Fjandskapurinn við þarfasta þjón nútímans

Það er vart ofsögum sagt, að við völd í Reykjavík sé nú klíka sérvitringa, sem reynir að troða aflögðum lifnaðarháttum upp á Reykvíkinga og íbúa utan Reykjavíkur, sem oft eiga erindi til höfuðborgarinnar. Klíka þessi undir leiðsögn Samfylkingarinnar, með lækninn Dag B. Eggertsson í forystu, er forstokkuð, ofstækisfull og sést ekki fyrir í aðgerðum sínum gegn borgurunum.  Hún hefur sett framkvæmdabann á stofnleiðir borgarinnar og tekið mislæg gatnamót og Sundabraut út af Aðalskipulagi borgarinnar.  Til að bæta gráu ofan á svart hefur klíkan þrengt ýmsar götur og fækkað akreinum, t.d. á Grensásvegi, með þeim afleiðingum, að tafir í umferðinni hafa stóraukizt, og gæti tafakostnaðurinn nú numið allt að 40 mrdISK/ár hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Hvernig í ósköpunum má það vera, að slík óstjórn og sérvizka hafi náð hreðjatökum á stjórn borgarinnar ? Ætli þessu linni í vor ?  Það er löngu kominn tími til.  

 Þetta er gert í anda svæsnustu forræðishyggju til að þvinga ökumenn og farþega þeirra út úr einkabílunum og í almenningsvagnana, á tvo jafnfljóta eða á reiðhjól eða hlaupahjól.  Þetta felur hins vegar í sér svo gríðarlegt óhagræði og óþægindi fyrir fólk, að hlutdeild almenningssamgangna hjakkar enn í 4 % af öllum ferðum í Reykjavík yfir árið. 

Borgarlínuáform meirihluta borgarstjórnar eru sniðnar við aðstæður erlendis í miklu fjölmennara samfélagi en höfuðborgarsvæðið er hér, þar sem bílaeign er ekki jafnalmenn og hér og veðurfarsskilyrði yfirleitt önnur.  Verkefnið, s.k. þung borgarlína, er þannig miklu stærra í sniðum en nokkur þörf er á hér í fyrirsjáanlegri framtíð og óttaleg tréhestahugmynd, sem virðist einvörðungu hafa komizt á flug innan þessa skrýtna meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, af því að það felur í sér atlögu að ferðum með einkabíl, þar sem Borgarlínan verður á tveimur sérakreinum fyrir miðju, og farþegar munu fá rétt til að stöðva bílaumferð til að komast að og frá vögnunum. 

Ætlunin er að fækka akreinum á leiðum Borgarlínu og yfirleitt, þar sem því verður við komið, jafnöfugsnúin og sú hugmyndafræði er nú.  Hugarfarið að baki þessum Borgarlínuhugmyndum opinberaðist í frétt Morgunblaðsins 26. nóvember 2021, þar sem viðtal var við stjórnarformann Betri samgangna ohf, Árna Mathiesen, fyrrverandi ráðherra, undir fyrirsögninni:

"Segir óþarft að fækka akreinum".

Fréttin hófst þannig:

"Fækka á akreinum fyrir bílaumferð úr 4 í 2 á Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar samkvæmt frumdragaskýrslu borgarinnar.  Lagt er til, að borgarlínan verði öll í sérrými á Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar.  Sérrýmin verða að mestu miðlæg, og svo ein akrein í hvora átt fyrir bílaumferð.  Lagt er til, að vinstri beygja verði ekki lengur möguleg, nema á hluta gatnamóta.  Auk breytinga á götunni er gert ráð fyrir fækkun bílastæða næst Suðurlandsbraut.  [Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að fækka bílastæðum við Suðurlandsbraut ? - innsk. BJo]

Þetta kemur fram í skipulagslýsingu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar [og] skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir borgarlínu um Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar frá leikskólanum Steinahlíð í austri að Katrínartúni í vestri.  Leggurinn er 3,3 km langur.  Skipulagslýsingin var kynnt í borgarráði Reykjavíkur 18. nóvember [2021].  

"Frá okkar bæjardyrum séð er ekki nauðsynlegt að fækka akreinum á Suðurlandsbraut til að koma fyrir hraðvagnakerfi eða borgarlínu, eins og frumdrög skipulags hafa gert ráð fyrir", sagði Árni Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna ohf.

Félagið mun hafa yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun þeirra.  Að félaginu standa íslenzka ríkið og 6 sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes. Ríkið á 75 %, en sveitarfélögin 25 %, og skiptist eignarhlutur þeirra eftir íbúafjölda."

Þetta sýnir svart á hvítu, að ágreiningur um tilhögun framkvæmdarinnar mun verða verkefninu til mikils trafala, enda er ómögulegt að komast að vitrænni niðurstöðu í samráði við forstokkaða sérvitringa, sem ætla sér með verkefninu að ganga á milli bols og höfuðs á einkabílismanum í Reykjavík.  Hvergi er gætt að hagkvæmni hjá Reykjavíkurborg, og þess vegna verður fjármögnunin í lausu lofti.  Það eru til betri lausnir, miklu ódýrari og hagfelldari, þar sem hagsmuna notenda er gætt og annarra hagsmunum er ekki fórnað, sbr www.samgongurfyriralla.com. 

Ríkisendurskoðandi hefur skynjað, að hið opinbera er rétt einu sinni að vaða út í fen fullkomlega óraunhæfra fjárfestinga, sem orðið hafa til í hugarheimi stjórnmálamanna án snefils af jarðsambandi.  Það sárgrætilega er, að þessar fjárfestingar eru líka algerlega óþarfar, af því að aðrar og miklu ódýrari lausnir gera sama gagn og verða ekki farartálmi fyrir flesta vegfarendur, eins og þetta illúðlega hugarfóstur sérvitringa á vinstri vængnum vissulega er. 

Ef ríkissjóður heykist á lántökuábyrgð til handa "Betri samgöngum ohf", eins og öll fjárhags- og eðlileg pólitísk rök hníga að, þá verður varla nokkuð úr þessum gapuxalegu framkvæmdum, heldur verður hugað að umferðartæknilega og fjárhagslega betri lausnum.  Í Morgunblaðinu 16. desember 2021 var frétt um viðvörunarorð ríkisendurskoðanda undir fyrirsögninni:

"Geldur varhug við lántökuheimild".

""Gjalda þarf varhug, þegar kemur að heimildum til lántaka með ábyrgð ríkisins, þegar mikil óvissa ríkir um fjárhagsgrundvöll þess verkefnis, sem lána skal til", segir ríkisendurskoðandi í umfjöllun um mrdISK 4,0 lántökuheimild ríkisins í fjárlagafrumvarpi næsta árs til að endurlána fyrirtækinu Betri samgöngum ohf., en það var stofnað um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.á.m. borgarlínu."

Borgin hefur þegar svikið samgöngusáttmálann við ríkið, sem þetta opinbera hlutafélag er reist á.  Hún hefur enn ekki sett Sundabraut inn á Aðalskipulag, og heldur ekki sett nein mislæg gatnamót þar inn.  Hún eyðilagði hagkvæmasta kost Sundabrautar með byggingarlóðum, og hér skal ekki minnast á meðferðina á Reykjavíkurflugvelli, sem er til háborinnar skammar fyrir eina höfuðborg.  Luntarahátturinn og geðvonzkan út í nútíma samgönguhætti er með slíkum eindæmum, að ríkið, sem nú þegar er mjög skuldsett, á alls ekki að ljá máls á að vaða út í það fjárhagslega fen, sem Borgarlína meirihluta borgarstjórnar er.

Til að undirstrika ósamstarfshæfni núverandi meirihluta borgarstjórnar skal hér vitna til upphafs leiðara Morgunblaðsins 7. desember 2021 undir fyrirsögninni:

"Fjandskapurinn":

"Þvermóðska og einstrengingsháttur er það, sem einna helzt einkennir stjórn Reykjavíkurborgar um þessar mundir og á undanförnum árum.  Þetta sést í hverju málinu á fætur öðru og skiptir þá engu, hvort málið er í eðli sínu stórt eða smátt, hvort það snertir alla borgarbúa eða fáa einstaklinga, alltaf er viðmótið hið sama. Og undirliggjandi ástæða þessarar framgöngu er oftar en ekki fjandskapur við einkabílinn, svo undarlegt sem það má teljast.

Borgaryfirvöld finna sér tækifæri í flestum málum til að tengja þau við þennan fjandskap og taka í framhaldinu ákvarðanir, sem engin skynsamleg skýring er á, aðeins þessi óskiljanlegi fjandskapur við langsamlega vinsælasta ferðamáta borgarbúa."

Það, sem Morgunblaðið lýsir þarna, eru einkenni sinnisveiki.  Meiri hluti borgarstjórnar er með einkabílinn á heilanum, ef þau hafa slíkt líffæri, og leggja fæð á þessa blikkbelju, sem þau einu sinni uppnefndu svo.  Þau túlka síðan umboð sitt í borgarstjórn þannig, að þeim beri að misnota aðstöðu sína þar til að stöðva alla framfaraviðleitni varðandi umferðarmannvirki í borginni og beri þvert á móti að þrengja að umferð einkabílsins með öllu hugsanlegu móti, svo að þau, sem þannig kjósa að fara á milli staða, gefist upp á umferðaröngþveitinu og setjist upp í almenningsvagnana.  Þetta er svo ólýðræðisleg hegðun og heimskuleg stjórnun einnar borgar, að engu tali tekur.  Slíkum borgarfulltrúum og stjórnmálaflokkum, sem að þeim standa, á einfaldlega að sparka út í hafsauga í sveitarstjórnarkosningunum í vor (maí 2022).  Það má ekki seinna vera.  Asnaspörkin eru legíó og fíflagangurinn verður óafturkræfur eftir næsta kjörtímabil. 

Í lok forystugreinarinnar sagði þetta:

 "En það er einmitt einn helzti kosturinn við skipulagið [minna en 1 bílastæði á hverja nýja íbúð] að mati borgaryfirvalda, því að með þessu er íbúunum gert erfiðara fyrir að eiga bíl, og þar með standa vonir borgaryfirvalda til þess, að þeir nýti sér aðra ferðamáta - nú eða haldi sig heima.  Þeir flækjast ekki fyrir borgaryfirvöldum á meðan."

Af þessari umræðu er ljóst, að núverandi borgaryfirvöld eru aftan úr grárri forneskju og eru ekki í neinum færum til að svara þörfum tímans á því herrans ári 2022, hvað þá á öllu næsta kjörtímabili. Algerrar uppstokkunar og endurnýjunar er þörf. 

  

 

  

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Næst vilja þeir koma á hestavegna akreinum, enda eru hestar umhverfisvænir og menga lítið! Fyrirmyndir geta þeir leitað til Amis fólksins.

Birgir Loftsson, 24.1.2022 kl. 10:44

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hestar leysa mikinn vind, enda átvögl.  Þeir mundu þess vegna leysa meira koltvíildi úr læðingi á götunum en rafmagnsbílar.  M.v. óþrifnaðinn á götum Reykjavíkur undir stjórn Dags Bergþórusonar, þarf ekki að fara í grafgötur um, að stræti borgarinnar mundu breytast í forarvilpur undir afturhaldinu.

Bjarni Jónsson, 25.1.2022 kl. 10:42

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni og takk fyrir að opna á þessu kýli.

Vissulega er löngu tímabært að ná borginni frá afturhaldsöflunum, óháð öllu öðru. Hvað borgarlínu varðar þá eiga allir flokkar þar sök, þar sem núverandi stjórnarflokkar samþykktu að fjármagna verkefnið að stórum hluta og munu sjálfsagt einnig ábyrgjast lántökur sveitarfélaganna, en þau eiga enga sjóði í þessa framkvæmd. Síst Reykjavíkurborg. Þarna hlupu stjórnarflokkarnir á sig. Þar eru hvað sekastir formenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Það er í sjálfsögðu ekkert sem bannar Reykjavíkurborg að taka upp austur-evrópskan ferðamáta fyrir sína íbúa, kjósi íbúar borgarinnar það fólk sem þetta vill. En þá á það að vera alfarið á kostnað borgarinnar. Það á ekki að nota fé úr ríkissjóði í þessa framkvæmd.

Því miður er staðan í dag sú að sennilega mun enginn hafa kjark til að stöðva þessa framkvæmd eða koma henni í eitthvað vitrænt horf. Sá fulltrúi sem nú er í boði af hálfu Sjálfstæðisflokks sem borgarstjóraefni, mun vissulega halda merki Dags hátt á lofti, þó flokkurinn nái góðu fylgi í næstu kosningum. Ekki er að sjá neinn annan betri í kortunum og lítil merki þess að vilji sé innan flokksins til þess. Hin austur-evrópski ferðamáti mun því verða tekinn upp í borginni, með tilheyrandi skelfingu fyrir umferðarmenningu, umferðaröryggi og ferðalög landsmanna sem koma utanaf landi um höfuðborgina. Og að sjálfsögðu kostnaði fyrir ríkissjóð.

Nú á tímum framfara í ferðaháttum er með öllu ótrúlegt að enn sé til fólk sem aðhyllist aldargamlar ferðavenjur, ættaðar frá CCCP.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 26.1.2022 kl. 07:57

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Við verðum að vona, að "Eyjólfur hressist" og að prins á hvítum hesti komi og hneppi Reykjavík úr álögum afturhaldsins, sem hreiðrað hefur um sig innan um svanina á Reykjavíkurtjörn í hlaðvarpa Hallveigar og Ingólfs.  

Bjarni Jónsson, 26.1.2022 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband