Bóluefnastríðið 2021

Framvinda bólusetninga í Evrópusambandinu (ESB) er hæg í samanburði við Bretland, en ástæðan er sjálfskaparvíti Framkvæmdastjórnarinnar.  Hún svaf á verðinum, á meðan Bretar styrktu Oxford AstraZeneca (OAZ) til að þróa bóluefni gegn SARS-CoV-2-veirunni, sem veldur C-19 sjúkdóminum, og tóku síðan þá áhættu að forpanta tugmilljónir skammta fyrir brezku þjóðina frá OAZ. Ekkert slíkt hvarflaði að Úrsúlu von der Layen, en nú ryðst hún yfir grindur til að komast fram fyrir Boris Johnson og hans fólk í afhendingarröð bóluefna.  Þetta er löglaust atferli, og var þó ekki úr háum söðli að detta. Evrópusambandinu er ekki treystandi fyrir horn.  Það er rétt hjá Lavrov.  

Ráðherraráð ESB nagar sig nú í handarbökin fyrir að hafa falið Framkvæmdastjórninni að útvega bóluefni og dreifa þeim til aðildarlandanna, en þetta var gert til að styrkja ESB, því að allar krísur hafa verið notaðar til að auka völd ESB.  Heilbrigðismálin hafa aldrei verið á verksviði Framkvæmdastjórnarinnar, og búrókratar hennar höfðu enga reynslu í að semja við lyfjafyrirtæki.  Undir forystu flokkshests frá Kýpur lögðu þeir áherzlu á að lágmarka kolröng áhættuatriði, sem tafði samningagerðina, og urðu þeir a.m.k. 3 mánuðum á eftir Bretum að ganga frá samningum. 

Það lítur út fyrir, að íslenzki heilbrigðisráðherrann hafi sýnt vanrækslu í starfi með því að leita ekki til umboðsaðila þeirra lyfjafyrirtækja, sem voru með efnilegar niðurstöður úr fasa 1 og fasa 2 bóluefnisprófunum, en treysta þess í stað á að fá mola af borðum ESB, sem henni mátti verða ljóst í sumar, að yrðu fátækleg framan af. Hvernig tekur hún fréttinni frá Moskvu 30.03.2021 ?  Maria Zakarova, talsmaður utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, tilkynnti þar og þá á blaðamannafundi, að Rússar væru til viðræðu um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.  

ESB hefur síðan á þessu ári, 2021, spilað algerlega rassinn úr buxunum með ofbeldisfullum tilburðum og falsáróðri gegn hinu sænsk-brezka AZ. Lögregla hefur ráðizt inn í verksmiðju AstraZeneca í Leiden í Hollandi og á Ítalíu vegna grunsemda Framkvæmdastjórnarinnar um, að verksmiðjurnar væru að framleiða bóluefni upp í pantanir Breta, sem þá átti að haldleggja.  Grunsemdirnar voru úr lausu lofti gripnar, en aðgerðirnar sýndu, að Framkvæmdastjórnin er farin á límingunum og virðir hvorki lög né rétt, þegar þannig stendur á í bólið hennar. Þetta er lærdómsríkt, líka fyrir halelúja-hóp ESB á Íslandi. 

Þá hafa Framkvæmdastjórnin og nokkrir leiðtogar ESB-ríkjanna með "Litla Napóleón" í Elysée-höllinni í París í broddi fylkingar tekið sér fyrir hendur hlutverk Gróu á Leiti, "ólyginn sagði mér", að OAZ-bóluefnið væri gagnslítið og gæti verið sumum hættulegra en hin bóluefnin.  Nú hefur "Litli Napóleón" snúið við blaðinu og heimtar miklu meira af OAZ-bóluefninu strax en Gallarnir eiga rétt á samkvæmt samningum, sem Úrsúla von der Leyen og skjaldmeyjar hennar véluðu um og gengu frá með miklu lakari skuldbindingum á hendur birgjanum en Boris og félagar.

Hörður Ægisson reifaði málið að sínum skelegga hætti í forystugrein Fréttablaðsins 19. marz 2021 undir hinu lýsandi heiti:

"Klúður".

Hún hófst þannig:

"Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis. Ísland er eitt þróaðasta ríki í heimi, efnað land með fáa íbúa og öfluga innviði, þar sem vilji til bólusetningar er ríkur.  Þjóðin ætti við venjulegar kringumstæður að hafa alla burði til þess að bera sig saman við vestræn ríki, sem standa utan Evrópusambandsins, á borð við Bretland og Bandaríkin.  Í Bretlandi stendur öllum, sem komnir eru yfir fimmtugt, nú til boða bólusetning, og í Bandaríkjunum stendur til, að nægt bóluefni verði til fyrir alla í lok maí, auk þess sem bæði ríkin hafa fest eins konar frelsisdaga í dagatalið í vor og sumar, þegar öllum hömlum verður aflétt."

Stjórnvöld hér virðast hafa sofið á verðinum, þegar þau hefðu þurft að vera með allar klær úti við að útvega bóluefni sem fyrst.  Þegar niðurstöður þreps 1 og þreps 2 úr tilraunum nokkurra lyfjafyrirtækja urðu opinberar í sumar, var einboðið að fá umboðsmenn þessara lyfjafyrirtækja til að leita samninga við sína birgja.  Heilbrigðisráðherra stjórnast hins vegar af pólitískum hindurvitnum Stalínstímans í Sovétríkjunum og forðast allt samstarf og samvinnu ríkisins við einkaaðila.  Þegar heilbrigðisráðherra hafði sólundað tímanum, var með bettlistaf í hendi leitað ásjár Evrópusambandsins, sem samþykkti náðarsamlegast að láta af hendi nokkra skammta til Íslands gegn því, að Ísland reyndi ekki að semja við sömu birgja og ESB.  Allt er þetta einstaklega lágkúrulegt, og framvindan er eftir því.

"Á meðan höfum við horft upp á tafir og meiriháttar klúður í bólusetningaráætlun stjórnvalda, sem var af óskiljanlegum ástæðum útvistað til ESB.  Enn er ekki einu sinni búið að bólusetja alla eldri borgara hér á landi, og fyrirætlanir um bólusetningar hafa enn tafizt um heilan mánuð, og ráðamenn yppa bara öxlum við þeim tíðindum.  "Þetta er grautfúlt, en svona er þetta, og svona er þessi veira", voru viðbrögð forsætisráðherra við því, þegar fréttir bárust um, að AstraZeneca-bóluefnið, stór liður í bóluefnisöflun landsins, hefði tímabundið verið sett til hliðar.  Fáir leggja traust sitt á, að áætlun stjórnvalda um, að búið verði að bólusetja alla Íslendinga yfir 16 ára aldri í lok júlí [2021] muni ganga eftir."

Alþingi á að veita ráðherrum aðhald á hverjum tíma.  Þegar þeir sýna af sér ólíðandi óhæfni og/eða vanrækslu í starfi, á Alþingi að grípa til þeirra úrræða, sem það hefur yfir að ráða.  Forsætisráðherra mun ekki losa okkur við viðhlæjanda sinn, téðan  heilbrigðisráðherra, og þá verður Alþingi að gera það. 

Í lok forystugreinarinnar skrifaði Hörður Ægisson:

"Með öflugri forystu hefði mátt bólusetja þjóðina mun fyrr, opna landið og afnema um leið þær skerðingar á daglegu lífi, sem við höfum búið við.  Baráttan um bóluefnin er enginn leikur, heldur alvöru slagur. Við sjáum það af því kalda stríði, sem nú ríkir á milli Bretlands og ESB, þar sem útflutningsbanni er svarað með efasemdum um  gagnsemi brezka bóluefnisins. [Bretar hafa ekki lagt á útflutningsbann á bóluefnum, heldur afgreiðir AZ í Bretlandi pantanir í réttri röð - innsk. BJo.]  Stjórnvöld hefðu átt að berjast fyrir því með kjafti og klóm að tryggja nægt bóluefni fyrir löngu, en af einhverjum ástæðum virðist þá ráðherra, sem fóru með málið, hafa skort þar vilja eða getu eða hvort tveggja.  Ótrúlegt er, að ríkisstjórn, þar sem flokkarnir áttu fátt sameiginlegt annað en andstöðu við ESB, skyldi ákveða að hengja sig alfarið á misheppnaða bólusetningaráætlun sambandsins. Hvernig í ósköpunum var komizt að því, að það væri þjóðinni fyrir beztu, og á sama tíma var ekkert Plan B fyrir hendi ?  Bólusetningarklúður stjórnvalda, sem er einkum á ábyrgð heilbrigðisráðherra, eru afglöp af áður óþekktri stærðargráðu."

Landsmenn eiga rétt á að fá svör við ofangreindum spurningum Harðar Ægissonar.  Stjórnvöld virðast hins vegar óttast, að vinnubrögð þeirra þoli ekki dagsljósið, sem kann að vera rétt mat, en á meðan við svo búið stendur, er vanræksla einkunnin, sem gildir um þessa frammistöðu. Hún er í þessu tilviki brottrekstrarsök, sbr "afglöp af áður óþekktri stærðargráðu".

Morgunblaðið hefur heldur ekki látið deigan síga í gagnrýni sinni á stjórnvöld fyrir þessi "afglöp".  Sviðsljósgrein Andrésar Magnússonar þann 18. marz 2021 rekur hina evrópsku hlið þessa stórmáls, en hún sannar, að Evrópusambandinu var aldrei treystandi fyrir því verkefni að útvega bóluefni, enda aldrei gert það áður og heilbrigðismál ekki á könnu Sambandsins.  Fyrirsögn sviðsljóssgreinarinnar var:

"Klúður, hneyksli og loks ringulreið".

Hún hófst þannig:

"Evrópusamstarf um öflun bóluefnis hefur gengið á afturfótunum, allt frá því til þess var boðað síðastliðið haust.  Það var seint til þess stofnað, en verra var, að prútt og óhófleg tillitssemi við þjóðlegan metnað ýmissa aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) [einkum Frakklands - innsk. BJo] tafði verulega fyrir, því [að] það var seint pantað og lítið.  Þegar afleiðingarnar komu í ljós, að Bretar höfðu öllum að óvörum verulegt forskot á því sviði, tók við einkennileg milliríkjadeila, þar sem öllu var teflt fram, þ.á.m. viðskiptabanni og broti á alþjóðlegum samningum.  Sem ekki bætti úr skák, en breytti klúðri í hneyksli."

Hvað sem landsmönnum finnst um það, hvernig skipa eigi framtíðar tengslum við Evrópusambandið, ríkir líklega einhugur um það mat, að ESB hafi sett niður vegna þess, hvernig það hefur fengizt við bóluefnaútvegun til aðildarlanda sinna og EFTA-landanna í EES, og að síðan hafi forysta þess bætt gráu ofan á svart með þvingunaraðgerðum sínum í garð Breta. 

Saga samskipta Íslands og Evrópusambandsins er ekki með þeim hætti, að ástæða væri nokkurn tímann til að fela því forsjá bóluefnaútvegunar til Íslands.  Það er skiljanlegt, að ráðherrar, sem stóðu á sínum tíma að beiðni um aðildarviðræður við ESB, telji það lítið skref fyrir Ísland að fela Evrópusambandinu þetta mikilvæga hlutverk, hvað sem kaupskilmálunum líður, en það er mjög einkennilegt, ef borgaralegu flokkarnir í ríkisstjórninni, sem eru yfirlýstir andstæðingar slíkra aðildarviðræðna, sem eru ekkert annað en aðlögunarferli, eins og menn muna, hafa enga athugasemd gert við þessa lítilsvirðingu við fullveldi landsins.  

Svissland er líka í EFTA, en er ekki í neinu bóluefnasamkrulli með ESB.  Svisslendingar eru komnir heldur lengra í C-19 bólusetningum en ESB mælt í fjölda bólusetninga per 100 íbúa.  Íbúafjöldi landa er ekki áhrifavaldur um það, hvernig þjóðum gengur að útvega sér bóluefni.  Ísraelsmenn gerðu samninga um flýtiafhendingu til sín gegn afhendingu talnaefnis um þróun C-19 faraldursins og heilsufarslegar afleiðingar bólusetninga.  Ekkert slíkt frumkvæði kom frá ráðuneytunum hér. Þegar sóttvarnarlæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar reyndu að feta í fótspor Ísraelsmanna (þessir læknar voru reyndar ekki á einu máli um, hvor þeirra hefði átt hugmyndina), var einfaldlega of seint í rassinn gripið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Sjálfur hef ég verið að gera upp baðherbergi hjá mér. Í upphafi áætlaði ég hvað það myndi taka langan tíma en fljótlega kom í ljós að sú tímaáætlun stóðst engan veginn. Þetta fór nokkuð í taugarnar á mér. En þá kom lausnin, Svandís Svavarsdóttir. Af henni gat ég lært gamla Sovét fræði, að lítið mál er að standast tímaáætlun. Einfaldlega að endurskoða áætlunina reglulega í takt við gang mála. Þannig er maður alltaf á áætlun.

Áætlanir stjórnvalda um að allir eldri en 16 ára verði orðnir bólusettir munu vart standast, til þess er tími of skammur og flæði bóluefnis takmarkað. En það gerir lítið til, þau endurskoða bara áætlunina. Varðandi Spútnik virðist eiga að fara sömu leið og fyrr, að þiggja molana frá ESB. Forsætisráðherra sagði í sjónvarpsviðtali að ekki yrði keypt efni frá Rússlandi fyrr en lyfjastofnun ESB hefði lagt blessun sína á það. En hvers vegna ekki er hægt að gera samning við Rússa kom ekki fram, enda ráðherra ekki spurð svo heimskulegra spurninga. Þannig værum við í startholunum um að fá efnið til okkar jafn skjótt og lyfjastofnun ESB samþykkir það. Þess í stað skal beðið og væntanlega mun framkvæmdastjórninni falið það verk að semja fyrir Ísland, þóknist henni svo.

Framkoma framkvæmdastjórnarinnar, sérstaklega gagnvart Bretum, er ámælisverð. Framkvæmdastjórnin hefur engar forsendur til að krefjast forgangs, þvert á móti. Hvað hefði skeð ef eitthvað af því bóluefni er fannst við leit í verksmiðjum AZ, er staðsettar eru í Hollandi og á Ítalíu, hefðu verið merktar Bretlandi? Hvað ætlaði framkvæmdastjórnin sér þá að gera? Þessi framkoma framkvæmdastjórnarinnar, einkum Ursulu von der Leyen, er hættuleg. Og þessi framkoma er ekki einungis varðandi bóluefni, heldur virðast samskipti framkvæmdastjórnarinnar til allra utan ESB vera að snúast á þennan veg. Þetta gæti sett heimsfriðinn í gamalkunnar stellingar, sem engin leið er að segja hvernig munu enda.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 1.4.2021 kl. 08:16

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Framkvæmdastjórnin ætlaði sér að láta verða af hótun sinni um að gera bóluefni, sem ætlað væri til útflutnings, upptækt.  Á sama tíma eru hundruðir þúsunda skammta af OAZ ónotaðir vítt og breitt um ESB vegna hræðsluáróðurs forystumanna.  Ef ESB hefði fundir bóluefni merkt Bretlandi og gert það upptækt, þá hefði hafizt lögfræðistríð á milli Bretlands og ESB.  Frjáls viðskipti hafa orðið fórnarlamb glundroða Framkvæmdastjórnarinnar.  Á sama tíma ítrekar Viðreisn eindreginn vilja sinn til að taka upp aðlögunarviðræður við ESB.  Þeim er ekki sjálfrátt að skjóta undan sér lappirnar í aðdraganda kosningabaráttu.  

Bjarni Jónsson, 1.4.2021 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband