Trúarhiti og hlýnun jarðar

Innan loftslagstrúboðsins eru nokkrar greinar, eiginlega sértrúarsöfnuðir, sem virðast þeirrar skoðunar, að betra sé að veifa röngu tré en öngu.  Einn slíkur trúir því, að endurbleyting uppþurrkaðra mýra sé áhrifarík leið til að draga úr losun koltvíildis frá jarðvegi á Íslandi.  Þessi söfnuður, kenndur við Votlendissjóð á spena hjá ríkissjóði, veifar erlendum losunartölum, sem er algerlega út í hött að gera, því að losun úr jarðvegi er háð hitastigi jarðvegsins og efnasamsetningu.

  Ávinningurinn við mokstur ofan í skurði er þannig stórlega ofmetinn, og ætti hið opinbera að hætta að hlýða á gösslarana og bíða með allan peningaaustur í þessa skurði, þar til íslenzkir vísindamenn hafa lokið mælingum sínum og geta gefið ráð um, hvernig fénu verður bezt varið til að draga úr nettólosun úr íslenzkum jarðvegi. Til þess þarf rannsóknir og umfangsmiklar mælingar.  

Annar söfnuður er að myndast á Hellisheiðinni hjá jarðgufuvirkjun ON um að fanga koltvíildi úr andrúmslofti og úr gasstreymi frá jarðgufunni. Hann er nú að færa kvíarnar út til iðnaðarins. Honum virðist hafa tekizt að koma því inn hjá stjórnmálamönnum og e.t.v. fleirum, að hjá sér eigi sér stað uppgötvanir á heimsmælikvarða fyrir loftslagið með því að skilja koltvíildi frá öðrum gösum, leysa það upp og dæla því niður í jörðina, þar sem það verður að steindum.  Þetta er mjög orðum aukið, því að víða á jörðunni eru gerðar tilraunir með hið sama og hafa verið gerðar í meira en áratug. Þetta er afkastalítil, orkukræf, vatnsfrek og dýr aðferð, sem getur ekki keppt fjárhagslega við bindingu með ræktun. 

Á þessu ári verður gerð tilraun í Straumsvík með að skilja CO2 frá kerreyk í ISAL-verksmiðjunni.  Í reykháfunum er koltvíildið í háum styrk, og við slíkar aðstæður borgar þessi aðferð sig einna helzt. Bráðabirgða kostnaðarathugun höfundar, sem birtist í þessum pistli, bendir þó ekki til, að nokkurt vit sé í þessari aðferð vegna mikils umhverfisrasks og kostnaðar.

Á Íslandi er basaltið þó sérstaklega móttækilegt fyrir þessa niðurdælingu, og á það í ríkum mæli við Straumsvík vegna gleypni bergsins þar.  Hversu lengi tekur niðurdælingarhola við m.v. ákveðin niðurdælingarafköst ?  Það eru óþekktar stærðir í Straumsvík, en mikilvægar fyrir umfang athafnasvæðis og kostnað.  

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, reit grein í Fréttablaðið 30. apríl 2021 af talsverðum trúarhita um baráttu hinna góðu afla við drekann ógurlega og nefndi greinina "eðlilega":

"Stærsta verkefnið".

Greinin hófst þannig:

"Í upphafi vikunnar [v. 17/2021] bárust þær ánægjulegu fréttir frá Umhverfisstofnun, að losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands hefði dregizt saman um 2 % milli 2018 og 2019, sem er mesti samdráttur milli ára frá 2012.  Þróun í bindingu í skóglendi er líka mjög jákvæð, en hún jókst um 10,7 % frá 2018 til 2019 og hefur nú náð sögulegu hámarki frá 1990."

 Þetta eru ánægjuleg tíðindi af skógræktinni, og er vonandi, að binding nýræktunar fari nú að vigta til mótvægis við losunina í kolefnisbókhaldinu gagnvart ESB. Það er ólíkt gæfulegra að planta í uppþurrkaðar mýrar en að bleyta í móunum með því að fylla skurðina. 

Forsætisráðherra hefur þanið bogann til hins ýtrasta og sett landsmönnum markmið um 55 % minnkun losunar CO2 árið 2030 m.v. árið 2005.  Það þýðir 4 %-5 % árlega minnkun losunar á þessum áratugi.  Hvernig ætlar hún að meira en tvöfalda árlega minnkun losunar á þessum áratugi, þegar ríkið væntir a.m.k. 3 % hagvaxtar að jafnaði á ári ?

"Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru loftslagsmálin í algjörum forgangi."

Þetta er alveg ótrúlegt í ljósi almennt hárra loftgæða á Íslandi og þeirrar staðreyndar, að öll losun Íslendinga hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun andrúmslofts jarðar.  Hér er um pólitískt slagorð vinstri grænna og annarra óraunsærra sveimhuga að ræða ásamt flumbrugangi þeirra á tíma örrar þróunar í tækni orkuskiptanna á flestum eða öllum sviðum hennar.  Að binda þá þjóðina í báða skó með vanhugsuðum markmiðum að viðlögðum sektum í erlendri mynt til ESB er ábyrgðarlaust og óskynsamlegt. 

"Þá hefur aldrei verið veitt meira fjármagni til málaflokksins en á þessu kjörtímabili.  Og til að mæta nýjum og metnaðarfyllri skuldbindingum okkar í loftslagsmálum, sem kynntar voru í desember síðastliðnum, bættum við enn frekar í aðgerðir og fjármagn til málaflokksins í nýrri fjármálaáætlun, sem nú er til meðferðar á Alþingi." 

Þetta er algerlega glórulaust ráðslag forsætisráðherra.  Á sama tíma og fjármögnun hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir hrumustu og elztu borgara lýðveldisins er þannig, að þau stefna nú flest lóðbeint á hausinn, og afleiðingar stjórnvaldsráðstafana í sóttvarnarskyni eru að lenda á heilbrigðiskerfinu af vaxandi þunga, þá er báráttan við hlýnun jarðar sett í algeran forgang í fjárveitingum úr ríkissjóði.  Er forsætisráðherra siðblind að velja þessa forgangsröðun ríkisútgjalda ?

"Í vikunni heimsóttu ráðherrar í ríkisstjórninni Carbfix, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.  Carbfix byggist á íslenzku hugviti, sem gengur út á að fanga koldíoxíð og aðrar vatnsleysanlegar gastegundir, eins og brennisteinsvetni úr útblæstri og binda í steindir í bergi á umhverfisvænan hátt.  Aðferðarfræðin er einstök á heimsvísu og getur orðið mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni."

Hér er líklega ýmislegt ofmælt hjá forsætisráðherra.  Það er hæpið, að hugmyndafræðin um að fanga koltvíildi og binda það í iðrum jarðar sé afsprengi íslenzks hugvits, því að tilraunir með þess háttar föngun og bindingu voru hafnar erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, áður en þær hófust á Hellisheiðinni, eins og lesa má um á bókum.  Hið eina sérstaka við þetta hérlendis er tengt jarðfræðinni, en íslenzka basaltið er gleypið á vökvann, vatn og uppleyst CO2, sem dælt er niður.  Aðferðarfræðin sem slík er þó alls ekki einstök á heimsvísu. 

Þarna er forsætisráðherra fórnarlamb áróðurs hagsmunaaðila, sem að þessu standa, hyggjast hasla sér völl í Straumsvík og eru með draumóra um innflutning koltvíildis til landsins.  Það er mjög hæpið, að þessi aðferð verði nokkurn tímann "mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni", eins og búið er að telja forsætisráðherra trú um.  Til þess er hún of dýr, landfrek, orkukræf og vatnsfrek, en hreint vatn er sem kunnugt er ein af takmörkuðum auðlindum jarðar.

Carbfix er með áform um niðurdælingu 3 Mt/ár (Mt=milljón tonn) af CO2.  Þetta er um 50 % meira en losun iðnaðarins á Íslandi, enda er ætlunin að sverma fyrir fangað CO2 frá útlöndum og ekki mun nást 100 % föngun CO2 úr afgasi iðjuveranna.  Vatnsþörfin verður gríðarleg fyrir blöndun við 3 Mt/ár af CO2 eða 75 Mt/ár eða að jafnaði 2400 l/s, sem er um 7 föld vatnsþörf ISAL og tæplega þreföld vatnsdreifing Vatnsveitu Reykjavíkur. Þessu vatni er ætlunin að dæla upp úr Kaldánni, sem rennur neðanjarðar út í Straumsvík.  Þar hefst við einstök murtutegund í hálfsöltu vatni.  Það verður svo miklu vatni kippt út úr sínum náttúrulega farvegi, að vegna hækkaðs seltustigs í Straumsvík gætu lífsskilyrði þessarar murtutegundar verið í uppnámi. Þetta þarf að rannsaka áður en lengra er haldið með umfangsmikil áform Carbfix og Coda Terminal (ON o.fl.) í Straumsvík.

Mikið jarðrask fylgir gríðarlegum fjölda borholna fyrir upp- og niðurdælingu og athafnasvæðið verður stórt; líklega verða um 150 borholur í gangi á hverjum tíma, og óljóst er, hversu lengi hver niðurdælingarhola endist.  Það er mikil þörf á, að þetta verkefni fari í lögformlegt umhverfismat, því að við fyrstu sín er hætta á umhverfisslysi.  Þótt forsætisráðherra sé hrifinn af þessu rándýra, gagnslitla og stórkarlalega verkefni, er það auðvitað engin trygging fyrir því, að það sé vistvænt eða vitrænt.  Verkefnið er ljóslega óendurkræft, svo að rannsaka verður allar hliðar þess út í hörgul áður en framkvæmdaleyfi verður veitt.

Er einhver fjárhagsleg glóra í þessu verkefni ?  Um það ríkir alger óvissa.  Samkvæmt upplýsingum um stofnkostnað framkvæmdaaðilans "Coda Terminal", sem virðist vera dótturfyrirtæki ON og Carbfix, og ætluðum orkukostnaði og gjaldi fyrir vatnið, má ætla kostnað við móttöku, meðhöndlun og förgun í Straumsvík um 15 USD/t CO2.  Ef reiknað er með 0,5 Mt/ár CO2 af innanlandsmarkaðinum og 2,5 Mt/ár erlendis frá, gæti meðalflutningskostnaður verið um 16 USD/t CO2.  Þá er föngunarkostnaðurinn eftir.  Um hann ríkir óvissa, t.d. úr kerreyk álveranna, en hann gæti þar numið 15 USD/t CO2.  Heildarkostnaðurinn við þetta ævintýri er þá yfir 45 USD/t CO2 (förgun:15+flutningur:16+föngun:15). 

Meðalverð á koltvíildiskvóta undanfarin 2 ár er undir 40 USD/t.  Verðið núna er hærra en 50 USD/t, en allsendis óvíst er, að meðalverðið verði yfir 45 USD/t CO2 á þessum áratugi, svo að þetta umhverfislega glæfraverkefni virðist vera alger vonarpeningur fjárhagslega og t.d. alls ekki fjárhagslega samkeppnishæft við bindingu með íslenzkri skógrækt.  Hér virðist farið fram meira af kappi en forsjá. 

Í lok greinar sinnar skrifaði forsætisráðherra:

"Loftslagsmálin voru eitt af stóru málunum í stefnuskrá Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar.  Þau munu áfram verða það, og ég er sannfærð um, að sú stefna, sem nú hefur verið mörkuð, og þær aðgerðir, sem þegar hefur verið gripið til, byggi mikilvægan grunn að árangri Íslands í loftslagsmálum.  Verkefnið er hins vegar gríðarstórt, og meira mun þurfa til - en ef við höldum áfram á sömu braut, mun það skila frekari árangri og Ísland leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsvánni - stærsta verkefni samtímans."

 Hver er þessi margtuggni árangur Íslands í loftslagsmálum ?  Honum hefur að mestu verið náð fyrir löngu, þegar Íslendingar virkjuðu náttúruöflin til raforkuvinnslu og húsnæðishitunar. Ef heimurinn væri í sömu sporum og Íslendingar núna, hvað þetta varðar, þá væri einfaldlega ekki neitt gróðurhúsavandamál og yfirvofandi hlýnun andrúmslofts yfir 3,0°C, sem hefur í för með sér enn óstöðugra og hættulegra ástand á jörðunni en þar er núna. 

Ísland hefur þegar lagt sitt af mörkum í þessum skilningi, en það er sjálfsagt að taka fullan þátt í áframhaldandi orkuskiptum.  Það er þó óþarfi af forsætisráðherra Íslands að vera með öndina í hálsinum yfir því hótandi almenningi með svipu lífskjaraskerðinga, svo að keyra megi þennan þátt orkuskiptanna fram með ógnarhraða.  Það á að mestu að beita til þess jákvæðum hvötum, og þá munu orkuskipti heimila og fyrirtækja fara fram með þjóðhagslega hagkvæmum hætti.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Væri ekki meira vit í að breyta CO2 í gróður heldur en í grjót?

Hörður Þormar, 10.5.2021 kl. 15:12

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er ólíkt einfaldara og ódýrara í landi, sem sárlega þarfnast ræktunar.  "Aber warum es einfach machen, wenn es kompliziert gibt." 

Bjarni Jónsson, 10.5.2021 kl. 17:15

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér er listi yfir heimsendaspádóma loftslagskirkjunnar, sem ekki hafa ræst undanfarna áratugi. Neðst er ágætt video, sem sýnir hvernig þeir kokka tölurnar til að fá "rétta" niðurstöðu fyrir hræðsluáróðurinn. Þetta á allt rætur í í fasískri hugmyndafræði Glóbalismans.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.5.2021 kl. 04:09

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

5. 1971: New Ice Age Coming By 2020 or 2030

6. 1972: New Ice Age By 2070

það er ekki útséð með 5 og 6 það gæti alveg ræst enn Jón Steinar.

Góð grein Bjarni.

Guðmundur Jónsson, 12.5.2021 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband