Atvinnumissir er dauðans alvara

Með óyggjandi tölfræðilegum hætti hefur verið sýnt fram á samhengi aukningar atvinnuleysis og fjölgunar dauðsfalla að nokkrum tíma liðnum. Afleiðingar atvinnumissis eru því verri þeim mun dýpri, sem efnahagskreppan er.  Núverandi efnahagskreppa er mjög djúp; t.d. minnkaði landsframleiðslan á Íslandi í 2. ársfjórðungi (apríl-júní) 2020 um 9,3 %, og heildarfjöldi vinnustunda dróst saman um 11,3 %.  Nú eru um 20 þús. manns atvinnulausir á Íslandi. 

Í ágúst 2020 jókst atvinnuleysið um 1,6 %, sem þýðir, að þá misstu um 3000 manns vinnuna.  Aðalástæða þessarar aukningar er talin vera sú ákvörðun heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra, með stuðningi ríkisstjórnarinnar, að setja á tvöfalda skimun komufarþega til landsins með 5 daga sóttkví á milli.  Þetta hefur fækkað farþegum til landsins niður í um 1300 á sólarhring eða um 70 %. Fyrirkomulagið er gjörsamlega misheppnað, því að það hefur valdið ferðaþjónustunni og þar með hagkerfinu stórtjóni og sóttkvíin er hriplek, þannig að fyrirkomulagið skapar falskt öryggi. Yfirvöld hafa fallið í gryfju ofstjórnunar, sem þau ráða ekki við. Ávinningurinn er, að tæplega 20 % sýktra komufarþega fara í einangrun, en hefðu ella haldið ferð sinni áfram.  Sóttvarnarlæknir Svíþjóðar skimar ekkert á landamærum Svíþjóðar og segir, að sýktir ferðamenn skipti litlu máli í heildarsamhenginu.  Þetta má rökstyðja með minni smithættu af ferðamönnum til landsins en íbúunum sjálfum.  Talsverður hluti komufarþega til Íslands er hins vegar búsettur hér, og þess vegna er rétt að viðhafa hér einfalda skimun á landamærum.

Það eru að jafnaði 0,7 farþegar á sólarhring, sem hafa greinzt jákvæðir í seinni skimun, en neikvæðir í hinni fyrri.  Um það snerust hinar gríðarlega íþyngjandi aðgerðir f.o.m. 19.08.2020 að fanga um 20 % af sýktum ferðamönnum, sem annars slyppu inn í landið.  Í ágúst 2020 fækkaði þannig smitum í landinu um 9-20 eftir því, hvernig smithætta frá ferðafólki er metin. Þann 31. ágúst 2020 voru COVID-19 sjúklingar í landinu 100 talsins, sem opinberlega var vitað um.  Enginn þeirra var á sjúkrahúsi, og þótt sjúklingarnir hefðu verið 120 talsins í lok ágúst, er ekkert, sem bendir til, að heilbrigðiskerfið hefði verið að sligast eða að dauðsföllum myndi fjölga.  Tæplega mánuði síðar hafði sjúklingafjöldinn 4-5 faldazt; var kominn upp í 455, þrátt fyrir tvöfalda skimun og sóttkví. 2. október 2020 var sjúklingafjöldinn kominn upp í 650, sem sýnir, að yfirvöld hafa engin tök á faraldrinum.  Lítils háttar fjölgun smita frá ferðamönnum breytir sáralitlu, en 70 % fækkun ferðamanna veldur miklu tjóni.

Það er aðallega hegðun landsmanna sjálfra, sem ræður þróun faraldursins.  "Smitbylgjur" munu óhjákvæmilega rísa og hníga, á meðan hjarðónæmi hefur ekki náðst í þjóðfélaginu.  Í "bylgju" fjölgar smituðum talsvert án mikils samfélagslegs kostnaðar annars en þess, sem af sóttkvínni stafar, þ.e. lengst af hafa COVID-19-sjúklingar á sjúkrahúsi verið 2 eða færri og enginn í gjörgæzlu.  Við slíkar aðstæður er ekki verjandi að vera með mjög íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir. Þótt sjúklingafjöldinn hafi farið í 650 (02.10.2020), 13 á sjúkrahúsi og 3 í gjörgæzlu, eru röng viðbrögð að grípa til strangra almennra aðgerða um allt land.  Það á að ráðast staðbundið til atlögu samkvæmt niðurstöðum smitrakninga.  Það er ekkert vit í að loka heilsuræktarstöðvum, stórum og smáum, um allt land.  Það á aðeins að loka, þar sem hættan er mest samkvæmt gögnum smitrakningarteymisins.  Þannig vinna þeir, sem beztum árangri hafa náð, t.d. Þjóðverjar.  Aðfarir heilbrigðisyfirvalda og ríkisstjórnar hér eru klunnalegar, fálmkenndar og allt of dýrar m.v. ávinning. Þær varða þess vegna broti á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Þetta er alvarlegt mál vegna efnahags landsins og fjárhagslegrar velferðar og sálarheilla fjölda manna.  Virtir lögmenn hafa opinberlega látið í ljós, að þeir telji einnig um Stjórnarskrárbrot að ræða. 

Alvarlega sögu um þungbæra sjúkdóma þarf að segja nú af þessum 3000, sem misstu atvinnuna 1. september 2020, flestir af völdum afleiðinga sóttvarnarfyrirmæla yfirvalda.  Samkvæmt niðurstöðum vandaðra tölfræðilegra greininga á heimasíðu hins bandaríska "E.D. Hovee & Co. - Economic and development services", 09.05.2020, má búast við 88 viðbótar dauðsföllum á næstu 3 árum af völdum þessara uppsagna m.v. það, sem annars hefði mátt búast við. Það er um 1,3 % aukning dauðsfalla og miklu meira en búast má við í heild af völdum COVID-19 faraldursins, enda fækkaði dauðsföllum á Íslandi í 1. bylgju Kófsins. Það var sem sagt verið að fórna miklu meiri hagsmunum fyrir minni með þessari misráðnu stjórnvaldsaðgerð 19.08.2020. Hún var sett á í nafni heilsuverndar og til að bjarga mannslífum, en hún virkar algerlega öfugt.  Hún rænir fjölda manns lífsviðurværi, sjálfsvirðingu og heilsu, og tugir manns munu falla í valinn fyrir aldur fram, en fækkun COVID-19 dauðsfalla verður varla merkjanleg af völdum mistakanna. Þessi dauðsföll af völdum atvinnumissis eru t.d. af vegna  hjartaáfalls og heilablóðfalls.  Andlegt álag eykst mjög á þá, sem vinnu sína missa, sérstaklega í kreppu, þegar mjög erfitt, nánast ómögulegt, er að fá nýtt starf.  Það tekur sinn toll. Þetta verða yfirvöld að taka með í reikninginn, en virðast skella skollaeyrum við hérlendis.  

Evrópusambandið (ESB) hefur einnig fjármagnað rannsóknir á þessu sviði og gefið út viðamikla skýrslu.  Meginniðurstaðan þar voru líka óyggjandi tengsl á milli aukins atvinnuleysis og fjölgunar dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma og heilablóðfalls.  Sterkust voru áhrifin að 2 árum liðnum frá atvinnumissi. Það er reginmisskilningur, að félagslega öryggisnetið, atvinnuleysisbætur o.þ.h. á Íslandi komi í veg fyrir eða deyfi hinar grafalvarlegu afleiðingar atvinnuleysis á Íslandi umfram það, sem annars staðar á Vesturlöndum tíðkast.  Niðurstöður Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins, sem lýst er hér að ofan sem staðreynd fyrir Bandaríkin og ESB-löndin, geta þess vegna einnig átt við á Íslandi.  Þess vegna ber Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu siðferðisleg skylda til að sameinast um aðgerðir, sem draga mest úr atvinnuleysi, og ríkisvaldið ætti að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með sem minnst íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum fyrir athafnalífið, á meðan fjöldi COVID-19-sjúklinga er innan viðráðanlegra marka.   

Það eru fleiri áhrifamiklir aðilar í þjóðfélaginu en ríkisvaldið, sem hundsa gjörsamlega alvarlegar, heilsufarslegar afleiðingar af auknu atvinnuleysi.  Átakanlegt er að horfa upp á Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fórna atvinnu fjölda fólks fyrir innistæðulausar, umsamdar launahækkanir á næsta ári.  Að neita að ræða mótvægisaðgerðir af ýmsum toga, sem dregið gætu úr aukningu atvinnuleysis og bjargað fyrirtækjum, við Samtök atvinnulífsins (SA) er ábyrgðarlaus og óskiljanleg hegðun verkalýðsforystunnar, sem mun draga langan dilk á eftir sér. Í forystugrein Morgunblaðsins 25. september 2020,

"Deilt um forsendubrest",

stóð þetta m.a.:

"SA bendir á, að við gerð kjarasamninganna hafi verið gert ráð fyrir 10,2 % samfelldum hagvexti á árunum 2019-2022, en nú sé útlit fyrir, að hann verði 0,8 %.  Á alla hefðbundna mælikvarða hlýtur þetta að teljast forsendubrestur, þó að það hafi e.t.v. ekki verið skrifað inn í samningana.  En ástæða þess, að sú alvarlega efnahagskreppa, sem nú ríður yfir, var ekki skrifuð beint inn í kjarasamninginn, er vitaskuld sú, að hana sá enginn fyrir.  Það gat enginn gert ráð fyrir því, að veirufaraldur yrði til þess að varpa allri heimsbyggðinni í djúpstæða efnahagskreppu, sem mundi kosta tugi þúsunda starfa hér á landi."

Þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd, að feiknarsamdráttur er í hagkerfinu núna og hverfandi litlum hagvexti sé spáð á 4 ára skeiði 2019-2022, þá dettur verkalýðsforingjum, sem semja um stóra heildarsamninga án tillits til mismunandi afkomu fyrirtækja, í hug að bera það á borð fyrir alþjóð, að afkoma fyrirtækjanna sé misjöfn og gefa í skyn, að sum þeirra geti staðið undir meiri launahækkunum.  Skilja þau ekki, að slík fyrirtæki eru vandfundin og vega mjög lítið á móti öllum hinum. Það er enn kreppa í álheimum, og sjávarútvegurinn glímir við eftirspurnarleysi af völdum COVID-19. Allir markaðir, sem máli skipta, eru í lamasessi. Rökleysa verkalýðsforingjanna er ámáttleg. Það er ekki boðið upp á annað en gamlar lummur um sífelld stéttaátök vegna arðráns auðstéttarinnar á vinnandi fólki. Tölur segja annað.  Hlutdeild launþega í verðmætasköpun þjóðfélagsins er sú mesta, sem um getur í heiminum, og er meiri en eðlilegt getur talizt m.t.t. áhættu fyrirtækjaeigenda, fjármagnskostnaðar og svigrúms til fjárfestinga til framleiðsluaukningar, framleiðniaukningar og til að bæta aðbúnað starfsmanna. Verkalýðsfélögin eru að valda umbjóðendum sínum hræðilegu tjóni og þeim, sem vinnunni tapa af þeirra völdum, heilsutjóni, sem leitt getur til fjörtjóns, samkvæmt óyggjandi rannsóknum.

Að lokum stóð í þessari forystugrein:

"Samtök atvinnulífsins hafa bent á fleiri en eina leið til að breyta kjarasamningunum og mæta þannig því áfalli, sem atvinnulífið hefur orðið fyrir með það að leiðarljósi að bjarga sem flestum fyrirtækjum og þar með störfum.  Ábyrg verkalýðshreyfing væri reiðubúin til að ræða leiðir til að ná slíkum markmiðum.  

Fyrir allan almenning, ekki sízt launamenn, er verulegt áhyggjuefni, að forystumenn í verkalýðshreyfingunni hér á landi kjósi þess í stað fleiri gjaldþrot og aukið atvinnuleysi."

Téðir forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa varpað ljósi á óhæfni sína við að greina hismið frá kjarnanum, við að veita umbjóðendum sínum raunverulega forystu á erfiðum tímum, og þeir (þau) hafa brugðizt því grundvallarhlutverki aðila vinnumarkaðarins að leggja lóð sitt á vogarskálar eins mikillar atvinnuþátttöku og kostur er hverju sinni.  Þeir hafa orðið leiksoppar múgsefjunar í eigin röðum, sem hefur boðið þeim það þægilega hlutskipti að stinga allir hausnum í sandinn í einu.  Þeir bregðast verkalýðshreyfingunni, eins og ráðlausir og dáðlausir herforingjar hafa brugðizt herjum sínum á ögurstundu.  Eftirmæli þeirra verða samkvæmt því. 

Enn hvassari gagnrýni á Alþýðusambandið birtist í forystugrein Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu 25.09.2020 undir fyrirsögninni:

 "Á villigötum".

"Efnahagsstefna verkalýðshreyfingarinnar er á villigötum og grundvallast á rangri greiningu á vandanum.  Við glímum ekki við hefðbundna eftirspurnarkreppu, heldur hefur orðið framboðsskellur vegna sóttvarnaaðgerðanna, og verðmætasköpun í hagkerfinu hefur af þeim sökum dregizt stórkostlega saman.  Með lækkun vaxta og auknum ríkisútgjöldum hefur höggið verið mildað með því að reyna að halda uppi eftirspurn og lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, en stærsta áskorunin - ætli okkur að takast að búa til störf og minnka atvinnuleysi - er að draga úr óvissu og fá atvinnulífið til að fjárfesta á ný.  Það mun ekki gerast með því að knýja fram launahækkanir með fjármunum, sem fyrirtækin eiga ekki til, með þeim afleiðingum, að atvinnuleysi mun aukast enn og verðbólgan hækka.  Þeim efnahagslögmálum hefur ekki verið kippt úr sambandi.  

Skilningsleysi verkalýðshreyfingarinnar á stöðunni er átakanlegt.  Hún hefur verið yfirtekin af fólki, sem er heltekið af úreltri og hættulegri hugmyndafræði um viðvarandi stéttaátök.  Sé það gagnrýnt, hefur það fátt annað fram að færa en skítkast og gífuryrði í garð fólks, sem er því ósammála um, hvaða leiðir sé skynsamlegt að fara til að bæta lífskjör í landinu.  

Seðlabankastjóri, sem hefur staðið sig vel á erfiðum tímum, er þannig uppnefndur "einn af hrun-prinsunum" fyrir það eitt að hafa starfað í greiningardeild í banka, og varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem hefur stýrt fjölskyldufyrirtæki farsællega til margra ára og farið fyrir Samtökum iðnaðarins, er sagt að snúa sér að því, sem hún geri bezt, að framleiða ís - þegar hún leyfir sér að hafa skoðanir á hagsmunum sjóðfélaga.  Framganga þessara formanna stærstu stéttarfélaga landsins - VR og Eflingar - er þeim til skammar.  Þeim stendur hins vegar örugglega á sama." 

Undir þessa hörðu gagnrýni skal eindregið taka.  Þessir verkalýðsformenn haga sér eins og naut í flagi, kunna sig engan veginn, og þau eru ófær um að veita nokkra vitræna leiðsögn.  Upp úr þeim vellur vitleysan, og það er stórfurðulegt, að fólk svo lítilla sanda og lítilla sæva skuli hafa hlotið kosningu sem formenn fjölmennra verkalýðsfélaga.  Verkalýðshreyfingin er í tröllahöndum fyrir vikið, og hún mun leiða okkur til þess öngþveitis, sem er kjörlendi slíks fólks, ef hún verður látin komast upp með það.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nýjasta mat WHO er að 760 milljón manns hafi nú þegar smitast af veirunni, eða um 10% jarðarbúa. Ein milljón hefur látist. Sé þetta rétt er dánarhlutfall 0,13%.

Samkvæmt samantekt faraldursfræðingsins John Ionnadis, sem kom út um miðjan júlí, og byggði á 36 mótefnarannsóknum víða um heim, var dánarhlutfall að miðgildi 0,27%.

Við hljótum að reikna með að það hafi tekið Ionnadis einhvern tíma að skrifa grein sína, og rannsóknirnar sem hann byggir á hafi verið gerðar fyrir 1. júlí. Þann 1. júlí höfðu 11 milljón manns greins með veiruna. Nú hafa um 35 milljón manns greinst með hana. Ef dánarhlutfallið frá upphafi til 1. júlí var 0,27%, hvert er þá hlutfallið á tímabilinu sem liðið er síðan þá og hverju megum við búast við í framhaldinu?

Þann fyrsta júlí hafði um hálf milljón látist af veirunni. Miðað við hið nýja mat WHO mætti áætla að 238 milljónir hafi þá þegar smitast. Síðan þá hefur þá 521 milljón smitast og hálf milljón látist til viðbótar.

Þetta segir okkur að dánarhlutfallið á síðari hluta tímabilsins sé aðeins ríflega 0,09%. Haldi fram sem horfir, og ef reiknað er með að hjarðónæmi náist þegar um 60% heimsbyggðarinnar hafa smitast þá megum við búast við að um 3,5 milljónir til viðbótar látist úr pestinni ef ekki kemur bóluefni áður en hún er gengin yfir. Árlega deyja um 60 milljón manns í heiminum svo viðbótin er í rauninni fremur óveruleg í stóra samhenginu.

Stóra spurningin er hins vegar sú hversu margir látast vegna afleiðinga aðgerðanna. Það ræðst fyrst og fremst af því hversu lengi er ákveðið að reyna að treina faraldurinn. En það er enginn vafi á því að dauðsföll vegna aðgerðanna verða margfalt fleiri en dauðsföll vegna veirunnar.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.10.2020 kl. 15:43

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hér er hlekkur á frétt Independent: https://www.independent.co.uk/news/world/coronavirus-cases-world-10-cent-deaths-covid-latest-who-b806299.html

Þorsteinn Siglaugsson, 5.10.2020 kl. 15:46

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta eru mjög athyglisverðar athuganir og útreikningar, sem þú varpar hér fram, Þorsteinn.  Meginályktunin er, að stjórnvöld víða kasta barninu út með baðvatninu.  Efnahagsafleiðingar, heilsufarsafleiðingar og dánarlíkur þróast í skelfilega átt, miklu skelfilegri en veiran gefur tilefni til.  Í Lancet hafa birzt upplýsingar um, að fyrir hvert 1 % aukið atvinnuleysi fjölgi sjálfsvígum um 0,79 % - 0,99 %.  Fyrstu tölur benda til, að aðgerðir stjórnvalda hafi fjölgað sjálfsvígum um 15 % - 45 % (hæst í Suður-Kóreu).  Stjórnvöld hérlendis eru bæði blind og heyrnarlaus.  Þau tóku kolrangan pól í hæðina með "lokun" landamæranna.  Svandís og Katrín héldu, að með "lokun" landamæranna yrði hægt að slaka mjög á öllum hömlum innanlands.  Þær gerðu það 7. september 2020, og viku seinna hófst "Bylgja 3".  Þær skilja ekki, að það er "smitstuðullinn" innanlands, sem öllu máli skiptir.

Bjarni Jónsson, 6.10.2020 kl. 10:57

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þar sem smitin telja og skelfa fólk af mismunandi ástæðum er líka með í dæminu að efast þegar maður sér hversu hatrammlega Donald Trump er dreginn í "geimið". Eg datt inn i frásögn konu að nýjasta útspili (eins og hún kallar það )heilbrigðisyfirvalda væri byggt á röngum forsendum; Það er að cpr test sem þeir nota var aldrei ætlað sem mælieining að úrskurða hvort manneskja sé smituð eða ekki og þess vegna ekki marktækt.

Helga Kristjánsdóttir, 6.10.2020 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband