Áfellisdómur yfir loftslagsstefnu ríkisins

Löngu fyrirsjáanlegur raforkuskortur vegna of lítils framboðs raforku til að mæta þörfum vaxandi hagkerfis og orkuskipta er nú brostinn á með þeim afleiðingum, að hagvöxturinn á næstu árum verður minni en ella, því að búast má við raforkuskorti, þar til ný virkjun af sæmilegri stærð (um 100 MW) kemst í gagnið. 

Fyrstu fórnarlömbin nú (sem jafnan) eru fyrirtæki með skammtímasamninga um ótryggða orku frá Landsvirkjun, og munar þar langmest um fiskimjölsverksmiðjurnar í afli eða 100 MW.  Þegar hafa 75 MW verið skorin af þeim, og sennilega verður allt tekið af þeim um áramótin, þegar hæst á að hóa; brætt hefði verið með að líkindum 100 MW rafmagns í um 1500 klst veturinn 2022.  Þetta eru 150 GWh, sem gætu kostað u.þ.b. mrdISK 1, sem orka komin til bræðslnanna, en olían, um 18 kt, kostar um tvöfalt meira komin til sömu notenda (áætlun BJo). 

Þessi ákvörðun Landsvirkjunar gæti þannig jafngilt um mrdISK 1 og er þannig mikið fjárhagslegt högg fyrir sjávarútveginn, sem búinn er að fjárfesta a.m.k. mrdISK 3 í rafvæðingunni. Útskýringar forstjóra Landsvirkjunar eru ófullnægjandi.  Hann skellir skuldinni á ófullnægjandi flutningsgetu Landsnets á milli landsfjórðunga, en Landsvirkjun hefur ekki burði til að framleiða meiri raforku á Austurlandi en Austurland þarf um þessar mundir að viðbættri flutningsgetu þaðan til norðurs og suðurs eftir úreltri 132 kV Byggðalínu.  Þar að auki hefði Landsvirkjun getað hafið þennan flutning fyrr en gert var og sparað þannig meira vatn í Þórisvatni.

  Landsvirkjun er með svín á skóginum og ætti ekki að kasta frá sér ábyrgð yfir á Landsnet.  Fíllinn í stofunni er svo auðvitað Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem hefði verið tekin í notkun í haust, ef stjórn orkumála Íslands hefði undanfarið verið, eins og hjá mönnum.  Hefur Landsvirkjun verið að þrýsta á um að fá framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun ?  Opinberlega hefur ekki farið mikið fyrir því.  

Til að Landsvirkjun geti nýtt sér flutningsgetu nýrrar 220 kV Byggðalínu frá Fljótsdal til Grundartanga, verður hún að koma sér upp viðbótar framleiðslugetu í Fljótsdalsvirkjun og á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, og núverandi vatnsvegir setja slíkum viðbótum skorður.  Landsvirkjun hefur áætlað, að orka Hverfanda, yfirfalls Hálslóns, hafi numið 500 GWh sumarið 2021. Ekki þarf að búast við, að nýtanleg viðbótarorka í Fljótsdalsvirkjun með viðbótar hverfli og rafala verði nema þriðjungur af þessari orku í góðum vatnsárum, og mörg ár mundi slík fjárfesting nýtast lítið, nema góðum vatnsárum sé að fjölga þar fyrir austan. 

Þann 7. desember 2021 birti Morgunblaðið fjagra dálka fyrirsögn ofarlega á forsíðu sinni með þessum válegu tíðindum, sem þó veru fyrirsjánleg.  Nú hefur Murphy blandað sér í málið og slegið út einum rafala í Búrfelli á sama tíma og enn vantar vél í rekstur á Nesjavöllum vegna viðgerða.  Háálagstíminn er í vændum á sama tíma og reiðuaflið er stórlega skert.  Þetta eykur líkur á alvarlegu straumleysi hjá notendum og jafnvel kerfishruni. Raforkukerfið er í uppnámi vegna óstjórnar. Það er stórlega ámælisvert, að eftirlitsaðili á borð við Orkustofnun skuli ekki opinberlega fyrir löngu hafa varað við því ófremdarástandi, sem athafnaleysi orkufyrirtækjanna á sviði nýrra virkjana er nú að leiða yfir landsmenn.  Það hefur verið flotið sofandi að feigðarósi: 

"Kemur sér illa fyrir hagkerfið"

Í fréttinni var leitað í smiðju Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins:

"Sigurður segir, að þessi staða komi sér sérstaklega illa á þeim tíma, sem hrávöruverð sé hátt með hliðsjón af því, að græn orkuskipti eru á næsta leiti.  "Skerðingin kemur illa við íslenzkt efnahagslíf og við hagkerfi Íslands", segir Sigurður og bætir við, að hún muni draga úr framleiðslu og verðmætasköpun.

Hann bætir við, að það sé rétt að ákveðnu marki, að flutningskerfið sé ekki nógu skilvirkt, en engu að síður sé það staðreynd, að það þurfi að afla meiri orku.  "Flutningskerfið er sannarlega eitthvað, sem þarf að skoða og bæta, en það breytir ekki því, að það þarf að afla meiri orku á landinu vegna þess, að eftirspurnin er sannarlega [fyrir hendi] og líka með hliðsjón af loftslagsmálunum, þar sem eftirspurn eftir grænni orku er að aukast á heimsvísu", segir Sigurður."

Þetta er einhver smjörklípa hjá forstjóra Landsvirkjunar að kenna lítilli flutningsgetu Byggðalínu um, að Landsvirkjun skelli á raforkuskerðingu í byrjun desembermánaðar.  Enginn með viti dregur það von úr viti að hefja virkjunarframkvæmdir, sem um munar, í von um að geta flutt næga orku á milli landshluta.  Það er ekki gefið, að Fljótsdalsvirkjun sé aflögufær, ef vatnsstaðan er lág í Þórisvatni, og 220 kV tenging á milli Austur- og Vesturlands verður varla tilbúin fyrr en um 2030.  Ef hendur verða nú látnar standa fram úr ermum, væri hægt að búast við orku frá Neðri-Þjórsá í ársbyrjun 2025. 

Þá var komið að 10 ára hrollvekju Landsnets, sem hefur í tímans ráð traðkað í salati landeigenda, en líka orðið fyrir barðinu á afturhaldinu í Landvernd, sem lagzt hefur þversum á leið loftlína, þótt samtökin eigi enga lagalega aðild að slíkum málum:

"Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir í samtali við Morgunblaðið, að það sé rétt, að flutningsgeta Byggðalínunnar, sem tengi saman Norð-Austur hornið og virkjanir fyrir sunnan, sé takmarkandi þáttur.  Aðalástæðan fyrir því séu miklar tafir á framkvæmdum Landsnets vegna leyfisveitinga.

"Við höfum lagt áherzlu á, að það þurfi að einfalda ferlið við leyfisveitingar og gera það skilvirkara og tryggja, að niðurstaða fáist í leyfisveitingaferlið", segir Guðmundur og nefnir, að umsóknir hafi tafizt mikið í kerfinu.  Séu dæmi þess, að framkvæmdaleyfisferlið geti tekið allt að 10 ár." 

 

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Hjartanlega sammála - Virkjum meira

Það er engin ástæða til að einblína á flutningskerfið ef engin raforka er til að flytja

Grímur Kjartansson, 11.12.2021 kl. 14:01

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Er ekki Urriðafoss vænlegri til að byrja á vegna umhverfissjónarmiða? Drukknar ekki meikið land í Hvammi?

Halldór Jónsson, 11.12.2021 kl. 15:53

3 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sannarlega skýrt og skorinort og til þess fallið að vekja illar grunsemdir um fláræði ráðamanna.

Jónatan Karlsson, 11.12.2021 kl. 18:15

4 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

Varðandi Reykjavík! 

Byrja á að keyra Elliðaárstöðina á fullt afl strax. 

Gerum það the Musk way! 

Ef forstjórinn hefur ekki innan dags sent skipun um að græja framkvæmdina strax og getur ekki gefið svar af hverju hann er ekki að vinna í þágu þjóðar, þá skal hann víkja launalaust strax, og við þurfum að finna hæfari mann!

Elliðaárstöðina i gang eins hratt og hægt er!!

Kolbeinn Pálsson, 11.12.2021 kl. 19:19

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, kollega Halldór; Það verður ekkert miðlunarlón ofan Hvammsvirkjunar, aðeins 4,0 km2 inntakslón í farvegi Þjórsár að lengd, sem er um áttföld meðalbreiddin, þ.e. meðalbreidd um 0,7 km.  Þannig er gróðurlendi lágmarkað, sem fer undir lón.  

Við Urríðafoss hefur þurft að tryggja laxagöngur áður en gengið verður frá virkjunartilhögun.  Þess vegna held ég, að undirbúningur sé þar heldur skemur á veg kominn.

Bjarni Jónsson, 11.12.2021 kl. 21:34

6 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Enfalt, ríkistjórnin stjórnaði, eða stjórnaði ekki. 

Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Sett á blogg:    Ómar Ragnarsson 

9.12.2021 | 07:43

Í síbyljusöng um ástæður raforkuskorts er ástæða 76 mv skorts fyrst nefnd núna..

000

Þakka þér fyrir að nefna þetta einhvern tímann fyrir langa löngu fylgdist ég með orkublöðum á Norðurlöndunum, og vakti það athygli mína að þeir höfðu alltaf tvær til þrjár auka virkjanir, til að geta sinnt viðhaldi og ef einhver bilaði. 

Þetta virtist vera mikil skynsemi. 

Það virðist ekki vera mikið vit í að vera raforku laus, eða að þurfa að kaupa raforku frá öðrum á uppsprengdu verði frá einhverjum  víxlurum, sem Jesú rak út úr Musterinu  stjórnsýslu stöð þess tíma.

Í Kaliforníu gerðu víxlararnir hinar ýmsu kúnstir, sögðu að allt væri raforku laust, slógu út virkjunum eða seldu raforkuna til annarra ríkja.

Síðan var sagt að þið getið fengið rafmagn ef þið borgið 100 miljónir dollara hér og 1000 milljarða dollara þar og margfaldið greiðsluna fyrir kílówatt stundina.

Þá sagði einn víxlara starfsmaðurinn, ef við beitum ekki brögðum, þá er öskrað á mann

Slóð

Alltaf þegar til er flókið kerfi eins og orkumarkað urinn þá á fólk eftir að pota í það og sjá hvað virkar. Ég lifði samkvæmt þessu: Ef maður stjórnaði ekki markaðnum með brögðum, þegar maður hafði aðgang að vélabrögðum, þá var öskrað á mann.“

Jónas Gunnlaugsson | 29. mars 2019

(Svo var hópur á þinginu, sem sá til þess, að búa til flókin LÖG, ORKUMARKAÐ, til að hægt væri að spila á fíflin. jg) Eftir Jerry Isaacs maí 2002 Tekið af vefsíðunni: https://www.wsws.org/en/articles/2002/05/enro-m10.html Skjöl sem Federal Energy  

Egilsstaðir, 09.12.2021   Jónas Gunnlaugsson

 

Jónas Gunnlaugsson, 12.12.2021 kl. 04:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband