Orkumálin hornreka

Til að feta okkur út úr Kófinu þurfum við á að halda öllu því, sem landið og miðin hafa á boðstólum innan marka sjálfbærrar nýtingar.  Þar með þurfum við að auka orkunýtinguna til að auka gjaldeyrissköpun og gjaldeyrissparnað.  Til þess er óhjákvæmilegt að reisa fleiri virkjanir.  Væntanlega mun orkuvinnslukostnaður hverrar virkjunar ráða röðinni, svo að engin meginaðferðanna þriggja við vinnslu rafmagns verður fyrirfram útilokuð, þ.e. raforkuvinnsla með vatnsafli, jarðgufuafli eða  vindafli. 

Umhverfisráðuneytinu hefur verið falið stærra hlutverk en það ræður við undir forystu þjóðgarðaráðherrans Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Hann er fulltrúi afturhalds, sem er haldið meinloku um, að eitthvað óviðjafnanlegt fari endanlega forgörðum við hverja virkjun, sem hljóti að vega þyngra en þjóðarhagur af nýtanlegri, endurnýjanlegri orku.  Þetta músarholusjónarmið, sem ráðherrann hefur forystu fyrir, passar engan veginn í nútímanum, sem leggur höfuðáherzlu á að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með kolefnisfrírri raforkuvinnslu. Í ljósi þeirrar sameiginlegur umhverfisváar, sem boðuð er við 3°C hækkun meðalhitastigs lofthjúps niðri við jörðu, er óverjandi að standa gegn öllum vatnsaflsvirkjunum hérlendis, eftir að þær hafa komizt í gegnum nálarauga yfirvalda og framkvæmdaleyfi verið gefið.

Ráðherrann hefur framið skemmdarverk á undirbúningsferli orkuvera, eins og fram kom í jólaávarpi fráfarandi orkumálastjóra 2020, sem sá síðarnefndi leggur til, að verði endurskoðað með róttækum hætti.  Á meðan vinstra græna afturhaldið liggur á fleti fyrir í ríkisstjórn, mun líklega ekkert vitrænt gerast að þessu leyti.  Það getur aðeins endað með ósköpum á formi orkuskorts í landinu.  Hvílíkt sjálfskaparvíti í landi með gnótt "grænnar" orku.   

 

Nú er borin von, að fjöldi erlendra ferðamanna nái viðmunartölu fjárlaga þessa árs, þ.e. 700 k.  Þá þarf að reiða sig í meiri mæli á auðlindir hafs og lands.  Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. marz 2021:

"Úr vörn í sókn".

Sjálfstæðismenn hafa margoft predikað það, að leið landsmanna út úr Kófinu skuli liggja um hagvaxtarleiðina.  Það er mikil fylgni á milli aukningar orkunotkunar í landinu og hagvaxtar.  Þess vegna ættu sjálfstæðismenn alls ekki að sætta sig við það, að dauð hönd músarholuafturhalds sé lögð á undirbúningsferli nýrra virkjana í landinu. Óli Björn skrifaði m.a:

"Jafnvægi í ríkisfjármálum er alltaf áskorun, en um leið ein frumskylda stjórnmálamanna, þegar til lengri tíma er litið.  Í aðdraganda kosninga er ekki ólíklegt, að ungt fólk krefji frambjóðendur og stjórnmálaflokka um skýr svör í þeim efnum."

Kófstímabilið er fordæmalaust hallatímabil ríkissjóðs, þar sem samanlagður halli mun sennilega verða yfir mrdISK 1000.  Þetta er svo alvarlegt, sérstaklega fyrir unga fólkið, að þegar verður að grípa til gagnráðstafana.  Skattahækkanir eru alltaf fyrsta og oft eina úrræði vinstri flokkanna, en þar sem þær munu dýpka og lengja kreppuna, eru þær síðasta úrræði Sjálfstæðisflokksins.  Hann vill auka tekjur hins opinbera með auknum umsvifum í þjóðfélaginu, og þau koma aðeins með aukinni framleiðslu.  Hún krefst meiri orkuvinnslu, og fyrir hana eru nýjar virkjanir nauðsyn, en þar stendur hnífurinn í kúnni eða vonandi spjótið í drekanum ógurlega, sem riddarinn mun vinna bug á.

Búið er að steingelda "Rammann".  Sennilega er bezt að fela Orkustofnun forvalið. Þegar tilhögun virkjana yfir 500 GWh/ár er fyrir hendi og umsögn Skipulagsstofnunar tilbúin, geta slíkar farið til afgreiðslu Alþingis. 

Áfram með tilvitnun í grein Óla Björns:

"Önnur áskorun, sem við verðum að takast á við, er atvinnuleysið.  Ég hef haldið því fram, að íslenzkt samfélag geti aldrei sætt sig við umfangsmikið atvinnuleysi, ekki aðeins vegna beins kostnaðar, heldur ekki síður vegna þess, að atvinnuleysi er sem eitur, sem seytlar um þjóðarlíkamann.  Atvinnuleysi er vitnisburður um vannýtta framleiðslugetu, minni verðmætasköpun og meiri sóun.  Allir tapa, en mest þeir, sem eru án atvinnu í lengri eða skemmri tíma."

Þetta er rétt, og til að ráða bót á atvinnuleysinu þarf að virkja orkulindir ásamt öðrum aðgerðum.  Við þurfum ný atvinnutækifæri.  Ef þingið ætlar að láta afturhaldsöflin ná fram vilja sínum, þá verður hér einfaldlega stöðnun og viðvarandi atvinnuleysi og/eða landflótti.  Hér er um þjóðarhag að tefla, eins og fyrri daginn. 

Gunnlaugur Snær Ólafsson birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021 fróðlega frétt undir yfirskriftinni:

"Rammaáætlunarferli í uppnámi":

""Starfsumhverfi verkefnisstjórnar og faghópa varð allt annað en að var stefnt í upphafi.  Engan grunaði, að þingsályktunartillaga byggð á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar yrði enn ekki samþykkt af Alþingi, þegar skipunartími verkefnisstjórnar og faghópa 4. áfanga rynni út - fjórum árum eftir skipun", skrifar Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga, í formála skýrslu hópsins, sem birt var 31. marz [2021]."  

Hér er um að ræða moldvörpustarfsemi sitjandi umhverfisráðherra gagnvart undirbúningi nýrra virkjana á landinu.  Til þessa framferðis hefur hann enga heimild og bregst lögformlegum skyldum sínum með þessum ósvífna drætti á afgreiðslu 3. áfanga. Slík skemmdarverkastarfsemi í stjórnsýslunni er ólíðandi og er út af fyrir sig næg ástæða til að stöðva öll hans mál í þinginu.  Þar ber auðvitað ríkisvæðingu hálendisins hæst. 

"Guðrún segir í formálanum, að vegna þeirrar óvissu, sem skapaðist um framvindu rammaáætlunar, hafi Orkustofnun ekki auglýst eftir nýjum virkjunarkostum fyrstu rúm tvö ár[in] frá skipun verkefnisstjórnarinnar, en hún var skipuð til fjögurra ára 5. apríl 2017."

Vinna faghópa verkefnastjórna Rammaáætlunar hefur ekki haft verulegt raunhæft gildi og yfirleitt verið með slagsíðu í átt til verndunar.  Samkvæmt fráfarandi Orkumálastjóra hefur þessi vinna einkennzt af sparðatíningi gegn því að setja virkjunarkost í framkvæmdaflokk.  Það er engin eftirsjá að þessu þunglamalega ferli, enda ekki raunhæft að taka faglega afstöðu til virkjunar fyrr en drög að virkjunartilhögun hafa verið kynnt á stigi lögformlegs umhverfismats.  Úr því að vinstri græninginn í ráðherrastóli umhverfismála er búinn purkunarlaust að gelda ferlið, er um ekkert annað að ræða en að slá það af. 

"Niðurstaða verkefnisstjórnar vegna 3. áfanga var afhent ráðherra 2016, en þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var lögð fyrir Alþingi 30. nóvember 2020 og var afgreidd til umhverfis- og samgöngunefndar 26. janúar [2021]. 

"Menn eru komnir langt fram úr þeim tímaramma, sem lögin tilgreina.  Það er búinn að vera mikill vandræðagangur síðan 2016, og ég hef tengt þetta við afgreiðslu frumvarpsins um hálendisþjóðgarð.  Mér þykir fráleitt að nálgast málið með þeim hætti, að það sé hægt að leiða hálendisþjóðgarðsmálið til lykta áður en rammaáætlunin er kláruð.  Í henni eru verkefni, sem eru innan fyrirhugaðra þjóðgarðsmarka", segir Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og þingmaður Miðflokksins.

"Ég hef gagnrýnt það, hversu seint rammaáætlun kemur fram.  Við erum á vorþingi síðasta þings kjörtímabilsins og erum núna að fá málið til meðferðar í nefndinni. Það er ekki gott", bætir hann við."

Þarna liggur fiskur undir steini.  Ráðherrann býr til frumvarp um hálendisþjóðgarð sem andsvar við niðurstöðu verkefnisstjórnar um 3. áfanga Rammaáætlunar og ætlar að troða hugðarefni sínu fram fyrir 3. áfanga til að hafa aðstöðu til að kæfa nokkra af þeim virkjanakostum, sem þar eru lagðir til. Nefna má Skatastaðavirkjun. Þetta eru með eindæmum ólýðræðisleg vinnubrögð hjá vinstri græningjanum, sem Alþingi á alls ekki að láta bjóða sér, heldur að setja þennan hálendisþjóðgarð í frost, þar til Alþingi hefur veitzt ráðrúm til að fjalla um alla auðlindanýtingu á þessu svæði, sem nú er í kortunum.

Morgunblaðinu er auðvitað umhugað um, að umhverfisráðherra fylgi gildandi lögum um orkumál, en komist ekki upp með lögbrot, sem felast í að setja sand í tannhjól matsins á því, hvaða orkulindir á að nýta á næstu árum og hverjar ekki.  Forystugrein blaðsins 6. apríl 2021 var valið heiti, sem endurspeglar stöðuna í orkugeiranum:

  "Uppnám í orkunýtingu".

Henni lauk þannig:

"Þegar allt það grjót, sem finna má, er lagt í veg rammaáætlunar, er ekki við því að búast, að hún geti gengið fram, eins og lög gera ráð fyrir.  Augljóst er, að ferlið gengur ekki upp, og að finna þarf nýja, einfaldari og skilvirkari leið til að taka ákvarðanir um vernd og nýtingu orkuauðlinda Íslands."

Þetta er niðurstaða Morgunblaðsins, sem taka má heilshugar undir.  Orkumálin heyra ekki undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, nema Rammaáætlunin.  Orkumálin eru á ábyrgðarsviði iðnaðarráðherra, og það er ófagur bautasteinn yfir starfi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í iðnaðarráðuneytinu á kjörtímabilinu, sem lýkur 2021, að lykilatriði málaflokks á hennar ábyrgð skuli vera í uppnámi.  Slíkt er óviðunandi fyrir varaformann Sjálfstæðisflokksins. 

Ríkulega hlutdeild orkulinda landsins í auðlegð þjóðarinnar má þakka forystu Sjálfstæðisflokksins allt aftur til fyrsta formanns flokksins, Jóns Þorlákssonar, Landsverkfræðings.  Stórvirki unnu síðan dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein á Viðreisnaráratuginum og dr Gunnar Thoroddsen á 8. áratuginum, en hann var iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins, þegar stórfelldri hitaveituvæðingu var hleypt af stokkunum í kjölfar tveggja olíukreppa með margföldun olíuverðs sem afleiðingu.  Núverandi iðnaðarráðherra verður að láta verkin tala fljótt og örugglega.

Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins og Alþingismaður, var ötull maður á stuttum ferli sínum sem samgönguráðherra m.m.  Hann hikar ekki við að leggja til atlögu við afturhaldið í landinu til að ryðja framfaramálum landsins braut.  Á þingi hefur hann reynzt skeleggur framfarasinni, og ræður hans og blaðagreinar eru fullar af eldmóði.  Ef sjálfstæðismenn fá aðstöðu til, þarf að setja slíka menn til verka að afloknum næstu þingkosningum.  Jón ritaði stuttan og hnitmiðaðan pistil á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 7. apríl 2021, mætti gera meira af því og leggja þar fram sitt "manifesto" framfaranna:

"Tækifærin maður".

"Okkur hefur gengið betur en flestum þjóðum að eiga við óværuna, sem dunið hefur á heiminum.  Efnahagsleg áhrif eru mikil, og atvinnuleysi er ömurleg afleiðing.  Við verðum að beita öllum vopnum okkar til að endurheimta efnahagslegan styrk, treysta stöðugleika og skapa ný tækifæri til verðmæta- og atvinnusköpunar."

Þetta er mergurinn málsins hjá Jóni Gunnarssyni.  Þarna krystallast staða stjórnmálanna fyrir kosningarnar í haust.  Undir þessum gunnfána og fálkanum eiga sjálfstæðismenn að berjast.  Við verðum að rífa okkur laus úr fjötrum stöðnunar og setja allar vinnandi hendur og hugi til arðsamra verka. 

"En beztu tækifærin liggja í þeim greinum, þar sem menntun, þekking og reynsla okkar fólks er til staðar.  Má þar nefna fiskeldi, sem í senn hefur gríðarleg byggðarleg áhrif og efnahagsleg fyrir samfélagið allt.  Við stefnum að því að verða fremst meðal þjóða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og höfum þar alla möguleika. Við eigum líka mikil tækifæri í framleiðslu á eldsneyti svo sem vetni, sem mun leika lykilhlutverk í orkuskiptum.  Orkufyrirtækin eru þegar farin að skoða þessi tækifæri."  

Það er hverju orði sannara, að gjöfulast og eðlilegast er einfaldlega að leggja meiri rækt við þá starfsemi, sem fyrir hendi er.  Sífellt skvaldur stjórnmálamanna um nýsköpun er oft innantómt.  Fyrirtækin sjálf stunda öflugustu nýsköpunina á gömlum meiði, og þarf ekki að orðlengja þá feikilegu aukningu verðmætasköpunar, sem þannig hefur átt sér stað í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði.  Í lokin skrifaði Jón Gunnarsson:

 ""Við viljum græna atvinnubyltingu byggða á nýsköpun, rannsóknum og þróun."  Þetta eru að mínu mati ofnotuðustu frasar í pólitískri umræðu um þessi mál.  Þetta segir ekki nema hálfa söguna.  Þau tækifæri, sem ég hef farið hér yfir, eiga það sammerkt að þurfa mikla orku, græna orku, til að geta orðið að veruleika.  Það þarf að svara því, hvaðan sú orka á að koma.  Frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð gerir það ekki.  Sú stefna, sem þar birtist, er reyndar til þess fallin, að tækifærum til að spila í efstu deild er fórnað."

Þetta er hárrétt mat hjá Jóni.  Það þarf orku til að knýja þá framleiðsluferla, sem koma þarf á laggirnar í kjölfar Kófsins í viðleitni til að endurreisa efnahaginn.  Ef á að slá slagbrandi fyrir öll ný virkjanaáform og orkunýtingarfyrirætlanir, þá mun slíkt strax koma niður á lífskjörum landsmanna. Jón Gunnarsson er líklegur til að höggva á hnút þeirra banda, sem afturhaldið í landinu er búið að reyra utan um orkumál landsmanna.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Eins ágætur og Jón er,vona ég að hann vinni svona áfram án erlendra íhlutunar eða afskipti,sem alltof margir í Sjálfstæðisflokknum liggja marflatir fyrir.

Helga Kristjánsdóttir, 17.4.2021 kl. 23:21

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er ekki öllum lagið að eiga samskipti við útlendinga, svo að sómi sé að.  Léleg tungumálakunnátta og minnimáttarkennd eða ofmetnaður eru þröskuldar í vegi vænlegs samstarfs.  

Bjarni Jónsson, 18.4.2021 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband