13.12.2021 | 10:30
Sjávarútvegur er kjölfesta efnahagslífsins
Sjórinn umhverfis landið var frá upphafi landnáms kjölfesta lífsafkomu þjóðarinnar ásamt afurðum landsins sjálfs. Erlendar þjóðir voru í aðstöðu til að þróa svo öflug skip á miðöldum, að þau gátu sótt hingað til veiða, á meðan hér voru kænur einar til útróðra. Bróðurpartur veiðanna var þess vegna útlendinganna, en við sátum eftir í rás tímans undir nýlendustjórn Dana og lápum dauðann úr skel.
Jón Arason, Hólabiskup, gerði heiðarlega tilraun til að stöðva Siðaskiptin og kollvarpa veldi Danakóngs hérlendis 1540-1550 með bandalagi við kaþólskan keisara Þýzkalands (Þjóðverjar voru umsvifamiklir kaupmenn og fiskimenn á og við Ísland á þessum tíma), en það mistókst hrapallega, eins og alkunna er. Um þessa miklu atburði hefur Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, skrifað læsilegt og æsilegt kver og nú sent frá sér upplýsandi rit um aðdraganda landnáms Íslands, Eyjan hans Ingólfs.
Á Heimastjórnartímanum í byrjun 20. aldar hafa Íslendingar sennilega fyrir alvöru gert sér ljóst, hvílík verðmæti væru fólgin í sjávarauðlindinni í kringum landið, því að fljótlega var hafizt handa við að draga landhelgislínu um landið, fyrst 3 sjómílur frá ströndum, þá 4 sjómílur frá annesjum, síðan 50 sjómílur og að lokum 200 sjómílur 1976. Jafnframt hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar klófestu fiskinn til vinnslu og markaðssetningar erlendis með eignarhaldi sínu á útgerðum og fiskvinnslum hérlendis.
Lykilatriði fyrir verðmætasköpunina er fullvinnsla hérlendis fyrir vel borgandi erlenda markaði. Eftir vel heppnuð umskipti íslenzks sjávarútvegs með lögfestingu þess fiskveiðistjórnunarkerfis, sem nú er við lýði, en þokulegar vangaveltur eru um breytingar á, hefur hann haft bolmagn til mikilla fjárfestinga í veiðiskipum beztu gerðar og hátækni fiskvinnslum, sem standa erlendum samkeppnisaðilum snúning þrátt fyrir hjalla hér á borð við hátt launastig, há opinber gjöld og mikla fjarlægð frá mörkuðum.
Um erlendar fjárfestingar í í sjávarútvegi ritaði Guðjón Einarsson í Bændablaðið, 4. nóvember 2021:
"Allt frá dögum landhelgisstríðanna hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar kæmust með klærnar í fiskveiðiauðlind þeirra á ný með verulegu eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjunum. Því eru í gildi lög, sem banna, að erlendir aðilar eigi meira en 25 % í íslenzkum fyrirtækjum, sem stunda veiðar eða vinnslu sjávarafurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herzlu og hverja aðra þá verkun, sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þ.m.t. bræðsla og mjölvinnsla, en undanskilin er reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning, umpökkun afurða í neytendaumbúðir o.fl."
Sú spurning vaknar, hvort erlend fyrirtæki eða "leppar" þeirra gætu keypt mikið magn á mörkuðum hér, ef mikil aukning yrði á því, sem fer um markaðina, og flutt fiskinn utan til vinnslu í verksmiðjum sínum og/eða annarra þar. Höfundurinn segir, að nefnd um erlenda fjárfestingu hafi túlkað lögin með þeim hætti, "að beint og óbeint eignarhald í íslenzkum sjávarútvegi [megi] vera allt að 49 %".
Þessi takmörkun á erlendu eignarhaldi í íslenzkum sjávarútvegi brýtur í bága við sáttmála ESB um Innri markaðinn og fjórfrelsið, en þar er frjálst flæði fjármagns innifalin. Hins vegar kvað EES-samningurinn á um það í upphafi og gerir enn, að sjávarútvegur væri undanskilinn samninginum, og hefði betur farið á, að orkumálin væru það líka, eins og síðar kom á daginn.
"En hversu umfangsmikil er erlend eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum ? Ekki er til samantekt um það á einum stað, en í svari þáverandi ráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar á Alþingi veturinn 2019-2020 kom fram, að í tilefni fyrirspurnarinnar hefðu verið skoðaðir ársreikningar þeirra lögaðila, sem fengið hefðu úthlutað aflamarki [aflahlutdeild] í upphafi fiskveiðiársins 2019/2020. Miðað var við þá aðila, sem fengu úthlutað 50 þorskígildistonnum eða meira. Samkvæmt þeim upplýsingum var enginn erlendur aðili skráður eigandi að yfir 1 % hlut í slíku félagi (m.v. ársreikninga 2018).
Síðan kallar Bændablaðið á kunnáttumann til að útskýra áhugaleysi útlendinga, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Sannleikurinn er sá, að nú er íslenzkur sjávarútvegur kominn á slíkt stig tækniþróunar, markaðssetningar og framlegðar, að vandséð er, að fjárfestingar útlendinga yrðu honum til nokkurrar framþróunar.
"Ég get þó ekki neitað því, að þess eru dæmi, að erlendir viðskiptavinir okkar hafi sýnt því áhuga að kaupa nokkurra % eignarhlut í Vinnslustöðinni til þess að styrkja tengslin, en ég hef alltaf sagt nei. Það myndi almennt ekki vera vel séð. Hins vegar eru frjáls viðskipti með hlutabréf í fyrirtækjum eins og Vinnslustöðinni, og því gæti einn hluthafi tekið sig til og selt sín bréf til útlendinga, ef honum sýndist svo", sagði Sigurgeir Brynjar. Hann bætti því við, að líklegasta skýringin á litlum áhuga erlendra fjárfesta á íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum væri sú áhætta, sem alltaf vofði yfir vegna hugsanlegra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu."
Ófriður um fiskveiðistjórnunarkerfið er óviðunandi fyrir almenning á Íslandi, sem á feikilega hagsmuni undir því, að friður ríki um lagaumgjörð vel heppnaðs fiskveiðistjórnunarkerfis, sem ekki hefur verið mótmælt með rökum, að sé skilvirkasta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þekkist. Sök á þessum ófriði eiga óábyrgir stjórnmálamenn, sem leitast við að slá pólitískar keilur með því að ala á sundrungu og öfund um kerfið, sem nú er við lýði án þess að benda á trúverðuga valkosti. Þessu þarf að linna, og mundi þá sennilega fjármagnskostnaður greinarinnar lækka og opinberar tekjur aukast af greininni.
Þann 15. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu ein af hinum fróðlegu og hnitmiðuðu greinum Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns, um þjóðmálin, sem hann nefndi:
"Bezta kerfið".
Hún hófst með sögulegu yfirliti:
"Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var fyrst að ráði farið með lögum að takmarka sókn íslenzkra veiðiskipa í fiskveiðistofnana við landið. Byggðist þessi stjórnun á þeim grunni, sem lagður var við lagasetninguna, að nytjastofnar við Ísland væru sameign íslenzku þjóðarinnar, sem og því, að stofnunum stafaði hætta af ofveiði landsmanna.
Komið var á því, sem við höfum nefnt aflamarkskerfi, sem fólst í að úthluta til fiskiskipa hlutdeild í hámarksafla hinna mismunandi tegunda sjávarfangs, sem heimilt væri að sækja í sjó og ákveðinn væri af stjórnvöldum."
Hér má bæta við, að aflamark, sett af stjórnvöldum, skyldi reist á veiðiráðgjöf vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar. Var henni þó ekki fylgt út í æsar fyrstu ár kerfisins, en hin seinni árin má heita, að svo hafi verið gert.
Margvíslegir jákvæðir hvatar eru fólgnir í hinu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfi, sem ýta undir útgerðarmenn og sjómenn að draga úr kostnaði við að sækja hvert tonn úr sjó og að hámarka verðmæti þess. Þá hvetur varanleg úthlutun aflaheimilda til ábyrgrar umgengni við auðlindir hafsins og til að lágmarka mengun. Enn viðgengst þó umhverfisskussaháttur, sem mál er að linni og nefnist brottkast.
Aðaláhrif kerfisins voru þau að treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, sem var ekki fyrir hendi áður, þ.e. að íslenzkur sjávarútvegur var ósamkeppnishæfur á mörkuðum erlendis. Þetta leystu stjórnmálamenn fortíðar með því að míga í skóinn sinn, þ.e.a.s. þeir rýrðu verðmæti þjóðargjaldmiðilsins, sem er svindlaðgerð gagnvart hagsmunum almennings. Öflugur gjaldmiðill er undirstaða velmegunar þjóðar, sem er svo háð innflutningi vara og þjónustu sem Íslendingar, en útflutningur verður að koma á móti, svo að þetta er jafnvægislist. Hún næst aðeins með skilvirkni á öllum sviðum, framleiðni verðmætasköpunar, sem skapar grundvöll að samkeppnishæfni landsins. Þetta hefur náðst með tæknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og auðlindanýtingu á fleiri sviðum en sjávarútvegi. Enn er hægt að auka framleiðsluverðmæti takmarkaðs sjávarafla og auka sjálfbæra orkunotkun landsmanna, svo að því fer fjarri, að endimörkum vaxtar sé náð á Íslandi.
Jón Steinar gerði síðan eignarhaldið að umræðuefni, en það er eins og það hafi farið mest fyrir brjóstið á gagnrýnendum kerfisins, enda vissulega byltingarkennd breyting innan sjávarútvegs, þó að það sé hefðbundið í öðrum greinum. Gallinn við gagnrýnina er hins vegar sá, að breytingartillögur eru örverpi með alls konar alvarlegum annmörkum. Þetta eru vanhugsaðar afurðir stjórnmálamanna, sem annars staðar hafa gefizt afspyrnu illa.
"Það samrýmist vel meginhugmyndum í lýðræðisríkjum að koma verðmætum atvinnutækjum í hendur þeirra, sem atvinnuna stunda, enda sé gætt að málefnalegu jafnræði við ráðstöfun þeirra. Landsins gæði eru í slíkum ríkjum í einkaeigu borgaranna, svo sem fasteignir og aðrar eignir, námur og land, m.a. það, sem nýtt er í landbúnaði. Bændur eiga ekki bara heimalönd jarða sinna, heldur einnig tilkall til hálendissvæða til samræmis við nýtingu þeirra á slíku landi frá fornu fari. Stjórnskipun, sem byggir á einstaklingseignarrétti, er líka miklu líklegri til að skapa landsins lýð meiri verðmæti og tekjur heldur en fyrirkomulag í ríkjum sameignarsinna, svo sem saga mannkynsins sannar svo vel. Við hikum ekki við að segja, að Ísland sé í sameign þjóðarinnar, sem byggir landið, þó að yfirleitt allt land sé háð eignarrétti einstakra manna."
Einkaeignarrétturinn er rótin að velgengni fiskveiðistjórnunarkerfis, enda beinast misheppnaðar atlögur stjórnmálamanna að honum. Þeir hafa látið sér detta í hug þá fráleitu ofbeldisráðstöfun að þjóðnýta aflahlutdeildir útgerðarmanna án þess að gera sér nokkra grein fyrir grafalvarlegum réttarfarslegum, efnahagslegum og siðferðislegum áhrifum slíks gernings. Stjórnmálamenn fortíðar migu í skóinn sinn, þegar þeir höfðu afskipti af sjávarútveginum, en þessar hugmyndir misheppnaðra stjórnmálamanna nútímans eru af enn verra tagi.
"Þegar fiskveiðistjórnunarkerfi okkar var komið á, var ekki verið að taka eignarréttindi af öðrum borgurum en útgerðarmönnum. T.d. sat ég sem lögmaður í miðbæ Reykjavíkur og varð ekki var við, að neitt væri af mér tekið við lagasetninguna um stjórn fiskveiða við landið og úthlutun aflaheimilda. Ég naut þess hins vegar, eins og aðrir landsmenn, að þessi atvinnugrein við sjávarsíðuna blómstraði og skilaði góðri afkomu landslýð öllum til hagsbóta.
Kannanir sýna, að íslenzka kerfið skilar meiri efnahagslegum ábata en þau stjórnkerfi, sem þekkjast hjá öðrum ríkjum.
Kröfur um sérstaka skattheimtu á þessa atvinnugrein umfram aðrar standast að mínum dómi ekki. Við hljótum að skattleggja íslenzka borgara eftir lagareglum, þar sem jafnræðis er gætt og hið sama látið gilda um alla án tillits til þess á hvaða sviði atvinnulífs þeir afla sér tekna.
Þeir, sem nú gera háværar kröfur um aukna hlutdeild almennings í verðmætum fiskimiðanna, ættu að hugsa sig aftur um. Meginviðhorfin, sem orðið hafa ofan á í lagasetningu okkar á þessu sviði eru þau beztu, sem völ er á, þó að alltaf megi sjálfsagt bæta ýmis smáatriði í lögunum."
Jón Steinar Gunnlaugsson hefur lög að mæla og kemst þarna að kjarna málsins. Jafnræðis verður að gæta, svo í skattheimtu sem öðru. Þess vegna orka s.k. veiðigjöld tvímælis, enda eru þau ekki iðkuð í nágrannalöndum okkar, nema í litlum mæli í Færeyjum. Þessi gjöld eru þar að auki eins konar dreifbýlisskattur, sem skýtur skökku við byggðastefnuna, sem rekin er í landinu, og eru þess vegna fjármagnsflutningur frá hinum dreifðu byggðum landsins til Reykjavíkur. Það er óskynsamlegt, að ríkið þvingi fram fjármagnsflutninga þaðan, sem verðmætin verða til, því að slíkt dregur úr fjárfestingum, sem eru undirstaða velmegunar, byggðastöðugleika og samkeppnishæfni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ég man bara hvernig kerfið var þegar það var bæjarútgerð og hún var baggi á bæjarfélaginu. Nú í dag eru þetta stór og stöndug fyrirtæki sem borga helling í skatta.
Emil Þór Emilsson, 13.12.2021 kl. 17:11
Ég man líka þá tíma, Emil Þór. Útvegurinn gat ekki borið sig, af því að það voru allt of margir að kroppa úr takmarkaðri auðlind. Ef þjóðnýta ætti smám saman aflahlutdeildir útgerðarmanna, sem gengur ekki upp lagalega, þá munu útgerðirnar aftur verða baggi á sveitarfélögunum, því að þær munu missa fjárhagslegt sjálfstæði sitt tiltölulega fljótt í slíku ferli og verða algerlega ósamkeppnishæfar. Af hverju í ósköpunum að leggja í glæfraför, þegar engin þörf er á því ? Það verður ekki meiri sátt um önnur kerfi, sem kynnt hafa verið til sögunnar, en um núverandi kerfi, sem þar að auki nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.
Bjarni Jónsson, 13.12.2021 kl. 21:21
Sæll Bjarni.
Í þessu fullkomna veiðikerfi, sem enginn hefur tekið upp eftir okkur, eru gallar. Einsog: a) Eftir 37 ár með kvóta eru veiðiheimildir t.d. í þorski þær sömu.
b) Kerfið greinir ekki á milli veiða og vinnslu. Kerfið var sett á til að vernda fiskinn í sjónum en ekki einstakar fiskvinnslur í landi.
c) Verðmunurinn á milli Verðlagsstofu skiptaverðs og frjálsa markaðarins jan-sept 2021 er 62.30 kr/kg eða 12 milljarðar miðað við 200 þúsund tonn sem fara framhjá fiskmörkuðum eða 80% af öllum þorskkvótanum.
d) Brottkast hefur verið mikið í gegnum þessi 37 ár og er ekki vegna þess að menn eru sérstakir umhverfisskussar eða hafi sérstaklega gaman af því að henda fiski. Fullkomna kerfið ýtir útgerðum út í láta sjómenn henda verðminni afurðum til að fá sem mest verðmæti útúr kvótanum. Reyndar er átak í gangi, með notkun dróna, sem beinist aðalega gegn smábátum sem missa einn og einn verðlausan bryggju ufsa aftur í sjóinn. Á sama tíma er leyfilegt, fyrir grásleppu sjómenn, að henda í sjóinn þúsundum tonna af verðlausri grásleppu þegar búið er að taka úr þeim hrognin.
Það er alveg ljóst að það ríkir engin sátt um þetta fiskveiðistjórnunarkerfi eins og það er. Sama hvað reynt er að fegra meintan árangur. Og að gera því skóna að einkaeignarréttur sé á fiskveiðiauðlindinni, vegna þess að tekist hefur í skjóli meirihluta alþingis að þvinga þessu kerfi í á, gegn vilja þjóðarinnar, er bara að hella olíu á eld.
Tryggvi L. Skjaldarson, 14.12.2021 kl. 10:45
Sæll, Tryggvi, og þakka þér fyrir að viðra öndverð sjónarmið. Ef út í það er farið, ríkir ekki heldur almenn sátt um hinar meginatvinnugreinarnar, landbúnað, stóriðju og ferðamennskuna. Kannski er ekki hægt að ætlast til þess, því að meginhlutverk þeirra er að skapa verðmæti innan þess ramma, sem löggjafinn setur þeim. Að þessu gefnu er annað skilyrði, sem þær þurfa að uppfylla, og það er sjálfbærni, þ.e. að skila auðlindunum, sem nýttar eru, í jafngóðu eða betra ástandi til næstu kynslóðar og tekið var við þeim. Það gera þær allar. Það er allt of algengt, að fiskveiðiflotar annarra landa stundi ofveiði, enda fara fiskveiðar heimsins minnkandi, en fiskeldið bætir það upp. Það er sorglegt að sjá, hversu illa gengur að komast að samkomulagi um deilistofnana í Norður-Atlantshafi.
Bjarni Jónsson, 14.12.2021 kl. 17:02
Sæll Bjarni. Nú er buið að veiða, langt um fram raðleggingar fiskifræðinga, fisk úr deilistofnum liklega rúm 30 ár.Veiðin eykst frekar en hitt, stærðarhlutfall i afla virðist vera eðlileg, fiskur virðist ná eðlilegum aldri.
Það virðisr þvi ekki vera ofveiði i gangi.
Í mínum huga erum við að vannýta fiskimiðin við ísland, eg er buinn að vera a sjo siðan 76 og aflabrögð siðustu 10-15 ár eru með ólíkindum
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 15.12.2021 kl. 10:03
Sæll, Hallgrímur;
Hefur ekki makrílstofninn gefið eftir undanfarið ? Fleiri (aðrir) þættir en veiði langt umfram ráðgjöf Alþjóða fiskveiðiráðsins (ICES) geta svo sem haft áhrif.
Bjarni Jónsson, 15.12.2021 kl. 18:03
https://www.fiskifrettir.is/frettir/afram-stefnt-ofveidi/168952/
frá 1972 til 2008 voru veiðar í hringum 500 til 800 þúsund tonn nokkuð umfram það ráðgjöfin sagði til um. Ráðgjöfin var samtals á árunum 2011 til 2020 7,652,000 tonn en veiðin varð 10,580,086.
þessi mikla umframmveiði í langann tima hefði átt að rústa stofninum. Eina árið sem minna var veitt var Covitárið 2019 en samt það ár var veitt um 70 þúsund tonn umframm ráðgjöf.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 17.12.2021 kl. 11:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.