Viðreisn og réttlætið

Formanni og varaformanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og dr Daða Má Kristóferssyni, virðist hafa verið mikið niðri fyrir, þegar þau rituðu grein í Morgunblaðið um fiskveiðistjórnun og Stjórnarskrárbreytingar, enda var heitið hátimbrað: 

"Réttlæti og hagkvæmni". 

Þau virtust telja sig hafa gert stóra uppgötvun um það, hvernig haga ætti fiskveiðistjórnun, þannig að slá mætti þessar tvær flugur í einu höggi, réttlætið og hagkvæmnina.  Sannleikurinn er þó sá, að það, sem þau boða, er sama fyrirkomulagið og Evrópusambandið (ESB) reynir að koma á á Innri markaði sínum, þó ekki enn í sjávarútvegi, þótt einstaka aðildarlönd, t.d. Eistland, hafi reynt það með hörmulegum afleiðingum fyrir sjávarútveginn þar, samþjöppun útgerða og gjaldþrotum. 

Núverandi regla ESB um hlutfallslegan stöðugleika á fiskimiðum sem viðmiðun við úthlutun fiskveiðiheimilda er aðeins gildandi vinnuregla ráðherraráðsins, en hún á sér enga stoð í sáttmálum Evrópusambandsins. Lagastoð þessarar vinnureglu, sem væntanlega mundi veita íslenzkum útgerðum forgangsrétt til veiða í lögsögu Íslands, á meðan hún er í gildi, er reglugerð nr 2371/2002.  Hana getur Ráðið afnumið í atkvæðagreiðslu með auknum meirihluta, þ.e. Ísland hefði ekki neitunarvald eftir inngöngu. Ráð Íslands væri algerlega í annarra höndum.  Hvað er svona eftirsónarvert við það ?  Allt túður ESB-sinna hérlendis um, að Íslendingar geti verið öruggir um að halda núverandi fiskveiðiréttindum sínum innan íslenzku lögsögunnar, er algerlega úr lausu lofti gripið og ábyrgðarlaust fals og mjög ámælisvert m.v. það, sem í húfi er.  Með slíku dæmir Viðreisn sig út fyrir hliðarlínuna sem ómerking.   

Samkvæmt grænbókum Evrópusambandsins er þessi úthlutunarregla fiskveiðiheimilda ekki varanleg, heldur er stefnt á markaðsvæðingu aflaheimilda, eins og Viðreisn boðar í sinni stefnuskrá.  Þetta er fastsett í Lissabonsáttmálanum, 2. gr./ 1. og 2. tl., 3. gr. / d-lið og 4. gr. / d-lið.

Þessi stefna ESB þarf engum hérlendis að koma á óvart, enda er þetta samræmd stefna ESB um aðgang að náttúruauðlindum.  ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, gerði á tímum vinstri stjórnarinnar eftir Hrunið athugasemd við ríkisstjórn Íslands um fyrirkomulag úthlutunar vatnsréttinda eða almennt við fyrirkomulag úthlutunar nýtingarréttar auðlinda á landi ríkisins.  ESA taldi íslenzka ríkið einoka þessar orkulindir og halda þeim í óleyfi, m.v. ESB-löggjöfina, frá einkaframtakinu. Þetta skaðaði frjálsa samkeppni að mati ESA.

Árið 2016 varð ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar (utanríkisráðherra þar var Lilja Dögg Alfreðsdóttir) við öllum kröfum ESA í þessum efnum.  Þetta voru hrapalleg mistök og óskiljanlegur afleikur, enda hefur framkvæmdin látið á sér standa fram að þessu.  Það er auðvitað með öllu ólýðræðislegt, að utanríkisráðherra geti skuldbundið íslenzka ríkið gagnvart ESA/ESB til að bjóða upp vatnsréttindi sín á Innri markaði EES.  Hvernig halda menn, að það fari, þegar Landsvirkjun fer að keppa við evrópska risa á meðal einkafyrirtækja á orkumarkaði um réttinn til nýtingar vatnsréttinda í eigu ríkisins ?  Hvernig í ósköpunum datt téðri ríkisstjórn í hug að fallast á þetta ? Þetta er hneyksli. 

Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar athugasemd frá ESA allnokkru síðar, var hún fljót að hafna þeim afskiptum ESA af ráðstöfunarrétti erfðasilfurs Norðmanna á þeirri forsendu, að úthlutun nýtingarheimilda orkulinda norska ríkisins væri alls ekki á forræði ESB/ESA, heldur óvéfengjanlegur réttur norsku ríkisstjórnarinnar og Stórþingsins.  Við það stendur. Svo  ólíkt hafast frændþjóðirnar að, að með ólíkindum er.  Hvernig stendur á þessum undirlægjuhætti hér ?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og dr Daði Már Kristófersson rituðu sem sagt grein í Morgunblaðið 25. marz 2021, undir heitinu:

"Réttlæti og hagkvæmni".

Hún hófst þannig:

"Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa einarðlega vörð um reglur, sem tryggt hafa meiri hagkvæmni í rekstri íslenzks sjávarútvegs en þekkist annars staðar.  Sú verðmætasköpun, sem þetta kerfi hefur skapað, skiptir miklu máli fyrir efnahagslíf landsins.  Hagsmunir heildarinnar og landsbyggðarinnar mæla eindregið með því, að henni verði ekki raskað.  

Ágreiningur okkar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi snýst um annað.  Þau telja, að fiskimiðin séu eina auðlindin í þjóðareign, þar sem hagkvæmni og réttlæti geti ekki farið saman.  Hér erum við á öndverðum meiði."

 Greinin fór vel af stað, og það er allt rétt, sem ofan greinarskilanna stendur, en þegar plægja á akurinn fyrir auðlindastefnu ESB í dulargervi, þá slær strax út í fyrir höfundunum. Þegar Landsvirkjun var stofnuð árið 1965, lagði ríkið inn ótímabundið sem eignarhlut sinn í félaginu vatnsréttindin í Þjórsá/Tungnaá, sem Títanfélagið hafði safnað og keypt af landeigendum (bændum) í kringum 1920. Þegar virkjanaréttindi ríkisins renna út, dettur engum hérlendis í hug að fara að bjóða öðrum þau til kaups, nema þeim, sem vilja búa í haginn fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Hvers vegna ? 

Það er vegna þess, að sé úthlutunin tímabundin, þá verður vinnslukostnaður raforku óhjákvæmilega hærri vegna styttri afskriftatíma mikilla fjárfestinga; viðhald og fjárfestingar í endurbótaverkefnum virkjunar verða hornreka, af því að nýtingarrétturinn er ekki tryggður til frambúðar, og þess vegna eru fjárveitingar til slíkrar virkjunar alger vonarpeningur og betra að verja í annað öruggara. 

Þetta mun síðan koma niður á afhendingaröryggi og skilvirkni virkjunarinnar, sem háð er stuttum nýtingarrétti og markaðsvæðingu hans.  Allt hlýtur þetta að leiða til verri nýtingar frumorkunnar og lakari umgengni við auðlindina, sem er andstætt hag eigandans, þjóðarinnar.  Þar sem íslenzkur raforkumarkaður er fákeppnismarkaður án samkeppniskrafta, sem þrýsta verðinu niður, mun þetta allt til lengdar leiða til hærra raforkuverðs.  Þess vegna er engin glóra í þessari ævintýraför Viðreisnar, enda er hún ekki sniðin við íslenzkar aðstæður.  Það er einhver meinloka að setja þetta í stefnuskrá íslenzks stjórnmálaflokks.  

Hið sama gildir í raun og veru um sjávarauðlindina og orkuauðlindina.  Sjávarútvegurinn er kjölfesta landsbyggðarinnar.  Stjórnfyrirkomulag hans hefur reynzt vel, eins og forysta Viðreisnar viðurkennir í byrjun greinar sinnar. Hvers vegna að umturna því, sem reynzt hefur vel ?  Markaðsvæðing aflahlutdeilda mun hvorki auka réttlæti hérlendis né hagkvæmni sjávarútvegs.  Hún er til þess fallin að auka samþjöppun, því að fjársterkustu fyrirtækin munu lifa þennan darraðardans af, en hin munu lognast út af.  Hver verða fórnarlömbin ?  Það verða sjávarbyggðir meðfram allri strönd Íslands og reyndar hagkerfi landsins alls, því að fé verður dregið út úr greininni til kaupa á aflahlutdeildum, sem þýðir, að of lítið verður eftir til fjárfestinga í nýjustu tækni.  Það leiðir strax til hrörnunar og stórhættu á, að íslenzkur sjávarútvegur verði undir í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum.  Ekki þarf að spyrja að leikslokum, þegar niðurgreiddar, erlendar útgerðir fara að bjóða í aflahlutdeildir á íslenzkum fiskimiðum.  Það virðist vera lokatakmark Viðreisnar.  Þessi stefna er ekkert minna en þjóðarskömm.

Því er haldið fram, að frjálst framsal aflahlutdeilda hafi aukið ójöfnuð á Íslandi og fært mikil verðmæti á fáar hendur.  Þetta er þröngsýnt og afturhaldssinnað sjónarmið, einhvers konar fortíðarþrá.  Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags gegn Sjálfstæðisflokki í stjórnarandstöðu (flokki sjálfstæðra útvegsbænda) með þingstyrk sínum á Alþingi setti lög um frjálst framsal aflaheimilda 1989, af því að hún fann ekki aðra leið til að rétta hag sjávarútvegsins, sem glímdi þá við mikla aflaskerðingu í kjölfar lögleiðingar aflahlutdeildarkerfisins (kvótaúthlutunar) 1983-1984 til verndar fiskimiðunum.  Þá skiptu aflahlutdeildir um hendur á frjálsum markaði og útgerðum og fiskiskipum snarfækkaði, svo að hagur þeirra, sem fjárfestu í aflahlutdeildum, vænkaðist smám saman.  Hvar er óréttlætið í þessu ? 

Er óréttlátt að bera úr býtum með áræði og dugnaði ?  Það er stórfurðulegt, að þeir, sem annars styðja frjálst framtak, sjái slíkum ofsjónum yfir velgengni annarra. Það er mál til komið að skapa frið um starfsemi sjávarútvegsins, enda greiðir hann meira til samfélagsins en aðrir atvinnuvegir á Íslandi vegna sérsköttunar, og samkeppnisaðilar hans erlendis eru ekki aðeins lausir við þessa sérsköttun (auðlindagjald) í sínu heimalandi, heldur fá þeir veruleg framlög frá hinu opinbera til að stunda sína starfsemi, draga björg í bú til að fæða sína þjóð og viðhalda byggð. 

"Lykillinn að þeirri lausn er enginn galdrastafur.  Hann er einfaldlega sá sami og notaður er til að tryggja hagkvæmi og réttlæti við nýtingu allra annarra náttúruauðlinda, bæði hér heima og annars staðar.

Þessu tvöfalda markmiði má sem sagt ná með því að veita þröngum hópi einkarétt á auðlindum til nýtingar í tiltekinn tíma gegn gjaldi.  Einkaleyfið felur í sér takmörkuð eignarréttindi.  Sanngjarnt gjald fyrir slík réttindi endurspeglast síðan í verði þeirra."

Það, sem þarna er ofan greinarskilanna, er fals, eins og rakið er hér að ofan, og það er ósvífin blekking að halda því fram, að annars staðar í heiminum sé markaðsvætt aðgengi náttúruauðlinda viðtekin venja til að fullnægja hagkvæmni og réttlæti.  Nægir að nefna vatnsorkulandið Noreg sem dæmi.  Þar viðgengst svipað fyrirkomulag og hérlendis með vatnsorkulindirnar, og Norðmenn hafa aftekið með öllu að hlíta valdboði ESA/ESB um breytingu á þessu. Þá tíðkast alls engin markaðsvæðing á aðgengi norskra fiskimiða í anda ESB. Á meginlandinu stendur framkvæmdastjórn ESB í stappi við ein 8 lönd, þar sem vatnsorkuver eru í opinberum rekstri, þ.á.m. Frakkland.  

Það, sem kemur þarna neðan greinarskilanna er í raun og veru áferðarfalleg lýsing á markaðsvæðingu náttúruauðlinda, sem lýst er í grænbókum Evrópusambandsins.  Það eru tvíefld öfugmæli, að við íslenzkar aðstæður geti þetta stefnumið ESB leitt til aukins réttlætis og hagkvæmni fyrir almenning.  Hér er einfaldlega um að ræða aðferð Framkvæmdastjórnarinnar til að veita nýju fjármagni fjársterkra einkafyrirtækja inn í orkugeirann til að létta undir með hinu opinbera við orkuskiptin og almennt til að gera orkugeirann kvikari (dýnamískari) gagnvart breyttu umhverfi.  Viðreisn er á algerlega röngu róli, þegar hún heldur því fram, að hugmyndafræði þessarar markaðsvæðingar sé reist á réttlæti og hagkvæmni.  Hún flaggar hér með innflutta lausn á viðfangsefni, sem er ekki fyrir hendi á Íslandi. Það hlýtur að fara hörmulega (illa ofan í landann). 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband