Öryggismenning

Stundum hefur verið leiddur hugur að því á þessu vefsetri, að kostir beinna erlendra fjárfestinga hérlendis hafi ekki einvörðungu falizt í atvinnusköpun án beinna fjárskuldbindinga í áhætturekstri fyrir Íslendinga, heldur einnig verið fólgnir í innleiðingu nýrrar tækniþekkingar og nýrra stjórnarhátta, sem hafa markað framfaraspor, dreifzt um þjóðfélagið, aukið framleiðni, bætt nýtingu, dregið úr sóun og þannig stuðlað að sjálfbærni og velferð. Þetta er alþjóðasamvinna, sem verður í askana látin hérlendis, en ekkert froðusnakk.  

Eitt af þessu er innleiðing s.k. öryggismenningar með smáum og stórum áhættugreiningum, þar sem starfsmönnum er innrætt að íhuga, hvað úrskeiðis getur farið við framkvæmd verks og breyta verklagi til að auka öryggið. Hér um bil slys og óhöpp eru skráð og krufin.  Slys eru krufin til mergjar með rótargreiningum til að komast til botns i orsökum og orsakirnar í kjölfarið fjarlægðar eða dregið úr þeim, eins og kostur er. Oft eru þær blanda ógætilegrar hegðunar, bilunar í verkfærum eða búnaði, og gölluðum verkferlum m.v. aðstæður.  Lykilatriði er að draga réttar ályktanir, kunngera þær og gera úrbætur strax í kjölfarið, sem auka öryggið á vinnustað.

Líklega varð álverið í Straumsvík, ISAL, fyrst hérlendra iðjuvera og stórra framleiðslufyrirtækja til að innleiða stjórnarhætti, sem kenna má við öryggismenningu, og leiddi það til mikilla breytinga í verksmiðjunni og fækkunar óhappa og slysa af öllu tagi.  Fjarverustundum fækkaði fyrir vikið og ýmis kostnaður lækkaði, þótt innleiðingarkostnaður sé nokkur. 

Kerfisbundnar aðferðir af þessu tagi til að auka öryggið alveg frá hönnunarstigi til rekstrar eiga upptök sín í kjarnorkuverum og í fluggeiranum.  Ingvar Tryggvason, formaður Öryggisnefndar FÍA, skrifaði gagnmerka grein um öryggismenningu í flugrekstri í Morgunblaðið 1. febrúar 2021 undir heitinu:

"Flugöryggi samtímans - sanngirnismenning".

Þar gerði hann grein fyrir hugtakinu "sanngirnismenning" og öðrum undirstöðuatriðum öryggisstjórnunar í flugrekstri:

"Á blaði er sanngirnismenning aðeins hugmyndafræði og uppskrift að atferli.  Til þess að menningin verði til, þurfa stjórnendur að tileinka sér atferlið og starfsmenn að upplifa menninguna á eigin skinni.  

Þetta er hugmyndafræði, sem stjórnendur þurfa að tileinka sér og getur í einhverjum tilvikum kallað á róttæka hugarfarsbreytingu.  Ef vel á að vera, þurfa stjórnendur að hafa haldbæra þekkingu á kenningum James Reasons um eðli mannlegra mistaka.  

Þegar við fjöllum um leiðtogahlutverkið í flugiðnaðinum, leitum við gjarnan í smiðju Jóhanns Inga Gunnarssonar.  Jóhann hefur komizt þannig að orði um stjórnendur: "Góður stjórnandi þekkir sínar sterku og veiku hliðar.  Lélegur stjórnandi fæst ekki til að horfast í augu við veikleika sína og mistök.""

Það er gríðarlega mikilvægt, að þau, sem fara með skipulagsmál og hönnun mannvirkja, haldi öryggismenningu í heiðri með því að haga skipulagi og hönnun þannig, að slysum og óhöppum fækki. Þetta á í ríkum mæli við sveitarstjórnarfólk. Það er ekki svo, að borgarstjórn höfuðborgarinnar hafi sýnt gott fordæmi á þessari öld, heldur þveröfugt.  Núverandi meirihluti borgarstjórnar og nokkur kjörtímabil á undan þessu hafa gjörsamlega hundsað hugtakið öryggismenning, þegar kemur að samgöngum í borginni og samgöngum við hana á láði og í lofti.  Núverandi meirihlutaflokkar í borginni hafa sýnt með verkum sínum og verkleysi, að þeir taka ekkert tillit til öryggismála við stefnumótun um skipulag gatna. Nýjasta dæmið eru frumdrög að fyrsta legg Borgarlínu.  Á Suðurlandsbraut verður fækkað akreinum fyrir almenna umferð til að koma tómum risavögnum fyrir á sérrein.  Í þessari hugmyndafræði er engin vitglóra. Þeir, sem þarna ráða ferðinni, eru að hægja á umferðinni, lengja ferðatímann, auka mengun og draga úr öryggi yfir 95 % vegfarenda.  Rauðu Khmerarnir eru gengnir aftur. 

Alvarlegustu og tíðustu slysin verða á fjölförnum gatnamótum, þar sem umferðarleiðir skerast.  Það er öllum borgarskipuleggjendum ljóst, hvað bezt er að gera til að auka öryggið á slíkum gatnamótum.  Það er að reisa mislæg gatnamót.  Sú lausn hefur þann viðbótar kost í för með sér, að afkastageta gatnamótanna stóreykst, og umferðarflæðið getur þess vegna vaxið.  Lausnin sparar vegfarendum tíma og dregur úr orkunotkun, mengun og koltvíildislosun.

  Fjárhagshlið málsins er í sumum tilvikum þannig, að með mislægum gatnamótum sparast andvirði fjárfestingarinnar á innan við einu ári, þegar allt er með talið.  Borgarstjórnarmeirihluti, sem leggst gegn mislægum gatnamótum almennt sem lausn á vandamálunum, á ekkert skilið annað en falleinkunn.  Hann er svo aftarlega á merinni, illa upplýstur og/eða fordómafullur, að hann er óhæfur til að stjórna borginni.

Þegar þessi sami meirihluti heldur því fram, að Borgarlína sé lausn á vandamálunum, sem hér voru tíunduð, fer hann með fleipur.  Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, hefur sýnt fram á, að að öðru jöfnu verður minnkun bílaumferðar ekki merkjanleg með Borgarlínu.  Heildarferðatími strætófarþeganna styttist nánast ekkert með Borgarlínu, ef umferðarteppurnar verða leystar með mislægum gatnamótum og fjölgun akreina, þar sem þörf er á og aðstæður leyfa. Að forgangsraða opinberum fjármunum í þágu Borgarlínu er þvert á anda öryggismenningar og er í raun gjörsamlega siðlaust.

Vægt til orða tekið hefur þessi og fyrri borgarstjórnarmeirihluti þvælzt fyrir ákvörðun um Sundabraut.  Sú framkvæmd er af sama toga og mislægu gatnamótin hvað kosti varðar, mun fækka slysum og bæta umferðarflæðið.  Borgarstjórnarmeirihlutinn eyðilagði þann kost vísvitandi, sem Vegagerðin mælti með, með úthlutun byggingarlóða á veghelgunarreit.  Núverandi meirihluti þykist vilja jarðgöng, en þau eru langdýrasti kosturinn og háð mestri framkvæmdaóvissu.  Hvers vegna ekki að sættast þá úr því, sem komið er, á botngöng ?  Þau þurfa ekki að trufla hafnarstarfsemi, og kostnaður er talinn samkeppnishæfur við brú. 

Meðhöndlun borgarstjórnarmeirihlutans, þessa og fyrri, á Reykjavíkurflugvelli er í fullkominni andstöðu við öryggismenningu.  Það er eins og borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar o.fl. sé í skæruhernaði við fólkið í landinu.  Samfylkingin rekur svo stæka afturhaldsstefnu í samgöngumálum, að kenna má stefnuna við hestakerruna.

Ingvar Tryggvason, formaður Öryggisnefndar FÍA, skrifaði grein í Morgunblaðið 9. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Flugöryggi samtímans - Reykjavíkurflugvöllur".

Grein þessi er hófsöm, málefnaleg og fræðandi fyrir almenning, þótt greina megi, að höfundi blöskri aðför meirihluta borgarstjórnar að Reykjavíkurflugvelli og þar með að flugöryggi innanlands og einnig að öryggi millilandavéla, sem missa mikilvægan varaflugvöll, ef forneskja og fáfræði borgarstjórnarmeirihlutans ná fram að ganga í Vatnsmýrinni.

Greinin hófst þannig:

"Þrátt fyrir að vera eitt af mikilvægustu samgöngumannvirkjum þjóðarinnar hefur Reykjavíkurflugvöllur verið þrætuepli um langa hríð. Á Alþingi er til meðferðar þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.  Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sendi umsögn, þar sem gerð var grein fyrir þeirri afstöðu nefndarinnar, að flugvöllinn þurfi að láta í friði, á meðan hann er í rekstri.  Áréttað var, að ærið tilefni væri til þess að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, því [að] borgarstjórn Reykjavíkur hefur unnið að því árum saman að leggja flugvöllinn niður, flugbraut fyrir flugbraut.  Ýmsar kannanir hafa verið gerðar síðustu ár, sem hafa leitt hug landsmanna í ljós, en þjóðaratkvæðagreiðsla hefur töluvert þyngra vægi og er líklegri til að koma borgaryfirvöldum í skilning um þá gríðarmiklu almannahagsmuni, sem fólgnir eru í Reykjavíkurflugvelli."

Sú aðferðarfræði borgarstjórnarmeirihluta undanfarinn áratug að leggja flugvöllinn niður flugbraut fyrir flugbraut er ábyrgðarlausari, hugsunarlausari og ósvífnari en tárum taki.  Hún stingur algerlega í stúf við allt, sem skyldleika á við öryggismenningu.  Aðeins forpokuðu og staurblindu afturhaldi getur dottið önnur eins vitleysa í hug.  Kjósendur verða að kippa hleranum undan undirmálsfólki í valdastöðum, sem rekur skæruhernað gegn öryggi umferðar í lofti og á láði. Það verður fróðlegt að fylgjast með umfjöllun þessarar þingsályktunartillögu, úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu, ef af verður, og afleiðingum hennar.  Þá verður hægt að greina sauðina frá höfrunum.

Hvað hefur formaður ÖFÍA að skrifa um þessa molbúalegu aðferðarfræði ?: 

"Það eru vissulega til dæmi um það, að samfélög hafa lagt niður gamla flugvelli, en þá hefur fyrst nýr flugvöllur verið byggður og starfsemi komið á legg þar áður en þeim gamla er lokað.  Það er með öllu óábyrgt að slíta flugvöll í sundur, flugbraut eftir flugbraut, eða þrengja svo að honum, að starfsemin torveldist, eins og borgaryfirvöld vinna að.  Á Reykjavíkurflugvelli er mjög fjölbreytt starfsemi, sem þyrfti að finna stað á öðrum og/eða nýjum flugvelli, áður en Reykjavíkurflugvelli yrði mögulega lokað."

Hegðun borgaryfirvalda Reykjavíkur gagnvart öryggismálum á 21. öldinni er sennilega einsdæmi.  Þau eru heimsviðundur, sem færa öryggismál fljúgandi og akandi umferðar í sæti mjög neðarlega á forgangslistanum.  Það er til háborinnar skammar.  Þegar formaður Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna tjáir sig um ábyrgðarlaust framferði þessara borgaryfirvalda með þeim hætti, sem hann gerir, er ljóst, að hann fjallar um gáleysislegt atferli, sem setur öryggi fjölda fólks í uppnám. Þar með bregðast borgaryfirvöld frumskyldum sínum gagnvart íbúunum.  

Nýlegt dæmi um, hvernig borgaryfirvöld sitja við sinn keip og þrengja að starfsemi flugvallarins með hættulegum hætti, birtist í frétt Morgunblaðsins 11. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Ný byggð hefur áhrif á flugöryggi".

Hún hófst þannig:

"Konunglega hollenzka loftferðamiðstöðin  (NLR) telur, að nýtt íbúðahverfi, sem áformað er, að rísi í Skerjafirði, í jaðri Reykjavíkurvallar, hafi svo mikil áhrif á vindafar á vellinum, að flugöryggi minnki og sé jafnvel stefnt í hættu.

Reykjavíkurborg vinnur að skipulagi nýrrar þéttrar og allt að 4-5 hæða hárrar byggðar í Skerjafirði.  Hafa hagsmunaaðilar m.a. kvartað undan því, að skipulagsvaldið sé notað til þess að sneiða af flugvallarsvæðinu, hamla viðhaldi og uppbyggingu og þrengja þannig að vellinum og starfsemi þar.  Það samrýmist illa samningum borgarinnar við ríkisvaldið um rekstraröryggi flugvallarins, og telja þeir áformin um Nýja-Skerjafjörð lið í þeirri viðleitni borgarinnar."

Hvar annars staðar í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, tíðkast það, að borgaryfirvöld leggi sig í líma við að draga svo úr öryggi flugstarfsemi landsins, að voðinn sé vís ?  Borgarstjóri Samfylkingarinnar ásamt sínum pólitísku meðreiðarsveinum stundar skæruhernað gegn öryggishagsmunum almennings á Íslandi. 

Næst vék formaður Öryggisnefndar FÍA að sjúkrafluginu, sem gegnir ómetanlega mikilvægu hlutverki fyrir landsmenn alla vegna staðsetningar Háskólasjúkrahússins og miðlægs skipulags heilbrigðismála á landinu.  Borgarstjórinn hefur af fullkomnu þekkingarleysi slengt því fram, að þá þjónustu megi í miklu meiri mæli inna af hendi með þyrlum.  Það er túður út í loftið, eins og ráða má af eftirfarandi skrifum Ingvars Tryggvasonar:

"Burðarásinn í sjúkraflugi á Íslandi er Beechcraft King Air-skrúfuþotan, hraðfleyg [og] vel búin jafnþrýsti- og afísingarbúnaði, sem auðveldlega má fljúga yfir hálendi Íslands í nánast öllum veðrum. Þyrlur munu aldrei geta leyst öll þau verkefni, sem skrúfuþota ræður við.  

Þó svo að íbúar landsbyggðarinnar þurfi sannarlega að reiða sig meira á sjúkraflugið, þá verður að hafa það hugfast, að sjúkraflugið snýst ekki um landsbyggðina versus höfuðborgarsvæðið.  Íbúi höfuðborgarsvæðisins getur lent í lífsháska úti á landi og þurft að reiða sig á sjúkraflug, eins og dæmin sanna.  Viðfangsefnið er því meiriháttar öryggismál, sem varðar alla íbúa landsins og vandséð, hvaða hagsmunir trompa þessa almannahagsmuni."

Fólk með þokkalega almenna siðgæðisvitund m.v. okkar tíma og óbrenglaða dómgreind hlýtur að geta tekið heilshugar undir, að engin af falsrökum Samfylkingar og meðreiðarflokka hennar í borgarstjórn "trompa þessa almannahagsmuni". 

Þá víkur Ingvar að hlutverki Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug til Keflavíkurflugvallar.  Hér verður að lokum stuttlega vitnað til þess kafla greinar hans í Morgunblaðinu:

"Í skýrslu samráðsnefndar samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2007 segir á bls. 23, að innanlandsflug verði ekki flutt til Keflavíkurflugvallar öðruvísi en varaflugvöllur verði byggður á Suðvesturlandi. Um þetta orsakasamhengi hefur ríkt ríkur skilningur á meðal þeirra, sem fjallað hafa um þetta viðfangsefni." 

Reynslan af Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Samfylkingarinnar og öðrum í meirihluta borgarstjórnar er sú, að þau halda ekki gerða samninga.  Blekið er ekki fyrr þornað á undirskriftum þeirra en fréttir berast af ráðstöfunum, sem stinga í stúf við og eru brot á samkomulagi, sem við þau hefur verið gert.  Þessi staða mála vitnar um siðblindu.  Að kjósa slíkt fólk í áhrifastöður er slys.  Slíkt má ekki endurtaka hvað eftir annað, því að slíkt fólk misfer með völd sín, eins og tilvitnuð grein formanns ÖFÍA vitnar um. 

 Miklabraut

 Sólknúin flugvél

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband