3.4.2021 | 15:29
Fullveldið birtist í mörgum myndum
Þann 24. marz 2021 var haldinn aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál - FSUF í Valhöll. Þar var kjörinn formaður Jón Magnússon, hrl. Margt fleira fór þar fram, og voru m.a. haldnar 3 ræður, sem fylgja fundargerðinni og getur að líta í viðhengi þessa pistils. Vert er að benda sérstaklega á ræðu Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns, sem lýsti margbreytilegum birtingarmyndum fullveldis, aðallega tengdum atvinnulífinu. Allt var þar satt og rétt.
Því verður heldur ekki neitað, að ein af skyldum fullvalda ríkis er að útvega þegnum sínum bóluefni með sjálfstæðum samningum við viðurkennda birgja eftir þörfum. Að ná hjarðónæmi í heimsfaraldri er heilsufarslega og efnahagslega mikilvægt. Að útvista þetta verkefni hjá ríkjasambandi, þar sem landið á ekki aðild, er ótrúleg áhættusækni og bæði lágkúruleg og bíræfin hugmynd.
Reynslan af því að geta nákvæmlega engin áhrif haft á samningana um bóluefnin er líka ömurleg. Svona hugmynd verður aðeins til hjá vanmetakindum, og það er alvarlegt veikleikamerki, að ríkisstjórnin skyldi vera svo lítilla sanda og sæva að gefa þessi mikilvægu mál frá sér með því að samþykkja þessi ósköp. Engum þarf þó að koma á óvart metnaðarleysi vinstri grænna í þjóðfrelsisefnum, þegar reynslan frá 2009-2013 er höfð í huga. Það verður þó að svipta hulunni af því, hvaðan þessi tillaga kom, og hvernig og hvers vegna hún var samþykkt. Var gerð bókun við þessa samþykkt í ríkisstjórn ?
Ef þessi ósköp hafa runnið ljúflega niður um kokið á öllum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá er greinilega ekki vanþörf á að skerpa á fullveldisbaráttunni innan þess flokks, sem stofnaður var til að berjast fyrir fullu sjálfstæði landsins frá gamla sambandsríkinu (nýlenduherrunum) á grundvelli viðskiptafrelsis, atvinnufrelsis og einkaframtaks, allt í anda Jóns Sigurðssonar, forseta. Hvar er metnaðurinn nú ? Að dinglast þæg aftan í stórríki Evrópu, eins og Viðreisn hefur nú undirstrikað, að hún vill.
Morgunblaðið hefur verið iðið við að benda á undirmálsvinnubrögð Evrópusambandsins við bóluefnaútvegun og afar gagnrýnið á framgöngu íslenzku ríkisstjórnarinnar í bóluefnamálum gegn C-19 og er það vel, enda í raun um stórpólitískt mál að ræða, sem varðar gríðarlega hagsmuni. Forystugreinin 23. marz 2021 var helguð þessu máli og hét:
"ESB þolir ekki dagsljósið eða nær að flýja það".
"En ESB var enginn Trump [í bóluefnasamningum] og hörmung uppmáluð var að fylgjast með vinnubrögðunum þar. Án þess að segja frá því opinberlega gekk íslenzka ríkisstjórnin í ESB í bóluefnamálum, rétt eins og hún svipti íslenzka þjóð fullveldi í raforkumálum. [Þarna eru 2 fullveldismál dregin fram í dagsljósið og varða bæði sjálfstæðismenn og landsmenn alla miklu - innsk. BJo.] Það hefur ekki verið upplýst, af hverju ríkisstjórnin álpaðist í barnaskap aftan í pilsfald ESB í bóluefnamálum. Vanmáttugar þjóðir, þegar innlimaðar og komast hvergi, hafa hins vegar afsakanir, þótt dapurlegar séu.
Embættismenn hér fara létt með veika þriggja flokka stjórn, sem er sjálfri sér sundurþykk og telur sig geta falið það með því að breiða yfir öll átakaefni. Embættismennirnir eru fyrir löngu gengnir í ESB, eins og sást í Icesave og orkupakkanum. Forsætisráðherrann hefur í tvígang sagt opinberlega, að "auðvitað gætu Íslendingar tekið frumkvæðið í bóluefnamálum, þrátt fyrir að hafa falið Brussel verkefnið". En hún hefur ekki sýnt neitt frumkvæði, og þetta muldur hefur haft minna en nokkur áhrif."
Þetta "muldur" heyrðist ekki frá þeim stöllum, Svandísi og Katrínu (viðhlæjendum), fyrr en Evrópusambandið var komið með allt niður um sig og gaf aðildarríkjunum frelsi til að reyna sjálf. Hlekkir hugarfarsins eru svo níðangurslegir, að ráðherrarnir hreyfa hvorki legg né lið til sjálfstæðra tilburða til hliðar við ESB, þótt heimild sé til. Þeir máttu allan tímann reyna við aðra birgja en ESB samdi við. Það heyrist t.d. ekki múkk í Stjórnarráðinu sem svar við tilboði Maríu Zakarova um viðræður um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V. Ráðherrunum dettur ekki í hug að nota tímann og hefja viðræður, af því að Lyfjastofnun Evrópu er enn með bóluefnið til rannsóknar.
Hvað skyldu margir stjórnarþingmanna kokgleypa þá tímaskekkju Viðreisnar á formi væntanlegrar þingsályktunartillögu að hefja á ný aðlögunarviðræður við ESB fyrir Ísland ? Þingflokkur Viðreisnar er haldinn þráhyggju af verstu gerð og þarfnast einskis fremur en ævilangs orlofs frá þingstörfum úr hendi kjósenda.
Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var haldið áfram að velta fyrir sér dæmalausum undirlægjuhætti við ESB og Lyfjastofnun þess, þrátt fyrir tugmilljónir bólusetninga á Bretlandi með "fyrri skammti", án alvarlegra athugasemda Lyfjastofnunar Bretlands vegna aukaverkana eða ófullnægjandi virkni. Þessi rörsýn er orðin sjúkleg:
"Tilvikin [um aukaverkanir OAZ-innsk. BJo] voru örfá, sem nefnd voru til sögu um blóðfall, sem hefði komið upp á um líkt leyti og bólusetning á viðkomandi. Ísland, sem aldrei hafði orðið vart við neitt slíkt, hoppaði þegar um borð í þetta sökkvandi fley. Var það með vísun í vísindi eða einungis ómæld heimska ? Er virkilega svona lítill munur á "vísindum" og heimsku ? Kort, sem birt voru um alla Evrópu, sýndu Ísland með yfirskrift um það, að Ísland treysti ekki bóluefninu ! (Yfirskriftin hefði verið betri svona: "Apar eftir, eins og vant er.") Ef raunveruleg ríkisstjórn hefði verið í landinu, hefði slíkt ekki gerzt !
Hér er fast kveðið að orði í forystygrein, en ekki að ósekju. Það er eins og íslenzkum embættismönnum og ráðherrum sé fyrirmunað að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar, en snúist þess í stað eins og skopparakringlur í kringum hvaða bolaskít sem frá Brüssel berst.
Núverandi sóttvarnarfyrirkomulag er afspyrnu heimskulegt, enda rekst þar hvað á annars horn. Er einhver glóra í því að leyfa fjölda manns að safnast saman við gosstöðvar í Geldingadölum á Reykjanesi, en loka öllum skíðasvæðum á landinu með harðri hendi ? Hvað hafa mörg C-19-smit verið rakin til skíðasvæða á Íslandi ? Hver er smitstuðull þar, ef hann þá er stærri en 0 ? Hver er smitstuðullinn í sundlaugum landsins, í líkamsræktarstöðvum, í verzlunum og hótelum o.s.frv. ? Eftir rúmlega árs langa söfnun gagna, smitrakningar og sóttkvíar, ættu þessar tölur að vera fyrir hendi, en þær hafa ekki verið opinberaðar. Það ættu yfirvöld þó að gera hið fyrsta. Á meðan þau gera það ekki, liggja þau undir ámæli um að beita miklu klunnalegri og "kommúnistískari" sóttvarnaraðgerðum en nauðsyn ber til með grafalvarlegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum.
"Frá tilkynningu um ný bóluefni í nóvember [2020] erum við komin upp í 4 % bólusetningu ! [20.734 eða 5,7 % þjóðarinnar fullbólusettir 31.03.2021-innsk. BJo.] Heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt af sér eða ríkisstjórnin öll, sem ætti að vera niðurlút gagnvart þjóðinni. Samþykkti hún að stöðva notkun bóluefna, sem milljónir og jafnvel milljónatugir höfðu notað, án þess að þeirra afbrigða hefði orðið vart, sem blásin voru upp og hlaupið eftir hér ? Það var a.m.k. ekkert vísindalegt við slíka ávörðun. Hver tók hana þá í raun ? Hvert hefur afsökunarbeiðni borizt út af tiltækinu ? Fjölmiðlar gærdagsins vítt og breitt gengu út frá því, að EMA (European Medicines Agency) mundi þann dag lýsa því yfir, að bóluefnið rægða sé öruggt. En nú óttast margir, þ.á.m. sumir rógberanna, að margir hugsi sig um áður en þeir láta bólusetja sig."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Réttmætar ávítur og undrun á framferði æðsta valds,gera mann (mig!)að stórvarasömu mannkerti sem þarfnast eftirlits. Þó skulda þeir mér frelsið sem ég kvittaði undir löglega í seinustu kosningu.
Helga Kristjánsdóttir, 5.4.2021 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.