Ótraustvekjandi opinberar sóttvarnaraðgerðir

Enn á ný hafa ströng höft verið sett á líf landsmanna um allt land vegna fáeinna smita utan sóttkvíar, og í þetta sinn er skólum landsins lokað í þokkabót.  Þessar hörðu aðgerðir eru aðeins réttlættar með því, að brezka afbragðið, sem greinzt hefur undanfarið hérlendis, sé meira smitandi og valdi tiltölulega oftar en áður veikindum barna.  Þetta er með afbrigðum þunnur þrettándi m.v. þá truflun á þjóðlífinu og fjárhagstjón, sem reglugerð heilbrigðisráðherra, reist á minnisblaði sóttvarnarlæknis, veldur. 

Þegar þessar sóttvarnaraðgerðir voru kunngjörðar, 24. marz 2021, voru eftirfarandi tölulegar staðreyndir fyrir hendi frá sólarhringnum áður: 

  • Á sjúkrahúsi lá einn C-19 sjúklingur
  • Sjúkir af C-19 og í einangrun voru 75
  • Nýgengi innanlands var 7,6 og á landamærum 12,5
  • Fullbólusettir voru 19´887 eða um 5,5 % landsmanna

Það er lítið álag á sjúkrahúsunum vegna C-19 og nýgengið innanlands er mjög lágt.  Búið er að bólusetja þann hóp, sem verst hefur farið út úr sýkingu af völdum SARS-CoV-2, og margt framlínufólk í heilbrigðisgeiranum hefur verið bólusett.  Það hefur ekkert verið gefið upp um smitstuðul þess afbrigðis, sem þessum hóflausu viðbrögðum veldur, né um einkennin, t.d. hjá börnum. Frétzt hefur þó, að þau séu væg. Það verður þess vegna að álykta sem svo, að enn einu sinni hafi meðalhófið verið hundsað og rannsóknarskyldunni lítt verið sinnt, þ.e. ekkert kannað, hvort minna heildartjóni mætti valda þjóðfélaginu með vægari aðgerðum. Daginn, sem þessi flausturslega ákvörðun var tekin, greindist ekkert smit á Íslandi utan sóttkvíar, hvorki af brezka afbrigðinu né öðru.  Sóttvarnarlæknir er vanur að þakka ströngum félagslegum takmörkunum sínum góðan árangur í sóttvarnarmálum.  Hann getur það varla í þetta sinnið, því að aðgerðir hans frá 24. marz 2021 eru ekkert annað en flumbrugangur. Það var hrapað að niðurstöðu. Katrínu Jakobsdóttur væri nær að fara að dæmi kanzlara Þýzkalands frá sama degi og afturkalla þessar óþörfu, illa ígrunduðu og stórskaðlegu opinberu sóttvarnaraðgerðir.

Í þessu samhengi er vart orðum eyðandi að þeim sefasýkislegu viðbrögðum, sem sézt hafa á samfélagsmiðlum, einnig nú í kjölfar minnisblaðs sóttvarnarlæknis 24.03.2021, út af þeirri sjálfsögðu ákvörðun dómsmálaráðherra landsins að leggja að jöfnu löglega útgefin bólusetningar- og ónæmisvottorð utan og innan Schengen.  Ákvörðunin er enn ekki komin til framkvæmda. Framkvæmd var frestað fram í byrjun apríl 2021 til að gera eftirlitið öruggara.  Látið er eins og landamæraverðirnir séu auðblekktir með fölsuðum vottorðum.  Þótt hægt sé að kaupa fölsuð vottorð, er ótrúleg einfeldni að gera því skóna, að handhafar slíkra geti komizt í gegnum nálarauga íslenzkra landamæravarða með fölsuð skilríki.  Við slíku skjalafalsi liggur fangelsisvist.  Litlu verður Vöggur feginn, þegar kemur að tylliástæðum til að gera haftaafnám tortryggilegt af hvaða tagi sem er.  Þrælslundin er söm við sig.

Því er haldið fram, að bólusettir geti borið smit.  Samkvæmt athugunum Ísraelsmanna, sem lengst eru komnir í bólusetningum og hafa nú þegar myndað hjarðónæmi gegn þekktum afbrigðum kórónuveirunnar, er það rétt, en í mun minni mæli en ella, þ.e.a.s. smitstuðullinn er nánast örugglega undir 1,0 fyrir slíka ferðamenn án tengsla inn í íslenzka þjóðfélagið.  Svipað má ætla, að eigi við þá, sem náð hafa sér eftir sýkingu af C-19.  

Þá hefur fyrirhuguð beiting fjölþjóðlegs litakóða á landamærum frá 1. maí 2021 orðið mörgum tilefni til upphrópana og hræðslukasta.  Sóttvarnarlækni hefur þó verið falin útfærsla á þeirri framkvæmd.  Ef grænt á að gilda fyrir upprunaland og brottfararland með nýgengi á bilinu 0-20, þá er það býsna breitt bil og ráðlegra að beita einfaldri skimun fyrir slíka óbólusetta og ósýkta farþega.  Ef nýgengið er hærra, gult og rautt, þá gildi sömu reglur og nú (að mati höfundar), þ.e. vottorð um neikvætt PCR-próf og tvöföld skimun með 5 daga sóttkví á milli.  Reynslan sýnir, því miður, að sóttkví undir eftirliti er nauðsynleg, svo að henni megi treysta. Kæmi ökklaband til greina ?

Áhrif opinberra aflokana og frelsisskerðinga hafa verið rannsökuð erlendis, og niðurstaðan í mörgum tilvikum er ekki í samræmi við skoðun sóttvarnarlæknis Íslands um nauðsyn allra þessara ráðstafana "til að ná tökum á faraldrinum".  Það er líka nauðsynlegt að meta heildaráhrif slíkra aðgerða.  Þau eru víðtæk og alvarleg, valda andlegu og líkamlegu heilsutjóni, fátækt og gjaldþrotum, og eru sameiginlegum sjóðum þungur baggi í mörg ár.  Áhugafólki um heildarmyndina var þess vegna mikill fengur að grein Þorsteins Arnalds, tölvufræðings, í Morgunblaðinu 18. marz 2021:

"Gagnslaus greiningarvinna".

"Það var fagnaðarefni, að ríkisstjórn Íslands skyldi stuðla að því, að áhrif sóttvarnaaðgerða á þróun Covid-19-faraldursins væru rannsökuð.  Mikilvægt er að meta áhrif mismunandi aðgerða, helzt með vísindalegum hætti, til þess að þær verði markvissar.  Óhjákvæmilega hafa aðgerðirnar neikvæðar aukaverkanir, og með því að meta áhrif þeirra er hægt að vega og meta, hversu langt eigi að ganga hverju sinni."

Hér hreyfir Þorsteinn Arnalds gríðarlega mikilvægu máli.  Vitað er frá erlendum rannsóknum, að 1 %- 3 % þeirra, sem verið hafa atvinnulausir í meira en 1 ár, bíða alvarlegt tjón á heilsu sinni, verða öryrkjar eða hljóta ótímabæran dauðdaga.  Í lok febrúar 2021 höfðu 4719 manns verið atvinnulausir á Íslandi í meira en 12 mánuði.  Ef gert er ráð fyrir, að þriðjungur þeirra hafi misst vinnuna af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða, þá má búast við, að á bilinu 16-47 manns verði öryrkjar eða láti lífið af þeirra völdum.  Meðaltal þessa heiltölubils er 32, sem er vert að bera saman við fjölda látinna hérlendis af völdum C-19 faraldursins, sem er 29, þegar þetta er ritað. 

Hinn fjárhagslegi kostnaður samfélagsins af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða er ofboðslegur. Þegar honum er bætt við tekjutap fyrirtækja af þeirra völdum, nemur heildarkostnaðurinn áreiðanlega yfir 100 mrdISK/ár. 

Af þessu sést, að það er gríðarlega mikilvægt að komast að því með áreiðanlegum aðferðum, hver árangur mismunandi sóttvarnaraðgerða er, t.d. mælt í fækkun sjúklinga á sjúkrahúsi.  Frá Bandaríkjunum bendir samanburður á milli ríkja, sem beittu og beita mismunandi sóttvarnaraðgerðum til þess, að gagnsemi ýmissa opinberra sóttvarnarráðstafana sé víða  stórlega ofmetin, þ.m.t. á Íslandi. Um innlenda rannsókn á þessu sviði reit Þorsteinn Arnalds:

"Skýrsla rannsóknarhópsins, sem hlaut MISK 5,0 styrk, kom út í síðustu viku [v.10/2021]. Á Íslandi hefur uppruni smita verið rannsakaður og greint af hvaða stofni veirur séu frá upphafi faraldursins.  Væntanlega hafa safnazt verðmætar upplýsingar um, hvernig smit dreifast, og það ætti að gera mat á smitstuðli mögulegt fyrir mismunandi aðstæður.  Því miður hefur hins vegar skort á, að gögnin, sem safnað hefur verið, væru notuð með þessum hætti, og var lestur skýrslu rannsóknarhópsins því tilhlökkunarefni. 

Í læknisfræðilegum rannsóknum er venjan að bera saman hópa fólks, sem eru í mismunandi aðstæðum og skoða t.d., hve margir veikjast í hverjum hópi, og þess gætt, að hóparnir séu nógu stórir, til að niðurstöður verði tölfræðilega marktækar. Loksins mátti búast við, að slík rannsókn hefði verið gerð á íslenzkum Covid-smitum."     

Til þess að eitthvert vit verði í sóttvarnaraðgerðum, er nauðsynlegt að þekkja til smitstuðulsins, og hvað helzt hefur áhrif á hann, en smitstuðullinn er sá fjöldi einstaklinga, sem hver smitaður smitar.  Sem dæmi má taka, að þar sem hann er undir 1,0 (SS<1,0), þar eru ekki aðstæður, sem sóttvarnaryfirvöld þurfa að skipta sér af með hömlum af neinu tagi.  Það var þess vegna eðlilegt, að yfirvöld settu fé í að vinna nytsamlegar upplýsingar um SS úr þeim gögnum, sem safnað hefur verið.  Hvernig skyldi nú hafa tekizt til ?:

"Því miður olli skýrslan vonbrigðum.  Það er eins og skýrsluhöfundar hafi stungið fingrinum upp í vindinn til að ákvarða smitstuðulinn.  Það vekur furðu, að sjónum sé eingöngu beint að aðgerðum á landamærum, en aðgerðir innanlands ekki greindar.  Auk þess er greiningin á landamæraaðgerðunum í skötulíki.  Gert var hermilíkan, sem metur útbreiðslu smita m.v. gefnar forsendur.  Og ekki verður séð, að reynt hafi verið að greina, hver raunveruleg áhrif mismunandi aðgerða séu."

 Mann setur hljóðan við þennan lestur, því að þarna er lýst hreinræktuðu fúski gagnvart mjög mikilvægu verkefni í almannaþágu.  Ef rannsakendur gefa sér þá niðurstöðu, sem vinnan átti að beinast að að leiða út frá gögnunum, þá er skýrslan um þessa vinnu ekki pappírsins virði.  Málið er alvarlegt, því að annaðhvort kunna þau ekki til verka, sem fengin voru til verksins, eða þau eru að reyna að draga dul á staðreyndir, sem þeim var þó falið að leiða í ljós.  Það verður að komast að því, hvaða gagn er af sársaukafullum og rándýrum höftum sóttvarnarlæknis.  Er niðurstaðan af landamærunum sú, að sóttkvíin sé hriplek ?  Þar með er hún bæði gagnslítil og rándýr, því að hún hefur haft hamlandi áhrif á komur erlendra ferðamanna.  Er fær leið að setja ökklaband á fólk í sóttkví ?

"Í skýrslunni segir: "Í þessu líkani er gert ráð fyrir, að smitstuðull ferðamanna utan sóttkvíar sé 1 og 0,5 í ferðamannasmitgát.  Ferðamanni í sóttkví eða einangrun var gefinn smitstuðull 0."

Ef ætlunin var t.d. annars vegar að mæla raunverulega áhættu af smitgát og hins vegar sóttkví, er niðurstaðan þegar gefin og áframhaldandi reikniæfingar óþarfar.  Það er næsta gagnslaust að ráðleggja, ef eitthvað er svona eða hinsegin, ef menn hafa litla vitneskju um, hvernig það raunverulega er.  

Af hverju er ekki reynt að leggja raunhæft mat á þessa smitstuðla út frá gögnum ?  Hvernig passar það við nýlegan fréttaflutning af smitum, sem stöfuðu af fólki, sem hélt [ekki] sóttkví, að smitstuðull í sóttkví sé 0 ?  Gæti hugsazt, að þeir, sem eru í sóttkví, séu ólíklegri til að halda hana en þeir, sem eru í smitgát, sem er vægara úrræði.  Aðferð skýrsluhöfunda minnir á viðskiptaáætlanir, sem voru í tízku fyrir rúmum áratug; litlu skipti, hvernig raunveruleikinn var, Excel var einfaldlega matað á hagstæðum forsendum."

Metnaðar- eða getuleysi höfundanna við að vinna úr gögnum veldur vonbrigðum.  Ef nemanda væri fengið þetta verkefni, og í stað þess að nálgast viðfangsefnið með kerfisbundnum vinnubrögðum myndi hann gefa sér niðurstöðuna, fengi hann mjög lága einkunn fyrir frammistöðuna.  Þetta blasir við, en hvers vegna þetta sleifarlag ?  Gagnrýni Þorsteins Arnalds er fullkomlega réttmæt.  Eru öll kurl komin til grafar ?

"Síðustu mánuði hefur sú hugsun mín ágerzt, að ákvarðanir um sóttvarnaraðgerðir séu byggðar á hæpnum forsendum og ófullnægjandi túlkun gagna.  Dæmi um þetta er, hvort og með hvaða hætti líkamsræktarstöðvar eigi að vera opnar - en það er efni í aðra grein.  Í ljósi þess, að hvorki sóttvarnaryfirvöld né vísindamenn þeim þóknanlegir hafa reynt að nýta fyrirliggjandi gögn til að meta skilvirkni aðgerða, skora ég hér með á yfirvöld að birta opinberlega öll gögn um uppruna smita, rakningu þeirra, raðgreiningu afbrigða og annað, sem máli skiptir.  Hugsanlega og vonandi munu aðrir (eða sömu) vísindamenn nýta þau í alvöru til að meta áhrif sóttvarnaraðgerða - þótt án ríkisstyrkja verði."

Það ætti að vera alveg sjálfsagt mál af hálfu yfirvalda að birta öll gögn, sem Þorsteinn Arnalds fer þarna fram á.  Sóttvarnaraðgerðirnar, sem gildi tóku 25. marz 2021, staðfesta, að sóttvarnaryfirvöld búa ekki yfir þekkingu á breytilegum smitstuðlum í þjóðfélaginu eða reyna ekki að beita henni.  Það er afleit frammistaða eftir rúmlega heilt ár í baráttunni.  Daginn eftir, að "landinu var skellt í lás", að skólunum meðtöldum í þetta sinnið, birti Morgunblaðið forsíðufrétt um, að dagana 7 þar á undan hefðu greinzt 6 ný smit utan sóttkvíar.  Enginn C-19 sjúklingur var þá á sjúkrahúsi.  Þeirri hugsun verður ekki varizt, að þessar sóttvarnaraðgerðir séu framkvæmdar í bráðræði og einkennist af flausturslegum vinnubrögðum og flumbruhætti án nokkurs tillits til neikvæðra áhrifa.  

Páskafrumhlaup sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra varpar ljósi á gallana við að láta einn mann móta stefnuna í sóttvarnarmálum.  Þar þurfa fleiri að koma að undirbúningi ákvarðanatöku, svo að mismunandi sjónarmið verði vegin og metin með rökum.  Þannig eru meiri líkur á, að forðazt megi að hrapa að niðurstöðum á hæpnum forsendum.  Ef vel tekst til um val í t.d. 5 manna sóttvarnarráði, hvers hlutverk og samsetning verði skilgreint af Alþingi, má búast við hópefli, þar sem gæði tillagna til ráðherra verða meiri en gæðin frá hverjum og einum í hópnum samanlögð ("synergy").  Aðalatriðið er, að jafnvægi komizt í tillögugerðina, svo að upphlaupsaðilar geti síður spanað fram ótímabærar aðgerðir og að aðgerðirnar þræði betur meðalhóf en verið hefur, þar sem afleiðingarnar hljóti raunhæfa umfjöllun áður en að tillögugerð (minnisblaði) kemur. Það er eðlilegt, að Landlæknir og Sóttvarnalæknir eigi sæti í hópnum og einnig fulltrúar "aðila vinnumarkaðarins", sem alltaf verða fyrir barðinu á sóttvarnaraðgerðum.  Til að lagalega hlið málsins, persónufrelsi og heimildir yfirvalda, verði ekki hornreka, er eðlilegt, að lögmaður verði og í þessu teymi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband