Furðufugl á jaðri siðmenningar

Fjarstæður hafa tröllriðið málflutningi í þessari kosningabaráttu til Alþingis.  Það er ills viti, þegar frambjóðendur sýna kjósendum algert virðingarleysi sitt með því að kasta fram fjarstæðum og órökstuddum dylgjum, eins og þeir ímyndi sér, að þeir geti borið hvaða þvætting og óhroða á borð án þess að skaðast.

Formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins er ekki barnanna beztur í þeim efnum, enda sýndi hann í viðtali í Dagmálaþætti Morgunblaðsins, sem prentaður var útdráttur úr 13. september 2021, að hann er einræðisseggur, sem hatast við atvinnurekstur í landinu, stjórnkerfið og þrígreiningu ríkisvaldsins, þ.e. grunnstoðir lýðveldisins. Annað eins hefur ekki birzt í kosningabaráttu svo lengi sem elztu menn muna.  Það vitnar um fullkomið dómgreindarleysi að reyna þannig að snúa við gangi tímans. Þjóðfélagið hlýtur að vera í andlegri nauð, ef slíkum gallagripum, sem alls staðar skilja eftir sig sviðna jörð, skolar á þing.

"Nú varstu sjálfur hallur undir frjálshyggju á árum áður, stór-kapítalisti árin fyrir hrun, gekkst næst í múslimafélagið, vildir ganga Noregskonungi á hönd og nú [í sósíalistaflokkinum]. Finnst þér skrýtið, þó[tt] sumir spyrji, hvort þér sé alvara eða hvort þetta sé bara langdreginn gerningur ?"  

"Þarf maður ekki að eiga kapítal til þess að vera kapítalisti ?  Ég átti ekki kapítal."

Nei, til að aðhyllast auðhyggju er ekki nauðsynlegt að vera ríkur.  Fátækur námsmaður getur aðhyllzt kenningar Adams Smith um markaðshyggju og frjálsa samkeppni án þess að eiga bót fyrir boruna á sér.  Hann getur t.d. einsett sér að nýta hæfileika sína, selja sérhæfða þjónustu sína að námi loknu og með dugnaði orðið ríkur.  Hann hefur skapað verðmæti, og enginn orðið fátækari, þótt hann yrði ríkur. Þessi maður á að fá að njóta ávaxtanna af erfiði sínu, og einhverjir öfundsjúkir leppalúðar, sem aldrei hafa gert neitt umfram það, sem að lágmarki var af þeim krafizt, og jafnvel kastað höndunum til alls, ef þeir þá nenntu að lyfta litla fingri, eiga ekki að komast upp með það að skella stórfelldum skattahækkunum á þennan mann. Stjórnmálamenn eru ekki handhafar réttlætisins.  Atvinnurekstur og fólk á að standa jafnt að vígi gagnvart skattheimtu, þótt fallast megi á réttmæti persónuafsláttar og lægri skattheimtu af lægstu launum.  Það ætti þá að gilda um útsvarið líka. 

Þessi ferill Gunnars Smára Egilssonar (GSE), sem blaðamennirnir rekja, ber merki um tækifærismennsku. Hann sogast að trúarbrögðum, sem ekki ríkja einvörðungu yfir persónulegu lífi einstaklinganna, heldur eru altækt valdatæki í þjóðfélaginu.  Þannig eru múhameðstrúin og kommúnisminn.  Af málflutningi GSE að dæma má ráða, að þar er siðblindingi á ferð, siðblindingi án sannfæringar. 

"En nú ert þú að gefa kost á þér til Alþingis, og það er ekki óeðlilegt, að fólk spyrji um ábyrgð þína, þegar þú tekur stórt upp í þig.  Þú leggur til, að sjálfstæðishúsinu Valhöll verði breytt í almenningssalerni og að tiltekinn maður eigi að skúra þar ...  ."   

"Maður, sem hefur borið út alls konar lygar um mig."

Það er ljóst, að til að þessi sjúklegi draumur GSE geti orðið að veruleika, þarf mikið ofbeldi að eiga sér stað, raunverulega blóðug bylting, þar sem byltingarseggirnir ganga á milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum og niðurlægja þá, sem lifa af blóðbaðið.  Allt, sem minnir á fyrri valdhafa, er troðið í svaðið.  Ekki þarf að útmála það frekar, hvers konar ofbeldishugarfar býr að baki því, hvernig þessi undirmálsmaður ætlar að fara með miðstöð Sjálfstæðisflokksins.  Að þvílíkur útlagi siðmenningarinnar setjist hugsanlega á Alþingi, er mjög óþægileg tilhugsun.

"Og þú hefur líka haft í heitingum við Hæstarétt, ef hann fer ekki eftir ykkar kröfum."

"Nei, það er ekki alveg þannig."

"Sagðirðu ekki, að það ætti að ryðja Hæstarétt, ef hann dæmdi öðruvísi en ykkur þætti réttast ?"

"Ja, við lifum við það vandamál, að tiltekinn flokkur hefur haft völd í gegnum dómsmálaráðuneytið og raunverulega ráðið dómara á öllum dómstigum meira og minna áratugum saman."

Einræðistilburðir GSE leyna sér ekki.  Eins og einræðisherrar fyrri tíma gerðu, vill hann afnema þrígreiningu ríkisvaldsins með valdi.  Hann vill láta framkvæmdavaldið segja dómsvaldinu fyrir verkum, eins og einræðisherrar gera, og enginn þarf að fara í grafgötur með, að siðblindur einræðisherra afnemur frjálsar kosningar til Alþingis.  Þær henta ekki alræði öreiganna, þ.e. "nómenklatúru" Sósíalistaflokksins.   

"Við gerðum könnun um daginn, sem sýndi, að 60 % töldu, að spilling væri vandamál í íslenzkum stjórnmálum.  Þjóðfélög, sem lenda í, að gömul valdaklíka hefur dreift sér út um allt samfélagið, er í stjórnsýslunni, í dómskerfinu og út um allt ...  ."

"Ertu að segja, að stjórnsýslan á Íslandi og dómskerfið sé valdaklíka ?"

"Já."

Hver gerði þessa könnun fyrir Sósíalistaflokkinn, og hvernig voru spurningarnar ?  Siðblindingi veit ekki mun á réttu og röngu, svo að full ástæða er til að draga í efa, að af marktæku þýði telji telji 60 % spillingu vera "vandamál í íslenzkum stjórnmálum".  Þarna sjáum við uppistöðuna í áróðri GSE.  Hann dreifir sefasýkislegum samsæriskenningum um stjórnsýsluna, dómstólana og atvinnureksturinn í landinu.  Sefasýkin kemst á hástig, þegar sjávarútveginn ber á góma. Þessi aðferðarfræði og fjarstæðukenndu spádómar um hitt og þetta passa alveg við hegðun einræðisherra fyrri tíðar, þegar þeir voru að berjast til valda.  Íslenzka spegilmyndin sýnir þó bara blöðrusel. 

"Það er mjög alvarlegt mál, ef maður, sem er að fá fljúgandi fylgi í könnunum, og koma mörgum þingmönnum inn, sé með það að stefnu að ryðja Hæstarétt, og að því er virðist stjórnkerfið, af því að sá hópur er skilgreindur sem valdaklíka.  Það eru rosaleg orð."

"Það hefur gerzt í sögunni, þar sem fólk hefur misst samfélag sitt í svona, að þá hefur verið gripið til þess ráðs að búa eitthvað til, eins og 2. lýðveldið.  Við erum gerspillt samfélag."

Það kemur hvað eftir annað fram, að GSE gælir við hugrenningar um byltingu á Íslandi, og nú nefnir hann 2. lýðveldið, sem er e.t.v. skírskotun til Frakklands,en hann gæti haft 2. íslenzka lýðveldið í huga.  Þvílíkt og annað eins.  

"Telurðu, að dómsvaldið sé spillt ?"

"Ég tel, að það hafi skipulega verið settir inn menn í Hæstarétt, sem eru líklegir til þess að verja meint eignarhald stórútgerðarinnar.  Að það sé skipulagt samsæri.

Og ef það er þannig, að Hæstiréttur stoppar það, að almenningur fái að nota sínar auðlindir, þá verðum við að bregðast við því.  Ég er að benda á, að aðrar þjóðir hafi brugðizt við [með] því að stofna nýtt lýðveldi."

Hefur nokkurn tíma í Íslandssögunni verið efsti maður á nokkrum framboðslista, sem jafnskefjalaust boðar ofbeldisfulla stjórnarbyltingu ?  Sagnfræðingar geta svarað því, hvort t.d. Brynjólfur Bjarnason eða Einar Olgeirsson hafi nokkurn tíma opinberlega látið sér um munn fara annan eins ofbeldisþvætting og borinn er á borð fyrir íslenzka kjósendur fyrir Alþingiskosningarnar 2021, og blaðamenn Morgunblaðsins veittu lesendum blaðsins þarna innsýn í.  Hvílíkt endemis rugl !

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég held að eina pólitiska hugsjón GSE sé GSE sjálfur. Hann þarf að koma sogröri sínu ofan í annarra manna vasa til að láta sjá fyrir sér. Þannig hefur hann lifað sína tíð.Og honum ætlar að takast það og sanna það þarmeð hverskonar lið íslenski kjósandinn er og að þjóðin getur varla versnað við að  opna landamærin upp á gátt  fyrir hvaða liði sem er. Þvílíkur husgjónamaður er fjögurrablaða Smárinn annars grannt skoðað. 

Halldór Jónsson, 19.9.2021 kl. 18:42

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú ferð áreiðanlega nærri um þetta furðufyrirbæri.  Kölski mun ekki geta notað hann til að kynda í helvíti, því að honum (GSE) er alls varnað.  Ef afskúminu skolar á þing, mun ekki batna þar bragurinn, og ég tek undir með þér, að það er margur sauður í mörgu fé, og fer ég ekki nánar út í það, eins og Kristján Ólafsson var vanur að segja, þegar hann fór hjá sér.  

Bjarni Jónsson, 19.9.2021 kl. 21:31

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Heilir og sælir, Bjarni og Halldór.

Ég tek undir með Halldóri, pólitísk hugsjón Gunnars Smára Egilssonar er Gunnar Smári Egilsson. Um þetta þarf vart að deila.

GSE var í viðtali í sjónvarpinu í kvöld. Það var vissulega nokkuð undarlegt og ekki annað að skilja á manninum en að land og þjóð væri á vonarvöl. Hér mun víst ríkja þvílík spilling að annað eins þekkist ekki í veröldinni, að mati GSE. Þar eru dómstólar einna svæsnastir, einkum vegna þess að hann telur skipanir dómara vera hápólitískar og auðvitað komin frá ranni þess flokks er hann hatast mest við. Svona bullaði hann út í eitt.  Endaði svo á að segja að bylting sé eina von landsins!

Það hefur oft verið sagt að þeir sem fari út í stjórnmál missi fljótt taktinn við þjóðina, en þvílíkt bull sem frá þessum manni kom!!

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 21.9.2021 kl. 00:00

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar:

Ég hafði öðrum hnöppum að hneppa í gærkvöldi en að fylgjast náið með þessum bullustampi, en sá þáttinn á hlaupum.  Ég verð að segja alveg eins og er: þegar ég horfi á þennan mann í sjónvarpi og fylgist með málflutninginum, finnst mér ekki fara á milli mála, að maðurinn gengur ekki heill til skógar.  

Bjarni Jónsson, 21.9.2021 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband