Stjórnmálaþróunin framkallar þingframboð

Í viðtali Stefáns Gunnars Sveinssonar við Arnar Þór Jónsson, héraðsdómara, (AÞJ), í Morgunblaðinu 8. maí 2021, kom fram, að hann hefur alla tíð fylgzt gaumgæfilega með opinberri umræðu og stjórnmálaþróuninni í landinu.  Hann íhugar mál sitt rækilega og flanar ekki að neinu.  Þess vegna hefur verið áhugavert að fylgjast með skrifum hans og ræðum, og fyrir höfund þessa vefseturs á það ekki sízt við greiningar hans á Orkupakka 3 (OP3) út frá lagalegu viðhorfi og stjórnskipulegum álitamálum. 

Það er þröng á þingi og margt hæfileikaríkt fólk, sem býður sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori, en ástæða er til að vekja sérstaka athygli á nýjum frambjóðanda AÞJ í 2.-3. sæti D-listans, af því að málflutningur hans er að mörgu leyti nýstárlegur, en mjög í anda hugsjóna upphafsmanna Sjálfstæðisflokksins, og höfundur þessa vefseturs telur þennan frambjóðanda til þess fallinn að draga nýtt fylgi að Sjálfstæðisflokkinum, en fyrir því er höfuðnauðsyn til að tryggja landinu stjórnmálalegan stöðugleika og stjórnvöldum traust inn á við og út á við til að fást við erfið verkefni.

Viðtal Stefáns Gunnars við Arnar Þór, sem hér verður vitnað til, bar fyrirsögnina:

"Ég kýs að fylgja hjartanu".

 

"Áhyggjur mínar snúa að því, að það sé verið að þrengja þann ramma [frjálslynds lýðræðis í klassískum skilningi] með stjórnlyndum sjónarmiðum, sem á sama tíma þrengja að borgaralegum réttindum, tjáningarfrelsi og samvizkufrelsi."

Neikvæð þróun af þessu tagi læðist að, jafnvel án þess að margir verði hennar varir.  Það er hættulegt, og þess vegna ómetanlegt, að menn á borð við AÞJ bjóði sig fram til að stíga á bremsurnar á Alþingi, þegar vafasöm mál fyrir mannréttindi, atvinnufrelsi einstaklinga og lögaðila, svo og fullveldi þjóðarinnar, fljóta á fjörur Alþingis.  Efld varðstaða á þingi um grundvallarréttindin og Stjórnarskrána er landsmönnum nauðsyn.

"Arnar Þór segir, að hann hafi ekki talið sig geta skorazt undan því að tjá sig um þriðja orkupakka ESB.  "Ég tel reyndar, að það mál sé, hvernig sem á það er litið, hvort sem það er lagalega, stjórnskipulega eða lýðræðislega, mjög sérstaks eðlis.  Ég taldi og tel ennþá, að það hefði verið ábyrgðarlaust af mér að sitja hjá og taka ekki þátt í umræðunni."

Hann rifjar upp, að kveikjan að því hafi verið ýmiss konar afflutningur um orkupakkann, innleiðingu hans og réttaráhrif, sem og fullyrðingar um, að hann stæðist þau skilyrði um fullveldisframsal, sem lögð höfðu verið til grundvallar aðildinni að EES á sínum tíma. 

Arnar Þór segir, að sér virðist sem hagsmunagæzla Íslands hafi verið í molum, þegar kom að orkupakkamálinu.  "Það var enginn í markinu, þegar málið fór fyrir sameiginlegu EES-nefndina, og boltinn lak inn.  [Sama má segja um umfjöllun þingnefnda Alþingis á undirbúningsstigum málsins og undirbúningsviðræður EFTA-landanna í orkunefnd EFTA og Fastanefnd EFTA, þar sem afstaða EFTA-landanna er mótuð áður en málin fara til téðrar nefndar, þar sem ESB líka á fulltrúa - innsk. BJo.]" Íslendingar verði að standa vaktina betur.  "Þá virðist mér, að stjórnmálamennirnir hafi talið sig hafa þyngri skyldum að gegna gagnvart erlendum kollegum sínum og mögulega erlendum stofnunum en kjósendum sínum.  [Þrýstingur frá norsku stjórnsýslunni skein í gegn í umræðunum, og því var beinlínis haldið fram, að Ísland mundi skaða hagsmuni Noregs með því að hafna OP3. Það var fjarstæða. Á fyrri stigum hefðu fulltrúar Íslands átt að fá undanþágur frá gerðum og tilskipunum, sem vörðuðu ACER og millilandaviðskipti með orku.  Slíkt hefði ekki snert Noreg - innsk. BJo.]" 

Arnar Þór segir þetta mál hafa vakið sig til umhugsunar um stöðuna.  "Hagsmunagæzla Íslands gagnvart ESB var augljóslega ekki í lagi, og því meira sem ég hef skoðað þetta, sýnist mér blasa við, að framsal á íslenzku ríkisvaldi hafi gengið allt of langt", segir Arnar Þór.  Hann segir ákveðna þöggun ríkja um það ástand.  

"Ég tel, að Ísland standi frammi fyrir mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu, sem nokkurt vestrænt lýðræðisríki hefur glímt við frá stríðslokum.  Við erum komin í samstarf, þar sem okkur er veittur aðgangur að ákveðnum markaði gegn þeim skiptum, að erlendir aðilar setji okkur lög og taki ákvarðanir fyrir almenning og fyrirtæki hér í sívaxandi mæli.  Og þegar það er svo komið, að erlendir aðilar eru jafnvel farnir að seilast í ítök yfir náttúruauðlindum okkar, verða Íslendingar að fara að vakna af þyrnirósarsvefni og taka til ýtrustu varna", segir Arnar Þór.  "Við núverandi ástand verður ekki unað." "  (Undirstr. BJo.)

Þessi viðvörunarorð verður að taka alvarlega, og þau verðskulda að hljóma innan veggja Alþingis, þar sem efla þarf þann hóp manna, sem lítur málin svipuðum augum og Arnar Þór og er líklegur til að bregðast við "mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu" með þeim ráðum í hópi félaga, sem til úrbóta duga. 

Mjög svipuð viðhorf og AÞJ lýsir eru uppi í Noregi, og þar hafa einnig mikilsvirtir fræðimenn á sviði lögfræðinnar lagt orð í belg.  Það blasir við, að íslenzk og norsk stjórnvöld móti með sér sameiginleg stefnumið eftir kosningar í báðum löndum í haust í viðræðum við framvæmdastjórn ESB um endurskoðun á EES-samninginum til að draga úr langvinnum deilum í báðum löndunum um fyrirkomulag, sem átti í upphafi að vera til bráðabirgða, einhvers konar forleikur að fullri aðild að Evrópusambandinu.

Í lok þessa viðtals við Arnar Þór kom fram, að hann hefur komið auga á slæma veikleika íslenzka menntakerfisins.  Menntamálaráðherrann núverandi blaðrar út og suður, en gerðir hennar eru yfirleitt ekki til að hrópa húrra yfir.  Síðasta hálfkákið hjá henni var að heykjast á að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði til að auka tekjuöflunarmöguleika einkarekinna fjölmiðla.  Í stað þess beit hún í sig ríkisofþenslulausn, þ.e. að veita þeim ölmusu úr ríkissjóði.  Það bar ekki vott um hugrakkan stjórnmálamann, eins og hún hefur hælt sér fyrir að vera.  Lok viðtalsins:

""Við Íslendingar berum ein ábyrgð á framtíð okkar. Við eigum gríðarlegra hagsmuna að gæta í að kalla ungt fólk til starfa, þar sem hæfileikar þess nýtast sem bezt, og til þess þarf að gera talsverðar umbætur í menntamálum."  Hann segir, að drengir eigi undir högg að sækja í grunnskólakerfinu og að mikið áhyggjuefni sé, þegar stór hluti grunnskólanemenda útskrifist illa læs. 

Íslenzk lög eiga að vera sett með íslenzka hagsmuni að leiðarljósi.  Þá vil ég verja tjáningarfrelsið og leiða umræðu um mikilvægi þess, að við nýtum styrkleika okkar, treystum hvert öðru og byggjum þannig upp gott samfélag.""

 Sú óeðlilega staða er uppi, að talsverður hluti lagasetningar hérlendis á sér alls engar rætur hérlendis, heldur er hún reist á hugmyndafræði embættismanna ESB um vöxt og viðgang Evrópusambandsins og jafnvel þróun þess til sambandsríkis. Þetta höfum við undirgengizt með aðild landsins að EES, þar sem fjórfrelsið gengur framar öðru í lagalegu tilliti.  Þegar framkvæmdastjórn ESB merkir lagasetningu Sambandsins sem "EEA relevant", þ.e. viðeigandi fyrir EES, hefur í umfjöllun EFTA um slík mál ekki verið í nægilega ríkum mæli tekið tillit til sérstöðu Íslands sem eyjar langt norður í Atlantshafi, t.d. án samtengingar við raforkukerfi ESB, en bæði Noregur og Liechtenstein hafa slíkar tengingar.  Það er nauðsynlegt að fá á Alþingi trausta talsmenn, sem eru miklu gagnrýnni á innleiðingu ESB-löggjafar en þar hafa verið síðan vinstri stjórnin framdi það glapræði með hjálp "handjárna" að fá Alþingi til að samþykkja, að sú ríkisstjórn mundi senda umsókn um aðildarviðræður til framkvæmdastjórnar ESB. 

Hér er við hæfi að vitna til 12. atriðis af 20 í Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar 3. apríl 2021:

"Útgangspunktar og forsendur til íhugunar":

  • "Klassískt frjálslyndi ber að verja gagnvart ógn gervifrjálslyndis, sem misvirðir grundvöll vestræns lýðræðis.  Gervifrjálslyndi virðir ekki einstaklinginn, heldur einblínir á hópa og ýtir  þannig undir hjarðhegðun.  Gervifrjálslyndi treystir ekki dómgreind einstaklingsins, en vill, að sérvalinn hópur stjórni, ritskoði og hafi eftirlit."   Klassískt frjálslyndi er reist á virðingu fyrir frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og jöfnun tækifæra einstaklinganna í landinu án tillits til uppruna eða búsetu.  Hver er sinnar gæfu smiður.  Þetta felur í sér lýðræðislegan rétt einstaklinganna til að velja sér fulltrúa á löggjafarsamkundu, sem setur honum lög.  Þessi réttur hefur verið útþynntur með því að innleiða hér stóra lagabálka, sem hafa áhrif á daglegt líf borgaranna og starfsemi fyrirtækjanna.  Það er ekki í anda lýðræðishugmyndarinnar um, að ákvarðanir skuli taka sem næst íbúunum af fulltrúum, sem standa ábyrgir gerða sinna gagnvart þeim.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur með skýrasta hætti allra stjórnmálaflokkanna í landinu komið til móts við óskir margra um persónubundnar kosningar með því að efna til prófkjörs í öllum kjördæmum landsins um röðun í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi.  Þetta er í anda klassísks frjálslyndis um jöfnun tækifæra.  Nú gefst nýju fólki kostur á að spreyta sig og auðga flokkinn nýju lífi með sínum áherzlum.  Ætla má, að ekki aðeins flokksfólkið, heldur og aðrir kjósendur margir hverjir kunni að meta þessa lýðræðislegu aðferð, sem þannig er líkleg til að verða flokkinum til framdráttar í komandi Alþingiskosningum. 

Listakjör

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband