Covid: hin óvænta 4. bylgja

Aftur hefur sænski læknirinn, Sebastian Rushworth, skrifað merka grein á vefsetur sitt um þróun C-19 faraldursins.  Allt ber þar að sama brunni.  Bóluefnin eru gagnslaus eftir um hálft ár frá bólusetningu, og hið eina, sem getur skapað lýðónæmi (hjarðónæmi) gegn pestinni, er náttúrulegt ónæmi, sem líkaminn sjálfur þróar með sér eftir smit.  Þannig hefur það gengið til hingað til með alla sjúkdómsfaraldra, sem lagzt hafa á öndunarfærin, og þau, sem nú reka áróður fyrir endurteknum bólusetningum gegn C-19 ættu að vita betur af reynslunni og þeim vísindaniðurstöðum, sem fyrir hendi eru. Þá er fyrir neðan allar hellur sá áróður, sem nú er rekinn víða um Evrópu, einnig á Íslandi, gegn óbólusettum, því að bólusettir smita aðra áfram og bóluefnin verða gagnslaus innan skamms tíma frá bólusetningu, eins og 4. bylgjan í fullbólusettum löndum sýnir. Í Svíþjóð virðist hins vegar náttúrulegt ónæmi í 70 % íbúanna duga til að hindra bylgju með delta-afbrigðinu í vetur.

Hér fer á eftir þýðing höfundar þessa vefseturs á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth, sem birtist á vefsetri hans 20.11.2021:

"Ég var undrandi í fyrstu, þegar margar fullbólusettar þjóðir urðu fyrir barðinu á nýrri bylgju C-19 í haustbyrjun [2021]. Ég var hissa, þ.e.a.s. þar til ég fór að sjá skýrslur um, að vörn bóluefnanna er mun minni en búizt var við og hrapar niður í lággildi að fáeinum mánuðum liðnum frá bólusetningu. 

Í þessu ljósi hef ég verið að bera saman tíðni covid dauðsfalla í mismunandi löndum til að reyna að skilja, hvað er eiginlega um að vera.  Tíðni dauðsfalla er ákjósanlegri en tíðni greindra tilvika, því að hún breytist minna með tímanum.  Tíðni greindra tilvika hefur sveiflazt gríðarlega síðan faraldurinn hófst, þar sem fjöldi sýnataka hefur verið breytilegur með breyttri skilgreiningu á sýkingartilviki og með breytingum á sýnatökuaðferðum.  Greind tilvik eru þess vegna ómögulegt tæki til að skilja, hvernig faraldurinn hefur breytzt með tímanum.  Þó að lönd hafi mismunandi skilgreiningar á covid dauðsföllum, þá virðast þau vera sjálfum sér samkvæm um það í tímans rás.  Tíðni dauðsfalla er þess vegna miklu áreiðanlegri en tíðni greindra tilvika og þess vegna mun gagnlegri til að átta sig á þróun faraldursins. 

Við sjáum á yfirliti um Svíþjóð, að upphafsbylgjan reið yfir um vorið 2020 með upphaflegu Wuhan-veirunni, þá kom fall niður í næstum 0 vegna sumarsins.  Nú orðið ætti öllum að vera ljóst, að covid-19 er mjög árstíðabundin veira, sem eins og aðrar vetrarveirur hverfur að mestu frá því síðla vors fram í haustbyrjun. 

Það, sem næst gerðist samkvæmt sænsku gögnunum er enduruppsveifla Wuhan-veirunnar um haustið 2020, sem byrjar að hjaðna eftir nokkra mánuði, þegar nægilegt lýð- eða hjarðónæmi hefur verið náð.  Þessi hjöðnun stöðvast þó, og við tekur enn örari aukning dauðsfalla fyrir tilstilli brezka alfa-afbrigðisins í Svíþjóð.

Hvernig gat alfa-afbrigðið orsakað aðra bylgju, ef hjarðónæmi hafði þegar verið náð, mætti spyrja ?  Það er vegna þess, að þröskuldur lýðónæmis er háður smitnæmi og dreifimöguleikum veirunnar.  Því meiri dreifimöguleikar, þeim mun hærri verður þröskuldur lýðónæmis.  Þannig var þröskuldi lýðónæmis gagnvart Wuhan-veirunni náð í desember 2020, en þegar alfaafbrigðið mætti á svæðið, hækkaði þröskuldurinn og nýr faraldur reið yfir. 

Stöldrum nú við; alfa afbrigðið herjar hratt á íbúana, og nægilegt lýðónæmi var náð gagnvart þessu nýja afbrigði um miðjan janúar 2021.  Aftur verður erfitt fyrir veiruna að finna ný fórnarlömb, og þá tekur daglegum smitum að fækka niður í umgangspestargildi árstíðarinnar og eru þar þangað til í sumarbyrjun.

Þeim, sem vilja tengja fækkun covid-dauðdaga í febrúar [2021] við bólusetningar, bendi ég á, að aðeins fá % íbúa Svíþjóðar höfðu þá verið bólusett, svo að bólusetningar geta ekki hafa leitt til neinnar fækkunar dauðsfalla. 

Að sumrinu [2021] liðnu hækka gildin að nýju upp í eðlilegri árstíðabundin gildi, en eru áfram lág, eins og búast má við af veiru, sem veldur nú orðið umgangspest, en ekki faraldri.  Jafnvel þótt hið afar smitandi delta-afbrigði hafi borizt til Svíþjóðar síðla vors [2021] og hafi um haustið verið ríkjandi, gat það ekki skapað nýja bylgju vegna þess víðtæka [náttúrulega] ónæmis, sem áður var komið á. 

 Við sjáum svipað mynztur annars staðar, þar sem harkaleg bylgja skall á vorið 2020, eins og í Svíþjóð.  Þar má nefna Nýju Jórvík og Langbarðaland á Norður-Ítalíu.  Þar myndaði Wuhan-afbrigðið fyrstu 2 bylgjurnar, og alfa-afbrigðið myndaði 3. bylgjuna, og síðan ekki söguna meir, þrátt fyrir tilkomu delta-afbrigðisins.  Getuleysi delta-afbrigðisins við að mynda nýja bylgju er hægt að útskýra á 2 vegu - annaðhvort er dreifingargeta þess ekki nægilega mikið meiri en alfa-afbrigðisins til að mynda nýja bylgju á svæðum, þar sem lýðónæmi var þegar komið á gagnvart alfa-afbrigðinu, eða bólusetningarnar gera sitt gagn enn þá.

Förum nú til Indlands út af ályktunum, sem draga má um delta-afbrigðið þaðan:

Snemma árs 2021 verður delta-afbrigðisins fyrst vart á Indlandi og geisar á meðal íbúanna.  Mótefnisprófanir á íbúunum leiddu í ljós, að 50 % íbúanna sýktust á aðeins fárra mánaða skeiði, svo að hlutfall íbúanna með mótefni hækkaði úr 20 % í 70 %, sem er nægilega hátt hlutfall til að mynda lýðónæmi, svo að veirudreifingin hrapar niður á lágt umgangspestarstig. Athugið, að bóluefnin léku greinilega ekkert hlutverk hér, því að aðeins fá % íbúanna á Indlandi höfðu verið bólusett á þeim tíma, þegar dánartíðnin hrapaði niður í lág gildi, eins og átti sér stað í Svíþjóð.

Nú skulum við snúa okkur að löndum, sem hafa orðið fyrir barðinu á 4. bylgju faraldursins í haust [2021], og reyna að finna skýringu.  Tökum Ísrael sem dæmi:

Ísrael tókst að forðast víðtæka dreifingu covid vorið 2020.  Um haustið skall Wuhan-afbrigðið á Ísraelum, og einmitt í þann mund, að lýðónæmið náði gildi, sem fær dreifinguna til að hægja á sér, varð landið fyrir árás alfa-afbrigðisins, sem leiddi til hámarks í tíðni dauðsfalla af völdum covid seint í janúar 2021.  Á þeim tíma var þegar búið að bólusetja 20 % íbúanna að fullu, svo að hér gætu bólusetningarnar hafa átt þátt í að fækka dauðsföllum.  Þær gætu verið skýringin á því, að dauðsföllum fækkar síðan mjög mikið í stað þess að hjakka í umgangspestargildum alveg fram í maí [2021], eins og í Svíþjóð (þar sem bólusetning gekk mun hægar). 

Tíðni covid-dauðsfalla var áfram lág allt sumarið, eins og búast mátti við.  Þá komum við að haustinu 2021 og hinni óvæntu 4. bylgju, eða ekki svo óvæntu, ef litið er á gögnin, sem sýna, að skilvirkni bóluefnanna dvínar hratt, einnig sá eiginleiki, sem átti að koma í veg fyrir alvarleg veikindi (sem á sérstaklega við um viðkvæma eldri borgara, sem raunar eru eini hópur samfélagsins, sem er í mikilli hættu út af covid-19). [Gerð er grein fyrir þessum gögnum í 

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869

og

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271929   ]

Jæja, Ísrael mátti þola 4. bylgjuna, eins og mörg önnur lönd.  Hvers vegna eru svæðin, sem gerð var grein fyrir í upphafi pistilsins, Svíþjóð, Langbarðaland og Nýja Jórvík, ekki þolendur 4. bylgju núna ?

Frá mínum bæjardyrum séð eru 2 möguleikar fyrir hendi.  Sá fyrri er, að íbúar þessara svæða hafi myndað svo víðtækt náttúrulegt ónæmi, þegar þeir urðu fyrir mikilli dreifingu covid-19 nokkuð lengi fram á vorið 2020, að þeir hafi nú afgreitt þennan faraldur fyrir sitt leyti og fleiri faraldra [SARS-CoV-2] sé ekki að vænta.  Í Ísrael er bólusetning útbreidd, en hafði í haustbyrjun 2021 orðið fyrir covid-dreifingu í færri mánuði [en téð 3 svæði], og þar af leiðandi hafði lægra hlutfall íbúanna en á viðmiðunarsvæðunum 3  þróað með sér náttúrulegt ónæmi frá fyrri sýkingum.  Það hefur nú verið leitt rækilega í ljós, að ónæmi, sem rætur á að rekja til sýkingar, er miklu varanlegra en ónæmið, sem framkallað er með bólusetningu. Þetta er eðlileg kenning núna, þegar við vitum, hversu mjög á reiki ónæmið er, sem bólusetningar framkalla.

Það getur verið upplýsandi núna að líta til Austur-Evrópu.  Austur-evrópsku ríkin hafa orðið sérstaklega illa úti í haust [2021].  Þar má nefna Búlgaríu og Slóvakíu. 

 Mér finnst tvennt vera athyglisvert þarna. Í fyrsta lagi sluppu bæði löndin nánast alveg vorið 2020.  Í öðru lagi var hröð dreifing veirunnar í gangi, þegar sumarkoman olli mikilli fækkun smita.  Þessar þjóðir náðu þess vegna aldrei lýðónæmi gagnvart meira smitandi afbrigðum, og þess vegna hlaut veiran að taka sig upp aftur haustið 2021.

Jæja, fyrri mögulega skýringin mín á því, að sum landsvæði verða ekki tiltakanlega fyrir barðinu á 4. bylgjunni, er sú, að þar sé þegar fyrir hendi nægilegt náttúrulegt lýðónæmi, sem verndi íbúana.  Sú síðari er, að íbúar þessara svæða njóti nú tímabundinnar verndar á þeim grunni, að íbúarnir voru bólusettir seinna en t.d. íbúar Ísrael.  Sé sú skýring rétt, mun 4. bylgjan skella á þeim eftir einn mánuð eða tvo. 

Gögn frá Þýzkalandi benda til, að fyrri skýringin sé líklegri, því að nú eru Þjóðverjar á leið inn í 4. bylgjuna.  Hafið í huga, að Þjóðverjar, eins og Ísraelar, urðu lítið varir við covid-19 um vorið 2020.  Hins vegar reið stór bylgja yfir þar veturinn 2020/2021 með Wuhan-afbrigðinu. Síðan kom smátoppur með alfa-afbrigðinu, sem myndaði meginálagið á Þýzkaland í apríl [2021].  Hins vegar komu hlýindi sumarkomunnar í veg fyrir myndun stórrar bylgju með alfa-afbrrigðinu. Á þessu skeiði voru Þjóðverjar bólusettir upp til hópa, og áttu flestar bólusetningarnar sér stað á tímabilinu marz-júní.  Þetta er ákaflega svipað bólusetningarferli og í Svíþjóð, þar sem flestir voru bólusettir í marz-júní [2021]. 

Hvers vegna verður Þýzkaland þá fyrir nýrri bylgju núna [haustið 2021], en Svíþjóð ekki ?

Ljóslega er skýringarinnar ekki að leita í, að Þýzkaland hafi orðið fyrri til við bólusetningar og íbúarnir hafi þess vegna misst sitt ónæmi fyrr, því að báðar þjóðirnar voru bólusettar á sama tíma.  Þess vegna hallast ég að réttmæti fyrri kenningarinnar, að Svíar hafi myndað náttúrulegt lýðónæmi með því, að covid hóf að breiðast mjög út í Svíþjóð vorið 2020, en útbreiðslan í Þýzkalandi hófst ekki að ráði fyrr en haustið 2020.  Þrátt fyrir að áhrif bóluefnanna hafi þegar rýrnað í báðum löndum, þá er Svíþjóð varin með sínu víðtæka náttúrulega ónæmi, en Þýzkaland ekki.  Ef þetta er rétt, mun Svíþjóð ekki verða fyrir barðinu á fleiri stórum bylgjum.  Eftir mánuð eða tvo [um áramótin 2021-2022] munum við vita sannleika þessa máls.    

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Ættu þá ekki svæði í Florida og öðrum heitum svæðum að vera betri?

En er ekki frestur á illu bestur og við erum þá að fletja kúrvuna fyrir spítalana okkar með bólusetningum? Og sama er mér hvort ég fæ tvær sprautur á ári ef það varnar því að ég drepist . Ég læt sprauta mig hvort eð er fyrir inflúenzu árlega. 

Halldór Jónsson, 24.11.2021 kl. 14:16

2 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Takk fyrir þýðinguna og upplýsingarnar.

Helgi Viðar Hilmarsson, 24.11.2021 kl. 18:55

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir, kollega Halldór.  Þú sérð af lýsingu Sebastians á faraldrinum á Indlandi, að hann er fljótur að "brenna sig í gegnum íbúana", þar sem þéttbýlt er, og mynda hjarðónæmi, þótt hlýtt land sé.  Þar sem ekki er mikill munur á árstíðum, fylgir faraldurinn síður árstíðatakti.  Þú nefnir Bandaríkin.  Ríkin hafa fylgt innbyrðis ólíkri sóttvarnarstefnu, enda eru þau líka misjafnlega á vegi stödd með faraldurinn núna.  Allt veltur á, hvort náðst hefur hjarðónæmi með náttúrulegum hætti eða ekki.  

Þú þyrftir líklega ekki minna en 3 skammta á ári til að teljast sæmilega varinn, þar sem þú ert "heldri borgari".  

Bjarni Jónsson, 24.11.2021 kl. 21:21

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ágúst.  Náttúrulegt lýðónæmi virðist nást við 70 %, þ.e. hér þurfa um 250 k að sýkjast.  Nú hafa um 17 k (17000) verið greindir.  Ágizkaður fjöldi sýktra gæti verið 50 k.  Þá er langt í land.  Hef grun um, að rannsókn geti greint að náttúrulegt ónæmi og bólusetningarónæmi.  Það þarf endilega mæla þetta í viðunandi þýði til að áætla, hversu víðtækt náttúrulegt ónæmi er orðið. 

Bjarni Jónsson, 24.11.2021 kl. 21:33

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Helgi.  Mér fannst þessi athugun sænska læknisins vera merkileg og held, að fleiri landsmenn séu mér sammála um það. 

Bjarni Jónsson, 24.11.2021 kl. 21:36

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Góður alltaf Bjarni.Er ég að skilja svo að 100% bólusetninga í Gíbralta (sem er þó ekki getið hér)hefti hjarðónmi þar sem hvergi er meira um smit en þar,þrátt fyrir að allir eru bólusettir,líka þeir sem koma þar til vinnu frá nálægumlöndum (td. Spáni).  

Helga Kristjánsdóttir, 25.11.2021 kl. 06:19

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Takk fyrir, Helga.  Bólusetningar tefja fyrir smitum, sem veita náttúrulegt hjarðónæmi, en geta ekki komið í veg fyrir varanlegt hjarðónæmi vegna skammvinnrar endingar.  Annars hef ég ekki kynnt mér neinar tölur frá Gíbraltar.  

Bjarni Jónsson, 25.11.2021 kl. 11:04

8 Smámynd: Guðmundur Jónsson

"Bólusetningar tefja fyrir smitum, sem veita náttúrulegt hjarðónæmi, en geta ekki komið í veg fyrir varanlegt hjarðónæmi vegna skammvinnrar endingar."

 Við þetta þarf að bæta að ónæmið sem fæst með sprautunum er ekki jafn breiðvirkt og eftir sýkingu. Ný afbrigði sem verða til á nokkurra vikna fresti fara framhjá þeim vörnum sem fást með sprautunum. En nátúrlegt ónæmi veitir vörn sem virðist virka á allt sem heitir SarsCov 1 og 2.

Vegna þess að hraði breytinganna á vírusnum er háður fjölda þeirra sem smitast hafa margir topp vísindamenn í greininni talið að ekki sé hægt að beita þessum hátækni sprautum á faraldur og það sé jafnvel ávísun á meiri vanda. Þeir virðast einfaldlega hafa haft rétt fyrir sér, en á þá var þvi miður ekki hlustað.

Guðmundur Jónsson, 26.11.2021 kl. 10:09

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Guðmundur.  Þröng virkni bóluefnanna, sem sniðin voru við Wuhan-afbrigðið, er ein ástæðan fyrir haldleysi þeirra, á meðan náttúrulegt ónæmi er breiðvirkandi og mun væntanlega virka gegn hinu nýja Suður-Afríkanska afbrigði, sem nú er boðað.  Það eru reyndar einhverjar raddir uppi um, náttúrulegt ónæmi virki ekki gegn þessu nýja, en það er ótrúlegt.  

Bjarni Jónsson, 26.11.2021 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband