Afturhald í efnahagsmálum

Svo virðist sem tími stórra jafnaðarmannaflokka í Evrópu sé liðinn.  Þá hefur dagað uppi.  Þeir eiga ekkert stjórnmálalegt baráttuhlutverk í þjóðfélagi samtímans, hvað þá í framtíðinni, þar sem gamla baklandið þeirra er ekki nema svipur hjá sjón.  Sósíalistaflokkur Frakklands er nánast horfinn.  SPD-jafnaðarmannaflokkur Þýzkalands er hugmyndalega steingeldur og undir 20 % í skoðanakönnunum á landsvísu.  Svipaða sögu er að segja frá Svíþjóð, og nú hefur hinn sögufrægi Verkamannaflokkur Noregs (Arbeiderpartiet) misst forystusæti sitt í skoðanakönnunum til Miðflokksins (Senterpartiet) og mælist líka undir 20 %.  Flokksforystan gengur ekki í takti við verkalýðshreyfinguna, sem í Noregi fylgist vel með gangverki tímans og þróun atvinnulífsins með hag umbjóðenda sinna í fyrirrúmi, en hengir sig ekki í afdankaðar stjórnmálalegar kreddur stéttabaráttunnar.  Í þessu sambandi heyrast nú frá Noregi háværar raddir um, að Bretar hafi náð betri kjörum með nýjum fríverzlunarsamningi við Evrópusambandið (ESB) en felist í viðskiptakjörum Norðmanna við ESB með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Norska verkalýðshreyfingin er afhuga aðild Noregs að ESB, og Verkamannaflokkurinn mun þá, ef að líkum lætur, eiga auðvelt með að söðla um í þeim efnum og ganga í eina sæng með Sp og SV að afloknum næstu kosningum.  Þá verður einfaldlega enginn Orkupakki #4 samþykktur inn í EFTA-löndin og EES-samningurinn verður tekinn til endurskoðunar í heild sinni, og er það löngu tímabært.

Jafnaðarmannaflokkur Íslands (Samfylkingin) er steinrunninn stjórnmálaflokkur, og enn er aðalbaráttumál hans að gera Ísland að hluta þessa ríkjasambands, ESB, þótt það sé með þvílíkum böggum hildar eftir BREXIT, að kvarnast gæti enn meir úr því og myntbandalagi þess á nýbyrjuðum áratugi. Grunnstoðir þar á bæ eru ófullgerðar og standast ekki tímans tönn.  Það er reyndar mjög Samfylkingarlegt. 

Annað aðaláhugamál Samfylkingarinnar er að þenja ríkisbáknið sem mest út, stækka efnahagsreikning ríkisins enn meir og auka tekjur þess með aðgangsharðari skattheimtu; jafnaðarmenn bera í þessu viðfangi fyrir sig réttlæti og snúa þar með staðreyndum á haus, því að ekkert réttlæti getur verið fólgið í því að rífa fé af fólki, sem það hefur unnið sér inn með heiðarlegum hætti í sveita síns andlitis, sem er með margvíslegum hætti, í meiri mæli en þegar á sér stað á Íslandi, sem er með því mesta í OECD.  

Vegna C-19 hefur fjárþörf ríkisins aukizt gríðarlega. Það er alveg öruggt mál, að fái "Reykjavíkurlíkanið" umráð yfir ríkissjóði Íslands í kjölfar komandi Alþingiskosninga, munu skella gríðarlegar skattahækkanir á almenningi, svo að sóknarbolmagn atvinnulífsins út úr C-19 kreppunni verður ekki nægt til að rífa hér upp hagvöxt á ný, sem er forsenda aukinnar atvinnusköpunar.  Atvinnuleysið er nú þjóðarböl, meira en víðast hvar annars staðar í Evrópu, og meginviðfangsefni stjórnmálanna verður að skapa sjálfbærar forsendur atvinnusköpunar.  Nú þegar er yfirbygging ríkisins of stór fyrir þetta litla þjóðfélag, svo að lausnir jafnaðarmanna eru engar lausnir í nútímanum, heldur snara í hengds manns húsi.  Þess vegna fjarar undan þeim hvarvetna á Vesturlöndum um þessar mundir. 

Hörður Ægisson ritaði forystugrein í Fréttablaðið 15. janúar 2021, þar sem á snöfurmannlegan hátt var hrakinn hræðsluáróður jafnaðarmanna gegn því að skrá   Íslandsbanka nú í Kauphöll Íslands og bjóða fjórðung eignarhlutar ríkisins í honum til kaups. Þessi ágæta atlaga gegn afturhaldinu bar þá lýsandi yfirskrift:

"Dragbítar",

og hófst þannig:

"Sumir bregðast aldrei vitlausum málstað.  Talsmenn Samfylkingarinnar, ásamt ýmsum fylgihnöttum þeirra í róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar, leggja sig fram um að gera það tortyggilegt, að til standi að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöll. 

Röksemdirnar, sem eru fátæklegar, hverfast um, að tímasetningin sé óheppileg og að ríkið fari árlega á mis við tugmilljarða arðgreiðslur með því að draga úr eignarhaldi.  Ekkert er gert með þá staðreynd, að önnur evrópsk ríki hafa fyrir margt löngu talið réttast - jafnvel þótt eignarhlutur þeirra sé hverfandi í samanburði við íslenzka ríkið - að hefja þá vegferð að losa um eignarhluti sína í áhættusömum bankarekstri.  Samfylkingin er á öðru máli og telur, að ríkið eigi áfram að vera með mrdISK 400 bundna í tveimur bönkum."

Nú hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stigið það einkennilega skref í stéttabaráttu sinni að mótmæla áformum um að losa um bundið fé félagsmanna og annarra landsmanna í starfsemi, sem ríkisvald er illa fallið til að stunda.  Sannast þar enn, að þar liggja nú dragbítar heilbrigðrar skynsemi á fleti fyrir, sem alls ekki kunna að verja hagsmuni umbjóðenda sinna.

Bankasýsla ríkisins, sem stofnsett var fyrir um 12 árum, hefur það hlutverk m.a. að ráðleggja ríkisstjórninni um ráðlegan eignarhlut ríkisins í bönkum landsins.  Hún mun nú hafa ráðlagt henni að selja fjórðungseignarhlut í Íslandsbanka, og er það í samræmi við Stjórnarsáttmálann.  Fjórðungur af eiginfé bankans nemur nú tæplega mrdISK 50.  Um fjórðungur eiginfjárins er umfram lögbundið lágmark, og þarf auðvitað að fá það á fullu verði við söluna, svo að söluandvirðið gæti orðið tæplega mrdISK 50, þegar tekið er mið af því, að hlutafé Arion-banka er nú í hæstu hæðum þrátt fyrir áföll, sem hann varð nýlega fyrir í útlánastarfsemi sinni.  Arðsemi undanfarinna ára hjá bönkunum er auðvitað engin viðmiðun, þar sem um einskiptiseignamyndun var að ræða í kjölfar fjármálakreppu.

Ef núverandi tími er ekki góður tími til að hefja söluferli bankans, er með öllu óljóst, hvenær ætti að draga úr gríðarlegri og óeðlilegri eignarhlutdeild ríkisins í bönkum landsins.  Hlutafjárútboð Icelandair tókst vel í haust og hlutabréf stíga almennt í verði núna, eins og þau gera venjulega á lágvaxtaskeiðum fjármagns.  Það vantar nýja kosti á markaðinn og styrkur er að nýju skrásettu fyrirtæki í Kauphöll Íslands fyrir hlutabréfamarkaðinn.  Síðast en ekki sízt er rétt, að öðru jöfnu, að innleysa þetta "sparifé" ríkisins núna, þegar fjárþörfin er brýn, því að auðvitað munu vextir hækka aftur. 

Þeir, sem ekki vilja innleysa "sparifé ríkisins" nú, ætla sér sennilega að hækka skatta á almenning og atvinnulíf til að fjármagna Kófið.  Það er mjög skammsýn ráðstöfun, því að hún hægir á efnahagsbatanum, lengir óviðunandi atvinnuleysi enn þá meir, og ástandið verður vítahringur.  Þetta er segin saga með hugmyndafræði jafnaðarmanna.  Hún virkar, eins og að míga í skóinn sinn í frosti, en veldur gríðartjóni til lengdar, enda sjónarsviðið þröngt.  Allir verða fátækari, ef jafnaðarmenn komast í aðstöðu til að gera þjóðfélagstilraunirnar, sem þá dreymir um.

Áfram með Hörð Ægisson:

"Bankakerfið í dag á ekkert sameiginlegt með því, sem féll 2008.  Stundum mætti samt halda annað, ef marka má þá, sem láta eins og ekkert hafi breytzt á tveimur áratugum.  Þannig sá efnahagsráðgjafi VR ástæðu til þess í vikunni að láta að því liggja, að hættan nú væri á, að bankinn kæmist í hendur aðþrengdra stórra fjárfesta, sem þyrftu á aukinni lánafyrirgreiðslu að halda, eins og gerzt hefði í aðdraganda bankahrunsins.  Þessi málflutningur, komandi frá fyrrverandi stjórnarmanni í Arion til margra ára, stenzt enga skoðun, enda hefur allt regluverk um virka eigendur - þeir, sem fara með 10 % eða meira - og hvað þeir mega eiga í miklum viðskiptum við banka, verið hert til muna.  Það er því ekki eftirsótt fyrir fyrirtækjasamstæður og efnameiri fjárfesta að vera stór eigandi, af því að það hamlar viðskiptaumsvifum þeirra."

 Guðrún Johnsen er og var efnahagsráðgjafi VR og í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar verkalýðsfélagið beitti sér gegn kaupum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hlutabréfum í Icelandair í fyrrahaust. Hún hefur væntanlega með ráðgjöf sinni og afstöðu valdið þessum lífeyrissjóði tjóni.  Ráðgjöf hennar á fjármálasviðinu hefur gefizt afleitlega, eins og Stefán E. Stefánsson rakti í skoðunargrein í Viðskipta Mogganum 20.01.2021:

"Vargur í véum".

Téður efnahagsráðgjafi titlar sig lektor við Kaupmannahafnarháskóla og vitnar gjarna í rannsóknir sínar þar, en aðrir virðast ekki hafa hug á að vitna í þessar rannsóknir, enda virðist lektorinn vera blindaður í baksýnisspeglinum.  SES rifjaði upp skuggalegan feril lektorsins:

"Sá er reyndar víðkunnur fyrir fyrri störf.  Nýtti m.a. aðstöðu sína vel sem starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna, ritaði bók um efnið og fór sem eldibrandur um heiminn og rægði íslenzkt stjórnkerfi og samfélag.  Sú vegferð var launuð með stjórnarsæti í Arion banka, þar sem lektorinn sat keikur í lánanefnd.  Þar var talið forsvaranlegt að lána WOW milljarða króna, og peningarnir runnu í stríðum straumum í svikamylluna svakalegu í Helguvík.  Eitt af síðustu embættisverkum núverandi starfsmanns stærsta stéttarfélags landsins var að samþykkja MISK 150 starfslokasamning við fráfarandi bankastjóra.  Þetta er sannarlega langur afrekalisti og leitt, að samtök viðskiptablaðamanna skuli ekki velja mann ársins, eins og kollegarnir á íþróttadeildinni.  Þyrfti þá ekki að taka til greina afrekalista lektorsins á vettvangi HR og HÍ."

Formaður VR opnar varla ginið án þess að saka einhverja aðila í þjóðfélaginu um samsæri gegn hagsmunum almennings og spillingu.  Þess vegna vekur  ráðning þessa lektors til ráðgjafar hjá VR furðu. Hvað skyldi það hafa verið á ferli lektorsins, sem talið var geta orðið félagsmönnum VR að gagni ? Hvað sem því líður, virðist ráðgjöf þessa lektors á sviði fjármála og fjárfestinga einfaldlega ekki vera 5 aura virði. 

Lektorinn hefur blásið sig út með hræðsluáróðri um vafasama pappíra, sem muni sitja á svikráðum við Íslandsbanka og aðra eigendur hans eftir að hafa klófest hlutafé í honum.  Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi eftir að hafa átt þátt í að lána til fjárglæfrafélagsins United Silicon og WOW-air á brauðfótum og valda þannig íslenzku viðskiptalífi tjóni.  Lektorinn mun vafalaust beita sér fyrir áframhaldandi hjásetu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar aðrir lífeyrissjóðir munu grípa tækifærið og fjárfesta í banka, sem mun láta að sér kveða í samkeppninni á íslenzka fjármálamarkaðinum, almenningi til hagsbóta. 

Skoðunargrein SES lauk með eftirfarandi hætti, og þarf ei um að binda eftir það:

"Allt er þetta þó sagnfræði, sem litlu skiptir.  Meira máli skiptir, að stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins skuli blanda sér í málið með þeim hætti, sem gat að líta í liðinni viku.  Væntanlega getur fjármálaráðherrann og Bankasýslan gengið út frá því, að sjóðurinn sitji hjá, þegar útboð í Íslandsbanka fer fram síðar á árinu.  Hætt er við, að sú hjáseta muni kosta sjóðfélaga milljarða, rétt eins og dómadagsdellan í tengslum við flugfélagið."

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Gríðarlega upplýsandi grein. Kærar þakkir. 

Ragnhildur Kolka, 23.1.2021 kl. 09:42

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gaman að frétta af þinni skoðun, Ragnhildur.  Takk fyrir. 

Bjarni Jónsson, 24.1.2021 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband