Skattaáþjánin

Nú stendur fyrir dyrum að rita nýjan stjórnarsáttmála, og mun hann veita forsögn um þróun ríkisfjármálanna. Staða þeirra er óviðunandi eftir Kófið.  Kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafa líklega haft þetta í huga, þegar þeir ákváðu, hvernig verja ætti atkvæðinu, því að flokkum hóflausrar þenslu ríkisútgjalda og lántöku á kostnað framtíðarinnar var hafnað.  Hafa verður líka í huga, að Seðlabankinn mun neyðast til að bregðast við áframhaldandi þenslustefnu ríkissjóðs með enn harðari aðhaldsaðgerðum en ella, því að hann mun leitast við að koma hér á jákvæðum raunvöxtum sem fyrst, sem dregur úr einkaneyzlu til mótvægis við opinbera þenslustefnu.

Stjórnarflokkarnir virtust samstiga um það í kosningabaráttunni, að hvorki yrði hér þörf á skattahækkunum til að koma böndum á ríkissjóð né róttækum aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs, ef nauðsynlegur hagvöxtur yrði aðeins tryggður. Þetta er vandrötuð hagstjórnarleið, en ríkisvaldið hefur í sínum höndum ýmis tól og tæki til að örva hagvöxt. Síðan hefur landsmönnum reyndar hlotnazt ávísun á tæplega 100 mrdISK/ár happdrættisvinning, þar sem er spá Hafró um öflugar loðnugöngur 2022-2023. 

Eitt af verkfærum ríkisstjórnarinnar til að efla nauðsynlegan hagvöxt er að ýta undir nýjar virkjanir í landinu til að standa undir orkuskiptunum, sem verða aldrei barn í brók án nýrra virkjana, sem hefja þarf strax til að forðast orkuskort.  Afturhaldið í landinu þvælist fyrir öllum nýjum virkjunum, en virðist vilja umbylta hér neyzlumynztri og draga úr framleiðslu útflutningsatvinnuveganna til að fá umhverfisvæna orkugjafa til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. 

Þetta er afspyrnu útúrboruleg hugmyndafræði, sem engum mun gagnast, en mun keyra hér hagkerfið í samdrátt og verða öllum landsmönnum til tjóns og mest þeim, sem minnst mega sín. Þessi sérvizka er ósjálfbær fyrir Ísland, því að þar með væri, allsendis að óþörfu, verið að leggja þungar byrðar á unga fólkið í landinu og gamlingjar og sjúklingar mundu fá að lepja dauðann úr skel.  Dæmigerður sósíalismi andskotans þarna á ferðinni hjá Landvernd o.fl. 

Samkeppnishæfni landsins er í uppnámi vegna hárra launa og áframhaldandi hækkana, sem eru meiri en í helztu samkeppnislöndum okkar.  Viðskiptafrétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 24. september 2021 hófst þannig: 

"Launakostnaður á hverja unna stund á Íslandi var um 8 % hærri á 2. ársfjórðungi [2021] en árið áður.  Það var 3. mesta hækkunin í Evrópu á tímabilinu, en miðað er við vísitölu launakostnaðar."

 

Fyrir ofan voru Kýpur og Serbía, en t.d. hin Norðurlöndin voru með hækkun, sem nam 6,4 % (Svíþjóð), 3,3 % (Danmörk), 2,9 % (Noregur) og 2,5 % (Noregur). Í Þýzkalandi stóð launakostnaður í stað, og í ESB varð meðalhækkun 0,6 %.  Það er hætt við, að framleiðniaukning á Íslandi hafi orðið langt undir 8 % á ári undanfarin misseri, og þess vegna er þessi þróun launakostnaðar á Íslandi ósjálfbær og stefnir í allt of hátt raungengi, sem yrði mikil byrði á útflutningsatvinnuvegunum.

Þrátt fyrir engar launahækkanir í Þýzkalandi er þar "mikil" verðbólga á mælikvarða Þjóðverja.  Verðbólga heildsöluverðs reyndist 12,3 %/ár í ágúst 2021, sem er met síðan í olíukreppunni 1973-1974, en verðbólga neyzluverðs er þar enn um 4 %.    

"Aðilar vinnumarkaðarins" og ríkisvaldið verða í komandi kjaraviðræðum að sameinast um leiðir til að verja núverandi kjör og viðhalda efnahagsstöðugleikanum. Líklega hafa margir kjósendur verið sér meðvitaðir um þessa þörf, þegar þeir sniðgengu glundroðann í stjórnmálunum.

Baldur vitnaði í Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka:

"Líkt og víðar sé að hægja á aukningu framleiðni, eftir því sem hagkerfið þroskast, þjóðin eldist o.s.frv., nema til komi nýir atvinnuvegir eða atvinnuhættir, sem herði aftur á þeirri þróun.  M.ö.o. þurfi að styrkja grunnstoðir hagkerfisins eða skapa nýjar til að standa undir enn meiri launahækkunum.  Sú þróun eigi sér stað samtímis því sem Íslendingar glími við verðbólguþrýsting, sem sé að hluta vegna innfluttrar verðbólgu, þ.e.a.s. hækkandi verðlags erlendis."

Ef fyrirtækin halda áfram að fjárfesta, þá mun tæknin gera þeim kleift að auka framleiðni sína áfram.  Þetta á við í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði.  Orkuskiptin kalla á miklar fjárfestingar, t.d. í virkjunum, sem eru forsenda þess, að draga megi úr eldsneytisinnflutningi.  Þessi gjaldeyrissparnaður mun ýta undir hagvöxt.  

Fyrir ráðstöfunarfé almennings er skattheimtan þungvæg.  Ungt fólk, sem er að stofna heimili, leggur oft mikið á sig við að afla tekna til að standa straum af mesta kostnaðinum á ævinni og skuldar jafnvel námslán.  Það er mikið óréttlæti fólgið í að skattleggja þetta fólk með háum jaðarskatti, eins og eru ær og kýr vinstri hjarðarinnar.  Í Fréttablaðinu 25. september 2021 blöskraði framkvæmdastjóra SA skattaumræðan undir fyrirsögninni:

"Umræðu um skatta snúið á haus fyrir kosningarnar":

"Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir, að í umræðu um skattkerfið í aðdraganda kosninga sé öllu snúið á haus.  "Vandséð er, hvað vakir fyrir þeim flokkum, sem tala með þeim hætti, að skattkerfið sé sérstaklega ósanngjarnt hér á landi, annað en einbeittur vilji til að rugla fólk í ríminu", segir Halldór.

Hér á landi séu greidd ein hæstu lágmarks- og meðallaun í heimi.  Báðar stærðir séu leiðréttar fyrir kaupmætti og taki þannig tillit til hás framfærslukostnaðar hér á landi."

Mesta fjárfestingarátak flestra fjölskyldna felst í að "koma sér þaki yfir höfuðið", og það gerist yfirleitt á fyrstu búskaparárunum.  Verð húsnæðis hefur verið spennt upp með lóðaskorti. Sveitarfélögin maka krókinn af hækkun húsnæðisverðs, af því að fasteignagjöldin taka mið af markaðsverði.  Það er ekkert vit í þessari skattheimtu og ber að rjúfa tafarlaust tengslin á milli fasteignamats og fasteignagjalda.  Ef tekst að lækka fasteignaverð og varðveita núverandi kaupmátt launa, mun Ísland standa vel að vígi í samkeppninni um fólkið.

""Lágtekjufólk býr ekki við háa skattbyrði, enda á það ekki að gera það.  Þeir, sem hærra standa í tekjustiganum, skila sannarlega sínu til samfélagsins og búa við mun hærri skattbyrði, hvort sem talið er í % eða ISK. Það blasir við, að tekjuskattskerfið á Íslandi er öflugt við að jafna kjör í landinu", segir Halldór."  

Það er eðli jafnaðarmanna og sósíalista að efna til sundrungar á meðal fólks, og þá er iðulega gripið til öfundarinnar.  Þetta var kjarni kommúnismans, en þar sem kommúnistar náðu völdum, töldu þeir sig verða að berja alla andstöðu niður, enda vekur þjóðnýting atvinnutækjanna auðvitað upp mikla andstöðu og jafnvel átök. Hagfræðilega og siðferðilega eru kommúnisminn og öll afsprengi hans á vinstri kantinum vitlausasta hugmyndafræði, sem hægt er að hugsa sér, út frá hagsmunum launþega og alls almennings vegna einokunar ríkisins á störfum og skoðunum. Endastöðin er sú, að "nómenklatúra" flokksins ráði öllu, og er þá engu líkara en afturhvarf til lénsveldisins hafi átt sér stað að breyttu breytanda. Hjá okkur er opinbera báknið nú þegar orðið of stórt og þar af leiðandi of þungur baggi á atvinnuvegunum, sem undir öllu standa, en 30 % launþega þiggur laun frá ríki og sveitarfélögum, og eru þá hvorki ellilífeyrisþegar né örorkulífeyrisþegar taldir sérstaklega.  

"Hann [Halldór] segir mikilvægt að skoða tekjuskatta í samhengi við heildartekjur og vaxta- og barnabætur auk annarra tekjutilfærslna ríkisins [til jöfnunar-innsk. BJo]. "Tekjuskattsgreiðslur, að frádregnum vaxta- og barnabótum, leiða í ljós mikil jöfnunaráhrif.  Tekjuhæstu 10 % framteljenda greiða um 50 % af öllum tekjuskatti til samneyzlu og fjárfestinga ríkisins.  Næstu 10 % greiða 22 % alls tekjuskatts. Lægstu 5 tekjutíundirnar, sem eru framteljendur með heildartekjur, að undanskildum fjármagnstekjum, undir 490 kISK/mán, greiða 1 % af öllum tekjuskatti.  Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru þannig miklu meiri en ég held, að fólk geri sér almennt grein fyrir", segir hann."

  Þetta má umorða þannig:  Hátekju- og millitekjufólkið stendur undir velferðarkerfinu og greiðir fyrir lungann af samneyzlu á vegum ríkisins, því að 2 hæstu tekjutíundirnar greiða 72 % (næstum 3/4) af öllum tekjuskattinum, og þær eru líklegar til að greiða yfir helminginn af virðisaukaskattinum vegna meiri neyzlu og fjárfestinga.

Millitekjufólkið, í 6., 7. og 8. tekjutíund, greiðir 27 % af tekjuskattinum, og lágtekjufólkið, undir 5,9 MISK/ár, greiðir nánast engan tekjuskatt. Það er augsýnilega lágtekjufólki mjög í hag, að hátekjufólkið efnist sem mest, því að þá verður enn meira til skiptanna fyrir lágtekjufólk af samneyzlunni.  Þetta er þveröfugt við boðskap arftaka kommúnismans, vinstri hjarðarinnar með alls konar heiti á flokksbrotunum, sem jarmar hástöfum um, "að auka þurfi jöfnuð".  Jöfnuður er samt sá mesti í heimi á meðal vel stæðra þjóða samkvæmt hinum alþjóðlega GINI-stuðli. Er kyn, þótt enginn jarðvegur sé á Íslandi fyrir afætuboðskap vinstri flokkanna um enn meiri skattheimtu.  Samkvæmt Laffler munu þá skatttekjurnar einfaldlega lækka, því að hvatinn til að afla viðbótartekna hverfur (skattstofnar skreppa saman). Þetta hafa sófakommarnir aldrei skilið.

"Bæði Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins vilja gera lágmarkslaun skattfrjáls.  "Lágmarkslaun duga ekki fyrir framfærslu.  Eftirlaun og örorkulaun enn síður", segir Gunnar Smári Egilsson [GSE], oddviti Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi norður.  "Fyrir 30 árum var enginn skattur greiddur af lágmarkslaunum, eftirlaunum eða örorkulífeyri. Það er siðlaust, að fjármálaráðherra komi og taki fé af fólki, sem á ekki fyrir mat. Það vissi fólk fyrir 30 árum."

Halldór segir það alveg rétt, að lægstu laun hafi verið skattfrjáls þá.  "En munurinn er sá, að þá voru lágmarkslaun töluvert lægri en nú.  Á árinu 1992 voru lágmarkslaun 133 kISK/mán á verðlagi dagsins í dag, en eru nú 351 kISK/mán eða næstum þrefalt hærri.  Bætt lífskjör hafa leitt til þess, að á síðustu 3 áratugum hefur framteljendum, sem greiða tekjuskatt, fjölgað hlutfallslega.  Það er heilbrigðismerki, að fleiri launamenn geti tekið þátt í fjármögnun samneyzlunnar", segir Halldór."

 Téður GSE er ómarktækur vegna órökstuddra fullyrðinga, sem hann slengir fram í tíma og ótíma, og eru oftast hálfsannleikur eða helber ósannindi.  Þannig lætur hann þess ógetið hér að ofan, að lægstu laun og skattheimta af þeim nú og 1992 eru ósambærileg. Að lokum kom þetta fram í téðri umfjöllun Fréttablaðsins:

 "Gunnar Smári segir, að á umliðnum árum hafi stjórnvöld, með 25 ára setu Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu, lækkað skatta á þá ríku, en lagt þá á fólk, sem hefur ekki efni á mat út mánuðinn.  "Þetta er alvarlegt siðrof í samfélaginu, sem almenningur verður að rísa upp gegn.""

Siðblindir menn setja sig gjarna í dómarasæti, fullir vandlætingar, enda sér téður GSE ekkert að því að "ryðja Hæstarétt", ef sá dæmir ekki í anda alræðis öreiganna.  Hinir ríku standa undir megninu af samneyzlunni, eins og rakið var hér að ofan, þannig að hatursáróður hins siðblinda lýðskrumara er tómur þvættingur.

 "Halldór segir mikilvægt, að allar tillögur um skattkerfisbreytingar, bæði stórar sem smáar, séu settar í samhengi. "Tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 162 mrdISK/ár, ef lágmarkslaun yrðu gerð skattfrjáls.  Það svarar til um 80 % af öllum tekjuskattsgreiðslum einstaklinga til ríkisins. [Hér verður að hafa í huga, að einstaklingar með undir 490 MISK/mán greiða aðeins 1 % af öllum tekjuskatti til ríkisins-innsk. BJo.] Slík skattalækkun er óraunhæf, nema stefnt sé að samsvarandi niðurskurði samneyzlunnar, eða að byrðinni verði velt yfir á millitekjuhópa, sem raunar enginn hefur lagt til", segir Halldór."  

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband