24.6.2021 | 18:17
Sorpeyðing í ólestri - verkefnastjórn í soranum
Ætla mætti að óreyndu, að umhverfisráðherra landsins liti á það sem eitt sinna höfuðviðfangsefna að fást við meðhöndlun úrgangs með nútímalegum hætti. Því virðist ekki vera að heilsa, því að hann svarar ekki bréfum, sem til ráðuneytis hans berast um samstarf við innleiðingu á gjörbreyttu verklagi í þessum efnum. Þess í stað lætur hann undirsáta sína hringja út á land og spyrja, hvort þar þekki menn ekki svæði, sem hann gæti friðlýst.
Þess á milli er hann aðallega upptekinn af losun gróðurhúsalofttegunda, þótt hún sé svo lítil frá Íslandi, að áhrif hennar á hlýnun jarðar eru ómælanleg. Samt reynir hann, ásamt forsætisráðherranum, að setja "Ísland í fremstu röð" með nýjum, ótímabærum og rándýrum markmiðum um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Þannig hafa "erroribus" nokkuð að iðja.
Í Bændablaðinu 10. júní 2021 birtist átakanleg frásögn Harðar Kristjánssonar af molbúahætti íslenzkrar stjórnsýslu. Fyrirsögn fréttaskýringarinnar var svohljóðandi:
"Bauðst til að hanna, fjármagna, byggja og reka hátæknisorporkustöð á Íslandi."
Hún hófst þannig:
"Opnuð var rúmlega mrdISK 6 gas- og jarðgerðarstöðin GAJA í Álfsnesi á árinu 2020. Nú hefur komið í ljós, að moltan, sem er annað meginhráefnið, sem stöðin framleiðir, er með öllu ónothæf. Hugmyndir um að leysa málið með því að reisa sorporkustöð af fullkomnustu gerð hafa enn ekki fengið hljómgrunn, jafnvel þótt norskir rekstraraðilar slíkra stöðva hafi boðizt til að fjármagna, byggja og reka slíka stöð.
Bændablaðið hefur undir höndum bréf, sem John Ragnar Tveit, viðskiptaþróunarstjóri Daimyo AS í Ósló í Noregi, sendi Jóni Viggó Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sorpu, þann 22. janúar 2021. Þar er óskað eftir samstarfi við Sorpu um byggingu á 80-100 kt/ár hátæknisorporkustöð (Waste-to-energy - WTE). Samkvæmt heimildum blaðsins hefur boðinu enn ekki verið svarað." [Undirstr. BJo.]
Vinstri græningjarnir, umhverfisráðherrann og stjórnarformaður Sorpu, hafa af hugmyndafræðilegum ástæðum ekki áhuga á að virkja einkaframtakið til að fást við þetta tæknilega viðfangsefni, heldur ætla þau að búa svo um hnútana, að hið opinbera vaði hér á foraðið, reynslulaust á þessu sviði, og stjórnmálamenn haldi um alla spotta verkefnisins og rekstrarins, þótt þeir hafi jafnvel enga þekkingu á verkefnastjórnun né innviðum nútímalegrar sorporkustöðvar. Hætt er við, að þessi gatslitna hugmyndafræði vinstri grænna muni reynast landsmönnum mjög illa í þessu máli.
Það er grafalvarlegt, ef hárri fjárfestingarupphæð úr vösum íbúa sveitarfélaganna, sem að byggðasamlaginu Sorpu standa, hefur verið ráðstafað þannig, að um kák eitt, fúsk og bruðl með skattpeninga hefur verið að ræða. Fyrst fór verkefnið GAJA langt fram úr fjárhagsáætlun, og síðan kemur í ljós, að meginhluti afurðanna, moltan, er ónothæf, ef satt er hjá Bb, og markað skortir fyrir hitt, þ.e. metangasið.
Þetta stafar varla af því, að tæknimenn, sem að undirbúninginum voru fengnir, hafi ekki reynzt vera starfi sínu vaxnir, heldur af því, að stjórnmálamenn ákváðu að sinna sjálfir verkefnastjórn og síðan rekstri framleiðslufyrirtækis. Hugmyndafræði vinstri manna, hér undir stjórn Samfylkingar í borginni, gengur ekki upp. Miklu vænlegra er að fela markaðinum verkefni af þessu tagi. Þá hefði þessi sorpeyðingar- og jarðgerðarstöð einfaldlega verið sett í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu, og hagstæðasta tilboðinu um hönnun, byggingu og rekstur, út frá hagsmunum íbúanna, verið tekið. Ef það hefði verið gert, sætu íbúarnir ekki núna uppi með algerlega misheppnaða fjárfestingu. Sennilega hefði heldur ekki átt að stefna á moltu- og gasgerð, heldur "hátæknisorporkustöð" fyrir allt landið, eins og frásögn Halldórs Kristjánssonar fjallar aðallega um. Fjárfesting Sorpu í þessari nýju stöð sinni virðist byggðasamlagið nú þurfa að afskrifa, ef aðalafurðin er með öllu ónothæf.
Þá er kominn tími fyrir ríkið að hafa forgöngu án fjárhagsskuldbindinga til framtíðar að stofnun undirbúningsfélags um "state of the art" orkuver, sem safnar sorpi hvaðanæva að af landinu sjóleiðina og selur orku, sem verið vinnur úr sorpinu. Sennilega verður þetta hagkvæmasta og umhverfisvænsta leiðin í krafti stærðarinnar til að losna við sorpið. Skip þyrfti að safna sorpinu saman eftir endilangri strandlengjunni, því að þessir flutningar, 100-200 kt/ár, eru ekki leggjandi á þjóðvegakerfið, og sjóleiðin er sennilega umhverfisvænst og öruggust.
"Samhljóða bréf var sent til umhverfisráðherra. Hann hefur heldur ekki séð ástæðu til þess að svara því samkvæmt upplýsingum blaðsins.
Ljóst má vera, að þetta verkefni varðar öll sveitarfélög í landinu. Ef það á ekki einvörðungu að leysa þarfir sveitarfélaganna á suðvesturhorninu, þá kallar þetta á sjóflutninga á sorpi til stöðvarinnar af landsbyggðinni. Því þarf umhverisráðherra væntanlega að sýna eitthvert frumkvæði, ef ætlunin væri að koma þessu á koppinn . E.t.v. þarf ríkisvaldið líka að koma að rekstri eða niðurgreiðslum á flutningi sorps sjóleiðina til slíkrar stöðvar, ef af yrði. Annars er hætta á, að sveitarfélög úti á landi, fjarri suðvesturhorninu, verði áfram í miklum erfiðleikum með að losa sig við óendurvinnanlegan úrgang án urðunar."
Auðvitað þarf umhverfisráðherrann að koma að þessu verkefni, því að líklega er þjóðhagslega hagkvæmast að veita öllum sveitarfélögum landsins aðgang að flutningum að stöð fyrir allt landið með jöfnun flutningskostnaðar, vonandi sjóleiðina, á milli þeirra. Slíkt á þó ekki að vera skylda, enda virðast fleiri slík orkuver knúin úrgangi vera í deiglunni, t.d. í Vestmannaeyjum. Undirbúningsfélag landsstöðvar þarf að skilgreina orkustöðina og bjóða hana út á EES-markaðinum, bæði stofnsetningu og rekstur, og sá sem býðst til að annast verkið fyrir lægst gjald fyrir sorp inn í stöðina, ætti að fá verkið. Hann selur síðan orkuna frá verinu á markaðsverði. Hugsanlega þarf ríkissjóður að taka þátt með sveitarfélögunum í greiðslum fyrir sorp inn í orkuverið. Það mun koma í ljós, þegar tilboðin verða opnuð. Orkuverið selur orkuna á markaðsverði, og má hugsanlega tengja sorpgjaldið við orkuverðið.
Halldór Kristjánsson vitnaði í innihald bréfsins frá téðu norsku fyrirtæki. Þar stóð m.a.:
"Við höfum trú á, að Daimyo með sína góðu viðskiptasögu og samkeppnishæft viðskiptanet geti boðið fjármögnun og byggingu á fullkomnustu gerð af sorporkustöð, sem völ er á í Evrópu."
Það er sjálfsagt að ræða við þetta fyrirtæki, eins og önnur á þessum markaði, og leyfa því að taka þátt í þessu útboði, en ekki kemur til mála að veita því einhvern forgang að markaðinum hér vegna þess, hvernig í pottinn er búið með hann.
Áfram vitnaði HKr í þetta bréf, sem ekki hefur notið þeirrar lágmarkskurteisi að vera svarað innan eðlilegra tímamarka af íslenzkum yfirvöldum. Þótt þau hafi ekki vit á málinu, er sjálfsagt að hefja samtalið og viða að sér upplýsingum fyrir umhverfismatið og útboðið:
"Hér með er lýst yfir áhuga Daimyo á að stofna fyrirtæki á Íslandi, annaðhvort sem einkahlutafélag eða fyrirtæki í samvinnu við Sorporku, sem hafi það að markmiði að reisa og reka sorporkustöð á Íslandi. Við höfum trú á, að slík samvinna, sem byggi á öflugum bakgrunni og reynslu Daimyo í WTE geiranum og með aðkomu og þekkingu Sorporku, geti leitt til byggingar og rekstrar stórrar hátæknilegrar sorporkustöðvar á Íslandi í beggja þágu. Þar sem SORPA er stærsta félagið í meðhöndlun á sorpi á Íslandi, viljum við gjarna bjóða félaginu þátttöku í þessu verkefni, svo og öðrum sorphirðufyrirtækjum."
Það er eðlilegt, að umhverfisráðuneytið hafi forystu um þetta þjóðþrifamál á landsvísu, en ráðherrann virðist ekki hafa burði til þess, enda vanari því að þvælast fyrir verkefnum en að leiða þau til farsælla lykta. Málssóknir hans í nafni Landverndar og ýmsir tafaleikir, t.d. á orkusviðinu, hafa valdið þjóðinni búsifjum.
"Þá segist Daimyo tilbúið til að sjá um áætlanir, hönnun, fjármögnun, byggingu og rekstur sorporkustöðvar í náinni samvinnu við SORPU, íslenzk yfirvöld og fyrirtæki gegn því, að tryggt sé, að stöðin fái nægt hráefni til starfseminnar í 25 ár. M.v. umhverfisrannsóknir og annan undirbúning geti það tekið 5 ár frá undirritun samkomulags, sem byggi á þessu tilboði. Þar muni Daimyo sjá um að meta allan kostnað á framkvæmdatíma, framkvæmdatímann sjálfan, bjóða fjármögnun og alla nauðsynlega tæknilega aðstoð í öllu ferlinu, sem og að finna samstarfsaðila við ýmsa þætti í byggingu sorporkuversins. Ætla má, að slík stöð muni kosta mrdISK 25-30 samkvæmt upplýsingum frá Daimyo. Þá segist Daimyo hafa í hyggju að leita til íslenzkra fyrirtækja, eins og kostur er við alla framkvæmdina, einkum byggingarverktaka. Með því myndi skapast reynsla og þekking hjá íslenzkum fyrirtækjum til að sinna verkefnum á þessu sviði. Eigi að síður myndi tæknibúnaður, er lýtur að umhverfisvernd og orkuframleiðslu, að mestu vera í höndum Daimyo og samstarfsfyrirtækja þess. M.ö.o. Daimyo myndi sjá um verkið frá A til Ö, peningahliðina og allt annað."
Það eru ýmsar fallgryfjur á leiðinni að lyktum þessa máls. Verkefnisstjórn GAJA í Álfsnesi er víti til varnaðar. Undirbúningsfélag þessa verkefnis, sem er 5 sinnum stærra, þarf að vera með þátttöku ríkisins og e.t.v. Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Undirbúningsfélagið þarf að finna út, hvert er líklegasta sorpmagnið í byrjun og áfram, og bjóðendur bjóða verð á viðteknu sorpi samkvæmt því, en gefi jafnframt upp reiknireglu fyrir einingarverðið upp og niður samkvæmt innvigtuðum massa og orkuverði yfir árið.
Í Morgunblaðinu sólstöðudaginn 22. júní 2021 var baksviðsfrétt á bls. 11 með fyrirsögninni:
"Undirbúa sameiginlega sorpbrennslu".
Hún hófst þannig:
"Sorpsamlögin á Suðvesturlandi og umhverfisráðuneytið hafa hafið undirbúning að því að koma upp sorpbrennslu fyrir allt svæðið. Á brennslan að lágmarka þörf fyrir urðun úrgangs. Forverkefni samlaganna gengur út á að undirbyggja ákvarðanir um tæknilausnir, staðarval og kostnað, og á sú vinna að taka 4 mánuði. Að vinnunni standa Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins. Á starfssvæði þessara 4 byggðasamlega fellur til um 83-85 % alls úrgangs á landinu."
Það virðist af þessu að dæma ekki hafa verið hugað að því að reisa eina stöð fyrir landið allt, því að öll sorpsamlög landsins eru ekki þátttakendur á undirbúningsstigi. Hér er um svo mikla fjárfestingu að ræða að kappkosta verður að ná þeirri stærðarhagkvæmni, sem unnt er. Þó er skiljanlegt, að Vestmannaeyingar vilji reisa sína sorporkustöð. Getur ekki sorporkustöð fyrir landið allt verið í Vestmannaeyjum og veitt Vestmannaeyingum bæði birtu og yl, ef þeir vilja hýsa hana ?
""Þessir aðilar eru að taka höndum saman um að innleiða hringrásarhagkerfið. Við erum núna að ná tökum á lífrænum úrgangi með gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er stórt verkfæri í þessu verkefni og mikilvægt í loftslagsmálum. Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang", segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu."
Það er alls ekki affarasælt að láta stjórnmálamann á borð við téða Líf, sem væntanlega ber höfuðábyrgð á óförum GAJA-verkefnisins, kostnaðarlega og tæknilega, véla um hið nýja stórverkefni á umhverfissviði. Hugmyndafræði hennar er þó sú, að einmitt stjórnmálamenn eigi að troða sér að í verkefnastjórnum og síðan rekstrarstjórnum opinberra framkvæmda og fyrirtækja. Eðlilegast er, að umhverfisráðuneytið stofni undirbúningsfélag um þetta verkefni á faglegum forsendum, sem auðvitað hefur samráð við sorpsamlög landsins, þar sem kjörnir fulltrúar sjálfsagt sitja, en undirbúningsfélagið hafi það meginhlutverk að staðsetja stöðina og semja útboðslýsingu fyrir byggingu og rekstur. Þar með er tryggt, eins og kostur er, að landsmenn njóti beztu fáanlegrar þjónustu á þessu sviði með lágmarks kostnaði m.v. gæði frá einkafyrirtæki, sem kann til verka. Að öðrum kosti er stórhætta á tæknilegu klúðri og allt of dýru verkefni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.