Gjaldeyrisvarasjóðurinn yrði hafður að skotspæni spákaupmanna

Morgunblaðið birti afhjúpandi útdrátt úr Dagmálaviðtali við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (ÞKG), formann Viðreisnar, 16. september 2021. Þar kom í ljós, að keisaraynja ESB-hirðarinnar á Íslandi er ekki í neinu.  Málflutningur hennar stendst ekki rýni.  Hann er reistur á fáfræði um eðli ESB, misskilningi um þetta yfirþjóðlega ríkjasamband eða rangtúlkun á staðreyndum. Engin alvarleg greining hefur farið fram á þeim bænum um kosti og galla aðildar. Það skín í gegnum viðtalið.

Hér er á ferðinni af hálfu Viðreisnar fullkomlega léttúðug og óábyrg umfjöllun um fjöregg þjóðarinnar, fullveldið, svo að það er ekki hægt að láta það átölulaust, að fjallað sé um aðild að Evrópusambandinu (ESB) eða myntsamstarfi þess án þess, að staðreyndir fái að njóta sín á nokkurn hátt.  Hér er ekki hægt að samþykkja, að þýzka máltækið: "der Erfolg berechtigt das Mittel" (tilgangurinn helgar meðalið), eigi við. 

 "Ef við tölum ekki um það [ESB], þá gerir það enginn. Við erum ekki að því bara til þess að fara inn í  Evrópusambandið samningsins vegna.  Við teljum, að lífskjörin muni batna og styrkjast, efnahagslegur stöðugleiki aukast o.s.frv.  En ef og þegar við náum samningum, og þeir eru ekki góðir, þá verður Viðreisn fyrsti flokkurinn til þess að leggjast gegn þeim."

Hér beitir ÞKG samningshugtakinu á kolrangan hátt.  Stöðunni er ekki hægt að líkja við 2 aðila, sem hvor um sig gengur með sín samningsmarkmið til samninga.  Nær er að líkja þessu við háskólastúdent, sem sækir um inngöngu í eitthvert nám í háskóla, og háskólinn skoðar nákvæmlega, hvað stúdentinn hefur lært og árangur hans í hverri grein til að kanna, hvort stúdentinn fullnægi inntökuskilyrðum skólans. 

Þetta kom greinilega í ljós í aðlögunarferli Íslands að ESB 2009-2013.  Þar var hverri "bókinni" á fætur annarri lokað, eftir að aðlögun hafði verið sannreynd, þangað til kom að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.  Þá fór allt í hund og kött, af því að Alþingi hafði sett skilyrði, sem ekki samrýmdust CFP og CAP-sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB.  Það er ómerkilegt af ÞKG að vera með þetta "samningskjaftæði". 

Hvernig í ósköpunum getur ÞKG borið það á borð fyrir kjósendur, að lífskjör þeirra muni batna við inngöngu í ESB, þegar þau eru miklu betri á Íslandi en í ESB-löndunum að Lúxemborg undanskilinni (skattaparadís) ?

Það er rangt, að efnahagsstöðugleiki muni aukast við fastgengi með evru.  Þá munu aðrar sveiflur en gengissveiflur þvert á móti aukast, þegar hagkerfið verður fyrir innri eða ytri truflun, t.d. á formi kjarasamninga, sem útflutningsatvinnuvegirnir geta ekki staðið undir, verðhækkunum eða verðlækkunum á erlendum mörkuðum, eða hruni greinar, t.d. ferðageirans. Gengið er nú dempari á efnahagssveiflur. 

" Ég geri mér grein fyrir, að við þurfum meiri umræðu, meiri upplýsingu.  Við erum að heyra alls konar rangfærslur um, að útlendingar fái fiskimiðin okkar og orkan verði tekin - tómt píp, auðvitað - en við þurfum meiri upplýsingu. Þess vegna höfum við lagt til, að þverpólitísk nefnd taki við málinu og undirbúi þá atkvæðagreiðslu, þar sem við spyrjum fólkið, hvað eigi að gera."  

Þetta er léttúðug og óábyrg afgreiðsla á örlögum fiskimiðanna eftir inngöngu.  Stjórnun fiskimiðanna er ekki umsemjanleg af hálfu ESB við aðlögunarríki, af því að kveðið er á um það í sáttmála ESB, að ríki ESB skuli lúta sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, CFP (Common Fisheries Policy). Það var lengi mikið óánægjuefni í strandbæjum Bretlands, að flotar hinna ESB-landanna ryksuguðu fiskimið Breta upp að 12 sjómílum.  Eftir útgönguna losna Bretar af klafa þessarar ofveiði í áföngum á 5 árum. 

Í byrjun þessarar aldar (21.) gaf framkvæmdastjórn ESB út "grænbók" um framtíðarfyrirkomulag úthlutunar fiskveiðiheimilda í lögsögu ESB-ríkjanna.  Þar var stefnt að markaðsvæðingu, þannig að kvótarnir gætu gengið kaupum og sölum á Innri markaði ESB.  Stefna Viðreisnar um þjóðnýtingu aflaheimilda í áföngum og síðan uppboð á þeim er ekkert annað en aðlögun að framtíðarstefnu ESB.  Viðreisn hagar sér sem leppur Evrópusambandsins á Íslandi.  Ef þessi uppboðsstefna á fiskveiðiheimildum verður ofan á, munu þessi uppboð verða talin málefni Innri markaðarins, og þverska gegn því verður kærð til ESA.  Þetta er verra tilræði við efnahagslegt sjálfstæði Íslands en Icesave-svikasamningar vinstri stjórnarinnar 2009-2013. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að það verði samþykkt hér í þjóðaratkvæðagreiðslu að aðlagast ESB að fullu ? 

"Hefði það verið ákjósanlegt í kórónukreppunni undanfarna 18 mánuði, þar sem ferðaþjónustan þurrkaðist út, að gjaldmiðillinn hefði ekki haggazt ?"

"Það er oft sagt um krónuna, að það megi láta hana falla til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi.  Samt jókst atvinnuleysi meira hér en víða í sambærilegum löndum.  Ég hefði viljað gjaldmiðil, sem hefði veitt okkur meiri fyrirsjáanleika."

Hvaða "sambærilegu" lönd er ÞKG að tuða um þarna úti í sínu horni evru-trúarbragðanna ?  Það var ekkert land í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, með fjölda  erlendra ferðamanna á ári í námunda við 5-faldan eiginn íbúafjölda, þegar Kófið dundi á. Þess vegna varð efnahagsáfallið jafngríðarlegt hér og raun bar vitni um (6,5 % minnkun VLF 2020), og mikið atvinnleysi hlaut að fylgja.  Eitt er mjög líklegt: hefði þessi evru-tilbeiðandi verið búin að festa ISK við EUR, þegar Kófið skall á, hefði gjaldeyrisvarasjóðurinn þurrkast upp. Spákaupmenn hefðu tekið sér stöðu og fellt ISK léttilega og hirt gjaldeyrisvarasjóðinn á spottprís í leiðinni.  Það er þessi "rússneska rúlletta", sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir býður Íslendingum upp á af fláræði sínu eða skilningsleysi.  Hvort tveggja er afleitt fyrir stjórnmálamann. Blaðamenn Morgunblaðsins höfðu þetta líka í huga:

"Í dag eru 29 ár síðan George Soros gerði atlögu að Englandsbanka og Bretar hrökkluðust úr evrópska myntsamstarfinu.  Þegar sú stóra þjóð átti ekki séns (sic !), eigum við meiri séns (sic !) ?"

"Það hafa menn á undan mér í pólitík bent á, að fara ætti einhverja svipaða leið.  Á þeim tíma hefði það ekki endilega verið skynsamlegt, en þar sem staða gjaldeyrisvaraforðans er jafnsterk og raun ber vitni, þá er það raunhæft."

 Þetta svar ÞKG er algerlega út í hött.  Dómgreindarleysið er yfirþyrmandi.  Heldur hún virkilega, að jafnvirði um mrdEUR 5 standi eitthvað í spákaupmönnum að snara út til að græða á gjaldeyrisbraski ?  

Það vill svo til, að Morgunblaðið gerði þessi mál að umræðuefni í forystugrein 16. september 2021 undir fyrirsögninni:

"Að bjóða hættunni heim".

Bretar höfðu þá um 2 ára skeið haldið uppi einhliða fastgengi við þýzka markið innan evrópska myntsamstarfsins (ERM), en áhlaup spákaupmanna hafði staðið um hríð.  Englandsbanki hækkaði stýrivexti sína upp í 10 % og seldi ógrynni af gjaldeyri til þess að verja pundið, en allt kom fyrir ekki. [ÞKG heldur, að gengistenging ISK við EUR muni lækka vexti hér niður að vöxtum evrubankans.  Hún hundsar staðreyndir, ef þær gagnast ekki ESB-trúboði hennar-innsk. BJo.] Hinn 16. september var gjaldeyrisforðinn uppurinn, Bretar gáfust upp og þurftu að draga sig út úr ERM við mikla niðurlægingu.  Englandsbanki tapaði a.m.k. mrdISK 600 í einu vetfangi, ríkisstjórn Íhaldsflokksins náði sér aldrei á strik aftur og galt afhroð í næstu kosningum."

Það er mjög þungur áfellisdómur yfir Viðreisn, að forysta flokksins skuli vera svo óvarkár í fjármálum að leggja til leið í gjaldeyrismálum, sem sagan sýnir einfaldlega, að er stórhættuleg.  Ef ÞKG heldur, að mrdISK 800 gjaldeyrisvaraforði muni veita fastgengisstefnu hennar einhverja vörn, þá hefur hún ekkert lært á sínum pólitíska ferli, sem máli skiptir, og er einfaldari í kollinum en formanni stjórnmálaflokks ætti að leyfast.

Í viðtalinu var haldið áfram að afhjúpa formann Viðreisnar:

"Á hvaða gengi verður ISK fest við EUR ?"

"Á markaðsgengi."

"Á markaðsgengi dagsins, þegar bindingin á sér stað ? Þá verðum við nú fljótt vogunarsjóðunum að bráð.  Dauð á fyrsta degi."

"Ef þú getur sagt mér það, [hvert] gengið er eftir ár, þá skal ég svara þér."

"Það eruð þið, sem eruð að leggja til gengisbindingu."

"Ég er að segja þér þetta: ef þú getur svarað mér því."

"Er það þá stefna ykkar að taka gengisbindingu upp á genginu, sem verður, þegar skrifað verður undir ?"

"Við skulum bara sjá til með það."

"Það skiptir öllu.  Sigmar Guðmundsson, frambjóðandi Viðreisnar, lofaði okkur því hér í þættinum, að þetta yrði gert heyrinkunnugt fyrir kosningar, af því að það skiptir fólk máli.  Þið hljótið að hafa einhverja hugmynd um á hvaða gengi það skuli gert."

"Það er ekkert ólíklegt, að það verði einhvers staðar nálægt markaðsgenginu.  En það fer auðvitað allt eftir samningunum."

Þessi yfirborðslegu og raunar forheimskulegu svör Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sýna, svo að ekki verður um villzt, að keisaraynjan er ekki í neinu í gengisfrumskóginum.  Viðreisn hefur augljóslega enga áhættugreiningu gert á þeirri stefnumörkun sinni að tengja ISK við EUR. Þorgerður Katrín minnir á skessu, sem leikur sér hlæjandi að fjöreggi þjóðarinnar, eins og um getur í þjóðsögunum.  Stefna Viðreisnar er vítaverð, af því að hún endar óhjákvæmilega með ósköpum. 

Áfram með hina fróðlegu forystugrein Morgunblaðsins:

"Bretar voru ekki einir um að falla í þá freistni [að tengja gengið annarri mynt - innsk. BJo].  Það gerðu Svíar og Finnar einnig, en urðu líka fyrir árás spákaupmanna og neyddust til að slíta gengistengingunni og fella gengið haustið 1992.  Hafði þó ekki lítið gengið á, og Svíar í örvæntingu hækkað millibankavexti í 500 % !  Sömu sorgarsögu er að segja af ámóta tilraunum annars staðar, frá Tequila-kreppunni í Suður-Ameríku 1994 til Asíukreppunnar 1998."

 Viðreisn lifir í sérkennilegum, rósrauðum draumaheimi lepps Evrópusambandsins.  Kerling kostar öllu til, til að smygla sál karlsins inn um Gullna hliðið.  Vankunnátta og óraunsæi einkenna vinnubrögðin, enda helgar tilgangurinn meðalið.  Væri ekki ráð, að flokksforystan kynnti sér gjaldmiðlaþátt hagsögunnar ?  Það er reyndar borin von, að heilaþvegnir láti af trúnni.

Kjarninn í tilvitnaðri forystugrein Morgunblaðsins var þessi:

 "Einhliða fastgengi á tímum frjálsra fjármagnsflutninga er einfaldlega skotheld uppskrift að spákaupmennsku, gjaldeyriskreppu, bankakreppu og loks efnahagskreppu.  Þau víti þekkja Íslendingar og verða að varast þau."

Nokkru síðar var Viðreisn rassskellt þannig:

"Einhliða fastgengi er peningastefna fortíðar, sem felur í sér, að allur gjaldeyrisforði þjóðarinnar er lagður að veði og getur hæglega tapazt til spákaupmanna á einni nóttu. Sem er alls ekki ólíklegt, vegna þess að slíkur fjársjóður dregur að sér athygli þeirra og ágirnd. 

Fastgengisstefna myndi - þvert á það, sem boðberar hennar segja - að öllum líkindum hækka vexti, þar sem allt myndi miðast við að verja gengið, en ekki hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu.  Þá myndu Íslendingar ekki lengur hafa sveigjanleika til þess að bregðast við áföllum í útflutningi, líkt og átti sér stað í nýliðinni kórónukreppu, en rétt er að hafa í huga, að allar helztu útflutningsgreinar Íslands - sjávarútvegur, orkunýting og ferðaþjónusta - eru háðar ytri þáttum, sem við fáum engu um ráðið.  Við blasir, að atvinnuleysi hefði orðið miklu meira og útgjöld ríkisins mun hærri, hefði ekki verið unnt að beita peningastefnunni til sveiflujöfnunar, líkt og gert var með afgerandi og farsælum hætti."

Þessi greining Morgunblaðsins er að öllum líkindum hárrétt.  Gengisbindingarstefnan er vanhugsuð og þjóðhættuleg.  Með henni væri kastað fyrir róða mikilvægu sveiflujöfnunartæki, sem er hagkerfi á borð við okkar bráðnauðsynlegt, sem nánast aldrei sveiflast í fasa við meginhagkerfin, sem marka peningastefnu evrubankans í Frankfurt.  Núna er reyndar mikill og vaxandi klofningur á milli germanskra og rómanskra ríkja evrunnar um peningastefnu evrubankans, sem hefur valdið mestu verðbólgu á evrusvæðinu frá stofnun hennar og mestu verðbólgu í Þýzkalandi frá endursameiningu landsins 1990. 

Evran krosssprungin 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Talsmenn upptöku evru hafa aldrei útskýrt hvaða íslensku verðmæti þeir hyggist afhenda sem greiðslu fyrir evrurnar sem þyrfti að kaupa í stað þeirra króna sem yrðu teknar úr umferð.

Ekki geta þeir greitt með krónunum sem á að taka úr umferð, enda yrðu þær við það verðlausar. Með hverju öðru ætla þeir að kaupa allar þessar evrur í staðinn fyrir krónurnar?

Guðmundur Ásgeirsson, 22.9.2021 kl. 21:53

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Tal frambjóðenda Viðreisnar um tengingu ISK og EUR er fjarstæða frá upphafi til enda.  Vísun til Dana og Króata í því sambandi kórónar delluna.  Aðstæður Íslendinga og þessara þjóða eru einfaldlega ósambærilegar.  Það er bókstaflega ekki heil brú í "stefnumörkun" Viðreisnar um evru og ESB.  Gösslarahátturinn og ósvífnin, sem fólginn er í því að bjóða þjóðinni upp á þvílíkan spuna, sýnir, að þar fara stjórnmálamenn, sem ekki verðskulda snefil af trausti.  Málflutningur þeirra um þessi efni er eintómt fals og spuni og einhver mundi kalla allan moðreyk Viðreisnar eina samfellda lygaþvælu ætlaða auðtrúa fólki.  Reglulega sorglegt, hversu lágt er lagzt.  

Bjarni Jónsson, 23.9.2021 kl. 13:47

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta tal þeirra byggist allt á þeirri mýtu að við inngöngu í ESB og myntbandalagið muni Ísland sjálfkrafa breytast í Þýskaland. Sem er alls ekki raunin. Spyrjið bara Eystrasaltslöndin.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.9.2021 kl. 14:10

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þau (Viðreisn) skilja ekki, að skilyrðið fyrir því að þrífast í myntbandalagi með Þýzkalandi eða öðrum er, að íslenzka hagkerfið gangi nákvæmlega í takti við það þýzka.  Sú er ekki raunin nú, fjarri lagi, og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð.  Það skaðlega við þetta skilningsleysi er, að þau vita heldur ekki, hvað það er gríðarlega skaðlegt að bindast evrunni við þessar aðstæður.  Þau virðast gefa sér, að íslenzka hagkerfið hrökkvi í fasa við það þýzka og sveiflur þess verði eins, við þessa bindingu.  Enginn hagfræðingur getur stutt þá kenningu.  Viðreisnarforkólfarnir eru barnalegri en þeir hafa leyfi til að vera.

Bjarni Jónsson, 23.9.2021 kl. 17:41

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þessi greining þín Bjarni ætti að vera kennslugagna í øllum menntaskólum landsins. 

Ragnhildur Kolka, 23.9.2021 kl. 22:03

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir þetta mikilsverða hrós, Ragnhildur.  Mikið varð ég líka ánægður í morgun að sjá örgreiningu Seðlabankastjóra á þessu gengisbindingarmáli, hnífskarpa, eins og þess Hólamanns er von og vísa.  Í stuttu máli er þessi meginboðskapur Viðreisnar fyrir þingkosningarnar á morgun óframkvæmanlegur án svo mikillar áhættu fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn, vexti í landinu og allt hagkerfið, að algert glapræði væri að taka hana.  Mín ályktun er síðan sú, að flokkur, sem slíkt boðar, sé fullkomlega óábyrgur og verðskuldi ekki nokkurt traust kjósenda.  

Bjarni Jónsson, 24.9.2021 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband