22.5.2022 | 12:09
Sleggjudómar stjórnarandstöðu hafa orðið henni til skammar
Lögmannsstofa hefur hrakið tilhæfulausar aðdróttanir nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna og fjölmiðlunga um brot Bankasýslu ríkisins á jafnræðisreglu laga um sölu ríkiseigna. Þar með er botninn hruninn úr innantómu glamrinu, sem tröllreið Alþingi og fjölmiðlum, ekki sízt RÚV "okkar allra", þar sem reglur um óhlutdræga umfjöllun fréttaefnis voru þverbrotnar og glott við tönn um leið. Ósvífnin og faglegt metnaðarleysi fréttamanna reið ekki við einteyming. Skyldu þeir hafa gengið þannig fram, ef hvarflað hefði að þeim, að þessi ósvífni áróður þeirra mundi helzt verða vatn á myllu Framsóknarflokksins ? Enn einn afleikur vinstri slagsíðunnar ?
Þann 18. maí 2022 birtist í ViðskiptaMogganum frétt um skýrslu lögmannsþjónustu um málsmeðferð Bankasýslunnar undir fyrirsögninni:
"Salan í samræmi við jafnræðisreglu".
Fréttin hófst þannig:
"Ákvörðun Bankasýslu ríkisins um að takmarka þátttöku í útboði á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð fól ekki í sér brot gegn jafnræðisreglu [í skilningi laga um sölu ríkiseigna - innsk. BJo]. Auk þess voru fullnægjandi ráðstafanir gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu.
Þetta er niðurstaða í lögfræðiáliti, sem Logos lögmannsþjónusta vann fyrir Bankasýsluna. ViðskiptaMoggi hefur álitið undir höndum."
Það er mikilsvert að fá þetta lögfræðiálit nú, því að það staðfestir, að lætin og moldviðrið fyrir kosningarnar út af þessari sölu voru farsi af ómerkilegustu gerð, þar sem þátttakendurnir hafa nú orðið að gjalti. Það verður fróðlegt að bera þetta lögfræðiálit saman við skýrslu Ríkisendurskoðunar. Niðurstaða Seðlabanka á líka eftir að birtast. Stjórnarandstaðan mun ekki ríða feitu hrossi frá þessari viðureign.
"Því hefur verið haldið fram í þjóðfélagsumræðu, m.a. af þingmönnum, að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu í útboðinu. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. í grein í Morgunblaðinu í byrjun maí [2022], að framkvæmd sölunnar hafi verið brot á jafnræðisreglu laga um sölumeðferð ríkis í fjármálafyrirtækjum. Aðrir þingmenn hafa talað á sambærilegum nótum, og vart þarf að rifja upp þá gagnrýni, sem varpað hefur verið fram í kjölfar sölunnar, en hún beinist annars vegar að Bankasýslunni og starfsaðferðum hennar við útboðið, en ekki síður að stjórnmálamönnum og þá sérstaklega Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsmálaráðherra."
Téður þingmaður, Helga Vala, mun vera lögfræðingur að mennt og svo er um fleiri, sem tjáð hafa sig digurbarkalega um þetta mál og fellt sleggjudóma. Þau hafa nú sýnt, að það er ekkert meira að marka þau um lögfræðileg álitaefna í pólitíkinni en hvern annan skussa á þingi eða á fjölmiðlunum. Fjöldi manns hefur gjaldfellt sig með sleggjudómum, en ráðherrann stendur keikur eftir með hreinan skjöld. Hann mismunaði engum, sem þýðir, að hann dró heldur ekki taum neins, eins og lágkúrulegir gagnrýnendur fullyrtu þó.
"Í beiðni Bankasýslunnar var Logos falið að svara þremur spurningum:
1) Hvort skilyrði um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án skilyrðis um lágmarkstilboð hafi falið í sér brot gegn jafnræðisreglu;
2) Hvort fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslu ríkisins til að tryggja aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu og
3) Hvort ákvörðun um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi verið andstæð jafnræðisreglu.
Sem fyrr segir kemst Logos að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð hafi ekki falið í sér brot gegn jafnræðisreglu. Þá telur Logos, að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun Bankasýslunnar um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi stuðzt við málefnaleg sjónarmið og verið í samræmi við jafnræðisreglu."
Upphrópanir og dylgjur ýmissa þingmanna og fjölmiðlunga af ódýrari endanum falla þar með dauð og ómerk, því að líklegt má telja, að Ríkisendurskoðun verði sama sinnis. Eins og sést af niðurlagi fréttarinnar, sem birt er hér að neðan, falla svigurmæli sömu aðila í garð fjármála- og efnahagsráðherra sömuleiðis niður dauð og ómerk, og kemur það höfundi þessa vefpistils ekki á óvart, enda hefur verið borðleggjandi frá upphafi, að hér væri á ferðinni stormur í vatnsglasi að undirlagi manna lítilla sæva og lítilla sanda, sem ættu að skammast sín, ef þeir kynnu það:
"Þá er einnig farið yfir aðkomu fjármálaráðherra að málinu og ákvörðun um söluna að loknu útboði, og er það niðurstaða Logos, að það [hún] hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög og góðar venjur."
Don Kíkóti Alþingis er ekki ánægður með þessa niðurstöðu, heldur sezt niður í fýlukasti og skrifar samhengislausan pistil í Moggann 19.05.2022 með fyrirsögn, sem sýnir, að hann heyrir bara í sjálfum sér:
"Að gelta og gjamma".
Björn Leví Gunnarsson skrifar m.a.:
"Já, það er áhugavert að vera kallaður hælbítur fyrir að finnast það ámælisvert, að enginn axli ábyrgð á þessum málum [sölu á 22,5 % hlut í Íslandsbanka - innsk. BJo]. Að vera sakaður um að dreifa áróðri fyrir að benda á spillinguna."
Þarna krystallast hundalógikk Píratans. Hann gefur sér fyrirfram, að um saknæmt athæfi sé að ræða, og rótar síðan og bölsótast eins og naut í flagi og heimtar, að þeir sem hann af fullkomnu dómgreindarleysi sínu er búinn að klína sök á, axli ábyrgð. Svona málflutningur eru ær og kýr þessa Pírata og fleiri á Alþingi og á fjölmiðlum, sem virðast aldrei hafa þroskazt upp fyrir sandkassastigið, með fullri virðingu fyrir því þroskaskeiði, sem er bæði skemmtilegt og gefandi, en verður ámáttlegt fyrir þá einstaklinga, sem festast í því.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll. Það sem mér fannst athugavert við þessa sölu var tvennt. 1: talað var um að selja eingöngu til fagfjárfesta. í mínum huga er fagfjárfestir sá sem eingöngu lifir á því að fjárfesta í fyrirtækjum. Ekki þeir sem eru í öðrum rekstri eins og t.d.Lyf og Heilsa sem selja lyf. Þessi lögmannsstofa er greinilega á öðru máli. 2: Afsláttur gefinn af matsverði. Það kom fram hjá bankasýslunni að umframeftirspurn var eftir þessum hlutum. Þessvegna mætti ætla að afsláttur væri ekki nauðsynlegur. Sú skýring kom fram að þetta væri venja og það að selja á matsverði myndi hafa óæskileg áhrif. Kann að vera en hversvegna ? Vegna áframhaldandi sölu á bankanum eða viðskipi á markaðnum? Þetta þarf að skýra til að eyða óvissu.
Jósef Smári Ásmundsson, 22.5.2022 kl. 14:21
Sæll, Jósef Smári; Ég er sammála þér um, að ætla mætti, að fagfjárfestir sinni þessu starfi alfarið, en þannig er skilgreiningin ekki, heldur er fagfjárfestir sá, sem vegna reynslu og þekkingar má ætla, að standi jafnfætis seljandanum varðandi áhættu fjárfestingarinnar og annað henni lútandi.
Komið hefur fram, að stærri fjárfestarnir á borð við lífeyrissjóðina sóttu á um afslátt, en minni fjárfestarnir voru tilbúnir að greiða hærra verð. Verðið stóð tiltölulega hátt á þessum tíma, held ég, a.m.k. fékkst þokkalegt verð, og hlutabréfamarkaðurinn sveiflaðist ekki í kjölfarið, en hann hefur síðan fallið talsvert af öðrum ástæðum (mikil vaxtahækkun og stríð).
Bjarni Jónsson, 22.5.2022 kl. 17:50
Þegar Bankasýslan pantaði þetta álit var lögfræðistofunni aðeins falið að svara þremur spurningum.
Engin þeirra sneri að því hvort brotið hafi verið gegn 2. mgr. 4. mgr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum nr. 155/2012, þar sem segir: "Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað", en fyrir liggur og hefur margítrekað verið staðfest að það gerði hann aldrei.
Pantað álit þar sem ekki er leitað svara um fyrirliggjandi lögbrot sem hefur meira að segja verið viðurkennt, er ekki mikils virði.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.5.2022 kl. 19:43
Sjáum til, hvað frá Ríkisendurskoðun kemur.
Bjarni Jónsson, 22.5.2022 kl. 21:41
Eins og þú segir réttilega þá sveiflast hlutabréfaverð út og suður
Í kauphöllinni er nú skráð verð á hlutabréfum í Íslandsbanka komið niður fyrir það verð sem Bankasýslan seldi bréfin á
Grímur Kjartansson, 24.5.2022 kl. 01:21
Einmitt, Grímur. Þus "beturvita" um of lágt verð fyrir bréfin er út í hött. Fjárhagslega var tímasetningin ekki slæm fyrir söluna, en hún reyndist vera það pólitískt, en sá nokkur fyrir sér sefasýkisleg viðbrögð í kjölfar sölu ?
Bjarni Jónsson, 24.5.2022 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.