3.6.2021 | 21:37
Sýn iðnaðarráðherra
Þann 16.05.2021 birtist pistill eftir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar á sunnudagsvettvangi Morgunblaðsins. Þar reit Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir um tengsl orkumála og loftslagsmála. Þessi pistill ráðherrans er athyglisverður í ljósi Morgunblaðsgreinar forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins 10 dögum áður, og gerð er grein fyrir í pistlinum á undan þessum á þessu vefsetri, en þar kvarta þeir undan því, að stjórnvöld hafi ekki skapað forsendur fyrir grænni atvinnubyltingu með því að ryðja hindrunum úr vegi á sviði skipulagsmála, umhverfismála, skattamála eða varðandi "hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna". Túlka mátti greinina þannig, að stöðnun sú, sem nú ríkir á sviði nýrrar atvinnusköpunar í krafti grænnar orku Íslands væri sinnuleysi stjórnvalda að kenna og væri grein tvímenninganna ákall um "að ryðja brautina".
Pistill ráðherrans,
"Orka - lykillinn að árangri í loftslagsmálum",
hófst þannig:
"Fyrir nokkrum dögum skoruðu náttúruverndarsamtök á stjórnvöld að standa sig betur í því að ná loftslagsmarkmiðum. Í yfirlýsingu þeirra var þó ekki vikið neitt að því, sem skiptir einna mestu máli í því sambandi."
Hvað knýr náttúruverndarsamtök til slíkrar áskorunar á íslenzk stjórnvöld ? Umhyggja fyrir umhverfinu ? Ef sú umhyggja er ástæðan, er hún reist á fölskum forsendum, því að það er ekki nokkur leið fyrir íslenzk stjórnvöld eða landsmenn alla að hafa nokkur mælanleg áhrif á hlýnun jarðar. Þess vegna yrði mjög misráðið af stjórnvöldum að fara nú að beita þjóðina enn frekari þvingunarráðstöfunum á formi t.d. hækkunar gjalds á jarðefnaeldsneyti til ríkisins eða hækkunar aðflutningsgjalda á benzín- og dísilbílum, eins og eru ær og kýr slíkra samtaka. (Taka skal fram, að pistilhöfundur ekur hreinum rafmagnsbíl síðan 2020.) Hins vegar er sjálfsagt að veita áfram jákvæða hvata til orkuskiptanna. Frumatvinnuvegirnir sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, hafa allir staðið sig með prýði á alþjóðlegan mælikvarða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn framleiðslu sinnar, og það er aðalatriðið. Tækni orkuskiptanna er í hraðfara þróun núna, svo að það er allsendis ótímabært að verða við beiðni téðra náttúruverndarsamtaka. Þó verður að hvetja stjórnvöld til að vera kröfuharðari en nú er um vísindalegan grundvöll aðgerða, sem styrktar eru af ríkisfé, og trónir þar endurmyndun mýra með mokstri ofan í skurði efst á blaði.
"Til að ná raunverulegum árangri í að minnka losun og breyta hlutum þarf endurnýjanlega raforku og meiri háttar tækniþróun og nýsköpun. Ekki bara landverndarverkefni - heldur loftslagsverkefni. Og fjölga þannig stoðum verðmætasköpunar.
Ég fagna því auðvitað, að minnt sé á nauðsyn þess að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda. En til að ná þeim árangri, sem þetta ákall snýst um, þurfum við að verða óháð jarðefnaeldsneyti, eins og segir í nýrri Orkustefnu.
Til að verða óháð jarðefnaeldsneyti þurfum við nýja græna orkugjafa á borð við rafeldsneyti og fleira. Og til að framleiða þessa orkugjafa [orkubera-innsk. BJo], þurfum við að framleiða meira af grænni orku [virkja meira - innsk. BJo].
Þeir, sem kjósa að líta framhjá þessu, hafa ekki svörin, sem duga."
Þetta er góður málflutningur hjá iðnaðarráðherra, og það er eðlilegt, að hún taki ekki mark á málflutningi um, að tímabundin umframorka í kerfinu árið 2020 og dökkar horfur um framhald stóriðnaðar í landinu, valdi því, að ekkert þurfi að virkja á næstunni, eins og t.d. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hélt fram í fyrra. Nú hefur hagur strympu vænkazt og endurskoðun raforkusamnings Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto er í höfn. Árið 2010 heimtaði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, að álverðstenging við raforkuverðið yrði afnumin. Með semingi var það látið eftir honum, og samningurinn frá 2011 innihélt einvörðungu tengingu við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, svo gáfulegt sem það nú er. Við endurskoðun þessa raforkusamnings 2019-2021 þvældist Landsvirkjun lengi vel fyrir tillögu ISAL/Rio Tinto um endurupptöku álverðstengingar, þótt í breyttri mynd yrði, en söðlaði svo skyndilega um síðla árs 2020.
Strax og raforkuverðið til ISAL skreið yfir verðið samkvæmt eldri samningi, 39 USD/MWh, birtust trúnaðarupplýsingar um verðútreikning eftir endurskoðun í Markaði Fréttablaðsins, 19. maí 2021, og stutt viðtal við Hörð. Hvaðan komu þessar upplýsingar ? Það er furðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki hafa þvertekið með öllu að ræða um hinn endurskoðaða raforkusamning á grundvelli trúnaðarupplýsinga í höndum Markaðar Fréttablaðsins.
Þar er hann þó enn við sama heygarðshornið og kveður "fast" verð áfram vera fyrsta val Landsvirkjunar, sem er skrýtið í ljósi þess, að lágmarksverðið í þessu tilviki er hátt eða um 30 USD/MWh (þar fer hann ekki nákvæmlega með). Fari álverð yfir 1800 USD/MWh, deila ISAL og Landsvirkjun hagnaðinum með sér.
"Ótal fjárfestingarverkefni eru á teikniborðinu, sem snúast um að ná árangri í loftsalgamálum. Þar má nefna fjölnýtingu orkustrauma (með tilheyrandi orkusparnaði), föngun kolefnis, förgun kolefnis og framleiðsla á rafeldsneyti."
Þetta er rýrt í roðinu hjá iðnaðarráðherra, nema hið síðast nefnda. Nú hafa Þjóðverjar boðið Íslendingum upp í dans á sviði vetnistækni. Sjálfsagt er að stíga þann dans undir ljúfri þýzkri "Tanzmusik". Þetta varð ljóst við lestur greinar sendiherra Sambandslýðveldisins, Herrn Dietrich Becker, í Bændablaðinu 27. maí 2021. Það er eðlilegt að stofna með þeim þróunar- og framleiðslufélag hérlendis, sem framleiði hér vetni með rafgreiningu og flytji megnið út, en aðstoði hér við að nýta vetnisafurðir á vinnuvélar, skip og flugvélar. Skrýtið, að iðnaðarráðherra skuli ekki geta um þessa þróunarmöguleika í téðri orku- og loftslagsgrein sinni.
Auðvitað útheimtir verkefnið nýjar virkjanir. Getur verið, að heimóttarleg afstaða vinstri grænna til þeirra setji landsmönnum stólinn fyrir dyrnar við raunhæft verkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu. Þá yrði Vinsri-hreyfingin grænt framboð heimaskítsmát í loftslagsskákinni, eins og sumir áttu von á. Reyndar hefur nú Landsvirkjun dregið lappirnar svo lengi að hefja nýjar virkjanaframkvæmdir, t.d. í Neðri-Þjórsá, að nú stefnir í alvarlegan orkuskort næsta vetur, sem getur þýtt tap útflutningstekna upp á tugi milljarða ISK. Sleifarlag ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar er óviðunandi. Hneykslanlegt útspil fyrirtækisins, sem fram kom á forsíðu Morgunblaðsins 03.06.2021 (allt að 15 % gjaldskrárhækkun) er efni í annan pistil.
Síðan heldur iðnaðarráðherra áfram í tengslum við ótilgreind græn verkefni:
"Ef þessi viðleitni á að geta blómstrað, megum við ekki kæfa hana í fæðingu með sköttum og skrifræði. Við eigum þvert á móti að greiða götu hennar með einföldu regluverki og jafnvel styrkjum og ívilnunum. Skref í þá átt hafa þegar verið stigin með verkefninu "Græni dregillinn", nýjum áherzlum og auknum fjárheimildum Orkusjóðs og nýjum lögum um ívilnanir til grænna fjárfestinga. Auk þess hef ég nýlega hafið frumathugun á því, hvort raunhæft sé að ganga lengra með því að verja a.m.k. hluta af tekjum ríkissjóðs af losunarkvótum til að styðja við fjárfestingarverkefni, sem þjóna loftslagsmarkmiðum okkar."
Græn verkefni á borð við vetnisverksmiðju og verksmiðjur vetnisafurða á borð við ammoníak, metanól, etanól o.fl. verða arðberandi verksmiðjur, sem nýta þróaða tækni, og þurfa þess vegna ekki styrki úr ríkissjóði, heldur aðeins samkeppnishæft raforkuverð, væntanlega 25-35 USD/MWh. Þeir, sem lifa í hugmyndaheimi afdankaðs sósíalisma, munu vilja háa skattheimtu af arðgreiðslum þessara félaga sem annarra. Þeir horfa fram hjá því, að fjármagn kostar, og ef ekki er aðsvon af fjárfestingu í fyrirtækjum, þá verður ekkert af fjárfestingunum, nema ríkissjóður slái lán til áhættufjárfestinga, en ríkisvaldið stenzt einkafyrirtækjum ekki snúning, hvað rekstur varðar, og er þá nánast sama, hvað um ræðir. Iðnaðarráðherra hefur rétt fyrir sér um skattana, en vanmetur e.t.v. vilja einkafjárfesta til fjárfestinga á þessu sviði alfarið á viðskiptalegum grundvelli. Sjálfsagt er að beina opinberum tekjum af sölu koltvíildiskvóta til þróunar á mörkuðum fyrir vetnisafurðir, skógræktar o.fl.
Síðan kemur iðnaðarráðherra á óþarflega almennan hátt að nauðsyn nýrra virkja:
"Ef við ætlum að tryggja, að bæði núverandi og nýir notendur grænnar orku geti fengið hana á samkeppnishæfu verði, þurfum við að huga miklu betur að framboðshlið orkunnar og sjá til þess, að hér verði framleidd meiri orka. Það ætti að öllu jöfnu að stuðla að lægra verði, þó að auðvitað komi samkeppnin þar líka við sögu."
Þetta er rétt hjá iðnaðarráðherra og orð í tíma töluð. Halda mætti, að einhver valdalaus skrifari úti í bæ hefði párað þetta, því að stjórn stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sem alfarið er í eigu ríkisins, virðist vera annarrar skoðunar en ritarinn, því að Landsvirkjun er alls ekkert í virkjunarhugleiðingum þessa stundina. Hvernig í ósköpunum má þetta vera ? Orkuskortir blasir við næsta vetur. Ef allir núverandi viðskiptavinir Landsvirkjunar hefðu síðastliðinn vetur nýtt samninga sína til hins ýtrasta, sem þeir voru fjarri því að gera vegna deilna við Landsvirkjun og markaðsaðstæðna, hefði komið til stöðvunar á afhendingu allrar orku, nema forgangsorku, frá orkuverum Landsvirkjunar. Þetta ásamt mjög lágri vatnsstöðu Þórisvatns núna, sýnir, að yfirvofandi er orkuskortur í landinu. Hvers vegna skipar eigandinn ekki Landsvirkjun að hefjast handa strax til að forða stórfelldu efnahagstjóni árum saman (nokkur ár tekur að reisa virkjun, þótt fullhönnuð sé nú) ? Þykist ríkisstjórnin ekki hafa til þess vald vegna lagaákvæða Orkupakka 3, sem að forminu gætu virzt draga völd úr höndum ráðherra og til Orkustjóra ACER á Íslandi, sem einnig stjórnar Orkustofnun Íslands, eða svífur andi vinstri grænna yfir vötnunum ? Hvort tveggja er afleitt. "Something is rotten in the state of Danemark", var einu sinni skrifað. Eru orkumálin í lamasessi vegna stjórnmálaástandsins ? Það er of dýrt til að vera satt.
Iðnaðarráðherra hélt áfram hugleiðingum sínum um orkumálin:
"Því miður hefur hagkvæmni orkukosta nánast horfið út úr ferli rammaáætlunar, því að þetta grundvallaratriði hefur fallið í skuggann af flóknari spurningum um þjóðhagslega hagkvæmni - spurningum, sem ekki er hægt að svara, þegar ekki er vitað, hver muni kaupa orkuna. Þetta ferli þarf augljóslega að laga, og ég hef áður sagt, að svo virðist sem skynsamlegt væri að stíga skref til baka og huga betur að kostnaðarverði nýrra orkukosta, eins og gert var á fyrstu árum rammaáætlunar."
Í ljósi alvarlegrar stöðu orkumálanna er þetta tilþrifalítið hjá iðnaðarráðherra í lok kjörtímabils hennar. Það er alveg sama, hvaða virkjanakost menn velja núna - hann verður þjóðhagslega hagkvæmur vegna þeirrar einföldu ástæðu, að hann mun koma í veg fyrir orkuskort, og hver megawattstund, sem raforkubirgjar ekki geta afhent, kostar viðskiptavini á bilinu 100-1000 USD/MWh (12-120 ISK/kWh). Þótt ekki stafaði bráðavandi að núna, þá eru horfur á orkumarkaði hér nú þannig, að núvirði hagnaðar af hverri ISK í líklega öllum virkjanakostum í framkvæmdaflokki gildandi Rammaáætlunar er að líkindum hærra en af öðrum fjárfestingarkostum, sem eigendum virkjanafyrirtækjanna standa til boða. Þess vegna eru þessi skrif iðnaðarráðherra um flóknar spurningar um þjóðhagslega hagkvæmni virkjana torskiljanlegar. Við þurfum ekki flækjufætur, við þurfum framkvæmdafólk. Það hvílir óþarflega mikil þoka yfir iðnaðarráðuneytinu.
Næst víkur hún sér að vindorkunni:
"Vindorkan er síðan annar og mjög þýðingarmikill kapítuli, en hún hefur á fáum árum orðið sífellt ódýrari og er núna farin að veita okkar hefðbundnu orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, mjög harða samkeppni. Þar eru tækifæri, sem við eigum að nýta."
Hefur iðnaðarráðherra séð einhverja samanburðarútreikninga, sem skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu hennar um samkeppnihæfni vindorku á Íslandi, eða er þetta bara enn eitt dæmið um, að hver étur þessa fráleitu fullyrðingu upp eftir öðrum ? Vindorkuverin þurfa tiltölulega mikið landrými á hvert uppsett MW, og kostnaður landsins hefur áhrif á vinnslukostnað vindmylluversins. Gríðarlegir steypuflutningar kosta sitt. Niðurtekt og eyðingu þarf einnig að taka með í reikninginn. Dreifing trefjaplasts frá spöðunum, sem slitna í regni og sandbyljum, þarf að taka með í umhverfiskostnaðinn.
Kolefnisspor vindmyllna á framleiddar megawattstundir endingartímans, sem er styttri en hefðbundinna íslenzkra virkjana, er tiltölulega stórt, þegar allt er tekið með í reikninginn. Í íslenzku samhengi eru vindmyllur þess vegna ekki svo fýsilegar, að ástæða sé fyrir iðnaðarráðherra að hvetja til þeirra.
Lokatilvitnun í ráðherrann:
"Loks höfum við nú þegar gert gangskör að því að greina tækifæri til að lækka flutningskostnað raforku. Þær tillögur voru unnar hratt, en þó faglega og birtust í frumvarpi mínu til nýrra raforkulaga, sem miðar ótvírætt að því að lækka flutningskostnað með breyttum forsendum um útreikning á gjaldskrám eða nánar tiltekið tekjumörkum."
Þetta brýna mál fyrir allan atvinnurekstur í landinu hefur tekið ráðherrann allt of langan tíma. Hún hefði átt að vinda sér í málið á fyrsta ári ráðherradóms síns yfir orkumálunum, og á hvaða vegi er jöfnun flutningsgjalds á milli þéttbýlis og dreifbýlis statt, það brýna réttlætismál til að jafna stöðu íbúa í þéttbýli og dreifbýli m.t.t. þjónustu sérleyfisfyrirtækja ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Bendi á pistil á bloggíðu minni í dag um svonefnda "endurnýjanlega" orku og athugasemdir við hana.
,Á tíu ára afmælishátíð Ísor fyrir nokkrum árum sýndi einn helsti sérfræðingur Ameríku í jarðvarmanýtingu á stórt Ameríkukort sem var með mörgum litlum deplum ljósum á lit, sem sýndu helstu jarðvarmasvæði álfunnar.
Í lok ræðu sinnar benti hann á risastóran eldrrauðan hnött í Klettafjöllunum og sagði: "Á þvsssum stað er langöflugasta háhitasvæði Ameríku. Það heitir Yellowstone, þar eru heilög vé og friðuð um aldur og ævi."
Ómar Ragnarsson, 4.6.2021 kl. 13:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.