Svipull er sjávarafli

Ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar um afla í íslenzku fiskveiðilögsögunni fiskveiðiárið 2021/2022 kom sem skrattinn úr sauðarleggnum til almennings í landinu. Því hefur verið haldið að almenningi, að með rannsóknum og tölfræðilegum greiningum á mæliniðurstöðum og 20 % aflareglu úr viðmiðunarstofni væri verið að byggja upp vaxandi hrygningarstofn, svo að veiðarnar mundu aukast, þar til stofninn hefði náð þolmörkum umhverfisins, fæðuframboðs o.þ.h. Menn töldu þeim mörkum enn ekki vera náð, en er það svo ?  

Nú hefur annað komið á daginn.  Vísindamenn telja sig nú hafa ofmetið þorskstofninn um 267 kt eða 28 %.  Er það svo, eða er þorskurinn farinn annað, varanlega ?  Vísindamenn hafa ekki svör við því, og úr því verður að bæta fljótlega.  Þótt Hafrannsóknarstofnun starfi undir rýni alþjóðlegs vísindasamfélags, hefur henni orðið alvarlega á í messunni.  Hún verður í sumar að gera raunhæfa áætlun um úrbætur með viðeigandi kostnaðaráætlun, sem ráðuneytin og fjárlaganefnd Alþingis geta þá tekið afstöðu til í haust.  Ekki er ólíklegt, að setja þurfi samþykkta kostnaðaráætlun á fjármálaáætlun ríkisins, því að við svo búið má ekki standa.

Sama hvernig á þessa sviðsmynd er litið, er málið grafalvarlegt, því að afar gloppótt þekking fiskifræðinganna á ástandi fiskimiðanna við landið blasir nú við. Hins vegar varaði enginn spekingur utan stofnunarinnar við þessu, og enginn ráðlagði minni veiðar, nema síður sé.  Sé gert ráð fyrir, að endurskoðun viðmiðunarstærðar þorskstofnsins frá maí 2021 sé "rétt", blasir við ofmat stofns um 28 %.  Samkvæmt aflareglunni minnkar þessi áætlun leyfilegar þorskveiðar á fiskveiðiárinu 2021/2022 niður í um 188 kt eða um 70 kt, sem gæti jafngilt tekjutapi um mrdISK 40.  Þetta er höggið, sem sjávarútvegurinn og þjóðarbúið standa frammi fyrir á fiskveiðiárunum 2021/2022-2022/2023 vegna óvænts mats á verðmætasta stofninum, en vegna dempunarreglu helmingast höggið á hvort fiskveiðiárið, og nokkrir aðrir stofnar virðast vera að hjarna við. 

Í gamla daga hefðu þessi tíðindi haft í för með sér gengisfellingu ISK, en enn stendur hún alveg pallstöðug, þótt hún hafi hækkað talsvert, eftir að hagur strympu glæddist á málmmörkuðum og í ferðageiranum og þótt Seðlabankinn hafi látið af sölu gjaldeyris. Bæði er, að sjávarútvegurinn er nú stöndugur og sveigjanlegur með mikinn aðlögunarþrótt og þjóðarbúinu hefur nú vaxið fiskur um hrygg með fleiri öflugum gjaldeyrislindum.

Það sýnir sig nú svart á hvítu, að engin glóra er í, að stjórnvöld fari að ráðum sérvitringa og óvita um sjávarútveg og taki að spila einhvers konar rússneska rúllettu með stórhækkun veiðigjalda eða uppboði á þjóðnýttum aflaheimildum.  Slíkt er hreinræktuð dilla þröngsýnna pólitískra hugmyndafræðinga og skemmdarverkastarfsemi á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. 

Ferðageirinn mun taka vel við sér, þegar sóttkví óbólusettra linnir með viðunandi hjarðónæmi hér, vonandi 01.07.2021, og þá hlýtur að verða nóg að skima aðeins þá, sem ekki eru með ónæmis- eða bólusetningarvottorð. Árið 2021 verður líklega, þrátt fyrir höggið, ár sæmilegs hagvaxtar, eins og annars staðar á Vesturlöndum, enda varð rýrnun þjóðartekna meiri hér árið 2020 en víðast hvar annars staðar eða 6 %-7 %. Samt hækkaði kaupmáttur launa.  Það er líklega einsdæmi, en jók örugglega atvinnuleysið.  Verkalýðshreyfingin stakk hausnum í sandinn og fórnaði langtímahagsmunum launþeganna fyrir skammtímaávinning þeirra, sem eru í öruggri vinnu.  Það er ótraustvekjandi afstaða, enda bera sumar yfirlýsingar forseta ASÍ o.fl. vott um stéttastríðshugarfar, sem reynslan og samanburður við hin Norðurlöndin hefur sýnt, að getur ekki gagnazt launþegum til lengdar.  Það, sem gagnast launþegum bezt, er að vinna að hámörkun verðmætasköpunar í friði við vinnuveitendur. 

Önnur grein, sem nú getur komið til hjálpar, er fiskeldið, bæði í sjókvíum innan marka áhættugreininga og burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar, og í landeldiskerum. Eftirlitsstofnanir mega hvorki draga lappirnar né flaustra, heldur skulu þær halda sig innan lögboðinna tímamarka. 

Viðbrögð forystu SÍF, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við leiðréttingu á mistökum Hafró, voru rétt.  Það er skárst í stöðunni að fylgja ráðum beztu fáanlegu þekkingar á sviði haf- og fiskifræði, þótt henni sé ábótavant, enda gæti hundsun slíkra ráðlegginga haft slæmar afleiðingar fyrir markaðsstöðu íslenzkrar framleiðslu sjávarútvegsins erlendis, þar sem samkeppnin er hörð.  Vonandi dregur nú úr útflutningi óunnins fiskjar, svo að framleiðendur geti haldið markaðsstöðu sinni fyrir unna vöru. Nú er ástæða fyrir utanríkisráðuneytið til að juða í Bretum um lækkun tolla á slíkum vörum.

Gunnlaugur Snær Ólafsson birti frétt í Morgunblaðinu 16. júní 2021 um þessi slæmu tíðindi:

"Gera ráð fyrir samdrætti í útvegi".

Þar stóð m.a.:

""Ég verð bara að segja það, að þetta eru mikil vonbrigði og þungbær tíðindi.  Þetta er svo mikill niðurskurður og mjög óvænt.  Þetta mun valda tekjusamdrætti hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og ljóst, að menn verða að grípa til aðgerða í sínum rekstri til að mæta þessu. 

Ég sé samt ekkert annað í stöðunni en við fylgjum ráðgjöf Hafró.  Við verðum að taka á þessu af ábyrgð og fylgja þessari vísindalegu ráðgjöf með langtímahagsmuni í huga", segir Ólafur H. Marteinsson, forstjóri Ramma hf og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi."

Af sömu ástæðum og Ólafur tilgreinir, mun sjávarútvegsráðherra að öllum líkindum fylgja þessari ráðgjöf Hafró í meginatriðum.  Skaðinn er orðinn, og hann verður ekki bættur með hókus-pókus aðferðum. 

Um þetta er þó ekki eining, og annan pól í hæðina tók Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en félagsmenn hans eru mjög háðir þorskveiðum:

"Hann kveðst binda vonir við, að ráðherra sjávarútvegsmála fari út fyrir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til að lina höggið, sem fylgir skerðingunni.  "Ég held það sé alveg hægt.  13 % niðurskurður í okkar helztu tegund er bara allt of mikið.  Smábátarnir eru alveg háðir þorskinum.""

Það er innbyggð dempun á breytingum í ráðgjöf Hafró, því að skerðingin væri 27 %, ef hún kæmi að fullu fram á einu fiskveiðiári.  Það er ekki nóg, að hagsmunaaðilar haldi, að óhætt sé að veiða meira, ef viðtekin aflaregla segir allt annað. 

Það er eðlilegt og skiljanlegt, að sjávarútvegsfyrirtæki leiti leiða til að vaxa yfir í skylda starfsemi, sem veitir meiri stöðugleika.  Það hafa þau gert með því að gjörnýta fiskinn og framleiða úr honum eftirsóttar vörur á grundvelli rannsókna og þróunar.  Stórtækastar eru þó fjárfestingarnar á sviði fiskeldis.  Samherji kannaði fýsileika þess að kaupa Norðurálshúsin í Helguvík undir landeldi, en hvarf frá því vegna skorts á ferskvatni.  Nú hefur fyrirtækið kynnt áform í samstarfi við HS Orku við Reykjanesvirkjun. Morgunblaðið greindi frá þessu 17. júní 2021 í frétt undir fyrirsögninni: 

"Ylsjórinn dró Samherja á Reykjanes".

Hún hófst þannig:

"Aðstæður til landeldis á laxi eru góðar í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en þar áformar Samherji fiskeldi ehf að reisa risastóra eldisstöð.  Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, segir, að ylsjórinn geri þessa staðsetningu sérstaka. Ylsjórinn er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar.  Jón Kjartan segir, að aðgangur að miklum ylsjó sé forsenda þess, að hægt sé að koma upp hagkvæmu landeldi á stórum skala."

Hér er ætlunin að mynda nýtt lokastig nýtingar varmans úr jarðgufunni og þar með að gjörnýta orkuna úr jarðgufunni til að flýta vexti eldisfiskjarins.  Þessi flýting ásamt hagkvæmni stærðarinnar mun sennilega gera þetta fyrirhugaða landeldi samkeppnishæft við sjókvíaeldi, en hár fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður hefur verið Akkilesarhæll landeldisins.  

"Áformað er að byggja allt að 40 kt/ár laxeldi á landi í þremur áföngum á næstu 11 árum.  Byggð verður seiðastöð og ker fyrir áframeldi.  Jón Kjartan segir gert ráð fyrir, að komið verði upp aðstöðu til slátrunar á laxi, en frekari vinnsla og pökkun verði annars staðar á Suðurnesjum. Af því tilefni segir hann, að Samherji vinni afurðir sínar yfirleitt meira en minna. Því verði hluti laxaframleiðslunnar flakaður fyrir útflutning, en hann segir ekki ljóst nú, hversu stór hluti það verði. 

Í 1. áfanga stöðvarinnar er gert ráð fyrir 10 kt/ár framleiðslu.  Frumvinnsla á laxi og pökkun er mannaflsfrek starfsemi.  Þannig er gert ráð fyrir, að bein störf við eldi og frumvinnslu í 1. áfanga verði um 100 og annað eins í afleiddum störfum.  Þá muni fjölmörg störf verða við uppbygginguna." 

Þetta verkefni Samherja er ekkert minna en hvalreki fyrir Suðurnesjamenn og landið allt.  Þarna verða allt að 800 störf til 2032, bein og óbein, heildarfjárfesting verður líklega mrdISK 45 - mrdISK 50, og á verkstað gæti þurft um 1400 mannár á 11 ára skeiði.  Þetta er þess vegna stórverkefni, sem er einmitt það, sem íslenzka hagkerfið þarf endilega á að halda núna, því að í landinu ríkir ládeyða í atvinnulífinu.  Á sama tíma og umsvif sjávarútvegs minnka vegna niðursveiflu í lífríki hafsins, þá leggur Samherji grunn að hagrænum stöðugleika og vaxandi tekjustreymi til framtíðar, sem verður öllum landsmönnum til góðs.  Þetta eru gleðitíðindi.  

Fiskeldið er sannarlegur vaxtarbroddur hagkerfisins um þessar mundir.  Árið 2020 var slátrað 40,6 kt af eldisfiski í landinu, og útflutningsverðmæti þess nam mrdISK 29,3.  Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam þá mrdISK 270, svo að hlutfallið var þá orðið 11 % og 5 % af heildarvöruútflutningi.  Árið 2032 gæti fiskeldið numið 200 kt alls og hlutfall þess af heildarvöruútflutningi landsins numið 22 %.  Það mun þess vegna mynda eina af meginstoðum íslenzka hagkerfisins. 

Þann 14. apríl 2021 ritaði væntanlegur 1. þingmaður NA-kjördæmis, Njáll Trausti Friðbertsson, mjög fróðlega grein í Markað Fréttablaðsins:

"Drifkraftur og byggðafesta fiskeldisins".

Þar kom m.a. eftirfarandi fram:

"Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir, að heimilt sé eldi 106 kt/ár í sjó.  Vaxi það [sjóeldið - innsk. BJo] nærri gildandi áhættumati fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 mrdISK/ár.  M.v. 800 ISK/kg greiðslu fyrir útflutninginn.  Auk þess verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á laxi, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 mrdISK/ár. [Þarna voru tíðindin af verkefni Samherja á Reykjanesi ekki komin fram - innsk. BJo.]  Það lætur því nærri, að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega 100 mrdISK/ár á næstu árum.  Gangi þetta eftir, verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenzkra sjávarafurða." 

Njáll Trausti Friðbertsson hefur öðlazt ríkan skilning á atvinnulífinu og heilbrigðu samspili innlendra og erlendra fjárfestinga þar og í seinni tíð innkomu Kauphallar Íslands við miðlun fjárfestingarfjár frá sparendum til fiskeldisfyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja.  Kveður þar við annan og heilbrigðari tón en heyra má úr ranni sumra annarra á stjórnmálavettvangi, hverra ær og kýr eru niðurrif á trausti almennings til fyrirtækja og að kynda undir stéttastríði launþega og launagreiðenda.  Slíkur forheimskandi áróður getur engum orðið til hagsbóta.  Ágætri grein sinni í Markaðinum lauk NTF þannig:

"Þrátt fyrir að stór hluti Íslands hafi verið lokaður fyrir fiskeldi [í sjó] frá 2004 og stjórnvöld setji eldinu æ strangari kröfur, óttast menn umhverfisáhrif og vöxt fiskeldisins. 

Við skulum gera ríkar kröfur um uppbyggingu eldis í sátt við umhverfið.  Innan eldisfyrirtækja er sterk umhverfisvitund, enda sjálfra þeirra hagsmunir að ganga vel um náttúruna.  Kröfur alþjóðlegra umhverfisvottana aga einnig starfsemina. 

Ótti um aðkomu erlendra fyrirtækja í fiskeldi er ástæðulaus.  Þau miðla íslenzku eldi mikilli reynslu og þekkingu og dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri uppbyggingu.  Áhugavert er, að flest laxeldisfyrirtæki eru nú skráð á hlutabréfamörkuðum, og íslenzkir fjárfestar, þ.m.t. lífeyrissjóðir, hafa fjárfest í þessari vaxandi atvinnugrein.  Óháð eignaraðild er fiskeldið að skilja mikið eftir sig í hinum dreifðu byggðum. 

Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina.  Þar verður fiskeldið æ mikilvægari drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki sízt á Austfjörðum."   

20100925_usp001

 

 

 

 

 

 

     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Það er í þágu kvótsgtreifanna að kvótinn sé ekki meiri en þetta til að halda uppi verðinu  frá 15 kalli í 250 kr/kg. Er þetta ekki bara samspil þeirra og Hafró sem gefur vísindastimpil á samvinnuna? Hver se, ætti kvóta myndi fá euknar veiðiheimildir við þessar aðstæður? Þessvegna verður aldrei veiddur meiri þorskur heldur en svona í kring um 200 þús tonn.

Halldór Jónsson, 21.6.2021 kl. 12:57

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er ein svæsnasta samsæringskenningin á þessu sviði, sem ég hef séð.  Enginn heilvita maður, hvað þá hópur, tekur þá áhættu, sem slíku samsæri fylgir, enda óljós gagnkvæmur hagnaður af, að slíkt gangi upp.  Slíku væri ekki hægt að halda leyndu deginum lengur. 

Bjarni Jónsson, 22.6.2021 kl. 11:07

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Hagnaðurinn er augljós kollege Bjarni.Allt sem byggist á mati er háð óvissu þannig að það þarf ekki að vera óheiðarlegt samsæri aí gangi heldur benefit of the doubt. 

Halldór Jónsson, 22.6.2021 kl. 12:51

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Tillögur Hafró eru háðar rýni erlendis frá.  Ég geri ráð fyrir, að Hafró hafi nú þegar borið niðurstöður sínar undir kollega erlendis (Alþjóða hafrannsóknarráðið), sem hafi fallizt á niðurstöður Hafró.  Ef ekki, mun það fljótlega koma í ljós.

Bjarni Jónsson, 22.6.2021 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband