8.3.2021 | 14:04
Lýst eftir stefnumálum stjórnmálanna
Undanfarnar vikur hefur kjósendum birzt metnaður allmargra stjórnmálamanna í flestum stjórnmálaflokkanna til að leiða lista flokka sinna eða verma eitt af efstu sætunum. Sagt er, að áhugi á stjórnmálum fari nú vaxandi og sömuleiðis traust almennings til Alþingis. Hvorugt ber að lasta, en það er holur hljómur í þessu öllu, því að stefnumál frambjóðendanna eru óljós. Það er slæmt. Auðvitað skipta persónulegir eiginleikar frambjóðandans máli, en hann verður að marka áherzluatriði sín, svo að kjósendur hafi raunverulegt val.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, hefur um langt árabil fylgzt náið með stjórnmálum, innanlands og utan. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið 23. febrúar 2021, þar sem kenndi ýmissa grasa, m.a. þeirra, sem blekbóndi þessa vefseturs gerir að umræðuefni hér að ofan:
"Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í meginmálum ?".
Þetta er brýn spurning, og frambjóðendur í prófkjörum og aðrir frambjóðendur verða að gera hreint fyrir sínum dyrum, þegar þeir fara að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hverju þeir ætla að beita sér, og hverju þeir ætla að vinna gegn á næsta kjörtímabili. Hjörleifur orðaði þetta þannig:
"Flokkarnir hérlendis eru í óðaönn að undirbúa framboð, hver með sínum hætti, og tíðindi af vettvangi þeirra fylla fréttatíma. Minna fer enn sem komið er fyrir málefnaáherzlum af hálfu flokkanna, og formleg starfsemi þeirra hefur eflaust veikzt og riðlazt í skugga veirunnar. Sem áhorfandi að formlegu stjórnmálastarfi síðastliðin 8 ár finnst mér skorta mjög á, að umræðan snúist um málefni og meginlínur fremur en einstaka leikendur á pólitíska sviðinu. Er þar með ekki lítið gert úr hlutverki og frammistöðu einstakra stjórnmálamanna, jafnt á þingi og í ríkisstjórnum."
Við erum enn með samfélagstakmarkanir Kófsins í gildi, þótt engin smit utan sóttkvíar hafi greinzt í um 5 vikur vikur þangað til frétt barst af tveimur smitum um síðustu helgi. Það hefur komið í ljós erlendis, að fyrir C-19 pestina leikur mikill vafi á gagnsemi strangra samkomutakmarkana og samfélagslegra lokana (lockdowns). Samanburður á milli ríkja með ólíkar baráttuaðferðir gegn C-19 gefur lítið sem ekkert gagn af þeim til kynna, en samfélagslegur kostnaður er óyggjandi. Er rétt að beina núverandi fyrirkomulagi ákvarðanatöku um samkomutakmarkanir og samfélagslegar lokanir í lýðræðislegri farveg en nú er, svo að fleiri sjónarmið um lýðheilsu og efnahag fái að njóta sín en sóttvarnarsjónarmið eins manns ? Skref í þá átt er t.d., að nýtt sóttvarnaráð geri tillögu til heilbrigðisráðherra, og sé það t.d. skipað landlækni (formanni), sóttvarnalækni, lögmanni, og fulltrúa frá SA og ASÍ, alls 5 manns. Atkvæðagreiðsla skeri úr um ágreining. Auk sóttvarnarlaga verði þingsályktanir Alþingis leiðisnúrur sóttvarnaráðs og ráðherra. Meiri líkur eru þá á, að sóttvarnaraðgerðir verði innan marka sóttvarnarlaga og stjórnsýslulaga. Það mun hafa áhrif til minnkunar heildartjóns þjóðfélagsins af sóttinni m.v. núverandi "einstefnu" fyrirkomulag.
Hvernig á að vinna bug á gríðarlegum fjárlagahalla, og hver á ríkisfjármálastefna næsta kjörtímabils að verða ?
Atvinnuleysið vex enn. Hvernig á að minnka það úr um 12 % og niður fyrir 3 % á næsta kjörtímabili ?
Hvernig á að greiða götu atvinnusköpunar á næsta kjörtímabili, t.d. á sviði fiskeldis, landbúnaðar og iðnaðar ? Er heppilegt í þessu sambandi að ýta undir orkuverðshækkanir með tiltölulega háum arðsemiskröfum á hendur opinberum orkufyrirtækjum, eða er e.t.v. heppilegra að styrkja og efla atvinnureksturinn í landinu með því, að hið opinbera stilli arðsemiskröfum mjög í hóf (haldi þeim í lágmarki) og geri aðrar ráðstafanir, t.d. varðandi flutnings- og dreifingarkostnað, til að lágmarka orkukostnað ?
Hvernig stendur t.d. á því, að Landsvirkjun hefur ekki tekið tilboði Norðuráls um að hverfa frá Nord Pool-raforkuverði og taka upp meðalorkuverð til stóriðju, eins og það var á 4. ársfjórðungi 2020 á Íslandi, með álverðstengingu ? Slíkt mundi skapa fjölda starfa á Grundartanga í bráð og lengd og fjárfestingu um allt að mrdISK 15, sem hafizt gæti strax.
Er æskilegt fyrir Íslendinga að innleiða orkukauphöll, þar sem raforkuverðið ræðst af framboði og eftirspurn. Texasbúar urðu illilega fyrir neikvæðum afleiðingum þess um miðjan febrúar 2021, þegar mikill orkuskortur varð í ríkinu. Orkuverðið til neytenda með slíka samninga hækkaði þá úr 0,12 USD/kWh (15 ISK/kWh) í 9,0 USD/kWh (1170 ISK/kWh), þ.e. verðið 75 faldaðist. Hérlendis getur slíkur uppboðsmarkaður með raforku ekki virkað með einn ríkjandi risa á orkumarkaðinum.
Eru stjórnmálamenn þá fúsir til að kljúfa Landsvirkjun í a.m.k. tvennt til að freista þess að fá fram vísi að frjálsum orkumarkaði ? Hérlendis getur hæglega orðið raforkuskortur, og virkjunarfyrirtækin hafa framboðið í hendi sér og þar með verð á markaði. Mikil tregða er til að hefja virkjun, sem eitthvað munar um á markaðinum, og enginn er ábyrgur gagnvart almenningi um afhendingaröryggi raforku. Það stefnir í óefni.
Hver er afstaða frambjóðenda til Alþingis til 4. orkupakka Evrópusambandsins, s.k. Hreinorkupakka ESB ? Með innleiðingu hans í heild sinni mundi Ísland verða niðurnjörvað í Orkusamband ESB með svo róttækum hætti, að fullveldi landsins í orkumálum yrði algerlega liðin tíð, og ekki verður betur séð en stjórnarskrá Íslands yrði algerlega fótum troðin með slíkri innlimun í Orkusamband ESB.
Hjörleifur hélt áfram:
"Í fróðlegri grein Arnars Þórs Jónssonar, héraðsdómara, í Morgunblaðinu 13. febrúar síðastliðinn undir fyrirsögninni Kreppa lýðræðisins ? vekur hann athygli á, að þjóðin hefur með EES-samningnum gefið frá sér mikilvægt stjórntæki í eigin málum. Arnar Þór spyr m.a.:
"Getum við gengið að því vísu, að Íslendingum sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana en lýðræðislega kjörinna handhafa íslenzks löggjafarvalds og ráðherra, sem bera ábyrgð gagnvart þingi og þjóð ? Getur örríki, eins og Ísland, ekki tryggt hagsmuni sína í alþjóðlegu samstarfi án þess að fórna fullveldi sínu ?" -
Nú er viðurkennt, að samþykkt laga um EES-samninginn á Alþingi 1993 hafi gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar á þeim tíma og átt síðan þátt í þeirri fjárhagslegu spilaborg, sem leiddi til hrunsins 2008. Við inngöngu Íslands í EES var því haldið fram, að Ísland gæti hafnað reglum, sem samrýmast ekki þjóðarhagsmunum. Þrátt fyrir þetta samþykkti Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, eins og einnig norska Stórþingið, þriðja orkupakka ESB og þær tilskipanir, sem hann byggist á. Norsku samtökin Nei til EU töldu, eins og fleiri, að þurft hefði 3/4 þingheims [3/4 viðstaddra þingmanna. Viðstaddir verða að nema a.m.k. 2/3 allra þingmanna - innsk. BJo], til að slík samþykkt stæðist ákvæði norsku stjórnarskrárinnar. Nei til EU reka nú mál fyrir hæstarétti Noregs þar að lútandi. Úrskurðar réttarins í málinu er að vænta innan tíðar."
Ef vel á að vera, geta frambjóðendur ekki leitt hjá sér þau mikilvægu málefni, sem Arnar Þór Jónsson og Hjörleifur Guttormsson þarna vekja máls á. Síðasta dæmið um aftaníossahátt íslenzkra stjórnmála- og embættismanna gagnvart Evrópusambandinu (ESB) er útvegun bóluefnis við C-19. Það er ekki gott til þess að vita, að þeir, sem eiga að gæta hagsmuna Íslands, hafa engan metnað í þá veru, ef þeir geta komið verkinu yfir á einhvern annan. Þar með bregðast þeir væntingum þeirra, sem vilja, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi bæði vilja og getu til að halda fullveldi landsins á lofti og vinni í anda þess, að fullveldið sé notadrjúgt og meira en orðin tóm.
Það hefðu átt að hringja aðvörunarbjöllur í Stjórnarráðinu um sólstöðubil í fyrra, þegar forsjálar þjóðir á borð við Ísraela, Breta og Bandaríkjamenn, voru að ganga frá samningum við bóluefnaframleiðendur, en hvorki gekk né rak í samningaviðræðum ESB við þá.
Nú er líklegt, að allir fullorðnir Ísraelar, sem það kjósa, verði fullbólusettir fyrir apríllok 2021 og að hjarðónæmi náist á Bretlandi og í Bandaríkjunum jafnvel í maí 2021, en það hillir ekki undir það á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, vegna bóluefnaklúðurs framkvæmdastjórnar ESB. Eins og staðan er núna, mega Íslendingar ekki taka gild C-19 ónæmisvottorð, gefin út utan EES. Það þýðir, að við getum ekki tekið á móti bólusettum Bretum og Bandaríkjamönnum, hvað þá þeim, sem náð hafa sér af C-19 veikindum, nema með skimunum og sóttkví. Þetta nær engri átt. Sjálfstæði okkar til að ráða málum okkar á skynsamlegan og heiðarlegan hátt sjálf er stórlega skert með mjög svo íþyngjandi aðild að EES, þar sem ESB mótar stefnu, og Ísland er ekki aðili að þeim ákvörðunum.
Valkosturinn við þessa EES-aðild er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB. Það kann að verða pólitískur grundvöllur fyrir samningaviðræðum EFTA um slíkan fríverzlunarsamning eftir þingkosningar í Noregi og á Íslandi í haust. Hvaða afstöðu hafa frambjóðendur til slíkra uppstokkana ?
Arnar Þór Jónsson áréttaði reyndar afstöðu sína í Morgunblaðsgrein 25. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:
"Kjarnaofnar og hjólaskýli".
"Ég tel ekki, að þjóðin hafi með EES-samningnum gefið frá sér mikilvæg stjórntæki í eigin málum, heldur að meirihluti Alþingis hafi við innleiðingu þriðja orkupakka ESB sleppt höndunum af umræddum stjórntækjum með því að misvirða í framkvæmd þá fyrirvara, sem settir voru í EES-samninginn af hálfu þjóðarinnar - og voru raunar forsenda þess, að Íslendingar gerðust aðilar að EES-samstarfinu.
Hjörleifur á þakkir skildar fyrir grein sína að öðru leyti, og þá ekki sízt fyrir að draga athygli að því, hvernig staðið var að innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi, en mál um það efni bíður nú úrlausnar í Hæstarétti Noregs. [Kveðinn var upp dómur 1. marz 2021 - innsk. BJo.] Ástæða er einnig til að þakka ritstjóra Morgunblaðsins fyrir þétt aðhald gagnvart Alþingi í þessu tilliti, sbr nú síðast leiðara Morgunblaðsins 17. febrúar sl., þar sem varað var við því, að "glannaleg framganga veiklyndra stjórnmálamanna höggvi ekki á mikilvægasta þráðinn", þ.e. hinn lýðræðislega þráð, sem tengir borgarana við valdið og á að tryggja, að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart borgurunum."
Margir þeirra Alþingismanna, sem greiddu götu Þriðja orkupakkans (OP#3) inn í lagasafn Íslendinga, leita nú eftir áframhaldandi stuðningi flokksmanna sinna. Þeir þurfa að svara kjósendum sínum því, hvers vegna þeir létu hjá líða að grípa til stjórntækjanna, sem í EES-samninginum eru, og hafna þannig að staðfesta gjörðir Sameiginlegu EES-nefndarinnar varðandi OP#3. Ein af skuldbindingunum með innleiðingu OP#3 er að taka upp markaðskerfi ESB fyrir raforku, sem er uppboðskerfi, sem í vetur hefur leitt til mikilla verðhækkana á raforku í kuldakasti í vetur á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð. Eru þingmannsefnin hlynnt því, að stofnað verði til uppboðskerfis á raforku á Íslandi með þeim verðsveiflum, sem slíkt mun hafa í för með sér ?
Fyrrnefndur dómur í Hæstarétti Noregs í máli Nei til EU gegn ríkinu þess efnis, að Stórþingið hefði ekki viðhaft stjórnarskrárbundna aðferð við atkvæðagreiðslu um mál, sem varða fullveldisafsal til stofnana, þar sem Noregur á ekki fulla aðild, í tilviki atkvæðagreiðslunnar um innleiðingu Orkupakka 3 í norska lagasafnið í marz 2018, féll á þá lund, að héraðsdómi (Tingretten i Oslo) bæri að taka kærumál samtakanna til efnislegrar meðferðar. Þetta var sigur fyrir NtEu, því að ríkislögmaðurinn hafði krafizt frávísunar málsins frá dómi og héraðsdómur orðið við því.
Nú mun taka við málarekstur í dómskerfi Noregs, sem endar aftur í Hæstarétti árið 2022. Þangað til er mjög óviðeigandi að fjalla um arftaka OP#3, Hreinorkupakkann, á vegum EFTA, eins og ekkert hafi í skorizt. Ef NtEU vinnur sitt mál í dómskerfi Noregs, þá er OP#3 algerlega í lausu lofti í Noregi, því að þá verður að bera hann upp til atkvæða í Stórþinginu á ný, og þá verður krafizt stuðnings 3/4 viðstaddra þingmanna, svo að OP#3 haldi lagagildi sínu. Þessi atkvæðagreiðsla mun fara fram að öllum líkindum á næsta kjörtímabili. Talið er, að andstæðingum innleiðingar orkulöggjafar ESB í lagasafn Noregs muni vaxa fiskur um hrygg í kosningum til Stórþingsins í september 2021, svo að OP#3 verður sennilega felldur þar við þessar aðstæður. Þá fellur hann líka úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein. Að svo komnu ættu íslenzkir þingmenn og ráðherrar að beita sér fyrir því, að fastanefnd EFTA, sem haft hefur Hreinorkupakkann til umfjöllunar að undanförnu, geri hlé á undirbúningi sínum að viðræðum við ESB um málið, þar til málið er til lykta leitt í Noregi, og tilkynni ESB um þá málsmeðferð.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frambjóðendur ættu líka að þurfa að gera grein fyrir afstöðu sinni til hvaða hælisleitendur þeir telji að eigi EKKI að fá hæli á Íslandi. Sumir telja að allir sem sækja um eigi að fá hæli og það er þá afstaða, en lagflestir slá úr og í með tilvísun í mannúðaraðstæður og annað án þess að koma með neinar tillögur um hverju ætti að breyta í lögunum.
Grímur Kjartansson, 9.3.2021 kl. 13:23
Sæll Bjarni
Fyrir síðustu kosningar voru stefnumál stjórnarflokkanna allra þriggja nokkuð samhljóma varðandi samskipti við esb, reyndar eina stefnumálið sem batt þessa ólíku flokka. Við sáum hversu vel þeir stóðu saman í að svíkja það stefnumál í afgreiðslu á op3.
Það er því tilgangslítið að fá stefnumál stjórnmálanna fram rétt fyrir kosningar, þau verða eins og kjósendur vilja heyra. Meira máli skiptir að skoða hverjir stóðu við þau loforð er þeir gáfu kjósendum fyrir síðustu kosningar, á kjörtímabilinu og hafa það í huga í kjörklefanum.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 10.3.2021 kl. 08:16
Afgreiðsla OP3 fór að mestu fram fyrir luktum dyrum og meira eða minna fákunnandi embættismenn létu Norðmenn í Fastanefnd EFTA og Sameiginlegu EES-nefndinni draga sig á asnaeyrunum. Nú er öldin önnur, allt uppi á borðum, róstur í Noregi á frumstigum málsins og kosningar í vændum. Ekki vanmeta, að vissir varnaglar fengust hér inn við innleiðingu OP3. Baráttan hafði bæði bein og óbein jákvæð áhrif.
Bjarni Jónsson, 12.3.2021 kl. 11:06
Blessaður bjarni!
Liðið sem að situr Alþingi núna munar nú ekki mikið um að brjóta nokkra VARNAGLA!!!
Óskar Kristinsson, 13.3.2021 kl. 10:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.