C-19 breytir nútímasamfélaginu

Enginn veit, hvenær við öðlumst hjarðónæmi gagnvart SARS-CoV-2 veirunni frá Wuhan í Kína.  Það er undir hælinn lagt, hvenær nægt framboð á viðráðanlegu verði verður á öruggu og skilvirku bóluefni, sem veitir varanlegt ónæmi.  Viðbrögðin við veirunni hafa valdið heimskreppu, sem sér ekki fyrir endann á á Vesturlöndum.  Eina stóra hagkerfið, sem virðist ætla að ná V-lögun hagvaxtar, er hið kínverska.  Þar er spáð dágóðum hagvexti 2020. 

Kenningin um "svörtu svanina" er um það, að ófyrirséðir og afdrifaríkir atburðir breyti samfélaginu varanlega.  Þannig gæti löngum ferðalögum og vöruflutningum fækkað varanlega.  Almenningssamgöngur munu líða fyrir það vegna smithættu og fjarvinna að heiman aukast að sama skapi.  Mikið fall hefur t.d. orðið í farþegafjölda Strætó, verður ekki til að auka áhuga á Borgarlínunni.  Líklegt er, að aukin áherzla verði á að skapa vinnu í hverju landi fyrir sig og að efla framleiðsluiðnað og matvælaframleiðslu. 

 

Líkanasmiðir höfðu gert gert ráð fyrir heimsfaraldri vegna nýs öndunarsjúkdóms með uppruna í Asíu á borð við Spænsku veikina, sem reyndar hófst í Bandaríkjunum.  Líkön spáðu 71 M dauðsfalla í heiminum og 5 % samdrætti landsframleiðslu á heimsvísu.  

Hvaða áhrif hefur C-19 á þróunina ?  Vöruflutningar og fólksflutningar gætu minnkað, af því að aukin áherzla verður á heimaframleiðslu, og fjarvinna og fjarfundir ásamt aukinni meðvitund um heilsuvernd draga úr umferð á landi og í lofti. Þessa sér þegar stað t.d. hjá íslenzkum grænmetisbændum, sem hafa orðið varir við talsverða aukningu eftirspurnar.  Mörg teikn eru á lofti um blómlega framtíð íslenzks landbúnaðar yfirleitt, enda er leitun að sambærilegum vörugæðum og jafnlitlu kolefnisspori. Íslenzkur fjölskyldulandbúnaður er náttúrulegri en verksmiðjulandbúnaðurinn, sem gerir út á styrkjakerfi Evrópusambandsins og er knúinn áfram af mikilli áburðargjöf, skordýraeitri og sýklalyfjum.  

Þótt flytja þurfi yfir 95 % íslenzks sjávarafla á erlenda markaði mislangan veg, eru íslenzkar sjávarafurðir samt mjög samkeppnishæfar, hvað gæði og kolefnisspor tilbúinnar neytendavöru varðar.  Það er vegna tæknivæðingar í fremstu röð og metorkunýtni íslenzks sjávarútvegs og kolefnisfrírrar raforku við vinnslu í landi.  Ef vel tekst til í samningum EFTA og ESB um tollamál, þegar Bretland gengur úr tollabandalagi Evrópu um áramótin 2020/2021, er engum blöðum um það að fletta, að íslenzks sjávarútvegs bíður vaxandi markaður, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, ef fiskflutningar um langan veg frá Kína minnka. Þetta er auðvitað háð því, að fiskgengd á Íslandsmiðum dragist ekki saman af völdum umhverfisbreytinga í hafinu, en slíkt er nú vaxandi óvissuþáttur fyrir íslenzka hagkerfið. 

Stórmerkilegt viðtal birtist í Morgunblaðinu 24. október 2020 við Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóra Íslensks sjávarfangs í Kópavogi, sem vissulega ætti að geta leitt íslenzkum ráðamönnum fyrir sjónir, að þeir geta liðkað til fyrir stórfelldri atvinnusköpun og verðmætasköpun með því að jafna samkeppnisstöðu íslenzkrar fiskvinnslu við evrópskar, en þar hallar nú mjög á, m.a. vegna markaðsskekkingar Evrópusambandsins, sem þó er með frjálsa samkeppni á vörunum:

"Rúnari hugnast ekki sú þróun, sem orðið hefur í útflutningi á óunnum fiski, og er nú svo komið, að fiskvinnslur, sem reiða sig á að geta keypt hráefni á markaði, eru margar í erfiðri stöðu. 

"Þetta hefur höggvið skarð í þennan hóp fyrirtækja, sem mörg hver hafa verið starfandi um langt skeið, rutt brautina í útflutningi ferskra afurða og veitt fjölda manns atvinnu. Hvert á fætur öðru hafa þessi fyrirtæki lagt upp laupana og dýrmæt störf horfið með þeim." 

Reiknast Rúnari til, að í kringum 60 kt af bolfiski hafi verið flutt óverkuð úr landi á síðasta fiskveiðiári.

"Fyrir það magn gætu fiskvinnslurnar skapað þúsundir starfa með afleiddum störfum.  Eitt er svo að missa þessi störf, og annað, að með hverju fyrirtækinu, sem hættir rekstri, tapast markaðir fyrir íslenzkan fisk, því [að] erlendar vinnslur selja fiskinn sem íslenzkan og skaða stundum gæðaímynd íslenzka fisksins."

Bendir Rúnar á, að íslenzkir fiskverkendur sitji ekki við sama borð og kollegar þeirra í Evrópu og því ekki hægt að segja, að þróunin sé afleiðing eðlilegrar hagræðingar á frjálsum markaði.  Fiskurinn er t.d. ekki allur að fara til láglaunasvæða í Austur-Evrópu, og endar töluvert magn í Hollandi, þar sem Evrópusambandið greiðir keppinautum okkar háa stofnstyrki. Er eðlilegt að spyrja, hvort íslenzk stjórnvöld eigi ekki að grípa til aðgerða til að hamla þessum útflutningi, ef hann er afleiðing inngripa af hálfu Evrópusambandsins, sem skekkja eðlilega samkeppni." 

Nú eru uppi breyttar aðstæður á íslenzka vinnumarkaðinum, þar sem yfir 20 þúsund manns ganga nú atvinnulaus.  Að fá fólk til starfa ætti þess vegna ekki að vera vandamál, og ISK hefur gefið eftir út af m.a. litlum jákvæðum viðskiptajöfnuði og slæmum horfum.  Ríkissjóður gæti sparað sér greiðslur atvinnuleysisbóta með því að hleypa á ný lífi í fiskvinnslufyrirtækin og tryggja, að þau geti keppt um nægan fisk á markaði.

"Mikið af þeim fiski, sem seldur er óverkaður úr landi, fer framhjá markaði, og hafa innlendu vinnslurnar því ekki tækifæri til að kaupa hráefnið.  Raunar er hætt við, að ef þessi þróun fær að halda áfram, þá muni verð á fiskmörkuðum fara lækkandi, enda fækkar kaupendum, þegar fiskvinnslur þurfa að hætta rekstri, því [að] þær geta ekki tryggt sér nægt hráefni.  Þetta gerir markaðinn einsleitari, svo [að] hallar á seljendur og viðbúið, að fiskverð leiti niður á við."

 

 Við þær tvísýnu aðstæður í hafinu, sem uppi eru, er algerlega einboðið fyrir okkur að stórauka fiskeldi og feta þar með í fótspor "nágranna" okkar í Noregi, í Færeyjum og á Skotlandi.  Þótt hafið hér við land sé svalara en þarna (nema við Norður-Noreg) og vaxtarhraðinn þar með minni, býður Ísland samt að ýmsu leyti upp á hagstæð skilyrði fyrir fiskeldi.  Svalari sjór þýðir að öðru jöfnu, að minna verður um fisksjúkdóma og óværu, hafið er tiltölulega hreint og sjóskipti næg til náttúrulegrar hreinsunar yfirleitt. Raforkan er úr endurnýjanlegum orkulindum, afhendingaröryggi hennar batnandi, víða er jarðhiti, en verð orkunnar þarf að vera hagstæðara fyrir neytendur. Fiskeldisframleiðslan 2019 nam um 30 kt, en áhættumat fiskeldisleyfa nemur nú um 100 kt. Þessi vænta aukning fiskeldis jafngildir rúmlega 1000 nýjum störfum og um 70 mrdISK/ár í gjaldeyristekjur.  Tekjur hins opinbera á Íslandi af hverju t eldisfisks eru mun meiri en í Noregi, eins og fram kom í fróðlegri grein Einars K. Guðfinnssonar í Morgunblaðinu 26.10.2020.  

Ísland á að geta séð fiskeldinu fyrir megninu af fóðrinu, sem það notar, bæði kornræktendur, repjuræktendur, fiskvinnslur og kjötvinnslur. Við 100 kt/ár eldisfiskframleiðslu er líklegt, að hagkvæmni innlendrar fóðurframleiðslu verði næg, og minnkar þá kolefnissporið enn.

Burðarþol íslenzkra fjarða til fiskeldis er líklega um 200 kt/ár, og með nýjustu tækni og mótvægisaðgerðum á að vera unnt að ná því marki innan 15 ára.  Með landeldi og úthafseldi, sem Norðmenn feta sig nú áfram með í risakvíum, á að vera unnt að framleiða um 500 kt/ár af eldisfiski eftir 25 ár.  Hugsanlega mun þetta gefa hreinar gjaldeyristekjur upp á 500 mrdISK/ár, sem er svipað og brúttótekjur ferðamannageirans náðu hæst.

 Framtíð ferðamannageirans er í uppnámi, bæði vegna óhóflegra sóttvarnaaðgerða íslenzkra yfirvalda, en einnig vegna mjög mikilla farartálma inn á Schengen-svæðið. Uppnáminu hérlendis af þessum sökum lýkur ekki fyrr en hjarðónæmi næst, annaðhvort með eðlilegum hætti eða bólusetningu.  Ekkert er fast í hendi með bóluefni, hvað sem fagurgala líður.  Ferðageirinn mun hægt og sígandi jafna sig, og langan tíma tekur að ná sömu hæðum á ný.

Þann 2. október 2020 birtist stutt, en athyglisvert viðtal við Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við HÍ: 

""Við þessar aðstæður væri rétt að stofna fjárfestingarsjóð til að fjárfesta í vænlegum ferðafyrirtækjum.  Og, ef það er rétt, sem allir virðast halda, að það sé framtíð í ferðaþjónustu á Íslandi, þá ætti svona sjóður að geta skilað hagnaði.  Það þarf hins vegar að fjármagna hann. Sú leið hefur þann kost, að í stað þess, að stjórnmálamenn séu að taka ákvarðanir um ríkisaðstoð meira og minna á hlaupum og af mikilli vanþekkingu, myndu sérfræðingar í fjárfestingum úthluta þessum fjármunum.  Þetta yrði ekki ólíkt Framtakssjóði Íslands  á sínum tíma", segir Ragnar."

Þessi "Ragnarssjóður" ætti einnig að fá leyfi til að reisa fiskvinnslufyrirtæki við, sem Kófið hefur farið illa með.  Þegar tekjur fyrirtækja dragst saman um meira en 80 % m.v. árið á undan, þá er afkomugrundvellinum kippt undan flestum fyrirtækjanna, og þau tóra ekki án opinberrar aðstoðar.  Nú þegar er ríkissjóður orðinn skuldum vafinn, og skuldaklafinn verður mjög íþyngjandi, þegar vextir hækka aftur.  Vextir og afborganir munu þá sníða ríkisstjórnum framtíðarinnar þröngan stakk, og þær munu rýra kaupmátt almennings með skattahækkunum.  Þess vegna er hugmynd Ragnars um sjóðsstofnun, sem kæmi í stað ríkisstuðnings við í sumum tilvikum dauðvona fyrirtæki, góðra gjalda verð. Þörf fyrir slíkan ríkisstuðning minnkar dálítið, ef stjórnvöld láta eina skimun duga fyrir komufarþega aðra en íbúa hérlendis. Vonandi tekst að fjármagna Kófssjóð og stofna hann .

"Ragnar gagnrýnir, að ekki skuli sýnt meira aðhald í ríkisrekstrinum.  "Við þessar aðstæður hefði kannski verið ástæða til að draga úr umsvifum ríkissjóðs.  Það er að mæta þessari kreppu með niðurskurði á útgjöldum, sem eru ekki beinlínis notuð til að hjálpa íslenzkum þegnum.  Þá t.d. skuldbindingar erlendis, og skuldbindingar gagnvart útlendingum, sem koma til landsins.  

Skera niður fituna, en forðast þó að skera niður laun til starfsmanna á þessum atvinnuleysistímum.  Það er ekki skynsamlegt að reka fólk, sem fer svo á atvinnuleysisbætur.  

Útgjöld ríkissjóðs í ár hafa mörg verið illa hugsuð, illa undirbúin og ekki nýtzt vel.  Það er gripið til þeirra í örvæntingu, tel ég vera", segir Ragnar um aðgerðapakkana."

Þessi gagnrýni á útgjöld ríkissjóðs á þessu ári á fullan rétt á sér, vegna þess að það stefnir í algert óefni með rekstur ríkissjóðs, þegar útgjaldafylliríi Kófsins lýkur.  Það er ekki nóg að segja, að hagvöxtur og auknar tekjur muni bjarga málinu.  Sá vöxtur er engan veginn í hendi. Áhyggjur markaðarins um fjármögnun hallans eru þegar komnar fram sem hækkun á langtímaávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa.

Hald manna er, að í Evrópu verði kreppan langvarandi, en eitthvað skammvinnari í Bandaríkjunum.  Landsvirkjun hefur enn ekki verið beitt af krafti til að koma hjólum iðnaðarins í gang. Bráðabirgða Kófslækkun á rafmagni fyrirtækisins náði t.d. aldrei til ISAL.  Neikvæð afstaða fyrirtækisins til endurnýjunar orkusamninga við ISAL, Norðurál og Elkem Ísland sýnir svart á hvítu, að þar á bæ þekkja menn ekki sinn vitjunartíma, enda hafa nú bæði álfyrirtækin kvartað undan markaðsmismunun Landsvirkjunar við Samkeppnisstofnun.  

Ekki er hljóðið betra gagnvart Landsvirkjun á sviði kísiliðnaðar, svo að ekki sé nú minnzt á bændur eða fiskimjölsverksmiðjurnar.  Alls staðar er kvartað undan framkomu Landsvirkjunar á markaðinum.  Núverandi forstjóri hennar veður um eins og fíll í postulínsbúð. Þingmenn verða að veita stjórn fyrirtækisins aðhald, og þeir verða að fá fyrirtækinu leiðsögn um hlutverk þess gagnvart atvinnulífinu.  Núverandi forstjóri þess er á villigötum.

Þann 28. september 2020 birtist athyglisvert viðtal í Morgunblaðinu við nýjan forstjóra Elkem Ísland, Álfheiði Ágústsdóttur, en Elkem á og rekur járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.

Viðtalið hófst þannig:

""Fjölbreytileiki í verðmætasköpun er afar mikilvægur.  Sú staðreynd finnst mér hafa komið vel í ljós á þessu ári, þegar aðstæður hafa gjörbreytzt, og ferðaþjónustan - sú atvinnugrein, sem hvað mestu skilaði á efnahagsreikning samfélagsins - er nánast dottin út", segir Álfheiður Ágústsdóttir, nýr forstjóri Elkem Ísland á Grundartanga. 

"Okkur hjá Elkem er metnaðarmál að starfa í góðri sátt við samfélagið og taka þátt í sameiginlegum verkefnum heimsins á sviði umhverfismála.  Nýting vistvænna orkugjafa, t.d. í framleiðslu á íblöndunarefni fyrir vel leiðandi rafmagnsstál, er e.t.v. stærsta framlag Íslands til alþjóðlegra loftslagsverkefna.  Við teljum okkur leggja mikið af mörkum."

Fjölbreytileiki fæst einmitt með stóriðjunni.  Það vita þeir, sem til þekkja, en til eru þeir, sem gaspra annað af vanþekkingu og molbúahætti.  Stóriðjan þarf á margs konar sérþekkingu að halda, og hún hefur fóstrað sprotafyrirtæki á sviði hugbúnaðar, rafmagns- og vélahönnunar.  Hún hefur þróað sjálfvirknibúnað í samstarfi við sprotafyrirtæki, sem síðan hafa haslað sér völl á sérhæfðum mörkuðum erlendis.  Orkukræfu fyrirtækin eru öflugir bakhjarlar og viðskiptavinir alls konar innlendra birgja. 

Stóriðjufyrirtækin eru brautryðjendur á sviði vinnustaðamenningar, öryggis- og gæðastýringar hérlendis.  Umhverfismál þeirra eru yfirleitt til fyrirmyndar.  Kolefnisspor íslenzkrar stóriðju per framleitt tonn er eitt hið minnsta í heiminum.  Að framleiða járnblendi, kísil eða ál á Íslandi felur í sér umhverfisvernd á heimsvísu og sjálfbæra verðmætasköpun landsmanna. 

""Helzta verkefni mitt sem forstjóri er að virkja sem bezt þekkingu og sterka liðsheild innan fyrirtækisins", sagði Álfheiður, þegar Morgunblaðið hitti hana í Hvalfirðinum fyrir helgina.  Þar kynnti hún blaðamanni helztu drættina í starfseminni, en hjá Elkem vinna um 180 manns.  Það er fólk, sem að stærstum hluta býr á Akranesi og í Borgarfirði.  Þá koma verktakar að mörgum þáttum starfseminnar hér.

"Ég tel, að starfsfólk okkar geti verið sátt með sitt, og við borgum ágætlega.  Launakostnaður Elkem Ísland er sá hæsti innan samstæðunnar, sem rekur alls 27 verksmiðjur víða um heim.""

Launakerfin á Íslandi mættu taka meira mið af afkomu fyrirtækjanna og launasamningar vera sveigjanlegri eftir breytingum í umhverfinu.  Stífar kröfur og stífir samningar ógna nú samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækjanna.  Þessi staða ýtir mjög undir aukna framleiðni, sem iðulega næst bezt með aukinni sjálfvirkni.  Það þýðir, að óbreyttri framleiðslu, færra starfsfólk.  Bezt er, ef fyrirtækin geta aukið framleiðslu sína samfara aukinni sjálfvirkni. Þá þarf ekki að fækka fólki. Til þess þurfa stóriðjufyrirtækin hins vegar meira rafmagn, og það hefur ekki verið fáanlegt undanfarið frá Landsvirkjun að sögn forstjóra Norðuráls.  Ef það er rétt, er tal forstjóra OR um 7,5 % umframorku í landinu núna þvættingur.  

""Þetta er háþróuð framleiðsla, sem við erum stolt af, ekki sízt vegna sterkrar markaðshlutdeildar í rafmagnsstáli, sem heldur viðnámi í orkuflutningum í lágmarki og sparar mikla og dýrmæta orku.  Á þessu sviði erum við stærsti framleiðandinn innan Elkem-samstæðunnar.  Þessar afurðir eru notaðar í spenna og mótora rafmagnsbíla, hástyrktarstál fyrir vindmyllur, hnífapör, kúlur, legur og bara allt milli himins og jarðar", eins og Álfheiður komst að orði."

Svipaða sögu má segja af öllum orkukræfu fyrirtækjunum.  Þau hafa náð langt í sérhæfingu og skilvirkni framleiðsluferla, þannig að tæknilega standa þau vel að vígi, en það er einn þáttur hér innanlands, sem veikir þau mjög, og það er skortur á rafmagni á samkeppnishæfum kjörum.  Það tekur því varla að minnast á hælbíta íslenzkrar stóriðju.  Þar eru blind afturhaldsöfl á ferðinni.  Ef þau hefðu alla tíð fengið með uppivöðslusemi sinni að ráða ferðinni, væri hér mun fámennara og fátækara samfélag með viðvarandi miklu atvinnuleysi.  Áróður þeirra hefur reynzt innistæðulaust froðusnakk.

""Úrskurður um rafmagnsverðið, sem gerðardómur kvað upp í maí í fyrra, eftir árangurslausar samningaviðræður við Landsvirkjun, hefur gjörbreytt samkeppnishæfni okkar til hins verra.  Því er að ýmsu að huga við að tryggja áframhaldandi rekstur til framtíðar", segir Álfheiður."  

Landsvirkjun var sett á legg til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja á borð við Elkem Ísland til langs tíma og samtímis að breyta fallorku vatns í gjaldeyri þjóðinni til handa með arðbærum hætti.

  Síðan núverandi forstjóri Landsvirkjunar tók þar við störfum 2010 á tímum vinstri stjórnarinnar alræmdu, hefur þessu hlutverki Landsvirkjunar verið snúið á hvolf.  Fyrirtækinu virðist nú vera ætlað að að ganga á milli bols og höfuðs á þeirri starfsemi, sem það var áður undirstaðan fyrir.  Þetta hefur aldrei verið vitlausari stefnumörkun en nú á tíma Kófsins, þegar samfélaginu er meiri nauðsyn en oft áður að nýta orkulindir sínar til að viðhalda vinnu og skapa fleiri störf og meiri gjaldeyri.

Það er stórfurðulegt, að svo virðist sem þingkjörin stjórn fyrirtækisins láti þessi ósköp gott heita, þótt Alþingi hafi raunar aldrei breytt upphaflegri stefnumörkun sinni við stofnun Landsvirkjunar 1965.  Að þessi hafvilla Landsvirkjunarskipstjórans skuli ekki vera leiðrétt nú í Kófinu af viðkomandi ráðherrum orku- og fjármála og þinginu öllu, er óskiljanlegt, því að öllum má ljóst vera, að Landsvirkjun grefur undan þjóðarhag með okurstefnu sinni. 

Samkvæmt upplýsingum fyrirrennara Álfheiðar í starfi forstjóra, er ekki lífvænlegur rekstrargrundvöllur fyrir starfseminni eftir téðan gerðardóm.  Sá dómur fór þó milliveg á milli deilenda.  Af stakri ósvífni sinni lýsti Landsvirkjun yfir, eftir uppkvaðningu úrskurðarins, að hún stefndi á að ná sínu takmarki, þegar gildistími úrskurðarins rennur út um 2028.  Af þessum sökum ákvað Elkem Ísland að leggja ýmis fjárfestingaráform sín til hliðar.  Þessi staða er stórskaðleg fyrir íslenzkt efnahagslíf og umsvifin á Vesturlandi og sérstaklega slæm núna í Kófinu.   

Núna heldur Landsvirkjun þremur stóriðjufyrirtækjum í gíslingu: Elkem Ísland og Norðuráli á Grundartanga og ISAL í Straumsvík.  Þegar hagkerfinu bráðliggur á að fá til sín allar fjárfestingar, sem völ er á, þá kemst ríkisfyrirtækið Landsvirkjun upp með að hindra vöxt og viðgang þessara fyrirtækja, og eru þá ekki öll upp talin. 

"Fyrirtækið hefur m.a. gefið út, fyrst stórra iðnfyrirtækja á Íslandi, að það stefni á að verða kolefnishlutlaust framleiðslufyrirtæki fyrir árið 2040.  Áherzlna að því markmiði sjái stað í öllum rekstrinum."   

Við skulum vona, að fyrirtækinu endist aldur til að raungera þetta fyrirmyndarmarkmið.  Það er fyrir neðan allar hellur, að ríkisfyrirtæki skuli vera helzti þrándurinn í götu Elkem Ísland og fleiri fyrirtækja að vinna að markmiðum, sem krefjast vinnuskapandi þróunarvinnu hér í landinu.  Áherzlur ríkisins eru á röngum stöðum í Kófinu. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Kvóti var settur á fisktegundir til að vernda fiskistofna.  Hann var ekki settur til að vernda einstakar fiskvinnslur.  Það er löngu tímabært að allur fiskur fari á markað. 

Tryggvi L. Skjaldarson, 29.10.2020 kl. 13:31

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er a.m.k. eðlilegt, að innlendar fiskvinnslur fái að bjóða í fisk áður en hann er sendur óunninn utan (í erlendar fiskvinnslur).  

Bjarni Jónsson, 29.10.2020 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband