Bóluefnaklúður

Landsmenn hafa á milli annarra stórfrétta gjóað augunum á bóluefnafarsa, sem þeir læknarnir Kári Stefánsson og Þórólfur Guðnason hafa verið aðalleikendur í.  Báðir ("great minds think alike") fengu þeir þá hugmynd, þegar klúður íslenzkra ráðuneyta heilbrigðis og forsætis við útvegun bóluefna við C-19 handa þjóðinni var að komast í hámæli, að fá bandaríska lyfjarisann Pfizer til að búa til vísindalega tilraun um hjarðónæmi og afleiðingar bóluefnisins á heila þjóð með skyndibólusetningu Íslendinga.  Á skrifandi stundu er ekki ljóst, hvort Pfizer bítur á agnið.  Kári jók við dramað með því að upplýsa, að danskur umboðsaðili Pfizer á Norðurlöndunum, sem hann kallaði "Mette" (forsætisráðherra Danmerkur heitir Mette Fredriksen), hefði lekið þessu í dönsk lýðheilsuyfirvöld og væri á góðri leið með að eyðileggja hugmynd þeirra kolleganna um tilraunina á íslenzku þjóðinni með myndun ónæmis með genatækni.  Hljóðar og prúðar sátu þær hjá stöllurnar úr VG, sem aldrei hafa við viðskiptavit kenndar verið, og biðu "björgunar" úr þröngri stöðu, sem þær hafa lent í vegna eigin vanrækslu.

Morgunblaðið fjallaði um stöðu bóluefnaútvegunar ráðherranna í forystugrein 9. janúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Bóluefnaklúður ESB".

Hún hófst þannig:

"Klúður Evrópusambandsins í bólusetningarmálum blasir við.  Á miðvikudag [06.01.2021] höfðu 1,3 milljónir manna fengið fyrri bólusetninguna við kórónuveirunni af tveimur á Bretlandi, en aðeins 1,1 milljón í öllum aðildarríkjum sambandsins.  Það eru næstum 2 % Breta, en aðeins 0,2 % af íbúum ESB.

 Þetta er kaldhæðnislegt vegna þess, að þegar Bretar drifu í að samþykkja bóluefnið frá Pfizer og Biontech, fitjuðu þeir, sem fóru með þessi mál í Evrópusambandinu, upp á nefið [trýnið - innsk. BJo] og sögðu fullir vandlætingar, að Bretar væru með hroðvirkni, en ESB vandvirkni.  Leyfi fyrir lyfinu var síðan veitt með hraði, þegar gremja fór að safnast upp innan ESB yfir því að sitja eftir í startholunum."

Það stóð ekki á því, að stórmál kæmi upp, sem sýndi Bretum og öðrum ótvírætt fram á kostina við það að standa sem fullvalda ríki utan ESB.  Þar eru hvorki meira né minna en lífshagsmunir í húfi.  Bretar voru snöggir með efnisútvegun og samþykktir, enda ESB bara að teygja lopann fyrir franska Sanofi, sem verður að dómi Ursúlu von der Leyen að fá að selja ESB-löndunum jafnmikið af bóluefninu og þýzka BioNTech, en prófanir Sanofi gengu brösuglega á tímabili.   

Það er meiriháttar glapræði af hálfu heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra að reiða sig á jafnótryggt apparat og hagsmunatogið í Brüssel.  Svona gerir enginn, nema með skerta dómgreind.  Þetta er óhæfa.  Þær stöllur, ráðherrar VG, segjast hlæja mikið saman, þegar streitan eykst.  Skyldu þær hafa tekið eins og eitt hláturskast áður en þær ákváðu að leggja lífshagsmunamál Íslands í hendurnar á Ursúlu von der Leyen, lækni, og búrókrötum hennar ? Metnaðarleysið fyrir hönd Íslands er svipað hjá þeim nú og 2009, þegar þær sem ráðherrar stóðu að staðfestingu á heimild frá Alþingi til utanríkisráðherra um að senda umsókn til ESB um aðildarviðræður.  Sú skriflega beiðni hefur enn ekki verið afturkölluð, og þær munu samþykkja endurlífgun þessarar umsóknar til að innleiða Reykjavíkurlíkanið í Stjórnarráðið eftir næstu Alþingiskosningar.  

"Ekki báru þó öll ríki ESB traust til framkvæmdastjórnarinnar.  Strax í vor ákváðu Frakkar, Hollendingar, Ítalir og Þjóðverjar að grípa til sinna ráða, því að þeim fannst ganga stirðlega.  Þeir sömdu um rúmlega 400 milljón skammta bóluefnis við AstraZeneca m.a. til að þrýsta á framkvæmdastjórnina.  Þetta var harðlega gagnrýnt í Brussel, og á endanum skrifuðu leiðtogar ríkjanna fjögurra auðmjúkt afsökunarbréf fyrir að hafa rofið hina mikilvægu samstöðu gagnvart lyfjafyrirtækjunum.  

Líklegt er, að sú afsökun sitji í þeim núna.  Ljóst er, að samningamenn ESB sömdu um of lítið af bóluefni og voru það svifaseinir, sennilega af því að þeir héldu, að með því að bíða fengju þeir betri kjör, að sambandið er með þeim öftustu í afhendingarröðinni.  

Þetta sparnaðarsjónarmið mun reynast dýrkeypt, því að sóttvarnaraðgerðir kosta efnahagslífið svo miklu meira en leggja hefði þurft út fyrir dýrustu bóluefnunum, að það hefði ekki einu sinni átt að vera umhugsunarefni."

Verðmunur á dýrasta og ódýrasta bóluefninu er rúmlega 2000 ISK/skammtur.  Þótt íslenzka ríkisstjórnin hefði pantað 600 k skammta í sumar af dýrustu gerð, sem er nú reyndar tekin að berast hingað, hefði útgjaldaaukinn aðeins orðið um mrdISK 1,2 m.v. ódýrasta bóluefnið, en sú upphæð er líklega nálægt daglegum kostnaði þjóðfélagsins af Kófinu.  Hvernig mátti það vera, að heilbrigðis- og forsætisráðherra gripu ekki til ráðstafana í sumar, eins og þær höfðu fullt frelsi til að gera, þótt Ursula von der Leyen slægi á putta aðildarlanda ESB, sem sáu í hvað stefndi ?

Vinstri flokkarnir hérlendis eru veikir fyrir því að ganga búrókrötum stórríkisins á hönd, þótt öll rök hnígi í gagnstæða átt, þegar hagsmunir Íslands eru annars vegar.

"Í grein í nýjasta tölublaði tímaritsins The Spectator segir, að staðreyndirnar tali sínu máli.

"Satt að segja er bólusetningarherferðin að verða mesta stórslys ESB frá evrukreppunni 2010-2011", segir í blaðinu.  "Á meðan hún gerði aðeins 3 lönd gjaldþrota og dæmdi heila kynslóð Grikkja til fátæktar, mun þetta leiða til dauða tugþúsunda manna.""

Vegna sérstakra og íþyngjandi varnaraðgerða fyrir þá, sem líklegastir eru til að fara halloka fyrir SARS-CoV-2 veirunni á Íslandi og vinnuferla í heilbrigðisgeiranum, sem yfirleitt hafa gefizt vel, þarf ekki að vænta margra dauðsfalla vegna dauðyflisháttar þeirra, sem ábyrgir eru fyrir bóluefnaútvegun hingað við C-19, þó einhverra, en íþyngjandi sóttvarnarráðstafanir munu dragast á langinn með grafalvarlegum afleiðingum fyrir opinbera sjóði, fyrirtækin og heimilin.  Það er ófyrirgefanlegt sleifarlag, sem því veldur, og rangur hugsunarháttur.

"Í greininni segir, að bóluefnahneykslið sé að breytast í endurtekningu á evrukreppunni.  ESB setji sér markmið, en það sé vonlaust, að því takist að koma sér upp bolmagni til að ná þeim.  Það hafi komið sér upp sameiginlegum gjaldmiðli án þess að vera með neitt af því gangverki, sem þurfti, til að það gengi upp.  Nú hafi það búið til stefnu í heilbrigðismálum án þess að hafa sjóði eða sérþekkingu til að standa við sitt."

Síðan þetta var skrifað í The Spectator hefur sigið á ógæfuhliðina hjá ESB í bóluefnamálum.  Það hefur komið á daginn, að grundvallaratriðið, jöfn dreifing bóluefna innan ESB, stenzt ekki dóm reynslunnar.  Dreifingin er mjög ójöfn eftir löndum, og ekki nóg með það, heldur er heildarútvegunin á eftir áætlun. Þetta mun færa Sambandið á suðupunkt. Ísland er áhorfandi og þolandi, en getur engin áhrif haft.  Sprikl Kára og Þórólfs er líklegt til að hleypa illu blóði í Brüssel búrókrata.  Eftir sitja Íslendingar "með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða um einfeldningsleg mistök.

Að lokum stóð þetta í þessari forystugrein Morgunblaðsins:

"Bóluefnamálið hefur afhjúpað getuleysi, fúsk og vanmátt ESB.  Fögur fyrirheit kunna að hafa hljómað vel í upphafi, en íslenzkir ráðamenn hefðu átt að kveikja á því, að í óefni stefndi, miklu fyrr og grípa til sinna ráða.  Hér ætti að vera fyrir hendi næg þekking og sambönd til að gæta hagsmuna Íslands. Til að bjarga málum hafa Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, reynt að semja við Pfizer um að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar í rannsóknarskyni.  Í gær [08.01.2021] sagði Kári, að útlit væri fyrir, að það myndi ekki ganga.  Haft var eftir honum á mbl.is í gær, að þar hefði ekki verið leitað eftir sambærilegum samningi og Ísrael hefði gert, en sá mikli fjöldi bóluefnaskammta, sem Ísraelar hefðu tryggt sér frá Pfizer, sýndi, hvað það gæti verið "mikilvægt að geta hagað sér, eins og sjálfstæð þjóð".  Þann lærdóm má óhikað draga af því að fylgja ESB í bóluefnamálum."

 Allt er þar satt og rétt hjá Morgunblaðinu.  Því má bæta við, að þann 17.01.2021 hafði líklega um fimmtungur Ísraela hlotið fyrri sprautuna af Pfizer bóluefninu, og þá hafði fjöldi nýrra smita þegar helmingazt m.v. vikurnar á undan.  Gagnsemi bólusetninga virðist þess vegna koma fram löngu áður en 60 % þjóðar hefur verið fullnaðarbólusettur. 

Hins vegar berast líka fréttir frá Evrópu og Bandaríkjunum um mannslát af völdum þessara bólusetninga, en þar eiga í hlut aldraðir og hrumir einstaklingar, eins og við þekkjum héðan frá Íslandi einnig.  Það orkar tvímælis að bólusetja þá, en þol aldraðra og hrumra gagnvart tiltækum bóluefnum er óþekkt, því að þessir hópar voru nánast ekki í rannsóknarhópum bóluefnafyrirtækjanna, sem markaðsleyfi hafa fengið á Vesturlöndum.  

Það má taka undir það, að íslenzk yfirvöld hefðu átt að kveikja á því miklu fyrr, að "getuleysi, fúsk og vanmátt[ur]" einkenndu vinnubrögð ESB við útvegun bóluefnis frá fyrstu stund.  Þessi lýsing á vinnubrögðum ESB á þess vegna líka við vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda.  Tilraunir Kára og Þórólfs til að búa til tilraun með alla íslenzku þjóðina með bóluefni, sem er alveg nýtt af nálinni og hefur í raun ófullnægjandi prófunarskýrslur að baki umsóknar sinnar um markaðsaðgang, eru illa ígrundaðar og skortir jafnvel siðlegan grundvöll, enda virðast þær hafa strandað. 

Staksteinar Morgunblaðsins 11. janúar 2021 bera fyrirsögnina: 

"Árangur og aðgerðaleysi".

Þeir hófust þannig:

"Brezka blaðið The Spectator sagði í liðinni viku, að svo mikil mistök hefðu verið gerð þar í landi vegna kórónuveirufaraldursins, að auðvelt væri að gleyma því, sem vel hefði verið gert.  "Sú staðreynd, að Bretland var fyrsta landið, sem byrjaði almenna bólusetningu - og var í þessari viku það fyrsta, sem notaði 2 bóluefni - gerðist ekki fyrir tilviljun.  Þetta tókst vegna þess, að ríkisstjórnin hafði þá framsýni að panta fyrirfram stóra skammta af líklegu bóluefni og vegna þess, að brezk lyfjayfirvöld unnu hratt og af skilvirkni við að meta gögn um prófanir á þessum bóluefnum", sagði The Spectator."

Viðkomandi íslenzk stjórnvöld, þ.e. heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnayfirvöld, höfðu ekki til að bera sömu framsýni og frumkvæði fyrir hönd þjóðar sinnar og hin brezku.  Það er skálkaskjól þeirra að kenna um getuleysi Lyfjastofnunar til að leggja sjálfstætt mat á prófunargögn lyfjaframleiðendanna.  Þar er ekki um nein geimvísindi að ræða, heldur þekkta aðferðafræði með óþekkt efni.  Auk þess mátti alveg eins styðjast við lyfjaeftirlit Bandaríkjanna og Bretlands eins og Lyfjastofnun ESB.  Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu batt ekki hendur Íslendinga að þessu sinni.  Bólusetning á Bretlandi gengur nú u.þ.b. tvöfalt hraðar en á Íslandi og í Ísrael tæplega tífalt hraðar. 

Téðum Staksteinum lauk þannig:

"Aðgerðir, eða aðgerðaleysi, heilbrigðisyfirvalda til að útvega bóluefni, auk óskýrra svara um, hvernig að því var staðið, og á hverju landsmenn mega eiga von, skyggir þó mjög á árangurinn af sóttvörnum.  Ekki sízt, þar sem hætt er við meira smitandi veiruafbrigði, að sóttin breiði úr sér á ný, þar til umfangsmikil bólusetning hefur náðst."

Það er alveg sama, hvar borið er niður um stjórnarhætti Svandísar Svavarsdóttur.  Þeir eru ekki til eftirbreytni, en markast af illa ígrunduðum ráðstöfunum.  Hún hefur nú lagt fyrir Alþingi frumvarp til sóttvarnalaga, af því að málsmetandi lögmenn hafa efazt um lögmæti sóttvarnaaðgerða hennar, t.d. gagnvart atvinnufrelsi og frelsisskerðingu á landamærunum.  Frumvarpið er vanhugsað.  Í stað þess að tilgreina, hvers konar aðstæður mega vera fyrir hendi, til að heilbrigðisráðherra hafi heimild til að gefa út frelsisskerðandi reglugerðir, er frítt mat lagt í hendur sóttvarnalækni, einmitt eins og reyndin hefur verið í þessum faraldri, og hefur þótt ófullnægjandi.  Ef sóttvarnalæknir telur ástæðu til að grípa til tiltekinna aðgerða, má heilbrigðisráðherra skella þeim á með reglugerð samkvæmt frumvarpinu.  Reynslan af vinnubrögðum sóttvarnalæknis í C-19 faraldrinum sýnir, að með lögum verður að binda hendur hans. 

Alls konar fíflagangur hefur komið upp við framkvæmd sóttvarna.  Þótt vonandi sé ekki hægt að rekja það alla leið til sóttvarnalæknis eða almannavarna, verður hér einn fáránleikinn, sem höfundur þessa pistils rakst á í gær, sunnudaginn 17. janúar 2021, tíundaður.  Vegna COVID-19 er nú þeim tilmælum beint til útivistarfólks við Vífilsstaðavatn í Garðabæ, að það gangi réttsælis í kringum vatnið.  Búið er að setja upp nokkur skilti við göngustíginn þessu til áréttingar.  Hér skal fullyrða, að þessi tilmæli hafi nákvæmlega ekkert sóttvarnarlegt gildi.  Í samfélaginu sprettur hins vegar upp sjúkleg forræðishyggja, sérstaklega þegar stjórnað er af geðþótta og alið á ástæðulausum ótta.  

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég vona svo sannarlega að þú hafir gengið rangsælis Bjarni embarassed

Þorsteinn Siglaugsson, 18.1.2021 kl. 17:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég kem vanalega gangandi að Vífilsstaðavatni suð-vestanverðu, og þess vegna liggur beinna við að ganga rangsælis um það.  Hugmyndin er líklega sú, að smithætta myndist við að mætast.  Það er tóm vitleysa.  Það er meiri smithætta, þegar gönguhraðinn er misjafn, sem er í flestum tilvikum, og ganga þarf að og framfyrir fólk.  Í anda forsjárhyggjunnar þarf að bæta hér um betur og skipa fólki að ganga jafnhratt.  Þá mun minnsti hraðinn verða ráðandi og myndast röð, þar sem ólíklegt er, að 2 m verði virtir í öllum tilvikum.  Þannig tekst með duttlungafullum inngripum yfirvalda að hámarka smithættuna á þessari gönguleið.  Sóttvarnarráðstafanir yfirvalda snúast oft upp í andhverfu sína.  Það er brýnt að koma einhverju viti í sóttvarnalagafrumvarpið og tilgreina þar við hvers konar aðstæður tilgreindar frelsisskerðingar mega fara fram.  

Mig langaði til að vita, hversu mörgum ég myndi mæta á hringferðinni um vatnið á röngu róli m.v. vilja yfirvaldanna, og þess vegna lagði ég lykkju á leið mína og gekk réttsælis.  Ég mætti ótrúlega mörgum, og við höfðum fulla stjórn á fjarlægðinni, og ég fullyrði, að smithættan var engin.  Verður kannski grímuskylda á vinsælum gönguleiðum ?

Bjarni Jónsson, 18.1.2021 kl. 18:33

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Grímuskylda er auðvitað mjög góð hugmynd. Og sprittbrúsar með 100 metra millibili. Svo mætti jafnframt fyrirskipa fólki að ganga upp í vindinn, eða undan vindi - hvorugt skiptir auðvitað máli.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.1.2021 kl. 20:47

4 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Það var skríið að sjá að bóluefnabissnessfyrirtækið auglýsti að Ísland hefði keypt lítið af ópruvaða bóluefninu, eða eins og vanalega,sýnt varúð.

Þá ruku allir til og heimtuðu bóluefnið, og skömmuðu ráðherrana.

Stjórnin neyddist til að kaupa fullt af óreyndu bóluefni, sem ýmsir segja að sé ekki bóluefni.

Svokallað bóluefni sé genabreyting, undir stjórn þeirra sem segja að það þurfi að fækka á fólkinu niðir í 500 milljónir.

Þeir sem hugsa afturá bak  hafa kallað í margar aldir að fólkið væri of margt.

Þá hafa einhverjir skaparar fundið lausnir, með innsæinu.

Afturábak hugsarar, hafa aðeins smá þekkingu aftur í tímann, pínulítinn þrístrending, og af þvi er mikið um misskilning og þá rangt.

Ég er einn af afturábak hugsana idiodunum. Ef til vill smá innsæi einstaka sinnum.

Er eitthvað að marka þá sem hafa komið í veg fyrir að það mætti nota snýkjudýra lyfin, til dæmis, Ivermectin, HCQ og þá strax fyrirfram, áður en men veikjast.

Einhver sagði að þeir myndu aðeins stilla tækin frá 45 rið í 35 rið. Þá mældist lítið, en ef til vill réttara.

slóð

(Læknirinn grætur, fær ekki að lækna fólkið.Jg) koma gjörgæslu eru að deyja, næstum ómögulegt að lækna þá. Meðferð straks og einkenni sjást, er lykilatriði. (Jafnvel fá ekki veikina ef taka, paraside, sníkjudýralyfin strax. Til dæmis, Ivermectin, HCQ

23.12.2020 | 01:48 

 000

Þarna virðist hent út upplýsingum um 243 stökkbreytingar á Íslandi. 

Er stökkbreyting á Bretlandi merkilegri?

000

slóð

Við viljum ekki fara of fljótt í að nota bóluefni og ekki þvinga það á Bandaríkjamenn þegar bóluefnið er ÓÞARFI, og í öðru lagi þurfum við að tryggja að við sleppum ekki neinum af þeim ransóknum sem sanna að það sé öruggt.

28.11.2020 | 20:27

000

28.11.2020 | 21:12

slóð

Hér kom YouTube og lokaði sjóninu sem ég var að kynna, en einhver tók allt út úr bloginu sem útskýrði að ekki þyrfti að bólusetja, sem væri hættulegt lækning væri til, ísl. rannsókn 243 stökkbreytingar, dugar bólusetning í tvo mánuði?

Allt um íslenskar stökkbreytingar horfið og engine sérstök meining í Iceland textanum.

Ég gat með forriti, breytt slóð sem var á mörgum stöðum í minni gömlu heimasíðu, á netinu, með gömul setning verði ný setning, og allar samskonar viðeigandi setningar urðu nýjar

000

…. In Singapore only 12 people died during the whole pandemic.

Iceland, well that’s not possible according to what we’re being told in mainstream media but that’s reality. Anyone can look it up. You can even look at the Johns Hopkins COVID website and you’ll see those numbers. They’re hidden there but I’m pointing them out because the people in Texas need to hear good news. In Dallas they need to hear good news, and I have good news.

Egilssstaðir, 19.01.2021   Jónas Gunnlaugsson 

Jónas Gunnlaugsson, 19.1.2021 kl. 01:19

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Fljótfærnisleg fyrirmæli og tilmæli geta dregið langan slóða á eftir sér og haft sorglegan endi.  Yfirvöldin verða að íhuga vandlega hvert og eitt skref, sem þau taka og skerða frelsi fólks með einhverjum hætti, þótt það sé fullfrískt.  Sóttvarnayfirvöld og almannavarnir hafa engan veginn vandað sig nægilega í þessum C-19 faraldri.  Þeim hefði verið nær að áhættugreina eigin fyrirmæli og tilmæli áður en þau voru látin á þrykk út ganga.  Halda yfirvöldin, að mannréttindaákvæði Stjórnarskrárinnar séu bara til skrauts ?

Bjarni Jónsson, 19.1.2021 kl. 18:17

6 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka umfjöllunina all, að velta upp hugmyndunum. 

Gangi þér allt í haginn. 

Egilsstaðir, 22.01.2021   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 22.1.2021 kl. 03:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband