Vindmylluriddarar í Noregi og á Íslandi

Bæði Ísland og Noregur eiga nóg afl fólgið í vatnsföllum sínum til að anna orkuþörf sinni um fyrirsjáanlega framtíð, þótt þjóðirnar útrými notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa.  Íslendingar búa þar að auki að jarðvarma til húshitunar og raforkuvinnslu.  Það dregur að vísu tímabundið og staðbundið úr honum við notkun, svo að sífellt þarf að sækja á ný mið, en aukið vatnsrennsli vegna hlýnandi loftslags veitir hins vegar færi á meiri orkuvinnslu í þegar virkjuðum ám en upphaflega var reiknað með.

Þessar gerðir virkjana eru sjálfbærar og afturkræfar, ef rétt og nútímalega er staðið að hönnun og rekstri þeirra.  Það er þess vegna skrýtið, þegar upp kemur ásókn í þessum löndum í að virkja vindinn, sem hingað til hefur verið neyðarbrauð þeirra, sem ekki hafa úr ofangreindum orkulindum að spila.  Þjóðverjar hófu að virkja vindinn af miklum móði, eftir að Sambandsþingið í Berlín hafði samþykkt stefnu græningja, sem kanzlarinn Merkel gerði að sinni árið 2011 eftir Fukushima-slysið, að leggja niður öll kjarnorkuver sín fyrir árslok 2022. Vindorkan var niðurgreidd, sem veitti henni forskot inn á markaðinn og skekkti samkeppnisstöðuna.  Gasorkuver verða að standa ónotuð tilbúin að taka við álaginu, ef vinda lægir.  Þetta veldur óhagkvæmni innan orkugeirans. 

Óánægja og mótmæli gegn vindmyllurekstri og vindmylluuppsetningu hafa vaxið í Þýzkalandi og í allri norðanverðri Evrópu á síðustu árum, þegar ljóst hefur orðið, hversu lítill umhverfislegur ávinningur er af vindmyllunum m.v. fórnirnar. Kolefnisfótspor þeirra er stórt. Það eru ekki bara ofangreindir ókostir við vindmyllurnar, heldur geta þær verið hættulegar flugvélum í grennd við flugvelli og stórhættulegar svifflugmönnum í grennd við athafnasvæði þeirra.  Um það fjallaði frétt í Fréttablaðinu 30. desember 2020:

"Svifflugmenn telja vindmyllur á Mosfellsheiði stórhættulegar".

Fréttin hófst þannig:

"Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði Zephyr Iceland ehf á Mosfellsheiði skapar stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug að sögn stjórnar Svifflugfélags Íslands.  

Zephyr Iceland ehf, sem er dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS, hyggst byggja allt að 200 MW vindorkugarð á Mosfellsheiði.  Rætt er um 30 vindmyllur, sem yrðu 150-200 m háar með spaða í hæstu stöðu.

Meðal þeirra, sem sendu inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar er stjórn Svifflugfélags Íslands (SFÍ).  Segir stjórnin fyrirhugaða staðsetningu vindorkugarðsins vera í miðju skilgreinds æfingasvæðis lítilla loftfara og steinsnar frá skilgreindu svæði svifflugs á Sandskeiði og Bláfjöllum ásamt Sandskeiðsflugvelli og mikilvægu svifflugssvæði við Hengil.

"Ljóst er, að öll truflun á flugskilyrðum og takmörkun á flugfrelsi, sem kann að stafa af fyrirhuguðu vindorkuveri, mun skerða stórkostlega eða eyðileggja möguleika á svæðinu [til flugæfinga], ef af byggingu vindorkugarðsins verður.  Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði skapar einnig stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug", segir í athugasemdum stjórnar Svifflugfélagsins.  

Matsáætlun fyrir vindorkugarðinn nái á engan hátt til mats á neikvæðum áhrifum á veðurfarslegar forsendur til svifflugs og möguleika félagsins á að halda áfram starfsemi á Sandskeiði.

"Enn fremur eru gerðar alvarlegar athugasemdir vegna þeirrar hættu, sem vindorkugarður á þessum stað myndi valda flugumferð, og vegna þess rasks, sem garðurinn myndi valda á starfsemi flugíþrótta á Íslandi í víðu samhengi", segir í (umsögn] stjórn[ar] SFÍ.  Mörg atriði, sem tengist flugi, séu órannsökuð, t.d. áhrif loftiða og ókyrrðar, sem vindmyllurnar geti skapað, eins og erlendar rannsóknir gefi til kynna."

Það er ljóst af þessu, að Zephyr Iceland ehf hefur kastað höndunum til undirbúnings og staðarvals fyrir stórt athafnasvæði, sem fyrirtækið girnist.  Við staðarvalið er flugöryggi hundsað og ekki vílað fyrir sér að eyðileggja athafnasvæði flugíþróttafólks í grennd við höfuðborgarsvæðið. Þessi vinnubrögð vitna um ósvífni og tillitsleysi, og slíkum á ekki að líðast að smeygja löppinni á ísmeygilegan hátt á milli stafns og hurðar, þegar almannahagsmunir eru annars vegar.  

Um miðjan febrúar 2021 varð allsherjar straumleysi í Texasríki í Bandaríkjunum, sem varði í nokkra daga.  Ástæðan var óvenjulegt vetrarveður á þessum slóðum með -10°C til -20°C og snjókomu, sem leiddi til rafmagnsleysis og vatnsleysis hjá um 120 M manns í Suðurríkjum Bandaríkjanna.  Í Texas sjá vindmyllur íbúunum fyrir um 20 % orkuþarfar á ári, og þær stöðvuðust.  Aflþörfin óx í kuldakastinu, því að húsnæði er í mörgum tilvikum hitað upp með rafmagni.  Gasorkuver, sem áttu að vera bakhjarl vindmyllanna, fóru ekki í gang vegna frosins vökva í gaslögnum.  Við þetta allt saman hrundi raforkukerfi Texas, og það fór ekki í gang fyrr en fór að hlýna aftur.   Þetta var skelfilegur atburður, sem sýnir hræðilega veikleika vindmylla í raforkukerfi. 

Annar enn alvarlegri atburður m.t.t. mannfjölda var næstum orðinn í Evrópu 8. janúar 2021.  Þá var þar kalt, og lygndi var um álfuna vestanverða.  Smám saman lækkaði tíðnin ískyggilega um álfuna vestanverða, en á Balkanskaga og á Grikklandi hækkaði hún, enda var þar blástur og varð þar offramboð rafmagns.  Flutningslínur á milli þessara svæða rofnuðu af þessum sökum, og í vestanverðri álfunni blasti svartnætti allsherjar straumleysis ("black-out") við.  Undirtíðnivarnir rufu þá stórt álag í Frakklandi og á Ítalíu frá kerfinu, svo að jafnvægi komst á.  Þetta sýnir, að í tilraun Evrópumanna til að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis er teflt á tæpasta vað með þeim afleiðingum, að fréttum af hér um bil straumleysi, afmörkuðu straumleysi (brown-out) og straumleysi (black-out) mun fjölga.  Vindmyllur svíkja, þegar mest ríður á. Þær eru ekki einvörðungu háðar vindafari, heldur líka viðkvæmar fyrir ísingu.  

Um miðjan febrúar 2021 barst viðvörun frá Noregi til Íslands, reist á norskri harmsögu um viðskipti landeigenda við vindmyllufyrirtæki:

"Ágætu vinir og frændur á Íslandi !

Þetta er kveðja og viðvörun frá eyju, sem er mun minni en Ísland, Háramarseyju við Noreg. Háramarsey er hluti af fallegum eyjaklasa úti fyrir vesturströnd Noregs í sveitarfélaginu Ålesund í fylkinu Möre og Romsdal.  Á eyjunni búa tæplega 600 manns.

Norskt fyrirtæki, Zephyr, lítur nú girndaraugum til Íslands.  Fyrirtækið vill reisa vindmyllur á Íslandi og lætur sem sú ósk sé liður í orkuskiptunum í iðnaði og raforkuvinnslu.  Við, sem búum á Háramarsey og höfum vofandi vindmyllur yfir okkur, lítum hvorki á starfsemi þessa fyrirtækis sem græna né umhverfisvæna, heldur sem mengandi og eyðileggjandi og keyrða áfram af gróðahvötum.  

Fyrst af öllu viljum við vara landeigendur við heimsóknum fulltrúa fyrirtækisins, sem lofa gulli og grænni framtíð !  Fyrirtækið hefur duglega sölumenn, það mega þeir eiga.  Þeir vilja sölsa undir sig jarðeignir ykkar fyrir iðnaðarstarfsemi sína.  Krafa er um, að allir samningar séu leynilegir, - svo leynilegir, að hvorki má ræða þá við ættingja, nágranna né aðra.  Undirritaður samningur er bindandi án möguleika á endurskoðun eða uppsögn.  Grunnt er svo á hótuninni um, að sért þú ekki fús til að afsala þér landareign þinni, hafi fyrirtækið ýmis ráð með að ná henni af þér eftir öðrum leiðum. 

Fyrirtækið Zephyr segist styðja opna og lýðræðislega viðskiptahætti.  Í reynd vill fyrirtækið sem minnst afskipti almennings og umhverfissinna.  Fyrirtækið dregur upp glansmynd af áætlunum sínum, og þeir eru flinkir við að aðlaga og túlka sér í vil gagnrýnar skýrslur, - þar sem bent er á áhættuna fyrir náttúru og heilsu almennings, svo að henta megi eigin uppbyggingaráformum. Þeir hafa reiknað út, að hávaðinn frá vindmylluspöðunum sé rétt undir leyfilegum mörkum [hér er mikilvægt að sýna allt tíðnirófið í dB - innsk. BJo] - en fari þeir yfir mörkin við raunmælingar, kaupa þeir sig bókstaflega frá vandanum - án þess að skammast sín. Þeir senda atvinnumenn í faginu til að sannfæra sveitarstjórnarmenn um að veita undanþágur og staðbundnar aðlaganir.  Fyrirtækið lofar atvinnutækifærum, tekjum og hlunnindum, - en loforðin eru svo loðin, að þau er auðvelt að svíkja, og það er gert glottandi.  

Mótmæli fólk, skaltu ekki ganga að því gruflandi, að Zephyr kann tökin á fjölmiðlunum.  Vel launaðir kynningarfulltrúar (almannatenglar) og fjölmiðlaráðgjafar standa fyrirtækinu til boða.  Þeir lýsa fyrirtækinu sem framsæknu og framsýnu, sem boðbera heilbrigðrar skynsemi og umhverfisverndar, en mótmælendur, hins vegar, séu á valdi tilfinninganna og séu haldnir móðursýki.  Því er haldið fram, að vindmylluandstæðingar séu samfélagslega hættulegir og að ekki beri að taka þá alvarlega.

Kæru nágrannar og frændur.  Við biðjum ykkur þess lengstra orða að vera vel á varðbergi.  Vaktið verndun fugla- og annars dýralífs, náttúruna og lýðheilsu. 

Áttið ykkur á kaldrifjuðum fyrirætlunum vindmylluiðnaðarins.  Gerið kröfu um, að stjórnvöld hlýði á almenning.  Krefjizt þess að mega ráða yfir eigin landi - refjalaust !

Með kveðjum frá íbúum Háramarseyju.

Þessi kveðja frá íbúum lítillar eyjar við Noregsstrendur, sem orðið hafa fyrir ásælni frekra og ósvífinna vindmyllumanna, á sennilega erindi til fleiri hérlandsmanna en þeirra, sem átt hafa viðskipti við Zephyr Iceland, enda mun þessi kveðja hafa verið send til flestra stjórnmálamanna á Íslandi. Hvað gera þeir við þessa einlægu og alvarlegu viðvörun ? 

 

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Mjög áhugaverður pistill, takk fyrir.  Þetta minnir svolítið á Don Quixote, þetta brölt windmilluriddaranna. 

En að öllu gamni sleppt, þá er athyglisvert, staðsetningarnar sem þessir menn velja. Á Hellisheið (í fluglínu smáflugvéla frá Reykjavík og Sandskeiði) og í Dölunum fyrir vestan. Þar er mikið fuglalíf og haförninn mjög áberandi.  Kannski er veðráttan ekki heldur hagstæð fyrir slíkan rekstur hérlendis.

See the source image

Birgir Loftsson, 25.2.2021 kl. 09:25

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir góða athugasemd og skemmtilega mynd af gömlum kunningja.  Ég hygg, að téðir vindmylluriddarar séu með fjarlægð frá næstu aðveitustöð Landsnets í huga, þegar þeir velja sér staðsetningu.  Samkvæmt Orkupakka 4 frá ESB er það reyndar þannig, að fjarlægðin á ekki að verða kostnaðarbyrði fyrir orkufyrirtækið, en hún er það núna, og OP#4 gildir enn ekki á Íslandi og mun vonandi aldrei taka gildi.  Landsvirkjun gefur upp 15 % hærri nýtingartíma fyrir tilraunavindmyllur sínar á Hafinu ofan Búrfells en almennt er erlendis, en það eru örugglega veðurfarsleg áhættuatriði líka, eins og sterkar vindhviður, sanddbyljir og ísing.  

Bjarni Jónsson, 25.2.2021 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband