Verða málmar og melmi áfram framleidd í Evrópu ?

Því hefur verið slegið fram í bríaríi, að málm-og melmisframleiðsla eigi enga framtíð í Evrópu (melmi er málmblanda eða blanda málms og kísils).  Sú fullyrðing er alveg út í loftið.  Evrópa þarf og mun þurfa á að halda hreinum málmum og melmum af öllu tagi fyrir sína framleiðslu.  Þessi evrópska framleiðsla verður hins vegar með æ minna kolefnisspori, enda vex hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda stöðugt í Evrópu, og kostnaður þeirrar raforku fer jafnframt lækkandi.  Lönd með sjálfbæra raforkuvinnslu nú þegar, eins og Ísland og Noregur, standa og munu standa sterkt að vígi á öllum framleiðslusviðum.  Þess vegna eru þau samkeppnishæf frá náttúrunnar hendi, en svo er annað mál, hversu færir íbúarnir eru við að nýta sér í hag það samkeppnisforskot, sem náttúran færir þeim. Við þessar aðstæður getum við hrósað happi yfir því, að raforkukerfi Íslands er ótengt við stofnkerfi, þar sem flutningarnir ráðast af reglum Evrópusambandsins, sem það setur til að þjóna orkuþörf sinna meginiðnaðarsvæða. Jaðarsvæðin virka þá sem hráefnisútflytjendur.  Slíkt er óheillavænlegt fyrir gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun. 

Á Íslandi eru uppi háværar raddir um, að nóg sé komið af virkjunum, og í hvert skipti, sem undirbúa á nýja virkjun, eða flutningslínu fyrir raforkuna á markaðinn, upphefst draugakór um náttúruspjöll eða útsýnisspjöll, jafnvel óafturkræf.  Þetta fólk er að kalla yfir samborgara sína minni hagvöxt, lægra atvinnustig, minni gjaldeyrisöflun og lakari lífskjör, jafnvel landflótta úr stöðnuðu þjóðfélagi, þegar Kófinu linnir. 

Með Rammaáætlun átti að þróa aðferðarfræði til að vega fórnarkostnað nýtingar á móti ávinningi og flokka landsvæði orkulinda samkvæmt því í vernd, bið (óvissa) og nýtingu.  Verndarpostular, sem telja smekk sinn eiga að verða ríkjandi í þjóðfélaginu, sætta sig ekki við þær leikreglur.  Þá eru þeir að troða lögunum um tær sér og hafa þar með fyrirgert trúverðugleika sínum.

Þann 23. september 2020 ritaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Af samkeppnishæfni álframleiðslu í Evrópu".

Greininni lauk þannig:

"Evrópusambandið er að skoða fleiri leiðir til að viðhalda samkeppnishæfni álframleiðslu og annars orkusækins iðnaðar í Evrópu.  Á meðal þess, sem er til skoðunar hjá ESB, er kolefnisskattur á innflutning til Evrópu, enda er kolefnisfótspor evrópskrar álframleiðslu lægra en í öðrum heimsálfum og gjöld vegna losunar hvergi hærri. Stingur það einkum í stúf hér á landi, þar sem álframleiðsla losar hvergi minna.

Ál er á lista ESB yfir hráefni, sem eru mikilvæg "græna samkomulaginu", sem felur í sér, að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2050, eins og fram kom hjá Hilde Merete Asheim, forstjóra Norsk Hydro, í gær, þegar hún fagnaði ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB.  Það skiptir því máli fyrir loftslagið í heiminum, að álframleiðsla haldist í Evrópu, auk þess sem hún skapar störf og verðmæti fyrir þjóðarbúið.  En til þess, að álframleiðsla í Evrópu eigi sér sjálfbæra framtíð til langs tíma, þarf að tryggja samkeppnishæfnina.  Framkvæmdastjórn ESB sýndi með ákvörðun sinni í vikunni, að hún er meðvituð um það."

Það fer ekki á milli mála, að þróun alþjóðamála undanfarið ýtir fremur undir það, að Evrópa verði sem mest sjálfri sér nóg um ál og kísil.  Þegar þessi "strategískt" mikilvægu efni eru framleidd með lágmarks kolefnisspori, munu þau eiga greiða leið inn á Innri markað EES, hvernig sem allt veltur.

Það er hins vegar rétt að búa rækilega í haginn fyrir það að geta gripið önnur tækifæri orkuskiptanna, t.d. sölu á "grænu" vetni til meginlands Evrópu og til Bretlands.  "Grænt" vetni er framleitt með rafgreiningu vatns í vetni og súrefni með rafmagni frá kolefnisfríum orkulindum.  Ef bætt verður um 10 % við núverandi orkuvinnslugetu Íslands eða 2 TWh/ár fyrir vetnisvinnslu, sem er ágætisbyrjun, þegar hagkvæmir markaðir finnast fyrir "grænt" vetni, verður hægt að framleiða um 30 kt/ár af vetni undir þrýstingi, sem hæfir til flutninga.  Um 10 % af þessu mun innlendi  markaðurinn þurfa til að knýja þung landfartæki og enn meira, þegar kemur að vetnisvæðingu skipa og flugvéla. Þess má geta, að innanlandsflug hérlendis hentar vel fyrir rafknúnar flugvélar vegna fremur stuttra vegalengda.

Nú fer um 8 GW afl í að rafgreina vetni í heiminum.  Allt uppsett afl núverandi virkjana á Íslandi er um 30 % af þessu afli, en rafgreiningin annar um þessar mundir aðeins 4 % af heimsmarkaði vetnis.  

Englendingar eru með áform um að vetnisvæða húsnæðiskyndingu og eldun á Norður-Englandi og leysa þannig jarðgas af hólmi með "grænu" vetni, og svo er vafalítið um fleiri. "Grænt" vetni mun gegna lykilhlutverki í Evrópu við að ná markmiðum um nettó kolefnislaus samfélög 2040 (Bretland) eða 2050 (ESB) (mismunandi eftir ríkjum). 

Það er þegar orðinn skortur á "grænu" vetni í Evrópu, og þessa sér stað í verðþróuninni.  Vetni á markaði hefur hingað til að mestu leyti verið unnið úr jarðgasi og verðið löngum verið undir 1,0 USD/kg, en nú er verð fyrir "grænt" vetni farið að greina sig frá og fer stígandi á milli 1,0-2,0 USD/MWh.  Í ljósi þess, að hluti orkukaupa vetnisverksmiðju getur verið "ótryggð" orka, sem er ódýrari en "forgangsorka", er vafalaust hægt að byrja með orkuverð að viðbættum flutningskostnaði undir 32 USD/MWh, sem mundi útheimta verð frá vetnisverksmiðu allt að 2,0 USD/kg.  Þar við bætist flutningskostnaður á markað í þrýstingsgeymum á skipum.  Innan 5 ára mun þetta markaðsverð "græns" vetnis nást, og þess vegna er ekki seinna vænna að hefja nú þegar undirbúning virkjana og samninga við væntanlega vetnisframleiðendur. 

Við sjáum nú þegar í fjölmiðlum móta fyrir áhuga innan orkufyrirtækjanna hérlendis á þessum markaði, en enn sést ekkert til áhugasamra fjárfesta í vetnisverksmiðju.  Í Morgunblaðinu 1. október 2020 var eftirfarandi fyrirsögn á baksviðsfrétt:

"Tækifæri eru í útflutningi á vetni".

Hún hófst þannig:

"Í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi eru fjölmörg verkefni í undirbúningi, en fyrirtækið stefnir nú á að auka framleiðslugetu Reykjanesvirkjunar um 30 MW á næstu 2 árum.  "Nokkur erlend og innlend fyrirtæki eru að skoða uppbyggingu í auðlindagarðinum.  Eitt er að breyta raforku með rafgreiningu í annað form, s.k. Power to X, þ.e. vetni eða metan, t.d.", segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.  "Við teljum líka, að mikil tækifæri séu í tengslum við fiskeldi, þörungarækt og hátæknivædd gróðurhús.  Á svæðinu er nægt framboð á heitu og köldu vatni auk hreins koltvísýrings, sem skiptir miklu við hvers konar ræktun".  

HS Orka gegnir nú lykilhlutverki í atvinnumálum og verðmætasköpun á Suðurnesjum (á meðan Bláa lónið er lokað) eins og sést á því, að nú gegna um 1500 manns störfum í auðlindagarði HS Orku. Því ber að fagna, að það er framfarahugur í fyrirtækinu, og forstjóri þess er vafalaust vel tengdur við ýmsa fjárfesta, sem hann getur bent á fjárfestingartækifæri hérlendis, sem skapa munu enn fleira fólki störf.  Gefum Tómasi Má orðið:

"Ég var um árabil í stjórn samtakanna Business Europe, þar sem saman koma forstjórar stærstu fyrirtækja álfunnar.  Á þeim vettvangi er reglulegt samtal við æðstu ráðamenn ESB, sem fóru fyrir allnokkru að tala opinskátt um mikilvægi þess, að álfan væri sjálfri sér næg um græna orku.  Ekki gengi að eiga allt undir duttlungum OPEC eða annarra ráðandi afla", segir Tómas Már og heldur áfram: "Mótleikurinn er m.a. bygging vindorkugarða og framleiðsla vetnis með vindorku.  Í þessari byltingu eru bæði ógnir og tækifæri fyrir okkur Íslendinga.  Það dregur úr samkeppnisforskoti okkar, að orkuverð í Evrópu hefur lækkað, sem ég tel þó vera tímabundið.  Við getum hæglega nýtt okkur þessa þróun og farið að framleiða vetni eða aðra orkugjafa [orkumiðla-innsk. BJo].  Ekki bara til að vera sjálfum okkur nóg um alla orkugjafa [orkumiðla] í samgöngum, heldur líka til útflutnings."

Vetnisframleiðsla og slitrótt orkuvinnsla vindmyllna geta tæknilega farið vel saman.  Sama er að segja um nýtingu umframorku í vatnsorkukerfinu til vetnisvinnslu á sumrin.  Líklega verður arðsemi vindorkuvera við orkusölu til vetnisverksmiðja lítil sem engin fyrstu árin, en gæti braggast, ef orkuverðið verður tengt verði "græns" vetnis á markaði, eins og eðlilegt er. 

Hvað segir Tómas Már um vindorkuverin ?:

"Sú var tíðin, að kostnaður við hvert uppsett MW var meira en tvöfaldur á við það, sem kostar að virkja fallorku eða jarðhita.  Þetta er gjörbreytt.  Nú er kostnaður við hvert MW í vindorku um fjórðungur af því, sem kostar að byggja vatnsafls-eða jarðvarmavirkjanir.  Þessi kostur verður því mun áhugaverðari en áður, sérstaklega hér á landi, þar sem lognið fer hratt yfir."

Hafa verður í huga, að meginsöluvara virkjana er orka, en ekki afl.  Þess vegna segir fjárfestingarupphæð á MW aðeins hálfa söguna og taka verður tillit til orkuvinnslugetu uppsetts vél- og rafbúnaðar.  Hún er meiri en tvöföld í vatns- og jarðgufuverum á hvert MW á við vindorkuverin. Þar að auki verður að taka rekstrarkostnað með í reikninginn, sem fyrir vatnsorkuver er tiltölulega mjög lágur.  Ef upplýsingarnar að ofan eiga við heildarfjárfestingar per MW, þá gætu ný vindorkuver á Íslandi verið  fjárhagslega samkeppnishæf við a.m.k. jarðgufuver.

Landsvirkjun er líka með í þessari vegferð, og virðist horfa til byggingar tilraunaverksmiðju við Ljósafoss í Bláskógabyggð.  Sú staðsetning kemur spánskt fyrir sjónir, en gæti helgast af eigin fersku vatni Sogsins og eigin virkjun, þannig að flutningsgjald til Landsnets verði í lágmarki, en á móti kemur flutningskostnaður vetnis frá Ljósafossi að höfn til útflutnings og á innlendan markað.  

Landsvirkjun hefur aflað sér fremur undarlegs samstarfsaðila á meginlandi Evrópu, sem er fyrirtækið, sem á og rekur Rotterdam-höfn.  Væntanlega ætlar hafnarfyrirtækið að nota og dreifa vetni, en varla að framleiða það.  Hefði þá ekki verið nærtækara að semja við gasdreifingarfyrirtæki á Norður-Englandi ?

Haraldur Hallgrímsson, núverandi forstöðumaður sölu- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar sagði þetta við Moggann 23. október 2020:

""Við horfum á þetta sem stórt tækifæri úti við sjóndeildarhringinn", segir Haraldur um vetnismarkaðinn í Evrópu.  Hann segir erfitt að tímasetja nákvæmlega, hvernig málin þróist; mikilvægast í þessu sé að starfa með aðila, sem er leiðandi og hefur mikla þekkingu á flutningum, sem muni vega þungt við hugsanlega framleiðslu vetnis hér á landi.  Rotterdam-höfn sé mjög framsækin á þessu sviði, og þaðan liggi leiðir ekki bara til Hollands, heldur lengst inn í Evrópu, þar sem krafan um orkuskipti er hvað sterkust.  Holland sé vel staðsett og ætli sér að vera leiðandi á þessu sviði og því um mikilvægan samstarfsaðila að ræða fyrir Landsvirkjun sem orkufyrirtæki í endurnýjanlegri orku."

Það er dálítið kindugt, að orkufyrirtækið skuli ekki fremur leita til framsækins rafgreiningarfyrirtækis á sviði vetnisframleiðslu en til flutningafyrirtækis.  Hröð þróun hefur á síðustu árum orðið í rafgreiningartækni vatns og töpin í ferlinu minnkað umtalsvert frá 25 % og stefna á 14 % fyrir 2030.  Töpin vega þungt í framleiðslukostnaðinum, og þess vegna er mikilvægt, vetnisframleiðendur hérlendis noti beztu fáanlegu tækni ("state of the art").  HS Orka virðist hafa tekið forystu hérlendis um atvinnusköpun og gjaldeyrissköpun hérlendis við framleiðslu á vetni. 

 Þríhyrningur

 

 

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Í Þýskalandi er nú rætt um að nota vetni í stsð kola til  framleiðslu á stáli.

Því spyr ég, í "algerlega hugsunarlausu bríaríi", hvort ekki mætti framleiða hér umhverfisvænt stál úr innfluttu járngrýti frá Svíþjóð og vetni framleiddu á íslandi?

Hörður Þormar, 4.11.2020 kl. 21:21

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ástæða þess að stóriðja hefur verið að flytjast frá Evrópu hefur legið í því að framleiðslukostnaður í löndum á borð við Kína hefur verið töluvert lægri. En þetta gæti mögulega átt eftir að breytast. Ef við hugsum okkur að haldið verði áfram að láta evrópskum hagkerfum blæða út til að hægja á kórónafaraldrinum, bóluefni komi ekki fram (eins og Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir sagði að væri allt eins líklegt á fundi Velferðarnefndar í morgun) gæti tekið 3-4 ár, jafnvel mögulega lengri tíma, að ná ónæmi. Langvarandi mikill efnahagssamdráttur mun hafa mjög afgerandi afleiðingar. Hann getur til dæmis valdið því að ungt og efnilegt fólk flýi svæðið í stríðum straumum og að fjármagnseigendur færi fjárfestingar sínar annað í talsverðum mæli. Slíkt getur svo valdið vítahring sem erfitt verður að rjúfa.

Við gætum því mögulega endað með langtum lakari lífskjör í Evrópu en nú er, stórum færri atvinnutækifæri og brýna þörf fyrir þann iðnað sem í krafti velmegunarinnar hefur færst til annarra landa.

En þetta eru kannski of drastískar vangaveltur?

Þorsteinn Siglaugsson, 4.11.2020 kl. 21:43

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er rétt, Hörður, að nú er reynt að leysa gamlar aðferðir með stóru kolefnisspori við stálframleiðslu og fleiri kolefnisdrifna framleiðsluferla af hólmi með vetni.  Þeirri viðskiptahugmynd, sem þú nefnir, held ég, að stálframleiðendur verði ekki ginnkeyptir fyrir, heldur kjósi þeir að halda sig á núverandi athafnasvæðum sínum, þar sem aðdrættir, markaðssetning og þekking eru þekktar og þróaðar stærðir, en þeir munu vafalaust hafa hug á að kaupa íslenzkt vetni.  

Bjarni Jónsson, 5.11.2020 kl. 11:01

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta eru engan veginn of "drastískar" vangaveltur.  Vonlaus bælingarstefna yfirvalda gagnvart C-19 faraldrinum mun kosta ægilegar fórnir, sem setja munu hagkerfi viðkomandi landa í harðsvíraða spennitreyju löngu eftir að hjarðónæmi verður náð, hvernig sem yfirvöldin munu nú bögglast við að ná því.  Ég gæti trúað því, að ein afleiðing þrenginganna verði tilhneiging til að framleiða sem mest heima, að gera hagkerfi hvers lands sem mest sjálfu sér nægt.  Bælingarstefnan er algerlega vanhugsuð og mun leiða til lífskjarahruns.  Þess vegna er ótrúlegt, að aðilar vinnumarkaðarins skuli ekki sækja það fastar að hafa áhrif á stefnumörkun læknanna, sem nú hafa hneppt þjóðfélagið í fjötra í því "göfuga" augnamiði að fækka smitum niður að 0.  Þjóðfélagslega og hagfræðilega er engin glóra í því.  Á það hafa reyndar margir aðrir læknar bent á opinberlega.

Bjarni Jónsson, 5.11.2020 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband