1.11.2020 | 12:09
Kófið og ríkissjóður
Nú ríður á að auka atvinnuna í landinu aftur. Með tvöfalda skimun fyrir alla komufarþega til landsins mun ferðageirinn ekki lifna við, eins og ríkisstjórnin þó reiknar með í fjármálaáætlun sinni. Nýgengi smita er tiltölulega hátt á Íslandi þrátt fyrir þetta kverkatak á ferðaþjónustunni. Að herða bönn, lokanir og athafnatakmarkanir, þegar nýgengið fer lækkandi, er illa ígrunduð ráðstöfun, sem tekur ekkert tillit til fórnarkostnaðarins. Þegar nýgengið tekur að lækka í þeim löndum, hvaðan ferðamenn mega koma hingað, ætti að láta einfalda skimun fyrir aðra en íbúa hérlendis duga.
Alvarleg staða er hjá mörgum fyrirtækjum í þjónustugeirum og fiskvinnslu út af Kófinu, og ætti ríkissjóður að beita sér fyrir sjóðsstofnun, sem fjárfesti í lífvænlegum fyrirtækjum á þessum sviðum, og e.t.v. öðrum,í því augnamiði að koma atvinnusköpun og verðmætasköpun í gang aftur, en taka fyrirtæki hins vegar af ríkisspenanum. Það verður þegar í stað að hægja á skuldasöfnun ríkissjóðs. Áhyggjur fjármálamarkaðarins út af endurgreiðslugetu ríkissjóðs eru þegar komnar fram í hækkun langtímavaxtaálags ríkisskuldabréfa. Þetta mun brátt smita yfir á almennan fjármálamarkað, draga enn úr fjárfestingum og keyra fleiri í þrot. Þessa vaxtaálags verður ekki vart enn á hinum Norðurlöndunum, svo að þetta er hættumerki hér.
Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun verður að semja um verðlækkun á raforkunni, svo að fjárfestingar hefjist af alvöru aftur, t.d. í stóriðjunni. Norðurál er tilbúið að fara strax í mrdISK 10-20 fjárfestingu, og ISAL og Elkem Ísland hafa lengi haldið að sér höndum vegna þess, að raforkuverð til þeirra skapar ólífvænlega afkomu. Ekki kæmi á óvart, að þessi fyrirtæki mundu að fengnum viðunandi langtímasamningi um raforku fljótlega fara í um mrdISK 10 fjárfestingu alls, enda uppsöfnuð þörf mikil. Ef Landsvirkjun lækkar sitt orkuverð til almenningsveitnanna, mun það örva allt atvinnulífið. Orð og athafnir stjórnmálamanna um nauðsyn þess að koma hjólunum í gang verða að fara saman. Eitt öflugasta tæki þeirra er ríkisfyrirtækið Landsvirkjun. Ekki þarf að hafa áhyggjur af ESA, því að í Kófinu hefur ekki verið amazt við neyðarafskiptum ríkisvalds á raforkumarkaði EES.
Um daginn var athyglisverð frétt úr Reykjanesbæ um, að þreifingar væru á milli Samherja og Norðuráls um kaup þess fyrr nefnda á kerskálum í Helguvík til að setja þar upp landeldi fyrir fisk. Slíkt þarf talsvert rafmagn og mikið vatn, hitaveituvatn og ferskvatn, ásamt hafnaraðstöðu. Það mundi verða stórkostleg lyftistöng fyrir bágborið atvinnuástand á Suðurnesjum, ef slíkar framkvæmdir færu af stað í Helguvík, og þetta gæti orðið brautryðjandi framkvæmd á sínu sviði. Ef ríkisvaldið getur eitthvað liðkað til fyrir þessum samningum, ætti það ekki að hika við það vegna neyðarástands, sem nú ríkir í atvinnumálum Suðurnesjamanna. Þótt Kófið leiki laxaframleiðendur grátt um þessar mundir, er hér um að ræða skilvirka próteinframleiðslu með lítið kolefnisspor og þar af leiðandi bjartar framtíðarhorfur.
Nú er framleiðslugeta fiskeldis á og við Ísland um 30 kt/ár. Með áhættugreiningum hefur Hafrannsóknarstofnun sett ramma um leyfisveitingar upp á um 100 kt/ár. Líklega mun burðarþolsmat leyfilegra fiskeldisfjarða við Ísland, þegar það hefur verið gert, nema um 200 kt/ár. Síðan mun taka við úthfseldi, eins og Norðmenn eru að feta sig áfram með núna í risalaxeldiskvíum. Nú þarf að flýta leyfisveitingum án flausturs til að flýta þróuninni hérlendis og til að skapa enn meiri vinnu og verðmæti á þessu sviði, sem gríðarleg þörf er á.
Hörður Ægisson hefur ritað mjög áhugaverðar forystugreinar í Fréttablaðið í Kófinu. Þann 23. október 2020 braut hann enn blað og ritaði þungvæg aðvörunarorð um skuldasöfnun ríkissjóð, sem reynast mun landsmönnum fjötur um fót á næstu árum vegna þungrar vaxtabyrði. Í þetta sinn mun ekki koma neinn björgunarpakki úr þrotabúum fallinna banka, heldur verða launamenn og atvinnurekstur í landinu að axla byrðarnar af þeirri óábyrgu skuldasöfnun, sem nú á sér stað. Varðhundar sósíalisma og útþenslu ríkisbáknsins blása á aðvörunarorð Viðskiptaráðs og beita í því sambandi útþvældum orðaleppum á borð við "nýfrjálshyggju", en þeir munu skríða ofan í holur sínar, þegar að skuldadögunum kemur.
Téð forystugrein bar fyrirsögnina:
"Ábyrgðarleysi":
"Þingmaður VG [Kolbeinn Proppé] afgreiddi þannig í vikunni nýútgefið rit Viðskiptaráðs, þar sem settar eru fram hófsamar tillögur um, hvernig megi forgangsraða í ríkisfjármálum til stuðnings verðmætasköpun og nýta fjármagn hins opinbera betur, sem "úrelta hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar [...] frá því fyrir hrun". Ekki er að sjá, að margir hafi áhyggjur af því, hvaða áhrif þúsund milljarða skuldsetning ríkissjóðs á komandi árum, sem þarf að fjármagna með lántökum á markaði, kunni að hafa á hagvaxtarhorfur og vaxtabyrði skattgreiðenda."
Hættan er sú, að ríkissjóður lendi í vítahring, sem endað getur með ósköpum. Til að stöðva skuldasöfnun og standa undir greiðslubyrðinni muni þurfa að skera niður útgjöld/fjárfestingar ríkissjóðs og hækka skatta, sem aftur dregur úr hagvexti. Þessi neikvæða þróun mun framkalla verra lánshæfismat, sem gerir lán ríkissjóðs enn dýrari. "Stagflation" eða stöðnun og verðbólga mun þá keyra lífskjörin niður í svaðið. Slíkar eru afleiðingar óábyrgrar fjármálastjórnar ríkisins. "There is no free lunch in this world." Það er enginn ókeypis hádegisverður til eða "Æ sér gjöf til gjalda". Vinstri sósíalistar hafa enn ekki skilið það. Þeim eru hins vegar hugleiknar "úreltar hagfræðikenningar", því að þeir eru pikkfastir í gjaldþrota hugmyndafræði Karls Marx.
Forystugreininni lauk Hörður Ægisson þannig:
"Þróunin á skuldabréfamarkaði ætti að vera flestum tilefni til að staldra við. Áhyggjur af því, hvernig fjármagna eigi gríðarlegan hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga, ásamt þrýstingi stjórnmálaafla á enn meiri útgjöld án þess, að nokkur ráðdeild komi á móti, hefur valdið því, að langtímavextir á markaði - grunnur fyrir vaxtakjör heimila og fyrirtækja - hafa snarhækkað á örfáum vikum og eru komnir á sama stað og í janúar [2020].
Sú þróun er grafalvarleg og skýtur skökku við, enda hafa stýrivextir Seðlabankans á sama tíma lækkað úr 3 % í 1 %. Árlegur vaxtakostnaður ríkisins m.v. núverandi fjárlagafrumvarp stefnir af þeim sökum í að verða yfir 2 % af landsframleiðslu, eða um mrdISK 60, sem er á pari við Grikkland. Það er óásættanlegt, og við því þurfa stjórnvöld að bregðast."
Það er allt á huldu um framtíðar tekjur atvinnuveganna og þar af leiðandi um einkaneyzlu og opinberar fjárfestingar. Spár um efnahagslegan viðsnúning á næsta ári eftir e.t.v. 6 % samdrátt landsframleiðslu á þessu ári, eru óraunhæfar. Hagvöxtur á mann verður sáralítill, ef veiruófétinu leyfist áfram að drepa hér allt í dróma. Þá er komin hér uppskrift að grísku ógæfunni, sligandi opinberar skuldir og hagkerfi með sáralitlum fjárfestingum, sem hjakkar í sama farinu. Verður einhver stjórnmálaflokkanna fær um að veita leiðsögn út úr þessari blöndu ytra áfalls og sjálfskaparvítis ? Það mun koma í ljós í komandi kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er eins og það sé vísvitandi verið að færa vestræn samfélög niður á svipað þróunarstig og í þriðja heiminum. Læmingjarnir, sem streyma þúsundum saman í sjóinn og drukkna þar koma óneitanlega upp í hugann. Það er erfitt að sjá aðrar fyrirmyndir.
Og allt er þetta drifið áfram af röklausum hræðsluáróðri sem fólk kokgleypir gagnrýnilaust. Nýjasta staðhæfingin er að spítalar séu að yfirfyllast af covid sjúklingum. En alls hafa 256 manns lagst á spítala með pestina frá því hún byrjaði. Um 25.000 manns leggjast inn á Landspítalann árlega. Innlagnir covidsjúklinga eru sumsé 1% heildarfjölda innlagna á síðasta ári.
Nú eru óvenju margir inniliggjandi, 67 manns. Það er aðeins vegna þess að stjórnendum spítalans tókst að smita heila öldrunardeild á einu bretti í síðustu viku.
Þorsteinn Siglaugsson, 1.11.2020 kl. 12:59
Nú hafa um 4900 manns greinzt með C-19 hérlendis, og 5,2 % þeirra hafa lagzt inn á spítala. Hinir njóta eftirlits Göngudeildar. Innlagnir nema 1 % af árlegum innlögnum, eins og þú skrifar, en hver þessara C-19 sjúklinga útheimtir sennilega meiri vinnu og sóttvarnarumstang en hinir sjúklingarnir að jafnaði. Hluti af vandræðum Landsspítalans er fjöldi sýktra starfsmanna og starfsmanna í sóttkví. Það var ófullnægjandi eftirlit með heilsufari starfsmanna, t.d. engin C-19 skimun, sem eru mistök af hálfu spítalastjórnarinnar, og eftirlit með heilsufari útskrifaðra, sem senda átti á öldrunarstofnanir, var líka ófullnægjandi. Þessar röngu áherzlur spítalastjórnarinnar hafa valdið Landsspítalanum gríðarlegum erfiðleikum og virðast hafa kostað þjóðina hörðustu og óþörfustu sóttvarnaraðgerðir, sem hún hefur mátt þola til þessa. Síðla í október 2020 höfðu 137 færri dáið á árinu á Íslandi en vænta mátti út frá meðaltali. Eru öll bönnin, samkömutakmarkanir og aðrar skerðingar á persónufrelsi óþörf, en nóg að viðhafa strangar persónubundnar varnir ? Fórnirnar vegna sóttvarnaraðgerðanna eru meiri en ávinningurinn, hvort sem mælt er í mannslífum eða tekjutapi og kostnaði.
Bjarni Jónsson, 1.11.2020 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.