Brýn skilaboð

Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, talaði tæpitungulaust í prýðisviðtali við Hörð Ægisson í Markaði Fréttablaðsins 20. maí 2021.  Báðir hafa þeir tileinkað sér rökrétta og gagnrýna hugsun, og þess vegna fá skilaboð Seðlabankastjóra þunga vigt.  Á þessu undirbúningsstigi fyrir skipun framboðslista í Alþingiskosningum í haust hefur annar maður kveðið sér hljóðs á grundvelli rökréttrar og gagnrýninnar hugsunar, en það er Arnar Þór Jónsson, dómari, sem býður sig fram í 2.-3. sæti á lista sjálfstæðismanna í Kraganum.  Verður líka vitnað í hann í þessum pistli.

Viðtalsgrein Harðar bar heitið:

"Getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld".

Hún hófst þannig:

"Vaxtahækkunarferli Seðlabankans er hafið, en hversu hratt það verður, fer eftir verðbólguþróuninni.  Seðlabankastjóri vill, að ríkið fari að draga sig í hlé og varar við hröðum vaxtahækkunum, verði ákall um frekari launahækkanir.  Auðvelt [er] að eyðileggja samkeppnisstöðuna."

Óhætt er að segja, að Seðlabankastjóri segi ríkisstjórninni til syndanna fyrir lausbeizlaða fjármálastjórnun og skuldasöfnun, sem nú þurfi að fara binda enda á, enda atvinnulífið að taka við sér, og spáð er 3,1 % hagvexti í ár og 5,2 % hagvexti 2022. Hann hrósar ríkisstjórninni þó fyrir að hafa deyft höggið, sem á mörgum launþegum og fyrirtækjum reið vegna sóttvarnarráðstafana yfirvalda hér og erlendis, en nú sé tími kominn til að snúa við blaðinu.  Verkalýðsleiðtogum, sem grafi undan efnahag almennings með launakröfum, sem reistar eru á sandi, þ.e. helberu óraunsæi, ef ekki einhverju enn verra, hótar hann bannfæringu í anda Jóns Arasonar, Hólabiskups, en uppreisn hans gegn Danaveldi á Íslandi gerði Seðlabankastjóri frábær skil í nýlegri bók sinni.

""Það er engin framtíð í því fyrir landið að ætla að búa til hagvöxt með skuldsetningu og opinberum útgjöldum.  Það er mun æskilegra, ef okkur farnast að búa til þannig aðstæður, að ný störf skapist í einkageiranum með hagstæðum fjármögnunarskilyrðum og þannig örva fjárfestingu í atvinnulífinu.  Það er hin eðlilega leið að mínu viti, og þess vegna verður ríkið að fara að stefna að því að draga sig í hlé og minnka hallareksturinn", segir Ásgeir Jónsson í viðtali við Fréttablaðið." 

Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á Íslandi, heldur fjórskipt, þar sem Seðlabankinn hefur mikið sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu til athafna að þýzkri fyrirmynd.  Slíkt gafst Þjóðverjum prýðilega, á meðan die Deutsche Mark var og hét, og nú virka fjármálatól Seðlabankans vel á Íslandi, en fulltrúar die Bundesbank eru nú oftast í andófi gegn meirihluta bankastjórnar ECB, evrubankans. 

Nú virðast endurráðningar vera að hefjast í ferðageiranum, og nýting gististaða vex með hverri vikunni, svo að tímabært er nú að hægja á lántökum  ríkissjóðs vegna atvinnulífsins.  Annars mun hægja á endurreisninni vegna áframhaldandi hækkunar vaxta.

Launin eru aðalkostnaðurþáttur margra fyrirtækja, ekki sízt í ferðaþjónustu.  Launakostnaður er einna hæstur hér í heiminum sem hlutfall af verðmætasköpun fyrirtækjanna.  Þetta minnkar svigrúm þeirra til fjárfestinga og til framleiðniaukningar.  Nú ber nauðsyn til að fylgja fordæmi hinna Norðurlandanna og láta útflutningsatvinnuvegina gefa tóninn varðandi svigrúm til launahækkana.  Seðlabankastjóri er ómyrkur í máli:  

""Ef við erum t.d. að fara að sjá ákall um launahækkanir til að bregðast við minni kaupmætti vegna aukinnar verðbólgu, þá verður Seðlabankinn neyddur til þess að bregðast við strax.  Það er engin spurnig", útskýrir Ásgeir."  

Agaleysi verkalýðsfélaga og Alþýðusambands getur hæglega leitt til mjög versnandi lífsskilyrða í landinu og áframhaldandi fjöldaatvinnuleysis.  Það er einfalt lögmál framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði.  ASÍ getur ekki haldið áfram á braut þess ábyrgðarleysis að krefjast áframhaldandi lántöku ríkissjóðs til að fjármagna hærri atvinnuleysisbætur.  Alþýðusambandið hefur engan siðferðislegan rétt til að krefjast þess, að byrðunum verði velt yfir á framtíðina í stað þess að leggja lóð sín á vogarskálar samkeppnishæfs atvinnulífs, sem skapar öllum, sem vilja vinna, vinnu.  

Seðlabankastjóri hélt áfram:

"Það er orsakasamband á milli launa og verðbólgu, og það sama má segja um ríkisútgjöldin, en það liggur fyrir, að hið opinbera hefur verið á útopnu til að bregðast við efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar."

Menn geta rétt ímyndað sér, hvernig verðbólguþróunin væri hér, ef Ísland væri í ESB og hefði þar af leiðandi orðið að taka upp evru.  Stjórn peningamála landsins væri í höndum evrubankans í Frankfurt am Main og stýrivextir þar með við 0.  Stjórnendur þar á bæ mundu ekki skeyta nokkurn skapaðan hlut um það, þótt húsnæðisverð ryki hér upp úr öllu valdi knúið áfram af ódýru lánsfé og lóðaskorti aðallega í boði óhæfs meirihluta borgarstjórnar undir forystu Samfylkingar.  Þá (við Main-fljótið í Hessen) mundi heldur ekkert varða um það, þótt verkalýðsfélögin á Íslandi heimtuðu hækkun launataxta til að vega upp á móti mikilli verðbólgu.  Þeir gætu hins vegar gert athugasemd við hækkun skulda ríkissjóðs umfram 60 % af VLF, þótt hærra skuldahlutfall sé nú fremur regla en undantekning á evrusvæðinu þrátt fyrir Maastricht-skilmálana.  Án þess að beita öflugum tólum peningamálastjórnunar, væri hérlendis ríkjandi óstöðugleiki í verðlagsmálum, og samkeppnishæfni atvinnuveganna væri þar af leiðandi í hers höndum.

"Þegar rætt er um ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á þeirri stöðu, sem nú er að teiknast upp, bætir Seðlabankastjóri því við, að þeir verði að átta sig á því, "að við getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld hérna á norðurhveli jarðar með því að hækka launin á allt öðrum hraða en aðrar þjóðir og telja okkur síðan trú um, að það hafi ekki afleiðingar fyrir verðbólgu og gengisstöðugleika.  Þetta er einhver séríslenzk hugsun, sem hefur margoft sýnt sig, að gengur ekki upp."" 

Þetta eru einföld sannindi, en vandinn er sá, að  skammtíma hugsun virðist vera ráðandi í verkalýðshreyfingunni í stað þess að hugsa um, hvað þjónar bezt hagsmunum félagsmanna verkalýðsfélaganna til langs tíma.  Samt er margbúið að reyna að leiða verkalýðsleiðtogunum fyrir sjónir, hvers konar vinnubrögð gagnast skjólstæðingum þeirra bezt. Einhvers konar pissukeppni virðist vera í gangi á milli þeirra um það, hver treystir sér til að ganga lengst í vitlausum og ábyrgðarlausum málflutningi og gerðum.  Það er miður, að efnahagslögmál og heilbrigð skynsemi skuli vera litin hornauga á þeim bæ.

Nú setur Seðlabankastjóri hnefann í borðið og hótar að grípa til sinna ráða, ef verkalýðsleiðtogarnir láta sér ekki segjast.  Munu þá renna á þá tvær grímur ?

Óveðursský eru úti við sjóndeildarhringinn:

""Ef það verður ekkert lát á hallarekstri ríkissjóðs eftir lok farsóttarinnar eða við sjáum áframhald á launahækkunum, sem eru margfaldar á við það, sem þekkist í öðrum löndum, þá er ljóst, að það verður auðvelt að eyðileggja þá góðu samkeppnisstöðu, sem við njótum núna", segir Seðlabankastjóri."

Lok þessa merka viðtals, sem sýndi okkur skriftina á veggnum, hljóðuðu þannig:

"Sjálfstæð peningastefna hefur létt mikið á ríkisfjármálunum og þannig sparað skattgreiðendum háar fjárhæðir.  Að öðrum kosti hefði ríkissjóður þurft að vera einn með fótinn á bensíngjöfinni - og eyða því enn meiri peningum í því skyni að reyna að ýta undir eftirspurn og örva hagkerfið", segir seðlabankastjóri og furðar sig á því, að þetta sé ekki haft í huga, þegar stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að hafa ekki beitt ríkisfjármálunum af enn meiri krafti en samt var gert."

Það er Samfylkingin, sem ekki hefur skilið þetta samspil og lagt til aukin ríkisútgjöld.  Ljóst er af eldræðu Seðlabankastjóra, að stjórnvalda, löggjafarvalds, framkvæmdavalds og Seðlabanka, bíða erfið viðfangsefni á næsta kjörtímabili.  Þá þarf að skapa skilyrði öflugs hagvaxtar, ná jafnvægi í opinberum rekstri, hefja lækkun skulda og tryggja samkeppnishæfni atvinnuveganna. Öruggast er þá, að þingflokkur sjálfstæðismanna stjórni för.  Borgaraleg ríkisstjórn er bezt hæf til að fást við þessi verkefni, og til þess að auðvelda myndun hennar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að hljóta gott brautargengi, talsvert betra en síðast.

 Til að auðvelda nýju fólki að styðja flokkinn, er affarasælt fyrir hann að tefla fram fullveldissjónarmiðum og viðhorfum um mikilvægi lýðræðislegra ákvarðana sem næst kjósendum í þeim anda, sem Arnar Þór Jónsson, frambjóðandi í 2.-3. sæti D-listans í Kraganum, hefur verið óþreytandi við að boða.  Er þá ekki úr vegi að líta á atriði, sem hann birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021:

  • "Allt vald þarf að tempra, embættisvaldið ekki sízt."  Forræðishyggjan hefur riðið húsum á kjörtímabilinu. Frumvarp um þjóðgarð á allt að 40 % af flatarmáli landsins, s.k. Miðhálendisþjóðgarð, er dæmi um tilhneigingu til miðstýringar, sem er algerlega óþörf og aðför að skynsamlegri nýtingu náttúrunnar.  Þá hefur mörgum ofboðið stjórnfyrirkomulag sóttvarna, þar sem skort hefur á heildarsýn. Dæmi eru að koma fram hér og annars staðar um skaðlegar afleiðingar þröngsýnnar sóttvarnarstefnu. 
  • "Virða ber sérhvern mann og meta út frá orðum hans og athöfnum, en ekki á grundvelli útlitseinkenna, kynferðis, kynhneigðar o.fl."  Hver er sinnar gæfu smiður.  Öllum á að gera kleift að ná þeim þroska, sem hugur þeirra og geta stendur til.  Þannig tryggjum við bezt streymi hæfileika á milli stétta, sem lágmarkar stéttaskiptingu í landinu. Teikn eru á lofti um, að vaxandi stéttaskiptingar gæti í landinu á milli aðflutts fólks af erlendu bergi brotnu, sem vilja setjast hér að, og borinna og barnfæddra Íslendinga.  Sumpart kann þetta að stafa af of miklum straumi útlendinga til landsins á skömmum tíma.  Það er sérstaklega mikilvægt, að börnum innflytjenda gefist kostur á því námi, sem hugur þeirra og geta stendur til. 
  • ""Merkimiðastjórnmál" (e. identity politics) bjóða þeirri hættu heim, að menn taki sér siðferðilegt vald yfir öðrum, brennimerki fólk eins og sauðfé, útiloki og dragi menn í dilka sem "seka" og "saklausa", þar sem sérvöldum einkennum er beitt til alhæfinga, ásakana og sakfellinga.  (Saga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að varast fólk, sem talar á síðastnefndum forsendum.)"   Eins og AÞJ bendir á, er þetta hvimleiða fyrirbrigði í umræðunni ekki nýtt af nálinni, en á okkar dögum hefur aukið úrval tjáningarmöguleika gert þessa undirmálsumræðu meira áberandi en áður. Þeir, sem halda henni uppi, eru oftar en ekki haldnir andlegum skavönkum, en sagan sýnir, að einnig þeir geta við vissar þjóðfélagsaðstæður haft áhrif á talsverðan fjölda.  Grunnhygni, tómleiki og andleg vesöld leynir sér þó sjaldnast. 
  • "Lýðræðið grundvallast á því, að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi."     Það er margþekkt að sigla undir fölsku flaggi og að leika tveimur skjöldum.  Slíkt er óheiðarlegt atferli og skapar vantraust á viðkomandi, þegar upp kemst.  Þá má hafa þessi orð AÞJ í huga, þegar sóttvarnaraðgerðir eru metnar.  Þær hafa komið mörgum mjög illa, t.d. öðrum sjúklingum en C-19 sjúklingum, nemendum, mörgum launþegum og lögaðilum, andlega veikburða fólki o.fl.  Heilsufarslegar afleiðingar þessara aðgerða eru þess vegna af margvíslegu tagi.  Þess vegna þarf að líta vítt yfir sviðið, þegar stórfelldum frelsisskerðingum er skellt á einstaklingana í nafni sóttvarna hópa (t.d. aldraðra) eða heildarinnar.  
  • "Lýðræðið hvílir á þeirri forsendu, að við verjum klassískt frjálslyndi, sem viðurkennir málfrelsi, fundafrelsi og frelsi til skoðanaskipta, þ.m.t. frelsi okkar og getu til að skipta um skoðanir."   Þetta eru mannréttindi, sem fjarri fer, að öllum þjóðum hafi hlotnazt, eins og allir vita. Órjúfanlega tengd þessum mannréttindum virðast vera atvinnufrelsi, þ.e. frelsi til að stunda þá starfsemi, sem hugurinn girnist og ekki er bannaður eða háður leyfisveitingum með málefnalegum rökum, t.d. á grundvelli mannhelgi, heilsufars eða sjálfbærni.  Heilbrigð atvinnustarfsemi og frjálst framtak virðast ennfremur þurfa að njóta verndunar eignarréttarins og löggjafar, sem stuðlar að frjálsri samkeppni og hófsamri skattheimtu.  Við þetta má bæta atvinnulöggjöf, sem temprar átök á vinnumarkaði og möguleika aðila vinnumarkaðarins til kúgunar í því skyni að fá kröfum sínum framgengt.  Íslenzka vinnulöggjöfin er barn síns tíma frá kreppuárunum fyrir Síðari heimsstyrjöld og þarfnast endurskoðunar eða aðlögunar að nútímanum með hliðsjón af vinnumálalöggjöf hinna Norðurlandanna.        

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Þurfa nú ekki æðstu embættismenn og stjórnmálamenn að fara að hækka sín laun "til samræmis við aðra launaþróun í landinu"?

Hörður Þormar, 26.5.2021 kl. 17:52

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þá tæki steininn úr.

Bjarni Jónsson, 27.5.2021 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband