15.2.2021 | 14:14
Dýrkeyptur slaki í orkunotkun
Loðnan kom á miðin á öðru Kófsári. Íslenzkar útgerðir fá aðeins í sinn hlut rúmlega helming aflamarksins samkvæmt ráðleggingu Hafró og reglugerð sjávarútvegsráðherra vegna skiptisamninga við aðrar þjóðir á þeirra miðum, en áætluð aflaverðmæti til Íslands eru samt áætluð tæplega mrdISK 20. Þetta er mjög vel þegin búbót í efnahagskreppu Kófsins. Markaðir sjávarútvegs og laxeldis hafa látið undan síga í Kófinu, svo að ekki veitir þjóðarbúinu af þessum tekjuauka m.v. fyrri 2 ár.
Málmmarkaðir hafa aftur á móti hjarnað við síðan síðsumars 2020, og útlitið er gott. Merki um viðsnúning á heimsvísu er jarðolíuverðið, sem hefur hækkað úr 40 USD/tunna í 60 USD/tunna á um hálfu ári. Málmar í bílarafgeyma hafa hækkað gríðarlega í verði síðasta hálfa árið og álverðið hefur hækkað um 20 % á um hálfu ári, og á álmörkuðum eru væntingar nú þannig, að álframleiðendur með samkeppnishæfa og trausta raforkusamninga eru farnir að auka framleiðslu sína, en hinir sitja á sér. Álverð stefnir nú á 2100 USD/t. Hið síðar nefnda á enn við um ISAL í Straumsvík, en í dag, 15.02.2021 var kunngert, að samið hefði verið um viðauka við raforkusamning ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar, sem gilda á til 2036. Þar með getur starfsemin í Straumsvík aftur komizt í eðlilegt horf, og verður verksmiðjan vonandi sett á full afköst í þeim mæli, sem markaðir leyfa.
Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, hefur í Fréttablaðinu vakið athygli á þjóðhagslegu mikilvægi ISAL og undirstöðuhlutverki fyrirtækisins fyrir vinnumarkað og verkefnastöðu ýmissa fyrirtækja í bæjarfélaginu, sem þýðir, að í Straumsvík er aðaltekjulind bæjarsjóðs, beint og óbeint. Þetta er eðlilegt, þar sem um 600 manns eru stöðugt að vinna fyrir ISAL, og þar af búa líklega um 60 % í Hafnarfirði. Hafnfirðingar, fyrirtæki þar og bæjarsjóðurinn, svo og aðrir starfsmenn og ríkissjóður, munu nú njóta góðs af því, þegar öll ker verða sett í rekstur og kerstraumur hækkaður í Straumsvík. Viðbótar útflutningstekjur geta numið hálfri loðnuvertíð, sbr hér að ofan, og hver veit, nema fjárfestingar, sem setið hafa á hakanum í Straumsvík, verði nú settar í gang.
Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Ragnhildur Sverrisdóttir, var send fram á ritvöllinn til að svara fyrstu grein Ágústar Bjarna, og gerði það með sinni útgáfu af orðhengilshætti, sem engu gat bætt við upplýsingagildi umfjöllunarinnar. Ágúst Bjarni svaraði þessum skætingi þó kurteislega í Fréttablaðinu, 5. febrúar 2021, með neðangreindu. Blaðurfulltrúinn hélt áfram á braut hártogana og orðhengilsháttar í Fréttablaðinu 10.02.2021. Það er slæmt, að sveitarfélög landsins skuli þurfa að búa við framkomu ríkisfyrirtækis af þessu tagi. Nú verður vitnað í grein formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar:
""Hér eru aðeins 3 rangfærslur leiðréttar af mörgum ...""
"Þá segir hún mjög algengt, að raforkuverð í orkusölusamningum sé tengt við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum og vitnar í gagnaveitu, sem er ekki opinber. Staðreyndin er hins vegar sú, að í þeim sömu samanburðarlöndum og nefnd eru hér að ofan, er ekki notazt við tengingar við neyzluverðsvísitölu."
Þessi krafa forstjóra Landsvirkjunar um að tengja raforkuverð til álvers í Evrópu við vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), á sér enga þekkta hliðstæðu, enda er hún fáheyrð. Öll meginviðskipti með aðdrætti til álvera eiga sér stað í bandaríkjadölum, USD, og afurðirnar eru seldar í sömu mynt. Með því að tengja raforkuverð við álverð, eins og var í fyrri samningi Landsvirkjunar og ISAL og er í flestum öðrum samningum álveranna hérlendis við sína raforkubirgja, fæst þessi sama verðtrygging til lengdar, en þó er tryggt, að ekki verði raforkuverðshækkun á tímum lækkandi afurðaverðs álveranna vegna verðbólgu í BNA. Ef vel tekst til um slíka afurðaverðstengingu, verður hún báðum samningsaðilum til hagsbóta, enda hefur hún nú verið tekin inn í téðan samningsviðauka, þótt leifar verðbólgutengingar muni áfram verða fyrir hendi samkvæmt tilkynningu.
Áhyggjur hafnfirzka bæjarfulltrúans lutu hins vegar að afleiðingum þess fyrir Hafnarfjörð og þjóðarbúið, ef þessar samningaviðræður hefðu farið út um þúfur. Kaldranalegar kveðjur til Hafnfirðinga úr háhýsinu við Háaleitisbraut eru ekki til að bæta ástandið. Ef samningaviðræðurnar hefðu ekki endað með samkomulagi um nýjan raforkusamning, hefði það orðið meiri háttar áfall fyrir afkomu fjölda manns og áfall fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana, ekki sízt í SV-kjördæmi. ISAL hefði þá ekki átt sér lífvænlega framtíð, og rekstur fyrirtækisins hefði bráðlega farið í þrot, eins og hjá öðrum orkukræfum verksmiðjum, sem búa við ósveigjanlega orkubirgja. Samkomulagið er þess vegna fagnaðarefni, en öll kurl um tildrög þess eru enn ekki komin til grafar. Það er þó eðlilegt, að kjósendur í SV-kjördæmi og aðrir landsmenn fái fregnir af því.
Það þarf ekki að orðlengja það, að þröngsýn og ofstopafull verðlagsstefna, eins og Landsvirkjun hefur ástundað síðan 2010 í skjóli raunverulegrar einokunar á Íslandi, er þjóðhagslega skaðleg. Hún hefur átt verulegan þátt í samdrætti í orkusölu fyrirtækisins, sem gæti numið 8 %/ár, og hún leiðir til minni eða jafnvel engra fjárfestinga hjá orkukaupendunum, og nýir fjárfestar halda að sér höndum. Fyrir vikið ríkir stöðnun á sviði orkueftirspurnar og nýrrar orkuöflunar á tíma, þegar landinu ríður á að ná fram hagvexti eftir djúpa kreppu. Landsvirkjun hefur verið dragbítur á efnahagslega viðreisn landsins, og sú staða er til þess fallin að hafa neikvæðar pólitískar afleiðingar á kjörfylgi ríkisstjórnarflokkanna. Hvers vegna eru áhyggjur þingmanna af þessu máli ekki látnar í ljós með áberandi hætti ?
8 % samdráttur í sölu rafmagns hjá Landsvirkjun m.v. orkuvinnslugetu fyrirtækisins nemur um 1,2 TWh/ár. Á heildsöluverði jafngildir það tekjutapi fyrirtækisins upp á rúmlega 4 mrdISK/ár, sem sennilega jafngildir um 12 mrdISK/ár minni verðmætasköpun á ári í landinu en ella. Sú þrákelkni ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar að laga sig ekki að alþjóðlegri orkuverðsþróun, þegar hún passar ekki við hugmyndir forystu fyrirtækisins í fílabeinsturni sínum, hefur orðið að alvarlegu efnahagsvandamáli á Íslandi.
Bæjarfulltrúinn reit:
"Til að fá svar [frá Landsvirkjun - innsk. BJo] við spurningu minni, þá spyr ég aftur: Hefur Ísland efni á því að tapa yfir 60 milljörðum [ISK] í gjaldeyristekjum, sem leiða til u.þ.b. 25 mrdISK/ár beins ávinnings fyrir þjóðarbúið ?"
Ef tekið er mið af Orkupakka 3 frá Evrópusambandinu varðar orkufyrirtæki ekkert um þjóðarhag. Þau eiga bara að verðleggja sína vöru (flokkun ESB) m.v. að hámarka sinn arð. Á einokunarmarkaði blasir við til hvers slíkt leiðir. Þess vegna leiðir þessi stefna í ógöngur á Íslandi. Fyrirtækið missir viðskipti, og viðskiptavinirnir draga saman seglin eða leggja upp laupana, af því að þeir komast ekki í viðskipti annars staðar. Þetta mun leiða til tortímingar framleiðslustarfsemi á Íslandi, ef ríkisvaldið, eigandi bróðurpartsins af raforkufyrirtækjum landsins, grípur ekki almennt í taumana. Það líður að því, að þingmenn verði krafðir svara við því, hvers vegna þeir hafi látið þessa ósvinnu viðgangast. Það er heldur ekki mikill bragur að því, ef Landsvirkjun verður nú að leggja nýtt samkomulag við ISAL/Rio Tinto fyrir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA til samþykktar.
Í lokin skrifaði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar þetta:
"Ég vona og trúi, að aðilar séu með augun á boltanum og finni farsæla lausn, sem tryggi starfsemi og starfsumhverfi álversins í Straumsvík. Staðreyndin er sú, að mér er það mikið hjartans mál að vernda innviði, störf og framfærslu Hafnfirðinga - samfélaginu hér og landinu öllu til heilla."
Fyrir þessi hlýju orð er hellt úr hlandkönnu yfir bæjarfulltrúann úr háhýsinu við Háaleitisbraut. Það er bæði kaldrifjað og vanhugsað framferði af hálfu einokunarfélags í eigu ríkisins. Landsvirkjun er ekki ríki í ríkinu. Fyrsti þingmaður Kragans ætti að láta stjórnarformann Landsvirkjunar vita, að svona gera menn ekki. Hann er í góðri aðstöðu til þess.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.