverjar náðu góðum árangri með viðbrögðum sínum.  Þeir notuðu sýnatökur og greiningar til að beina athyglinni að miklum smitstöðum.  Sláturhús landsins reyndust slíkir staðir.  Ástæðan er sú, að þessi kórónuveira þrífst vel og lifir lengi á köldu yfirborði, og kemur þetta heim og saman við skrif Jóhannesar hér að ofan. Hann reit reyndar fleira athyglisvert um áhrif hitastigs og rakastigs:

"Loftraki er einn stærsti áhrifaþáttur í skaðsemi flensu á veturna.  Kalt vetrarloft verður mjög þurrt, þegar það er hitað upp innandyra.  Í þurru lofti endast vírusar lengur, og smitdropaagnir verða minni, þannig að þær svífa lengur í loftinu og smita því lengur. Einnig er varnarkerfi líkamans gegn smiti mun veikara í þurru lofti, og smit minni dropa berast dýpra í öndunarfærin og virðast hættulegri.  

Hlýtt smuarloft ber margfalt meiri raka en kalt vetrarloft.  Það lokar þannig á smitleiðir og eflir náttúrulegar varnir líkamans.  Einnig hjálpar til, að með hækkandi sól batnar D-vítamínstaða líkamans, sem hefur sýnt sig að gagnast gegn kórónuveikinni.  Þessi liðsauki gerir sumarið að bezta tímanum til að eiga við þessa óværu."

Með þessum upplýsingum er Jóhannes að reisa stoðir undir þá ráðleggingu, að nú sé rétti tíminn til að opna landamærin og leyfa óhefta starfsemi í hverju landi um sinn.  Með þessu má draga úr gríðarlegu efnahagstjóni, sem annars er fyrirsjáanlegt, og verður það þó óhjákvæmilega mjög mikið. Jóhannes hélt áfram: 

"Í ljósi þess gríðarlega skaða, sem öll hindrun á komu erlendra ferðamanna mun hafa á möguleika Íslendinga til að takast á við þá erfiðu tíma, sem fram undan eru, er afar mikilvægt, að gengið sé sem vasklegast fram við að opna landið sem fyrst, [á] meðan sumarið er með okkur í liði.  Þó að einhver viðbótar smit berist hingað með sumum þeirra, eru sterkar líkur á, að slíkt verði ekki til vandræða, því [að] ef það er rétt hjá sóttvarnalækni, að allt að 5 % Íslendinga hafi smitazt fram að þessu, þýðir það, að 90 % allra smita á Íslandi urðu til og hurfu af sjálfu sér, án þess að nokkur tæki eftir.  Ef smit verða mildari með hækkandi sól, mun þetta hlutfall skaðlausra smita hækka enn meira á næstu mánuðum."

Þetta er mikilvæg röksemdafærsla.  Þótt hæpið sé, að um sé að ræða svo víðtæk smit í samfélaginu, sem þarna kemur fram, má hiklaust reikna með, að a.m.k. annar hver smitaður hafi ekki orðið var við smit sitt.  Þegar þar við bætist, að 80 % hinna, sem verða varir við einkenni, veikjast aðeins vægt og það hlutfall er sennilega hærra að sumarlagi, virðist áhættan vera svo lítil, að vert sé að taka hana.

Þar sem dánartíðni hefur verið hæst, hefur mistekizt að vernda viðkvæma hópa.  Það verður þess vegna áfram að gæta ýtrustu varkárni gagnvart þeim.  Þetta á við alla þá, sem eru með veiklað ónæmiskerfi eða lítið mótstöðuþrek gagnvart sjúkdómum almennt.  Þetta á t.d. við um dvalarheimili aldraðra og sjúkrahúsin. 

Síðan heldur Jóhannes því fram, og hér skal undir það taka, að farsælast sé að opna landið strax alveg án allra óþarfa og íþyngjandi takmarkana:

"Þær rándýru prófanir, sem yfirvöld ætla að gera á hverjum ferðamanni, eru vanhugsaðar.  Í fyrsta lagi geta slíkar prófanir aldrei tryggt, að smit berist ekki hingað til lands.  Enn verra er þó, að með því að halda vírussmiti niðri yfir sumartímann, [á] meðan auðvelt er að eiga við sjúkdóminn, er verið að flytja vandann yfir á næsta haust, þegar smithætta vex og smit verða lífshættulegri.  Aukið ónæmi yfir sumarið mun draga úr hættunni, sem skapast næsta haust."

Misvísandi upplýsingar hafa borizt um kostnaðinn við sýnatökur og greiningar vegna COVID-19.  Frá Sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans, Karli G. Kristinssyni, hafa borizt upplýsingar um tækni, sem lækki kostnaðinn niður í kISK 5-6/greiningu, en við kynningu á þessum valkosti við sóttkví var nefnd talan kISK 50/greiningu.  Ætlunin er að láta þennan kostnað falla á ríkissjóð fyrst um sinn, en síðan að taka kISK 15 gjald af hverjum ferðamanni.  Ætla yfirvöld einhverra annarra þjóða að leggja út í þessa miklu fyrirhöfn með takmörkuðum ávinningi ?  Þessar tafir og óþægindi fyrir ferðamenn auk kostnaðarbyrðar virðast ekki vera réttlætanlegar.  

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Algerlega sammála Jóhannesi um þessar skimanir. Þetta er heimskuleg tímaeyðsla. En tilgangurinn er auðvitað fyrst og fremst sá að búa til verkefni fyrir eitthvert lið og friða þá sem lifa í stöðugri panikk.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.6.2020 kl. 13:22

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Þorsteinn, mér finnst þessi aðgerð vera óþörf og muni skila sáralitlu, en valda ferðaþjónustunni búsifjum, og var þó ekki á þau bætandi.  Það er gott að vera varkár, en það er hægt að vera of varkár.  

Bjarni Jónsson, 10.6.2020 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband