Orkan er undirstaða hagkerfanna

Vegna stríðs í Evrópu herjar orkuskortur víðast hvar í álfunni vestan Rússlands með Ísland og Noreg sem undantekningu. Á fyrsta degi svívirðilegrar innrásar Rússa í Úkraínu voru allar raforkutengingar Úkraínu við Rússland rofnar og landið fasað saman við stofnkerfi Evrópu.  Í framtíðinni er líklegt, að Úkraína muni selja "kolefnisfría" raforku til Evrópusambandsins.  Rússar hafa rofið raforkuflutninga sína til Finnlands í refsingarskyni fyrir, að Finnar hafa gefið hlutleysisstefnu sína upp á bátinn og óskað eftir inngöngu í varnarbandalagið NATO. Svíar hafa hlaupið í skarðið með að sögn 10 % af finnsku raforkuþörfinni, en eru varla aflögufærir að vetrarlagi vegna lokunar nokkurra kjarnorkuvera sinna. Evrópusambandslöndin hafa lokað á innflutning kola frá Rússlandi og ræða að binda endi á olíuinnflutning þaðan. Að draga úr eldsneytisgasinnflutningi frá Rússlandi er kappsmál margra, en Rússar hafa nú þegar lokað á gasflutning til Póllands og Búlgaríu, af því að ríkisstjórnir þessara landa bönnuðu greiðslur með rúblum. Evrópusambandslöndin stefna á að stöðva öll orkukaup frá Rússum.  Í Úkraínu er eldsneytisgas í jörðu, og líklega verður borað þar og öflugar lagnir lagðar til vesturs og tengdar inn á gasstofnlagnir í ESB.

Vegna orkuskorts og mjög mikillar hækkunar orkuverðs í Evrópusambandinu, ESB, siglir sambandið inn í efnahagskreppu vegna minnkandi framleiðslu, enda falla hlutabréf nú ískyggilega.  Ef lokað verður senn fyrir rússneska olíu til ESB, spáir "die Bundesbank"-þýzki seðlabankinn yfir 5 % samdrætti hagkerfis Þýzkalands 2022, og hann gæti tvöfaldazt við lokun fyrir rússneskt gas.  Bundesbank spáir mrdEUR 180 nettó tapi fyrir þýzka hagkerfið 2022, ef bráðlega verður hætt að kaupa gas af Rússum, sem hefur numið um 45 % af gasþörf Þýzkalands.  Eystrasaltslöndin hafa hætt öllum orkukaupum af Rússum, og nú standa spjótin á Þjóðverjum fyrir slælegan hernaðarstuðning við Úkraínumenn og fyrir það að fjármagna tortímingarstríð Putins, alvald Rússlands, með gaskaupum á gríðarháu verði.      

Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínu frá 24.02.2022 nemur í fjármunum aðeins broti af þessari þýzku tapsfjárhæð. Hún sýnir í hvílíkt óefni Þjóðverjar hafa stefnt efnahag sínum með því að flytja allt að 45 % af gasþörf sinni frá Rússlandi eða tæplega 43 mrdm3/ár. Þeir hafa vanrækt aðrar leiðir, af því að þær eru dýrari, en verða nú að bregðast við skelfilegri stöðu með því að setja upp móttökustöðvar fyrir LNG (jarðgas á vökvaformi) í höfnum sínum og flytja það inn frá Persaflóaríkjunum og Bandaríkjunum (BNA) með tankskipum.  Nú stóreykst gasvinnsla með leirsteinsbroti í BNA, og Norðmenn framleiða sem mest þeir mega úr sínum neðansjávarlindum úti fyrir norðanverðum Noregi, en Norðursjávarlindir þeirra, Dana, Hollendinga og Breta, gefa nú orðið lítið. 

Þessi efnahagskreppa í ESB og á Bretlandi af völdum orkuskorts er þegar farin að valda verri lífskjörum í Evrópu (Noregur meðtalinn vegna innflutnings á evrópsku raforkuverði til Noregs sunnan Dovre).  Á Íslandi hefur eldsneytisverð hækkað gríðarlega og matvælaverð og áburðarverð líka, svo að ekki sé talað um hörmungarástandið á fasteignamarkaðinum af innlendum ástæðum (kreddum). Nautakjötsframleiðendur á Íslandi sjá sína sæng út breidda við þessar aðstæður.  Í nafni matvælaöryggis verður ríkisvaldið að grípa inn með neyðarráðstöfunum á innflutningshlið (minnkun innflutnings, tollar), svo að bændur geti forðazt taprekstur og flosni þá ekki upp af búum sínum.

Verðbólgan rýrir lífskjör almennings, en að auka launakostnað fyrirtækja á hverja unna klukkustund umfram framleiðniaukningu til að vega upp á móti rýrnandi kaupmætti virkar einfaldlega sem olía á eld verðbólgunnar.

Á Íslandi er þó allt annað uppi á teninginum í orkulegum og efnahagslegum efnum en erlendis.  Það er að vísu raforkuskortur í boði afturhalds, sem ber fyrir sig umhverfisvernd, sem er reist á geðþótta hins sama afturhalds, en ekki á staðlaðri kostnaðar- og ábatagreiningu virkjunarkosta. Það verður bæði að virkja og vernda, svo að þetta er val og lempni er þörf. Í ljósi aðstæðna í heiminum er það siðferðislega og fjárhagslega óverjandi að standa gegn nánast öllum framfaramálum á orkusviðinu hérlendis, sem auðvitað kyrkir möguleika landsmanna til orkuskipta á þeim hraða, sem stjórnvöld dreymir um. 

Þann 27. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu baksviðsfrétt, sem varpar ljósi á eina hlið þessa stórmáls.  Fyrirsögnin var dæmigerð um ástandið: 

"Ekki næg raforka til að knýja orkuskiptin".

   Hún hófst þannig:

"Um ein milljón lítra af olíu er flutt til landsins á hverju ári [þetta er 3 stærðargráðum minna en í raun - innsk. BJo]. Það er ígildi allrar orkuvinnslu Landsvirkjunar í dag.  [Orkuinnihald þessarar olíu er um 11,1 TWh/ár, en nýtanlegt orkuinnihald er aðeins um 4 TWh/ár.  Raforkuvinnsla Landsvirkjunar (nýtanleg) er um 14 TWh/ár, svo að í raun nemur olíuinnflutningurinn aðeins tæplega 30 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar - innsk. BJo.]  Í umsögn um drög að stefnu stjórnvalda um orkuskipti í flugi bendir fyrirtækið [Landsvirkjun] á, að ekki sé næg raforka til í landinu til að knýja orkuskipti í samgöngum, og það krefjist margra ára undirbúnings og framkvæmdatíma.

Innviðaráðuneytið kynnti á dögunum í samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi.  Grundvallast hún á tillögum nefndar, sem falið var þetta verkefni.  Á [m]eðal þess, sem lagt er til, er, að kannaður verði möguleiki á samstarfi við framleiðendur nýrra flugvéla með það að markmiði, að Ísland verði vettvangur prófana á nýrri tækni í flugi.  Lagt er til, að unnið verði að því, að allt innanlandsflug verði knúið með endurnýjanlegu eldsneyti fyrir árið 2040.  Einnig, að stuðlað verði að uppbyggingu innviða fyrir slíkt eldsneyti á flugvöllum, svo [að] nokkuð sé nefnt." 

Miklu skiptir að velja fjárhagslega öflugan samstarfsaðila á sviði tækniþróunar, til að þetta gangi eftir.  Það liggur ennfremur beint við, að græna flugvélaeldsneytið, hvert sem það verður, verði framleitt á Íslandi.  Það er líklegt, að hið nýja eldsneyti muni innihalda vetni, og þess vegna þarf að koma hérlendis á laggirnar vetnisverksmiðju.  Samkeppnishæfnin er háð stærð verksmiðjunnar, og þess vegna er ekki úr vegi að fá vetni í flugvélaeldsneyti og flutningabíla- og vinnuvélaeldsneyti frá verksmiðjunni, sem framleiða á vetni fyrir nýja hérlenda áburðarverksmiðju, en Úkraínustríðið hefur valdið miklum verðhækkunum á áburði, sem enginn veit, hvort eða hvenær gangi til baka vegna viðskiptabanns á útlagaríkið Rússland. 

"Í þessu samhengi má minna á, að í uppfærðri orkuspá frá síðasta ári [2021] er sem fyrr ekki gert ráð fyrir raforkuþörf vegna framleiðslu á rafeldsneyti fyrir orkuskipti í flugi.  Það er rökstutt með óvissu um það, hvaða tegund rafeldsneytis verði ríkjandi, hvort það verði innflutt eða framleitt innanlands, og hver raforkuþörfin til framleiðslu rafeldsneytis verður, verði það framleitt innanlands.  Starfshópur um stöðu og áskoranir í orkumálum benti á það í skýrslu, sem út kom í síðasta mánuði [marz 2022], að til þess að ná fullum orkuskiptum m.a. í flugi og áframhaldandi hagvexti, þyrfti að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu í landinu og rúmlega það." 

Það er villandi á þessu umbreytingaskeiði á orkusviði, að Orkuspárnefnd sé með vífilengjur, dragi lappirnar og láti líta út fyrir, að orkuvinnsluþörfin sé minni en hún er m.v. áform stjórnvalda í orkuskiptum.  Nú verður hún einfaldlega að styðjast við útreikninga starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum um raforkuþörf innanlandsflugsins og láta hana hefjast árið 2025 og stíga síðan línulega í 15 ár, þar til fullri þörf er náð. Þessi orkuskipti munu tryggja stöðu innanlandsflugsins til langrar framtíðar, og miðstöð þess í Vatnsmýrinni í Reykjavík á ríkisvaldið að tryggja.  Útúrboruleg sérvizka einstakra pólitíkusa í Reykjavík verður að víkja fyrir meiri hagsmunum í þessum efnum.

"Þess vegna sé mikilvægt að horfa til annarra áætlana stjórnvalda, sem hafa áhrif á orkuöflun, s.s. heildarendurskoðunar á rammaáætlun og leyfisferlis virkjana og stækkunarverkefna þeirra.  Sérstaklega verði horft til leyfisferla vindorkukosta. 

Einnig sé mikilvægt að huga að því, að aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum nái í dag ekki yfir það, sem gera þarf til að ná fram þjóðfélagi án jarðefnaeldsneytis árið 2040 - og þar með orkusjálfstæði landsins." 

Á þetta hefur verið bent á þessu vefsetri.  Téð aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur ekki undir nafni.  Nú hefur loftslags-, orku- og umhverfisráðherra lagt fyrir þingið frumvarp um að létta virkjanafyrirtækjum róðurinn við stækkun virkjana í rekstri.  Komið hafa fram mótbárur við þetta frumvarp, sem reistar eru á ágizkunum og vænisýki, algerlega í anda tilfinningaþrungins afturhalds í landinu, sem gerir allt til að kynda undir ranghugmyndum um óafturkræft náttúrutjón af mannavöldum og leggja stein í götu orkuframkvæmda í landinu.  Fái þau ráðið, verða orkuskiptin hérlendis í skötulíki og hagvöxtur ófullnægjandi fyrir vaxandi þjóð. Það yrði hörmuleg niðurstaða m.v. möguleikana, sem landið býður íbúum sínum upp á, ef skynsemi og bezta tækni fá að ráða för.  

Morgunblaðið gerði í baksviðsfrétt 17. maí 2022 grein fyrir þessu undir fyrirsögninni:

"Telja, að horft sé til Kjalölduveitu".

Fréttin hófst þannig:

"Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja ekki unnt að rökstyðja aflaukningu þriggja virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu, sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi, að verði heimiluð án þess að fara í gegn um rammaáætlun.  Telja félagasamtökin, að sú viðbót við orkuframleiðslu, sem fengist, sé allt of lítil til að standa undir fjárfestingunni.  Þess vegna telja þau, að það hangi á spýtunni hjá Landsvirkjun, að samhliða yrði farið í Kjalölduveitu úr Þjórsá."

Þessi málflutningur er reistur á sandi. Þessi áform Landsvirkjunar má skýra í ljósi skortstöðu afls og orku, sem blasir við á næstu 5 árum, þar til meðalstór virkjun (Hvammsvirkjun) tekur til starfa 2027, og er afleiðing athafnaleysis virkjanafyrirtækja og sofandaháttar yfirvalda. Viðbót afl- og orkugetu af þessu tagi við þessar aðstæður er miklu verðmætari en nemur verðinu, sem Landsvirkjun fær núna fyrir afl og orku, því að hún getur komið í veg fyrir afl- og orkuskerðingu, sem kostar viðskiptavinina 10-1000 sinnum meira en núverandi verð á þessari þjónustu. Þar að auki má benda á, að Landsvirkjun væntir aukins vatnsrennslis næstu áratugina vegna hlýinda og meiri úrkomu.  Aukið vatnsrennsli hefur þó ekki verið áberandi enn þá. 

Landsvirkjun óskar eftir að fá að stækka 3 virkjanir án umhverfismats, Hrauneyjar, Sigöldu og Vatnsfell, um 210 MW (47 % aukning) og býst við að fá út úr því aðeins um 34 GWh/ár (1,3 % aukning).  Þessi litla aukning orkuvinnslugetu sýnir, hversu fáránleg þau rök fyrir raforkuútflutningi um sæstreng héðan voru, að þessi útflutningur gerði kleift að nýta allt vatn, sem að virkjununum (Þórisvatni) bærist.  Á það var bent á þessu vefsetri, að þessi aukning væri allt of lítil til að geta staðið undir viðskiptum um sæstreng.  Þá var reyndar hugmynd Landsvirkjunar að nota aflaukninguna til að selja afl til útlanda á háálagstímanum og flytja inn orku á lágálagstíma.  Þetta afl er svo lítið á erlendan mælikvarða, að hæpið er, að nokkur áhugi sé á slíkum viðskiptum og áfram hæpið, að langur og dýr sæstrengur geti reynzt arðbær með svo lítilli notkun.       

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Nú mun vera áformað að gera Norðursjó að "grænum orkugarði" og reisa þar vindmillugarða til þess að framleiða reforku og "grænt vetni".

Þá dettur mér í hug hve mikla sólarorku væri hægt að virkja nærri miðbaugi jarðar, t.d. í eyðimörkum Sahara, Arabíu eða Nevada. Og ekki má gleyma Ástralíu en þar ætlar nýkjörinn forsætisráðherra að gera stórátak til þes að framleiða græna orku.

Einhvern veginn lýst mér betur á beislun sólarorku heldur en vindorku og þar hefur miðbik jarðar mikla yfirburði. Vel mætti hugsa sér að fátæk og dreifbyggð héröð í Afríku, Indlandi, S-Ameríku og víðar kæmu sér upp sínum eigin "sólarrafhlöðugörðum" sem gerði þau sjálfbær með raforku og jafnvel umfram það. Gæti þetta orðið til þess að lyfta íbúum þessara svæða upp úr örbyggð til sjálfsbargar, jafnvel.

Sá galli er við sólarorkuna að hún fæst ekki að næturlagi, því þyrfti að safna raforku á daginn. Til þess þarf rafhlöður, en einnig væri hægt að nýta umframrafmagn til þess að framleiða vetni. Þó er sá galli við vetnið að erfitt er að geyma það í miklu magni. Nýlega sá ég fjallað um aðferð til að geyma vetni með því að binda það í magnesíumhydrið (MgH2), í eins konar deigform, sem auðvelt er að geyma og flytja til. Ef þessi geymsluaðferð reynist hagkvæm þá yrði það bylting í framleiðslu og meðferð á vetni.

En þetta voru nú bara "óábyrgar" vangaveltur.   

Vier Länder wollen Nordsee zum „grünen Kraftwerk“ der ...https://www.handelsblatt.com › politikNú er

Hörður Þormar, 28.5.2022 kl. 23:43

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir góðan pistil.

Nokkrir punktar:

Staða Dana batnar töluvert þegar Tyra-svæðið fer aftur í gang, að mig minnir á næsta ári. Þeir gætu líka látið skoða betur Svane- og Xana-svæðin, en gera sennilega ekki.

Hollendingar gætu skipt um skoðun um lokun Groningen, en hef ekki séð nein ummerki þess.

Kolin eru óhjákvæmilega að koma aftur, því miður, en bjarga einhverju.

Ekki veit ég hvaða heildarávinningur fyrir mannkynið felst í því að loka á Rússa og senda þeim mun meira fé til Miðausturlanda.

Ég hugsa að við þurfum amk til skemmri tíma að hætta gera upp á milli og hugsa að öll orka sé góð orka.

Geir Ágústsson, 29.5.2022 kl. 16:41

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hörður.  Sólarhlöðurnar eru berskjaldaðar fyrir skemmdarverkum, og þess vegna er sennilega krafizt áhættuálags fyrir uppsetningu og rekstur þeirra á spennusvæðum, eins og víða eru í Afríku.  Í Suður-Ameríku er enn mikið af óvirkjuðu vatnsafli.  Eitt eða annað form kjarnorku (ný kynslóð úraníumvera, þóríumver) held ég, að sé betri lausn á orkuvandanum en orkuver með lágan nýtingartíma og slitróttan rekstur.  

Bjarni Jónsson, 29.5.2022 kl. 17:24

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Geir; Til lengri tíma munu Rússar sennilega fóðra Kínverska stórveldið með orku, en Arabaríkin þá senda meira til Evrópu.  Það gengur ekki fyrir Evrópu að verða háð óvinaríki með orku lengur.  Orkan er skætt vopn, og Rússar nota hana til að fjármagna stríð í Evrópu.  Stríð í Evrópu er andstætt hagsmunum Evrópu.  Til skemmri tíma mun útflutningu gass frá Norður-Ameríku til Evrópu geta létt undir.  Frakkar hafa nú sett af stað hönnun um 5 stórra kjarnorkuvera og verða aflögufærir með raforku eftir gangsetningu þeirra, en á næstu árum verður raforkuskortur í Evrópu, sem mun hamla hagvexti og dýpka þá kreppu, sem nú er spáð.

Bjarni Jónsson, 29.5.2022 kl. 17:35

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Ekki gleyma því að fé sent til Saudana er líka fé nýtt til að herja stríð sem bitnar á saklausum borgurum. Hérna er ég auðvitað að vísa í átök í Jemen. Evrópumenn þurfa að hætta að hugsa sem svo að olía og gas dregin upp úr fjarlægum skikum sé eitthvað betri en sú sem er hægt að fá úr eigin bakgarði. Þýskur rafbílaeigandi keyrir á pólskri kolaorku og litlu skárri en nágranninn með sinn Dísel-bíl knúinn á norskri olíu.

Geir Ágústsson, 3.6.2022 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband