20.5.2021 | 13:35
Eru stjórnvöld með á nótunum ?
Þann 6. maí 2021 mátti sjá sjaldgæfa sjón á 38. síðu Morgunblaðsins, þ.e.a.s. sameiginlega afurð Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, og Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, um iðnaðar- og orkumál. Þeir virtust þarna taka höndum saman um gagnrýni á stjórnvöld orku- og iðnaðarmála í landinu fyrir sinnuleysi um umgjörð ríkisins fyrir þennan mikilvæga málaflokk fyrir hagvöxt og atvinnutækifæri í landinu. Þeir telja, að tregða stjórnvalda við að ryðja hindrunum úr vegi fjárfesta standi nú framförum á Íslandi stórlega fyrir þrifum. Þetta er saga til næsta bæjar á kosningaári. Greinina nefndu þeir:
"Græn framtíð orkuvinnslu og iðnaðar".
Hún hófst þannig:
"Lausn loftslagsmála felst aðallega í þrennu. Í fyrsta lagi að stórauka endurnýjanlega orkuvinnslu. Í öðru lagi að minnka kolefnisspor framleiðslu og þar með neyzlu okkar með nýsköpun og nýjum eða breyttum framleiðsluferlum. Í þriðja lagi þarf að fanga og nýta eða farga þeirri kolefnislosun, sem eftir stendur. Ótal tækifæri leynast á Íslandi til grænnar atvinnuuppbyggingar í tengslum við framangreindar lausnir, þ.á.m. fullkomið orkusjálfstæði landsins."
Óstöðug raforkuvinnsla, mikil landþörf og landlýti eru megingallarnir við þær tvær aðferðir, sem flest lönd hafa aðeins úr að moða við raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum, þ.e. raforkuvinnslu með vindmyllum og sólarhlöðum. Skýjafar og stuttur sólargangur útilokar síðar nefndu aðferðina á Íslandi, nema í litlum, afmörkuðum mæli, og aðferð til að geyma orkuna og taka hana út, þegar þörf er á, er nauðsynleg í nútímasamfélagi til að vindorkan komi að fullum notum sem endurnýjanlegur orkugjafi. Í vatnsorkulöndum er þetta hægt með því að spara vatn, þegar vindur blæs og ekki er þörf fyrir alla orkuna.
Hins vegar er þröskuldur umhverfisverndar mun hærri hér fyrir vindmyllur en víðast hvar annars staðar, af því að hérlendis spara vindmyllurnar ekkert jarðefnaeldsneyti. Þá er landþörfin á hverja framleidda kWh á endingartímanum miklu meiri fyrir vindorkuver en okkar hefðbundnu vatnsorkuver og jarðgufuver, og það er gríðarlegur galli, sem framkallar árekstra við aðra hagsmuni. Þetta er viðkvæmt mál, því að meiri raunverulegir hagsmunaárekstrar ferðamennsku og útivistar eiga sér stað í tilviki vindorkuvera en vatnsorku- og jarðgufuvera. Ferðamenn dragast hinum síðar nefndu, en forðast vindorkuverin. Auk þess þarf að gefa gaum að áhrifum spaðanna á hljóðvist og fuglalíf í grennd og áhrif slits þeirra á efnamengun umhverfis. Að öllu virtu liggur beinna við að anna aukinni orkuþörf atvinnulífs og heimila hérlendis með nýjum virkjunum vatnsafls og jarðgufu en með vindmyllum enn um sinn, enda vindmyllurnar vart samkeppnishæfar, hvað vinnslukostnað varðar.
Nú er svo komið, að vegna batnandi alþjóðlegra markaða eru verksmiðjur hér á leiðinni til fullnýtingar orkusamninga sinna, og þá verður ekkert eftir fyrir nýja notendur. Það skýtur þess vegna skökku við málflutning forstjóra Landsvirkjunar um orkusjálfstæði landsins, að fyrirtækið skuli ekki nú vera að hleypa framkvæmdum við nýja, umtalsverða virkjun af stokkunum. Hvaða hindranir eru þar í veginum ? Það þarf að tala og skrifa skýrt.
Stöðugt er unnið að minnkun kolefnisspors í öllum atvinnugreinum á Íslandi, og mest hafur munað um iðnaðinn og sjávarútveginn, en landbúnaðurinn hefur einnig staðið sig afar vel. Réttust viðmiðana í þessum efnum er þróun losunar á framleidda einingu, og þar á sennilega áliðnaðurinn vinninginn, því að verkfræðingum og öðrum sérfróðum þar á bæ hefur tekizt að lágmarka spennuris (tíðni og tímalengd) í rafgreiningarkerunum, en við þau verða m.a. til gastegundirnar CF4 og C2F6, sem eru mjög öflugar gróðurhúsalofttegundir.
Fleiri umbótaaðgerðir starfsmanna iðnaðarins hafa leitt í sömu átt, og það er ekki grobb að halda því fram, að fyrir tilstilli íslenzkra hugbúnaðarmanna og annarra sérfræðinga, rafgreina o.fl. íslenzku álveranna séu þau í fremstu röð í heiminum, hvað þetta áhrærir.
Þriðja atriðið, sem höfundarnir nefna, föngun og förgun kolefnis, FFK, er algerlega vanþróuð enn og á sér tæplega nokkra framtíð í sinni núverandi mynd vegna mikillar auðlindaþarfar á hvert tonn CO2 á formi orku og vatns, sem endurspeglast í háum kostnaði við föngun og förgun hvers tonns CO2.
Hjá ISAL í Straumsvík hyggja menn á tilraunir með föngun CO2 úr kerreyk reykháfanna og telja 20 USD/t CO2 efri mörk viðunandi kostnaðar. Erlendis er þessi kostnaður jafnvel tvöfalt hærri. Með heildarkostnað FFK á bilinu 40-70 USD/t CO2 er FFK hvorki samkeppnishæf við bindingu kolefnis með ræktun eða hreinlega við kolefnisfríar virkjanir, og það er engan veginn á vísan að róa með svo hátt gjald fyrir losunina af þessum ástæðum. Höfundarnir gera þessari vanburða og dýru aðferð allt of hátt undir höfði.
"Tækifæri okkar byggjast á, að við eigum þegar öflugt orkukerfi með hverfandi kolefnisspor og lítið vistspor, en landnýting í þágu vinnslu og flutnings endurnýjanlegrar orku á Íslandi er í dag áætluð um 0,4 % af landinu. Sambærilegt umfang er um 1,5-2 í Noregi og Danmörku."
Þessi tiltölulega litla landnotkun undir virkjanir, miðlunarlón og flutningslínur á Íslandi, sýnir í hnotskurn, hversu vel hefur verið staðið að þessum framkvæmdum m.t.t. lágmörkunar vistsporsins, þegar höfð er í huga sú staðreynd, að raforkuvinnsla á mann hérlendis er sú mesta, sem þekkist í nokkru landi. Sú staðreynd myndar trausta undirstöðu lífskjara í landinu, enda er jákvætt samband á milli rafvæðingar lands, raforkunotkunar, hagvaxtar og lífkjara í hverju landi.
Þótt raforkunotkunin sé mikil að tiltölu, gefur lítil landnotkun til kynna, að landið þoli tvöföldun hennar, án þess að líða tiltakanlega fyrir í ásýnd lands m.v. hin Norðurlöndin, enda eru fleiri virkjanir og öflugra flutningskerfi raforkunnar frumforsenda þess, að hugmyndir stjórnvalda um orkuskipti geti orðið að raunveruleika. Þetta var áréttað í Morgunblaðspistli iðnaðarráðherra 16.05.2021. Loftlínum fer mjög fækkandi á lægri spennustigum, og með hækkun 220 kV flutningsspennu í 400 kV má fjórfalda flutningsgetuna.
Að tiltölulega lítilli landnotkun var ýjað í grein Harðar og Sigurðar, en hrifning þeirra á vindorkuverum er illskiljanleg í ljósi kostnaðar, lélegrar nýtingar mannvirkja, mikillar og mjög lýtandi landnotkunar og mengunar af alvarlegu tagi (hljóð, efni).
"Tækifæri okkar er að byggja á þessum öfluga grunni og bæta við orkukerfi okkar með áframhaldandi ábyrgri nýtingu íslenzkra orkulinda, ekki sízt vaxandi vindorku, aukinni grænni framleiðslu í núverandi og nýjum iðngreinum og nýtingu hugvits okkar og reynslu, sem getur orðið öðrum fordæmi um, hvernig bæta megi efnahagslega velsæld, samfélag og umhverfi."
Það er ofmetið, að við getum orðið öðrum þjóðum fyrirmynd. Til þess eru aðstæður okkar of ólíkur aðstæðum annarra þjóða. Hið bezta mál er þó, ef hægt er að flytja út tækniþekkingu á viðskiptalegum grunni til að virkja orkulindir náttúrunnar, en það getur aldrei skipt miklu máli, og skrýtið, að höfundarnir skuli nefna það. Það er eins og kækur í stássræðum, einhvers konar gluggaskraut, að hér fljóti út úr vizkubrunni, þótt vel sé staðið að verki.
Höfuðatriðið á þessu sviði hérlendis núna er að hefja markvissan undirbúning að aukningu framboðs raforku með nýjum vatnsorkuverum og jarðgufuverum og hætta þessum gælum við stórkarlaleg mannvirki vindorkuvera, sem yrðu stórfellt lýti á landslaginu, eru dýr og óáreiðanleg. Ef hendur verða ekki látnar standa fram úr ermum, verður hér mikil hækkun raforkuverðs samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar, sem tefja mun framgang orkuskiptanna. Framboð hitaveituvatns þarf líka að auka, svo að "kuldaboli" taki ekki völdin í mestu frosthörkunum, eins og óttazt var síðastliðinn vetur.
"Stjórnvöld verða þó að vera hér í fararbroddi, tala fyrir tækifærum, framkvæma til samræmis og ryðja hindrunum úr vegi.
Það eru sameiginlegir hagsmunir Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins að benda á þau orkutengdu tækifæri, sem felast í grænni framtíð. En við ætlum að gera meira. Við ætlum saman að taka virkan þátt í að auka það, sem verður til skiptanna í samfélagi okkar. Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga."
Þarna virðist koma fram sú raunverulega ætlun með þessari grein höfundanna tveggja að vera gagnrýni á sinnuleysi og aðgerðaleysi iðnaðarráðuneytisins. M.ö.o. finnst höfundunum forystu iðnaðarráðherra í orku- og atvinnumálum vera ábótavant. Þeir eru ekki einir um þessa skoðun. Þó er ekki skýrt kveðið á um í gagnrýni tvímenninganna, hverju þeir vilja, að ráðherrann beiti sér fyrir.
Ráðherrann hefur haft forgöngu um myndun orkustefnu, sem sumum þykir þó vera rýr í roðinu, en það vantar hvata af hálfu hins opinbera, til að orkufyrirtækin gangi rösklega fram við virkjanaundirbúning. Þvert á móti hvílir sá grámi yfir vötnunum, að þau bíði eftir orkuskorti, svo að þau fái ástæðu til að hækka orkuverðið. Það mun auðveldlega gerast, eftir að Landsnet og Orkustjóri ACER á Íslandi hafa komið hér á laggirnar framboðs- og tilboðsmarkaði (uppboðsmarkaði) fyrir raforku að evrópskum hætti, en iðnaðarráðherra taldi það mundu verða búbót fyrir neytendur, þegar Orkupakki 3 var til umræðu. Það á eftir að koma í ljós og verður e.t.v. látið bíða fram yfir Alþingiskosningar í haust. Frestur er á illu beztur.
"Heimurinn er nú á hraðferð inn í nýjan veruleika rafbíla, vetnisskipa og -flugvéla og annars græns samgöngumáta, og við eigum alla möguleika á að vinna matvæli og fisk með því að nýta grænu orkuna okkar."
Það er dæmalaus tvöfeldni af hálfu forstjóra Landsvirkjunar að eiga þátt í þessum skrifum í ljósi þess, að garðyrkjumenn hafa kvartað sáran undan stífni Landsvirkjunar í samningagerð um raforkuverð til ylræktunar. Þar, eins og annars staðar, hefur Landsvirkjun hundsað upphaflegt hlutverk sitt um að sjá íslenzkum atvinnufyrirtækjum fyrir nægri og ódýrri raforku, sem þó að sjálfsögðu þarf að standa undir öllum kostnaði við framleiðslu, flutning og dreifingu. Lækkun raforkuverðs til fiskvinnslu mundi t.d. auka samkeppnishæfni hennar við aðrar evrópskar fiskvinnslur, sem mundi leiða til þeirrar æskilegu þróunar að auka hlutdeild fullunninnar vöru sjávarútvegsins í útflutningi.
Loksins er í bígerð hjá iðnaðarráðuneytinu að gera ráðstafanir til að skapa forsendur til lækkunar gjaldskráar Landsnets og til jöfnunar á gjaldskrám dreifingarfyrirtækjanna á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Slíkt er einfaldlega í anda þess að styrkja matvælaöryggi landsmanna og samkeppnishæfni atvinnulífsins almennt. Það er því vonum seinna, að þetta kemur fram.
"Öll okkar rafrænu samskipti kalla á vinnslu og vörzlu gagna í gagnaverum, sem þegar hafa risið hér, og getur sá iðnaður haldið áfram að vaxa og dafna með tilheyrandi útflutningstekjum og þekkingu fyrir þjóðarbúið. Þessi græna framtíð kallar bæði á orkuvinnslu og uppbyggingu græns iðnaðar."
Þetta er hræðilegur moðreykur í ljósi þess, hvernig Landsvirkjun hefur komið fram við eigendur gagnavera hérlendis, og formaður samtaka þeirra hefur gert grein fyrir opinberlega. Landsvirkjun hefur ekkert hlustað á þá um endurskoðun raforkusamninga í ljósi lækkunar raforkuverðs í nágrannalöndunum, sem leitt hefur til minni viðskipta og stöðnunar á sviði fjárfestinga í þessum geira hérlendis. Fagurgali forstjóra Landsvirkjunar er fullkomlega raunveruleikafirrtur. Þetta tengslaleysi við raunveruleikann nálgast siðleysi. Hvað gengur honum til ? Hefur hann eða stjórn Landsvirkjunar söðlað um ? Mun Norðurál og umbylting steypuskála fyrirtækisins á Grundartanga fyrir allt að mrdISK 15 njóta góðs af því ? Eiga ekki kjósendur, eigendur Landsvirkjunar, að fá haldbetri upplýsingar um framkvæmd orkustefnu iðnaðarráðherra en þessi óljósu reykjarmerki ? Svarið kemur í framhaldi greinar tvímenninganna hér að neðan. Boltinn er í fangi iðnaðarráðherra samkvæmt þeim. Þar ríkir ákvarðanatregða og forystuleysi, ef marka má höfundana. Þá vita kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi það, nema ráðherrann leiðrétti misskilning þeirra tvímenninga snarlega.
"Ekkert af þessu gerist, nema þau, sem halda um stjórnvölinn, séu sammála okkur um mikilvægi þess að stefna í þessa átt. [Undirstr. BJo.]
Vissulega hafa mörg skref verið stigin á þeirri braut, en betur má, ef duga skal. Við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd, sem einnig bjóða græna orku. Sú samkeppni harðnar enn meira, nú þegar beizlun vinds og sólar verður enn algengari um allan heim, og saxar á forskotið, sem orka vatnsafls og jarðvarma tryggði okkur áður."
Óhjákvæmileg aðgerð hérlendis til að bregðast við þeirri harðnandi samkeppni, sem nú er um að selja raforku úr "grænum" orkulindum í heiminum, er að lækka arðsemiskröfur á hendur íslenzkra orkufyrirtækja, ekki sízt Landsvirkjunar, svo að fyrirtækin geti í senn lækkað verð sín og fullnægt kröfum eigendanna. Einnig þarf að einfalda stjórnsýsluna um nýjar virkjanir, framkvæmdaleyfi og virkjanleyfi, sem flækjufætur hafa komizt í og skapað öngþveiti, sem leiðir til hás kostnaðar og orkuskorts, ef svo heldur fram sem horfir.
Það blasir við, að Hæstiréttur veitti fordæmi um, hvernig meðhöndla á virkjanamannvirki m.t.t. álagningar fasteignagjalds "orkusveitarfélaga", þegar hann dæmdi Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun í deilumáli um Kárahnjúkavirkjun. Þetta mun leiða til hærri rekstrarkostnaðar virkjanafyrirtækjanna, en líta má svo á, að verið sé að deila virkjanávinninginum með viðkomandi sveitarfélögum, sem hýsa þær, og það er eðlilegt, enda lækki arðgreiðslukrafa eigendanna á móti.
Síðan koma hugleiðingar höfundanna um framtíðina, sem ekki verða skildar öðruvísi en svo, að sú græna framtíð, sem þeir þykjast vilja beita sér fyrir, geti ekki orðið að veruleika, nema stjórnvöld landsins taki til hendinni. Þetta verður ríkisstjórnin að taka alvarlega og gera hreint fyrir sínum dyrum nú á kosningaári:
"Erum við reiðubúin að taka á móti þeim, sem vilja byggja hér næstu gagnaver ? Rafhlöðuverksmiðju til að mæta þörfum rafbílaframleiðenda ? Stór gróðurhús, sem tryggja ferskt grænmeti allan ársins hring ? Getum við tryggt aðstöðuna, orkuna, samstarf við önnur fyrirtæki, sveitarstjórnir og aðra hagaðila ?
Því miður skortir enn töluvert upp á. Landsvirkjun er reiðubúin að mæta þessari áskorun, og það eru Samtök iðnaðarins og íslenzk iðnfyrirtæki líka. En stjórnvöld verða að ryðja brautina, tryggja, að löggjöf sé með þeim hætti, að við missum ekki forskot okkar, hvort sem þar er rætt um skipulagsmál, umhverfismál, skattamál eða hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna. Frumkvöðlar eru vissulega tilbúnir til að taka ýmsa áhættu og skapa grundvöll undir starfsemi sína, en það þarf að ryðja hindrunum úr vegi. Ef við getum tryggt snör viðbrögð og fyrirsjánleika í rekstrarumhverfinu, eru allar líkur á, að hér byggist upp enn öflugri grænn iðnaður til framtíðar." [Undirstr. BJo.]
Halló, er iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ekki heima ? Er allt froðusnakkið undanfarið ekkert meira en það, froðusnakk ? Hefur hún átt samtöl við þessa herramenn um hindranirnar, sem þeir telja stjórnvöld þurfa að ryðja úr vegi, svo að hér verði blómleg nýsköpun á sviði nýtingar grænnar orku ? Er það svo, að stjórnvöld standi eins og bergþurs gegn sköpun þeirra nýju atvinnutækifæra, sem ráðherrum verður svo tíðrætt um til að skapa ný störf og verðmæti, sem skotið geti stoðum undir núverandi lífskjör, sem ella munu hrynja, því að þau eru um efni fram. Það er eitthvað mikið óútskýrt fyrir kjósendum í þessu máli. Stendur einhver ríkisstjórnarflokkanna þversum gegn nauðsynlegum umbótum, eða hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórnin ekki látið verkin tala í kjölfar skrúðmælgi ?
Það verður þó að setja spurningarmerki við eina verksmiðjutegund, sem höfundarnir nefna hér að ofan sem æskilega fyrir Íslendinga að sækjast eftir, en það er rafgeymaverksmiðja. Hugmyndin er komin frá Landsvirkjun, en viðskiptalega er hún gjörsamlega fótalaus og umhverfislega gæti hún reynzt bjóða upp á illvíg vandamál. Ísland, með sínar miklu fjarlægðir frá hráefnum og mörkuðum rafgeyma, getur tæplega verið fýsileg staðsetning í augum slíkra fjárfesta. Við sjáum staðsetningu Tesla á risaverksmiðju í grennd við Berlín. Það verksmiðjuverkefni hefur reyndar lent í miklum mótbyr af umhverfisverndarástæðum vegna sjaldgæfs dýralífs, sem þar þarf að víkja.
Slík verksmiðja notar ýmsa sjaldgæfa málma, og verði þeir hreinsaðir hér, getur það leitt til mengunar, sem við viljum ekki sjá, t.d. geislavirkni. Megnið af þessum sjaldgæfu málmum, t.d. kobalt, sem í sumum tilvikum eru unnir með vafasömum hætti úr jörðu í Kongó, er reyndar flutt til Kína til vinnslu þar. Kínverjar ráða lögum og lofum á hráefnamarkaði bílarafgeyma og framleiða reyndar mest allra af þeim sjálfir. Þetta er ekki sérlega traust atvinnugrein að innleiða hérlendis, enda líklegt, að um bráðabirgða tækni verði að ræða.
Eftir þetta spark forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins í mark ríkisstjórnarinnar, verða ráðherrar, t.d. iðnaðarráðherra, að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ella situr ríkisstjórnin uppi ómarktæk með Svarta-Pétur efnahagslegrar stöðnunar og rýrnandi lífskjara.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Hér er fjallað um tilraun til að framleiða fljótandi eldsneyti úr vetni og CO2. Ekki veit ég hversu hagkvæm hún reynist, en held þó að hún borgi sig betur en að flytja CO2 í tankskipum, þúsundir km, til þess að dæla því niður í hraunið við Straumsvík: E-Fuels – Kraftstoffe aus dem CO2 der Luft
Hörður Þormar, 20.5.2021 kl. 15:00
Þakka þér kærlega fyrir þetta áhugaverða myndband frá Karlsruhe, Hörður Þormar. Það er ólíkt uppbyggilegra að framleiða eldsneyti úr vetni og koltvíildi hérlendis en að dæla CO2 niður í jörðina með ærnum tilkostnaði. Það er enn ekki ljóst, hvað "Power to X" kostar, en virðist munu verða fýsilegra að kaupa búnað frá Karlsruhe fyrir koltvíildisskattfé og hefja tilraunarekstur hér, þegar ljóst verður, að ESB viðurkennir þessa aðgerð sem fullgilda mótvægisaðgerð. Vinnuvélar, skip og flugvélar munu þurfa á slíku "rafeldsneyti" að halda.
Bjarni Jónsson, 21.5.2021 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.