Misheppnuð kosningabarátta

Af samanburði skoðanakannana og kosningaúrslita 25. september 2021 má álykta, hvaða árangur kosningabarátta stjórnmálaflokkanna hefur borið. Stjórnarflokkarnir toppuðu allir á kjördag, og sama gerði Flokkur fólksins, en aðrir stjórnarandstöðuflokkar, að Miðflokkinum undanskildum, sem aldrei naut meðbyrs, misstu fylgi alla kosningabaráttuna og voru í lágmarki á kjördag. Þetta er mjög áberandi í tilviki Sósíalistaflokksins, en formaður framkvæmdastjórnar hans, Gunnar Smári Egilsson, virðist vera hin fullkomna kjósendafæla, og voru það ein af nokkrum gleðitíðindum kosninganna.  Athyglisvert var, að Viðreisn var í sókn í kosningabaráttunni samkvæmt skoðanakönnunum, en hrapaði síðan á kjördag.  Má líklega kenna arfaslakri frammistöðu formanns flokksins í formannaumræðum í sjónvarpssal RÚV kvöldið fyrir kosningar um, en spjótum var þar beint að henni með vísun í frétt Morgunblaðsins á bls. 2 daginn fyrir kjördag. Á RÚV  afflutti hún ummæli Seðlabankastjóra um aðalkosningamál Viðreisnar.  Verður nú fróðlegt að sjá, hvort hún heldur áfram að japla á tengingu ISK við EUR, sem er stefna, sem hefur verið kokkuð upp við eitthvert eldhúsborðið í því augnamiði "að slá í gegn", en stendur á brauðfótum hagfræðilega, eins og hver önnur hagsýn húsmóðir finnur á sér af hyggjuviti sínu.  Ósvífni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er yfirgengileg, að hún skuli láta eins og um stórmerkilega hagfræðilega hugmynd sé að ræða, þótt hún sé í raun óframkvæmanleg.  Þetta mál sýnir, hversu hættulegt yfirborðsfólk án hyggjuvits eða getu til fræðilegrar greiningar á viðfangsefninu verður, þegar það fer út í stjórnmál og vantar málefni til að vekja athygli. 

Það var hárrétt hjá Ásgeiri Jónssyni, Seðlabankastjóra frá Hólum í Hjaltadal, að leiðrétta vitleysuna, sem vall upp úr stjórnmálamanninum, og verður nú vitnað í Morgunblaðsfréttina 24. september 2021, sem var undir hógværri fyrirsögn:

"Erfitt að tengja við evru".

"Seðlabankastjórinn telur ómögulegt fyrir bankann að halda fastgengi við evru, en til að það gangi upp, þyrfti m.a. að beita öllum gjaldeyrisforðanum til að viðhalda því.  Auk þess yrði ríkisstjórnin ávallt að taka mið af jafnvægi gengisins í fjárlögum, og samkomulag þyrfti að ríkja við verkalýðsfélög um launahækkanir.  Að þessum skilyrðum uppfylltum væri þó enn ekki hægt að treysta á, að fastgengið myndi ganga eftir, þar sem aðrir óvissuþættir væru enn til staðar."(Undirstr. BJo.)

Undirstrikaða hlutann skautaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (ÞKG) framhjá á formannakvöldinu og lét þar með í veðri vaka, að Seðlabankastjóri teldi leiðina færa með góðri hagstjórn.  ÞKG er fullkomlega óábyrgur stjórnmálamaður, sem lítið kann til verka.  Ábyrgur stjórnmálamaður hefði viðrað hugmyndina við stjórnendur Seðlabankans áður en hann færi á flot með hana. Hver treystir ÞKG fyrir horn úr þessu ?

"Telur Ásgeir, að tenging ISK við EUR gæti m.a. leitt til hærri stýrivaxta, þar sem nauðsynlegt gæti orðið að hækka vexti til að verja gengið.  Segir hann ekki ráðlegt að bera saman stöðu Íslendinga nú, og þegar ISK var tengd við reiknieininguna ECU árið 1989.  Hafi það fyrirkomulag gengið upp í ljósi fjármagnshafta, sem eru ekki til staðar í dag." 

Það er í einu orði sagt stórfurðulegt, að stjórnmálaflokkur skuli leyfa sér að fara á flot með svo illa ígrundaða stefnu í kosningabaráttu sem tenging ISK við EUR er.  Það gæti ekki gerzt, nema þar væru aðeins innantómir flautaþyrlar á ferð.  

Það voru þó fleiri furðumál á ferðinni hjá Viðreisn og bar þar hæst aðförina að sjávarútveginum með uppdiktuðu markaðskerfi fyrir öflun veiðiheimilda.  Sjávarútvegsstefna Viðreisnar á þó ekkert skylt við markaðskerfi, því að eignarrétturinn er virtur að vettugi og útgerðirnar holaðar að innan, sem leiða mundi til gjaldþrots þeirra margra hverra innan tíðar.  Það, sem þjóðnýtt er, á svo að leyfa þeim að bjóða í.  Spurning, hvort ESA mun ekki telja heimildirnar útboðsskyldar á Innri markaði EES ? 

Allt verður að öfugmælum hjá Viðreisn, því að þetta kalla þau að auka rekstrarlegan fyrirsjáanleika útgerðanna.  Það þarf ekki að vera doktor í hagfræði til að sjá í hendi sér, að þetta mun auka óvissu í útgerð og fiskvinnslu svo mikið, að fjármagnsflótti verður úr greininni og fjárfestingar verða í lágmarki. 

Þetta er skólabókardæmi um það, sem er ekki hlutverk stjórnmálamanna, þ.e. að reyna að troða umdeilanlegri hugmyndafræði sinni upp á atvinnugreinar, sem ganga vel, og klæða gjörninginn í umbúðir "réttlætis".  Það er ekki hægt að stunda ábátasaman atvinnurekstur til að fullnægja réttlæti, sem margir aðrir kalla argasta óréttlæti. 

Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, ritaði um þessi ósköp í Morgunblaðið 21. september 2021 undir fyrirsögninni:  

"Viðreisn ráðstjórnar":

"Maður, sem hefur hampað frábæru fiskveiðistjórnunarkerfi og verið framarlega í að útskýra yfirburði íslenzks sjávarútvegs, sem sé markaðsdrifinn og skili meiri verðmætum en þekkist nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Nú í einni svipan á að þjóðnýta auðlindina með því, að ríkið taki veiðiheimildir og setji á uppboð.  

Þetta hefur reyndar verið reynt áður í fiskveiðum með hörmulegum afleiðingum.  Eignarréttur á veiðiheimildum er einmitt forsenda þess, að fyrirtæki fjárfesti, auki framleiðni og þannig verðmætasköpun, sem er okkur Íslendingum svo mikilvægt.  Uppboð á þessum heimildum, þótt það sé gert í mörgum skrefum, er ómöguleiki, sem verður útskýrð[ur] hér seinna."

Þarna gerir Gunnar Þórðarson umskiptinginn Daða Má Kristófersson, varaformann Viðreisnar, að umræðuefni. Sá pólitíski framagosi hefur litið fram hjá þeirri alkunnu staðreynd, að bezta ráðið til verndar takmörkuðum gæðum (auðlindum) yfirleitt er að koma þeim í einkaeign, enda hefur umgengni útgerðarmanna við fiskistofnana verið til fyrirmyndar, eftir að þeir fengu nýtingarrétt á þessari mikilvægu þjóðareign til ráðstöfunar, þótt með fáeinum, ljótum undantekningum sé.

Verði nýtingarrétturinn á hverfanda hveli fyrir tilverknað misviturra stjórnmálamanna, þá mun fara með umgengnina eins og vant er, þar sem "hið opinbera" er eitt ábyrgt fyrir eignarhaldinu.  Umgengnin verður eins og enginn eigi auðlindina. Síðan er auðvitað hin lagalega hlið málsins, sem útilokar þessa leið.  Það eru engin lagaleg skilyrði uppfyllt fyrir þjóðnýtingu á nýtingarréttinum, þótt auðlindin sé í eigu þjóðarinnar.  Þjóðareign í þessu tilviki heimilar aðeins ríkisvaldinu að fara með nýtingarstjórn auðlindarinnar, og ríkisvaldinu hefur farizt það vel úr hendi með tilstyrk vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar. Lagaheimildir ríkisvaldsins standa á hinn bóginn ekki til þess að svipta útgerðir aflaheimildum, nema þær gerist lögbrjótar. Stjórnarskráin ver atvinnuréttindi og eignarrétt (þjóðin er ekki lögaðili, þótt allt opinbert vald komi frá þjóðinni). 

"En hvers vegna virka ekki uppboðin ?  Ef við tökum 5-10 % af aflaheimildum árlega og setjum á uppboð, munu útgerðir bjóða í þær.  Myndi það tryggja rétt verð á kvótanum ?  Fyrir útgerð, sem hefur fjárfest í skipi og búnaði og búið [er] að taka 10 % af heimildum af  þeim, þá stendur [hún] frammi fyrir ákveðnu vandamáli.  Þeir, sem einhvern tímann hafa komið nálægt rekstri, þekkja hugtök eins og fastur kostnaður og breytilegur.  Fyrir flugfélag, sem er að selja miða, lítur dæmið út þannig, að þegar búið er að selja dýra miða og komið er [í kassann] fyrir breytilegum kostnaði, getur borgað sig að bjóða miða á verði, sem aldrei myndi duga til rekstrarins, en skilar þó einhverju upp í fastan kostnað. Sama gildir um útgerð, sem þarf að leigja kvóta af ríkinu.  Til að fá hann getur borgað sig að bjóða verð, sem [gerir útgerðinni kleift að veiða] fyrir breytilegum kostnaði og [eitthvað] upp í fastan kostnað [útgerðarinnar]. Útgerðin sem slík myndi hins vegar aldrei bera sig með slíku veiðigjaldi, þannig að það verð endurspeglar á engan hátt, hvaða veiðigjald er raunhæft.  Er samt hægt að halda því fram, að leiguverðið endurspegli getu útgerðarinnar til að taka á sig hækkun á veiðigjöldum ?"  

Hér hefur Gunnar Þórðarson sýnt fram á, að boðað fiskveiðistjórnunarkerfi pólitískra flautaþyrla í Viðreisn, Samfylkingu, Píratahreyfingunni o.fl. er ófær leið til að láta markaðinn ákveða "rétt veiðigjald".  Þess vegna hefur sú aðferð alls staðar mistekizt hrapallega og endað að lokum með fjöldagjaldþrotum útgerðarfélaga, ef aðferðin hefur ekki verið slegin af í tæka tíð.  Þetta er aðferð þöngulhausa og/eða skemmdarverkamanna. Við þurfum ekki á slíkum stjórnmálamönnum að halda, og þeir ættu eindregið að halda sig frá afskiptum af atvinnugreinum, enda eru þeir ekki til þess bærir.  Aðferðin, sem þessir stjórnmálaflokkar hafa blásið sig út yfir, er ekki einnar krónu virði fyrir ríkissjóð og hag þjóðarinnar, heldur mundi grafa undan undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar, enda hafnaði þjóðin þeim blöðruselum, sem boðuðu þetta fyrir kosningar 25.09.2021. 

"Uppboð ríkisins á veiðiheimildum er ekkert annað en sósíalismi, þar sem horfið er frá markaðsbúskapi til ráðstjórnar. Hvernig halda menn, að brugðizt verði við því, þegar eitt sjávarpláss tapar veiðiheimildum ár eftir ár, þar sem útgerðir þar hafa ekki sama bolmagn og öflugustu útgerðirnar til að bjóða hátt verð ?  Verður þá brugðizt við því með sértækum aðgerðum ?  Sendir sérfræðingar til að ráða bót á vandanum og leysa hann ?  Það er ráðstjórn !  Ástæða þess, að veiðigjald er reiknað sem hlutfall af hagnaði, er einmitt að verja veikari útgerðir gagnvart þeim öflugu. [Aðalhvatakona ESB-aðildar Íslands, mannvitsbrekkan á stóli formanns Viðreisnar, segir aftur á móti ástæðuna vera að verja skussana í útgerð.  Hún þekkir hvorki haus né sporð á vandamálum útgerðarfélaga og ætti að skammast sín fyrir jafnrakalausar fullyrðingar-innsk. BJo.]

Íslenzkur sjávarútvegur er vel rekinn og á eðlilegum grunni.  Þegar búið er að taka rúmlega 30 % af hagnaði í veiðigjöld, er hann á pari við önnur vel rekin fyrirtæki með rekstrarhagnað, en greiðir sér heldur minni arð af hlutafé." 

  

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt kenningum hagfræðinnar er ekki hægt að hafa allt þrennt í einu: stöðugt gengi, stöðugt vaxtastig og frjálst flæði fjármagns.

Viðreisn hefur aldrei útskýrt hvoru eigi að fórna með fastgengi við evru, stöðugu vaxtastigi eða frjálsu flæði fjármangs (þvert gegn EES samningnum).

Guðmundur Ásgeirsson, 2.10.2021 kl. 17:46

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Guðmundur, mér var kunnugt um þetta "lögmál".  Viðreisn virðist ekki hafa greint gengismálin af neinu viti, heldur slegið EUR-tengingu ISK fram sem "piece of cake" og vísun út í loftið til Króatíu.  Sigmar í SV lofaði upplýsingum um gengi ISK við festingu fyrir kosningar.  Líklega átti Nestor að setjast niður og reikna, en aldrei kom neitt annað en tuð frá formanninum um "markaðsgengi" á skráningardegi.  Viðvaningshátturinn tekur út yfir öll þjófamörk.  Það stendur ekki steinn yfir steini hjá þessu flokksviðrini.  Aðalkosningamálin eru fokin út í loftið.  Eðlilegast væri fyrir flokkinn að leggja upp laupana við þessar aðstæður.  

Bjarni Jónsson, 2.10.2021 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband