Svíþjóð er enn fyrirmynd á vissum sviðum

Hrollvekjandi eru ógnartíðindi af glæpagengjum í sumum sænskum borgum, sem sýna, að sænska samfélagið er ekki lengur samstöðusamfélag, eins og það var, þegar Svíar voru einsleit þjóð með eina þjóðmenningu eða kannski tvær (Samar í Lapplandi).  Fjölmenningarsamfélagið  hefur fyrir löngu leitt til innri baráttu og togstreitu ólíkra menningarhópa.  Trúarhópar leitast við að viðhalda forneskjulegum venjum og siðum úr átthögum sínum, sem fáa grunaði, að yrðu lífseig í Svíþjóð, þegar þessum innflytjendum og flóttamönnum var hleypt inn í landið, en annað kom á daginn, og þess vegna er fjandinn laus.  Það gildir enn hið fornkveðna, er Þingeyingurinn Þorgeir Ljósvetningagoði kvað upp úr með á Alþingi á Þingvöllum 999-1000, að ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og slíta  friðinn.

Í sóttvörnum gegn C-19 fárinu, sem með ómíkron hefur breytzt úr lungnabólgu í hálsbólgu, hafa Svíar að mörgu leyti fetað sínar eigin brautir með vægari samkomutakmörkunum og rekstrarhömlum en aðrir, svo að frelsisskerðingar fólks hafa verið þar minni en víðast annars staðar, sem og kostnaður atvinnulífs og hins opinbera. Dauðsföll voru samt færri í Svíþjóð en í mörgum löndum, sem beittu íþyngjandi hömlum, enda náðist lýðónæmi strax vorið 2021. Strangar opinberar sóttvarnarhömlur á Íslandi og annars staðar missa marks gegn háum smitstuðli ómíkron og minnka þar af leiðandi álagið á heilbrigðiskerfið sáralítið, ef nokkuð.  Það er ekki hægt að hemja vatnsflóð með stíflubúti. 

Dánarhlutfall Svía af völdum C-19 er lægra en í meira en 50 löndum, þar sem beitt var meiri opinberum sóttvarnaraðgerðum en í Svíþjóð.  Segir það ekki töluverða sögu um vanhugsaðan grundvöll opinberra sóttvarnaraðgerða gegn pest á borð við C-19.

Heimurinn brást illa við sóttvarnarhugmyndafræði Svía og fordæmdi landið og sóttvarnarlækni þess, Anders Tegnell. Aflokunarfólk spáði Svíum hörmungum, en dánarhlutfallið sýnir Svía komast betur af en þá, sem beittir voru langvarandi aflokunum og öðrum frelsissviptandi úræðum forsjárhyggjunnar.  

Anders Tegnell fékk aftökuhótanir frá almenningi og var hæddur af stéttarsystkinum. Hann var fordæmdur af fjölmiðlum á borð við Time Magazine, New York Times, The Guardian, Focus, La Republica, CNN, BBC o.fl.  Á hvaða vegferð eru flestir fjölmiðlamenn eiginlega í þessum faraldri ?  Þeir vöruðu við hörmungum af stefnu Tegnells.  Það gerðu líka norsku Aftenposten og Dagens Næringsliv, hvattir áfram af ritstjórnum og sjálfskipuðum sérfræðingum í NRK (norska RÚV) og TV2. Eru afleiðingar þess að kynda undir fjöldamóðursýki í þjóðfélögunum aðeins fáum fjölmiðlamönnum ljósar ? 

Væri Svíþjóð eitt af ríkjum Bandaríkjanna, mundu Svíar veru með 3. lægsta dánarhlutfallið í BNA. Svíar fylgdu aðeins hefðbundnum vestrænum ráðum gagnvart smitsjúkdómum.

Svíþjóð fylgdi ekki Kína.  Svíar fóru hefðbundnar leiðir, sem heilbrigðisstarfsfólk hefur farið til að fást við smit.  Svíar lögðust ekki í þjóðfélagslega tilraunastarfsemi.  Það gerðu hins vegar flestir hinna með því að setja í gang óreyndar, frelsisskerðandi aðgerðir í sögulegri þjóðfélagstilraun, sem spannaði allan heiminn.  Þetta var gert án vísindalegrar kostnaðar- og ábatagreiningar og kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum frá Kína.

Svíþjóð hefur náð betri árangri en ýmis lönd, sem beitt hafa aflokunum að hætti Kínverja.

Með bráðum 2ára reynslu og gögn um 21 mánaðar skeið frá 50 löndum, er myndin að skýrast.  S.k. samfélagsnýsköpun með óreyndum aðgerðum er dýrkeypt.  Dánarhlutfall sýnir, að Svíar hafa komið betur út úr Kófinu en þjóðir, sem beitt hafa langvinnum aflokunum og öðrum íþyngjandi aðgerðum.

Samkvæmt opinberu talnayfirliti Eurostat eru Bretland, BNA, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Spánn, Argentína og Belgía með hærra dánarhlutfall af C-19 en Svíþjóð.  Í nóvember 2021 voru 50 lönd með hærra dánarhlutfall en Svíþjóð vegna C-19.  Tölur fyrsta árs Kófsins, 2020, sem þótti ganga brösuglega í Svíþjóð, setja þó Svía í 21. sæti af 31 landi, sem Eurostat sýnir um dánarhlutfall af völdum C-19.  Borin saman við 50 ríki BNA, er Svíþjóð með þriðja lægsta dánarhlutfallið.  

Samkvæmt Worldometer var dánarhlutfall í % af íbúafjölda í 9 löndum febrúar 2020-nóvember 2021 (Ísland til 12.01.2022) eftirfarandi:

  1. Tanzanía                     0,001
  2. Rúanda                       0,010
  3. Ísland                       0,011
  4. Indland                      0,033
  5. Ísrael                       0,087
  6. Svíþjóð                      0,148
  7. Úkraína                      0,182
  8. Bretland                     0,209
  9. Ítalía                       0,220
  10. Bandaríkin                   0,238

Athygli vekur, að lítt bólusettar Afríkuþjóðir eru með lægsta dánarhlutfallið.  Talið er, að á Indlandi og í Svíþjóð hafi myndazt hjarðónæmi veturinn 2021, svo að þessi lönd sluppu að mestu við smit haustið 2021, og það er ekki fyrr en nú með ómíkrón-afbrigðinu, að smitum tekur að fjölga, en þau eru þó enn tiltölulega færri í Svíþjóð en á Íslandi. Athygli vekur einnig, að Ísraelar, sem fyrstir urðu til að bólusetja sína þjóð, eru samt með hærra dánarhlutfall en Ísland og Indland. 

Ísland kemur alveg sérstaklega vel út í þessum samanburði, sem gæti stafað af tiltölulega litlum tóbaksreykingum landsmanna, hreinu lofti og tiltölulega dreifðri byggðl ásamt tiltölulega lágum meðalaldri þjóðarinnar.  Ef litið er til Svíþjóðar, er ekki líklegt, að samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur í sóttvarnarskyni hafi bjargað mörgum mannslífum á Íslandi, og sízt af öllu getur slíkt átt við veirusjúkdóm með dreifingarstuðul ómíkrón, sem augljóslega er alls staðar í þjóðfélaginu. Það yrði að stöðva samfélagið til að hemja faraldurinn, en til þess er alls engin ástæða, þegar hálsbólga á í hlut.  

Áfengisbannið í BNA var líka tilraun.

Söguleg tilraun: 17. janúar 1920 gekk í gildi algert bann við sölu áfengis í BNA.  Það var stærsta þjóðfélagslega tilraunin fram að því, ef bylting bolsévika og alræði öreiganna í Rússlandi er undanskilin.  Árið eftir mótmæltu 20 þús. manns banninu á götum Nýju Jórvíkur.  Mótmælendurnir litu á bannið sem gerræðislega skerðingu persónulegs frelsis.  Bannið leiddi til útbreiddra átaka og glæpa, en var þó ekki afnumið fyrr en 1933.  Þótt flestir séu sammála um, að tilraunin hafi mistekizt gjörsamlega, stendur hún þó í huga forræðishyggjufólks sem "eðaltilraun í góðum tilgangi". 

Nú horfa landsmenn upp á sóttvarnarlækni í hlutverki don Kíkóta berjast við vindmyllur.  Þar er átt við máttvana, en rándýrar opinberar sóttvarnarráðstafanir að undirlagi hans á formi endalausra skimana, rakninga, sóttkvía og einangrunar að ógleymdum 4 farsóttarsjúkrahúsum; allt í því skyni að hemja hálsbólgu með óvenju háan smitstuðul. Dánarhlutfallið á Íslandi af völdum kórónuveirunnar er svo lágt, að látnir af hennar völdum eru aðeins um 1 % af fjölda látinna af öðrum völdum, og eru dauðsföll þó skráð á C-19, þótt aðrir sjúkdómar hafi komið við sögu.  Þegar um jafnbráðsmitandi veiru er að ræða og ómíkron, geta einstaka lokanir og samkomutakmarkanir ekki hamlað framrás veirunnar sem neinu nemur. 

Hið athyglisverða er, að opinberar sóttvarnarráðstafanir eru framkvæmdar með sams konar röksemdafærslu og aðferðum í lýðræðisríkjum og einræðisríkjum.  Þetta er alvarlegt umhugsunarefni fyrir Vesturlönd.

Nú er heimurinn allur í þjóðfélagstilraun með sams konar höft á frelsi fólks og mannréttindi og í sama göfuga augnamiðinu að bjarga mannslífum.  Löggjafinn verður að fjalla af alvöru og vandvirkni um það til hvaða ráðstafana framkvæmdavaldinu er heimilt að grípa við mismunandi aðstæður án þess að fá til þess sérstaka heimild frá löggjafanum.  Það hefur komið í ljós, að embættismönnum og ráðherrum hættir mjög til að fara offari í ráðstöfunum sínum.  Það gengur ekki að setja heilt þjóðfélag í spennitreyju í nafni heilbrigðiskerfisins, þegar búið er að bólusetja yfir 90 % þjóðarinnar gegn sjúkdóminum og hann er jafnvægur og raunin er með ríkjandi afbrigði þessarar kórónuveiru. 

Fjöldi óháðra sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna lýsa að vísu bólusetningunum sem viðamestu læknisfræðilegu tilraun sögunnar.  Hún er framkvæmd með bráðabirgða genatækni, sem á skömmum tíma hefur kostað tugþúsundir manna lífið. Heilsufarslegar langtíma afleiðingar bólusetninganna, t.d. á ónæmiskerfi líkamans, eru óþekktar.  Astrid Stuckelberger, læknir, rannsakandi og uppeldisfræðingur, sem í mörg ár hefur unnið við að hemja sjúkdómsfaraldra, sagði við norska miðilinn hemali: - Opinberar tölur frá BNA sýna, að aukaverkanir kórónu-bóluefnanna fram að þessu eru þrisvar sinnum fleiri en summan af aukaverkunum bólusetninga síðastliðin 35 ár. - Þetta er grátlegt í ljósi haldleysis þessara sömu bóluefna.  Hafa lyfjafyrirtækin gefið mannkyninu langt nef og samtímis haft það að féþúfu ?

Svíar gerðu ekki þjóðfélagstilraun, en það gerðu hinir. Fyrir vikið hefur verið reynt að setja Svíþjóð og sóttvarnarlækninn Tegnell í slæmt ljós.

Smitsérfræðingar, örverufræðingar og faraldursfræðingar, í Svíþjóð og annars staðar, töldu, að frelsið, sem Svíar urðu aðnjótandi í Kófinu, yrði þeim dýrkeypt.  Fræðimenn við Uppsalaháskóla, Karólínska sjúkrahúsið og Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi notuðu tölvutæk líkön til að reikna út, að 96 þúsund Svíar myndu deyja sumarið 2020 (stærðargráðuvilla). Á alþjóða vettvangi spáðu fræðimenn við Imperial College, John Hopkins og fleiri háskóla, að milljónir íbúa Bretlands og BNA mundu deyja af völdum hinnar "nýju og óþekktu" veiru á árinu 2020. 

Þrátt fyrir þessar dómsdagsspár má marka af þremur greinum eftir faraldursfræðinginn og tölfræðinginn John Ioannidis við Stamford University, að á heimsvísu varð dánarhlutfallið ekki hærra árið 2020 en árin á undan. Það hefur verið útskýrt þannig, að faraldurinn hafi lagzt þyngst á þá, sem áttu stutt eftir, og flensur hafi ekki náð sér á strik, en árlega deyr viðkvæmt fólk úr lungnabólgu.  Til hvers var verið að skjóta lýðnum skelk í bringu ?  Það er ekki fallega gert.

Útreikningar spálíkana um smit mynda ekki góðan grundvöll fyrir ákvarðanatöku um sóttvarnaraðgerðir.

Lærdómar ?  Fólk er flóknara fyrirbæri en þjóðfélagsleg nýsköpun ræður við.  

Veirulíkön, reist á kenningum um smitdreifingu, eru mjög óáreiðanleg og ónothæf sem grundvöllur fyrir íþyngjandi inngrip í líf fólks.  Nokkrir óháðir fræðimenn, eins og dr Stephan Lanke, fullyrða, að líkönin séu reist á úreltri og rangri smitkenningu, sem rakin er aftur til Luis Pasteur á 9. áratug 19. aldar (um 130 ára).

Annar lærdómur er , að frelsið kostar.  Frjálst samfélag veltur á einstaklingum, eins og Tegnell, sem hafa þrek til að ganga undir það jarðarmen að standa gegn valdsæknum valdhöfum ríkisvaldsins og fordæmingu margra, jafnvel almennings, ef búið er að kynda undir ótta í samfélaginu við hinn ósýnilega og jafnvel lítt þekkta óvin.  

    

 

     

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

 Þakka þessar frábæru greinar. Vonandi vaknar fólkið. Þeir sem eiga, stjórna fjölmiðlunum, hræða fólkið. 

Ef þú hræðir fólkið færð þú rekstrar fé. 

Jónas Gunnlaugsson, 17.1.2022 kl. 04:33

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nú hefur læknir á Landsspítalanum vakið athygli á yfirskoti sóttvarnarlæknis, sem vísar til spár spálíkans um fjölda inniliggjandi á sjúkrahúsi og í gjörgæzlu, þegar hann gerir sínar illa ígrunduðu tillögur um frelsisskerðingar almennings.  Téður læknir benti á, að álag á spítalann af C-19 væri nú minna en "bjartsýnasta" spá líkansins.  Gildandi opinberar sóttvarnarhömlur í þjóðfélaginu eru út í hött gagnvart ómíkron, sem er úti um allt.  Hætta á þessum rándýra fíflagangi með sóttkví, einangrun og rakningar.  Sparnaðurinn mætti renna til rekstrar sjúkrahúsa landsins. Það er við hálsbólgu að fást.  Hver verður eiginlega staða þessa heilbrigðiskerfis, ef/þegar verður við drepsótt að fást (á borð við ebólu) ?  Það er áhyggjuefni.  

Bjarni Jónsson, 17.1.2022 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband