Efnileg nýsköpun mætir sums staðar mótlæti

Laxeldi í sjókvíum og úrvinnsla afurðanna í landi er gríðarlega efnileg viðbót við íslenzkt atvinnulíf og verðmætasköpun.  Nú hefur orðið verulegt tekjutap íslenzka hagkerfisins við brottfall erlendra ferðamanna, sem dregur allt í einu upp nýja mynd af þessari grein, ferðaþjónustunni; sem sagt þá, að framtíð hennar er mikilli óvissu undirorpin; hún gæti hæglega átt sér afar skrykkjótta framtíð og aldrei náð hámarkinu fyrir COVID-19. 

Mengunarsjónarmið og sjálfbærniþörf mæla heldur ekki með þessari grein sem stendur.  Það er viss lúxuslifnaður að ferðast, og ferðalög með núverandi tækni eru ósjálfbær.  Út yfir allan þjófabálk tekur, þegar stjórnmálamenn bulla um, að "náttúran verði að njóta vafans", og þess vegna skuli sjókvíaeldi settur stóllinn fyrir dyrnar, t.d. í Eyjafirði, m.a. til að trufla ekki ferðir stórskipa, eins og farþegaskipa.  Þar tekur steininn úr, því að farþegaskip eru einhverjir verstu mengunarvaldar, sem þekkjast, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Ef velja þarf á milli farþegaskipa og sjókvíaeldis í Eyjafirði, er enginn vafi á, hvor kosturinn verður ofan á út frá hagrænum og umhverfislegum sjónarmiðum. 

Á Vestfjörðum hefur fiskeldi í sjó umbylt atvinnuástandi og byggðaþróun til hins betra. Nú er verið að auka úrvinnsluna, og til þess er nýtt nýjasta tækni frá hvítfiskvinnslunni.  Mikil sjálfvirkni kallar á sérfræðinga á staðnum á sviðum hugbúnaðar, rafbúnaðar og vélbúnaðar.  Gæði, framleiðni og aukin verðmætasköpun skjóta stoðum undir styrkari samkeppnisstöðu og veitir ekki af, því að innreið er hafin á verðmætan markað með bullandi samkeppni.

Helgi Bjarnason reit baksviðsgrein í Morgunblaðið 20. maí 2020, sem hann nefndi:

"Aðstaða til að framleiða hágæða afurðir":

"Fiskvinnslan Oddi hefur starfað í um 50 ár.  Skjöldur Pálmason segir, að til þess að stækka fiskvinnsluna á hefðbundinn hátt þurfi að fjárfesta í kvóta fyrir fiskiskipin og í vinnslunni fyrir marga milljarða [ISK]. Hann gefur ekki upp kostnaðinn við að koma upp vinnslu á laxi, en segir hann aðeins brot af kostnaði við að stækka hvítfiskvinnsluna.  Þetta sé því ódýr leið til að stækka og styrkja fyrirtækið.  Laxinn er verðmætari en annar fiskur og er reiknað með, að velta fyrirtækisins tvöfaldist með því að bæta 2,5 kt-3,0 kt af laxi við þau 4,5 kt-5,0 kt af fiski, sem nú fer í gegnum fiskvinnsluna [á ári]."

  Þetta er frábært dæmi um arðbært sambýli hefðbundinnar og rótgróinnar fiskvinnslu annars vegar og laxeldis hins vegar.  Með því að bæta um 60 % við afkastagetuna á ári næst tvöföldun á veltu með aðeins litlum hluta (e.t.v. 25 %) fjárfestingarupphæðar, sem þyrfti að verja í jafnmikla afkastaaukningu í hvítfiski.  Eins og fram kemur hér að neðan, er þar að auki verið að auka verðmæti laxafurðanna frá því, sem áður var, væntanlega um a.m.k. þriðjung.  Þessi nýsköpun er borðleggjandi viðskiptahugmynd.  Það eru furðuviðhorf og afturúrkreistingsleg að hafa allt á hornum sér varðandi atvinnugrein hérlendis, sem býður upp á vaxtarbrodda af þessu tagi.  

"Vegna staðsetningar Fiskvinnslunnar Odda á fiskeldissvæðinu á suðurfjörðum Vestfjarða og nálægðar við stærsta laxasláturhús landsins á fyrirtækið að geta framleitt hágæða flök, sem unnin eru áður en dauðastirðnun laxins hefst.  Afurðir af þeim gæðum eru m.a. eftirsóttar í sushí-rétti um allan heim.

Megnið af íslenzka eldislaxinum er flutt heilt og ferskt í frauðkössum á markaði austan hafs og vestan og einnig til Asíu.  Nokkur fiskvinnslufyrirtæki hafa flakað lax fyrir eldisfyrirtæki eða keypt og flakað á eigin reikning og selt á erlenda markaði.  Fleiri eru að huga að þeim málum. 

Verðmæti laxafurða eykst minna við laxflökun, og kostnaður við hráefnið er hærra hlutfall en við almenna fiskvinnslu.  Þess vegna er mikilvægt, að nýting hráefnisins sé sem bezt og nýttir séu þeir markaðir, sem gefa hæst verð."

Hér er frábært frumkvæði á ferð, þar sem ætlunin er að beita nýjustu tækni til að auka enn verðmæti eldislaxins og skapa um leið fjölbreytileg störf á Vestfjörðum.

"Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur fjárfest í nýjustu og beztu vinnslulínunni, sem nú er völ á hjá Marel, og hefst flökun þar og útflutningur í haust.  Nýting hráefnisins á að verða, eins og bezt verður á kosið.  Vinnslulínan er tölvustýrð og sjálfvirk, allt frá innmötun til hausunar, flökunar, snyrtingar og pökkunar.  Áætlað er, að þörf verði á að bæta við 14-16 starfsmönnum til að vinna úr 2,5 kt - 3,0 kt af laxi á ári."

Það verður góð nýting og nákvæmni búnaðar ásamt hárri framleiðni, sem standa munu undir arðsemi þessara fjárfestinga.  Nýju störfin eru vafalítið ársverk, þ.e. heilsársstörf, með miklu atvinnuöryggi og vel borguð. Framleiðnin, 5,5 störf/kt, er góð. Þetta er ósambærileg atvinnustarfsemi við ferðaþjónustu, sem er gríðarlegri óvissu undirorpin á alla kanta og enda.

Að lokum stóð í þessari frétt: 

"Stjórnendur fyrirtækisins [Odda] og sölumenn eiga mikið verk fyrir höndum. Skjöldur segir, að gríðarlega hörð samkeppni sé á þessum markaði.  Þar eru fyrir á fleti stórar verksmiðjur.  Bindur hann vonir við, að góð nýting og hágæðavara, sem minna framboð er af í heiminum en almennum laxi, skapi fyrirtækinu sérstöðu og hjálpi því að komast inn á markaðinn.  Markaðsstarf er í fullum gangi.  Reiknar Skjöldur með, að hluti af viðskiptavinum fyrirtækisins í hvítfiski kaupi af þeim lax til dreifingar, og vonandi bætist nýir kaupendur við."

 Hér fara saman áræðni frumkvöðulsins, þekking og reynsla af hliðstæðri starfsemi í hvítfiski og skilningur á því, að hagnýting nýjustu innlendrar tækni á þessu sviði sé nægilegt afl til að ryðja nýjum birgi braut inn á bullandi samkeppnismarkað, þar sem meiri gæði vegna hreins umhverfis og minni sýklalyfjagjafar og eiturefnanotkunar (vegna lúsar) geta riðið baggamuninn. 

Þessi viðhorf á Vestfjörðum eru til fyrirmyndar og andstaðan við hjárænuleg viðhorf meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar gagnvart sjókvíaeldi í sjó, sem sami Helgi Bjarnason gerði að umfjöllunarefni tveimur dögum síðar í baksviðsfrétt 22. maí 2020 undir furðufyrirsögninni:

"Bæjarstjórn vill friða fjörðinn".

 Án þess að gefa staðreyndum mikinn gaum hljóp þessi meirihluti upp til handa og fóta og varð að athlægi með yfirlýsingu, sem einkennist af þröngsýni, þekkingarleysi og fordómum í garð sjókvíaeldis á laxi.  Bar hann fyrir sig hinn fáránlega frasa, að náttúran eigi að njóta vafans, en leggur um leið blessun sína yfir komur farþegaskipa til Eyjafjarðar, sem þó eru gríðarlegir mengunarvaldar.  Barninu er þarna kastað út með baðvatninu.  Í stað þess að leita til Hafrannsóknarstofnunar um ráðgjöf, þá er öllu laxeldi, einnig í lokuðum kvíum, einstrengingslega hafnað.  Þar setti yfirvöld Akureyrar, þess góða og snotra bæjar, niður.

Helgi Bjarnason hóf baksviðsfrétt sína þannig:

"Meirihluti fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að leggja til við sjávarútvegsráðherra, að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Meirihlutinn klofnaði við afgreiðslu tillögunnar, því að tveir fulltrúar hans samþykktu tillöguna ásamt öllum fulltrúum minnihlutans, en fjórir fulltrúar úr meirihlutanum sátu hjá og lögðu til mildari leið.

Skoðanir eru skiptar í Eyjafirði um sjókvíaeldi.  T.d. var unnið að því í Fjallabyggð að koma upp aðstöðu til rekstrar fiskeldis frá höfninni í Ólafsfirði.

Nokkurt fiskeldi var í Eyjafirði fyrir nokkrum árum, en því hefur öllu verið hætt.  Tvö fyrirtæki hafa undirbúið stóreldi í sjókvíum og voru komin áleiðis í rannsóknum og matsferli, þegar ferlið var stöðvað með breytingum á fiskeldislögum á síðasta ári." 

Það er fáheyrt, að eitt sveitarfélag skuli ætla að setja öðru stólinn fyrir dyrnar við nýtingu náttúruauðlinda að lögum, þótt það hafi ekki sjálft áhuga á slíkri nýtingu.  Segja má, að með þessari samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar sé hún komin út fyrir sitt verksvið.  Vinnubrögðin eru óvönduð, hvernig sem á þau er litið. 

"Þau áform, sem lengst voru komin, voru borin fram af norska fyrirtækinu AkvaFuture, sem hugðist koma upp lokuðum sjókvíum innarlega í Eyjafirði á grundvelli nýrrar tækni, sem fyrirtækið hefur hannað og notað við eldi í Noregi.  Ætlunin var að framleiða 20 kt/ár.  Telur fyrirtækið, að minni umhverfisáhrif verði af eldi í lokuðum kvíum af þessu tagi."

Það lýsir einstrengingshætti bæjarstjórnar Akureyrar að hafna samstarfi við þetta framúrstefnufyrirtæki og Hafrannsóknarstofnun um þróun á nýrri eldistækni í Eyjafirði, sem veitt gæti allt að 400 manns fasta vinnu allt árið um kring.  Stjórnmálamenn í krossferð eru illa fallnir til leiðsagnar, hvort sem er á Akureyri eða í Reykjavík.

"Umræðan, sem leiddi til bókunar meirihluta bæjarfulltrúa á Akureyri,  kemur til af því, að landeigendur við austurhluta Eyjafjarðar og ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent erindi til sveitarstjórna, þar sem varað er við áhrifum sjókvíaeldis á hagsmuni þeirra.  Einnig kveikti það umræðu, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í lok marz [2020] aðgerðir á sínu málasviði vegna kórónuveirufaraldursins.  Ein af þeim er að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, enda gæti það leitt til mikilla fjárfestinga og fjölgunar starfsfólks."

Á tímum, þegar leita þarf öld aftur í tímann til að finna sambærilegan samdrátt hagkerfisins ásamt metatvinnuleysi sökum hruns ferðaþjónustunnar, er alveg einboðið, að stjórnvöld liðki til fyrir efnilegasta vaxtarsprota hagkerfisins, hætti að standa þar á bremsunum, heldur leysi úr læðingi fjármagn, sem bíður eftir að komast í vinnu á þessu sviði.  Það hefur ekki verið sýnt fram á það með haldbærum rökum, að laxeldið skaði aðra starfsemi í landinu.  Starfsgreinar, sem ekki treysta sér til að keppa við laxeldið, t.d. um mannafla, þurfa að hugsa sinn gang áður en vaðið er fram með útilokunarstefnu í afturhaldsanda. 

Helgi Bjarnason hefur eftirfarandi eftir Gunnari Gíslasyni, oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akureyrar, flutningsmanni umræddrar tillögu:

"Við viljum frekar láta náttúruna njóta vafans og vernda ásýnd fjarðarins en að taka áhættu, sem við vitum ekki, hver er, og fórna þannig meiri hagsmunum fyrir minni."  

Þessi stefnumörkun var sem sagt skot út í loftið, fullkomlega óupplýst ákvörðun.  Hvernig hefði nú verið að afla sér fyrst þekkingar á téðri áhættu með vandaðri áhættugreiningu í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun ?  Ef þessi orð eru ekki algerlega marklaus, hlýtur sami maður að beita sér gegn komu farþegaskipa til Eyjafjarðar, því að þau skemma mjög "ásýnd fjarðarins" og menga ótæpilega, á meðan þau staldra við og sigla inn og út fjörðinn.  Hjá leiðandi stjórnmálamönnum er hægt að gera kröfu um, að það sé "system i galskapet".

Auðvitað er samþykkt af þessu tagi eins og blaut tuska í andlit nágranna, sem vilja þróa sjókvíaeldið.  Í lok téðrar baksviðsfréttar stóð þetta:

"Ólafsfirðingar höfðu vonir um að fá innspýtingu í samfélagið með starfsstöð þar.  Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, telur bókun bæjarstjórnar Akureyrar nokkuð bratta.  Bæjarstjórn Fjallabyggðar hafi viljað horfa til þessarar greinar, eins og annarra, við fjölgun atvinnutækifæra."

Ríkisstjórn, sem horfir nú framan í ríkissjóðshalla upp á mrdISK 500 á tveimur árum og viðskiptajöfnuð í járnum hlýtur að fagna áhuga stjórnenda Fjallabyggðar á nýrri gjaldeyrissköpun og atvinnueflingu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagkerfi margra vestrænna landa byggist nú á þjónustu og samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum veittu Bandaríkin mesta þjónustu árið 2005.

Næstmesta veittu Japan og Þýskaland en þjónusta myndaði þá 78,5% hagkerfis Bandaríkjanna."

En það skilja mörlenskir hægrimenn engan veginn.

Þjónusta
- Vörur

Þorsteinn Briem, 18.6.2020 kl. 10:56

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hagvöxtur til frambúðar veltur á því að landnæði er nýtt betur, tæki og tól eru endurnýjuð til hins betra og vinnuafl nýtist betur, annaðhvort með því að láta fólki í té betri tæki eða með því að auka menntun og þar með virði vinnuframlags hvers einstaklings."

Er meiri hagvöxtur alltaf betri? - Katrín Ólafsdóttir lektor árið 2007

Menntun Íslendinga 11% undir meðaltali OECD

Þorsteinn Briem, 18.6.2020 kl. 11:00

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu. Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.

Langflestir menga því mun meira í sinni heimabyggð en utan hennar
, hvort sem þeir búa hér á Íslandi eða erlendis. cool

Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.

Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum. cool

Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.

Vísindavefurinn:

"Síðan 1958 hefur styrkur koltvíoxíðs í andrúmsloftinu verið mældur á eyjunni Mauna Loa í Kyrrahafi og er mynd af niðurstöðunum aðgengileg á vefnum.

Myndin sýnir vel hina stöðugu aukningu koltvíoxíðsstyrksins."

"Regnskógareyðing er í öðru sæti, á eftir notkun jarðefnaeldsneytis, yfir það sem veldur mestri koltvíildismengun á jörðinni.

Skógareyðing á einum degi losar meira koltvíildi út í andrúmsloftið en tugþúsundir flugvéla sem fljúga milli Bandaríkjanna og Evrópu." cool

Þorsteinn Briem, 18.6.2020 kl. 11:10

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útflutningur á vörum og þjónustu héðan frá Íslandi árið 2009:

1. sæti: Þjónusta 287 milljarðar króna (þar af samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta 197 milljarðar króna),

2. sæti: Iðnaðarvörur
244 milljarðar króna (þar af ál 171 milljarður króna og kísiljárn 17 milljarðar króna),

3. sæti: Sjávarafurðir
209 milljarðar króna,

4. sæti: Landbúnaðarvörur
8 milljarðar króna.

Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var því níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns. cool

Álverin greiða einungis brot af þeim sköttum sem fyrirtæki greiða hér á Íslandi og meðallaun í álverum hér eru lægri en í ferðaþjónustunni.

Mikil meirihluti skatta fyrirtækja og einstaklinga kemur frá höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal þjónustufyrirtækjum og þeim sem þar starfa, enda er þar mikill meirihluti fyrirtækja og einstaklinga.

Til að reisa hér virkjanir tekur Landsvirkjun lán erlendis, þannig að tugmilljarða króna vextir af þeim fara árlega til lánastofnana erlendis sem erlendur gjaldeyrir.

Þar að auki þurfa álfyrirtækin hér, sem eru í eigu erlendra fyrirtækja, að kaupa gríðarlegt magn af súráli í erlendum gjaldeyri til sinnar framleiðslu.

Stóriðjan þarf gríðarmikla raforku og stóriðjufyrirtæki verða einungis á örfáum stöðum á landinu.

Ferðaþjónusta er hins vegar í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Þar að auki eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi einkafyrirtæki, sem mörlenskir hægrimenn tala sífellt um af mikilli lítilsvirðingu, eins og mörg önnur einkafyrirtæki hér, til að mynda alls kyns þjónustufyrirtæki.

Þorsteinn Briem, 18.6.2020 kl. 11:25

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég verð nú að viðurkenna að ég skil mjög vel áhyggjur laxveiðigeirans af þessu sjókvíaeldi. Áhættan gagnvart villta laxinum er umtalsverð, regluverkið veikburða og slysin virðast ansi tíð. Held að Norðmenn séu að herða allt í kringum þetta og stefna á að færa eldið fremur upp á land.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.6.2020 kl. 20:15

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Þorsteinn;

Það þarf mjög mikið að fara úrskeiðis, svo að villtum íslenzkum laxastofnum verði hætta búin af rekstri sjókvíaeldis hér með þeim eldisstofni, sem hér er nýttur.  Það þarf t.d. mjög mikið samfellt strok í áraraðir (10-15 ár), til að hætta verði á varanlegum erfðabreytingum.  Hættan á því er nánaast engin, því að nægilegt svigrúm er þá til að stöðva starfsemina í tæka tíð.  Íslenzku eldisfyrirtækin hafa tekið upp nýjustu norsku kröfurnar til búnaðar og verklags við laxeldið.  Norðmenn hafa uppi áform um stórfellda aukningu laxeldis við Noreg, úr 1,3 Mt/ár í 5,0 Mt/ár, mig minnir fyrir 2040, en ég hef ekki séð, að mikið af þessari aukningu muni fara fram á landi, heldur í risakvíum úti fyrir mynni fjarðanna, þ.e. í "úthafskvíum".  Er það ekki líka áhugaverður valkostur hérlendis ?

Bjarni Jónsson, 19.6.2020 kl. 10:14

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég hef ekki næga þekkingu til að fullyrða um þetta Bjarni. En ég geri ráð fyrir að áhyggjur manna eins og hans Jóns Helga á Laxamýri séu ekki úr lausu lofti gripnar. Jón Helgi er svo sannarlega ekki einhver kommagarmur sem er á móti öllum framförum, heldur gamalgróinn Sjálfstæðismaður og framkvæmdamaður.

Fyrst við erum að tala um atvinnuuppbyggingu og nýsköpun var hins vegar ánægjulegt að sjá frétt um íslenska uppfinningu sem dregur stórlega úr mengun frá álverum. Svona nýsköpun er akkúrat til þess fallin að koma okkur upp úr því fari að hirða bara molana eða það sem aðrir vilja ekki lengur standa í, en fara þess í stað að búa til alvöru virðisauka hérlendis.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.6.2020 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband