Vatnsdalsvirkjun - góð hugmynd

Ekki er í fyrirsögn vísað til hinnar fögru sveitar Vatnsdals í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem höfundur þessa pistils ól manninn í 7 sumur við störf og leik og kynntist þar hefðbundnum landbúnaði landsmanna, sem þá var í óða önn að vélvæðast, heldur er átt við hérað Hrafna-Flóka á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Orkubú Vestfjarða hefur kynnt til sögunnar miðlungs stóra virkjun, þar sem virkjunartilhögunin fellur með eindæmum ljúflega að umhverfinu.  Kerfislega er staðsetningin alveg kjörin, og virkjunin (20 MW) er hagkvæm, því að þar má framleiða raforku inn á svelt Vestfjarðakerfið fyrir um 4,9 ISK/kWh m.v. upplýsingar í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 3. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Knúið á um Vatnsdalsvirkjun".

Hún hófst þannig:

"Hugsanleg Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði mun hafa mjög jákvæð áhrif á raforkuöryggi á Vestfjörðum.  Hún hefði tiltölulega lítil umhverfisáhrif að mati orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða [OV].  Umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi er í vinnslu hjá Orkustofnun [OS].  Forsenda þess, að orkukosturinn verði tekinn til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar er þó, að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðarfriðlands verði breytt."

Orkustofnun mun nú hafa haft téða umsókn OV til meðhöndlunar í tæpt ár.  Þessi langi meðgöngutími OS er óhæfilega og reyndar óbærilega langur í ljósi mikilvægis þess að skýra línur í orkuöflunarmálum Vestfirðinga.  Ekki verður séð, að skilvirkni stofnunarinnar hafi aukizt nokkurn skapaðan hlut, síðan stjórnmálafræðingurinn tók við starfi Orkumálastjóra, enda ekki við því að búast.  Menntun núverandi orkumálastjóra hjálpar henni ekkert við afgreiðslu þessa máls.  Hvað sem því líður er seinagangur OS við afgreiðslu tiltölulega einfaldra mála (s.s. þetta og virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun) óþolandi og ljóst er, að tilfinning stjórnenda þar á bæ fyrir brýnni úrlausn (e. sense of urgency) er ekki fyrir hendi. 

 "Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að tenging Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði við flutningskerfið sé aðeins um 20 km.  Með 20 MW grunnvirkjun þar og með því að framkvæma áform Landsnets um hringtengingar þaðan og um sunnan- og norðanverða Vestfirði væri hægt að draga úr straumleysistilvikum á þéttbýlisstöðum um 90 %.  Slík grunnvirkjun gæti kostað um mrdISK 10 og komizt í gagnið í lok árs 2028.  Elías bætir því við, að með því að auka afl virkjunarinnar í 30 MW án mikillar viðbótar framleiðslu [í GWh/ár - innsk. BJo] væri hægt að stýra kerfinu þannig, að ekki þyrfti að grípa til keyrslu olíuknúins varaafls, þótt tengingin við landskerfið rofnaði í einhverjar vikur.  Virkjun með auknu afli væri því hjálpleg í loftslagsbókhaldi landsins."

Hér eru álitlegar og efnilegar hugmyndir Vestfirðinga og Landsnets á ferðinni, og eins og áður sagði eru þær arðsamar, jafnvel með 10 MW viðbótar vél, þótt hún mundi nýtast aðallega í neyðarrekstri, þegar Vesturlína er straumlaus, og á meðan hin vél Vatnsdalsvirkjunar er frátengd kerfi vegna viðgerða eða viðhalds.  Keyrsla varavéla á olíu rímar ekki við stefnu yfirvalda í loftslagsmálum.  Vatnsdalsvirkjun getur orðið mikilvægur tengipunktur flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, sem mæta mun sjálfsögðum kröfum íbúa og fyrirtækja þar um aukið afhendingaröryggi.  Þess vegna er brýnt að veita þessum góðu hugmyndum brautargengi.  Eins og fyrri daginn reynir nú á yfirvöld orkumála, sem verða að fara að hrista af sér slenið. 

"Orkubú Vestfjarða sótti um rannsóknarleyfi vegna Vatnsdalsvirkjunar um mitt síðasta ár.  Elías segir, að Orkustofnun sé að leita umsagna.  Bendir hann á, að Orkustofnun hafi áður veitt fyrirtækinu leyfi til rannsókna í friðlandinu.  Það var vegna Helluvirkjunar, en hún er miklu minni og reyndist ekki [vera] hagkvæm."

Það er kyndugt að leita umsagna í heilt ár vegna umsóknar um rannsóknarleyfi.  Hjá OS eiga að vera sérfræðingar, sem leitt geta slíka umsókn til lykta á 1-2 mánuðum.  Áhuginn hjá stofnuninni á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu er greinilega ekki lengur fyrir hendi. 

"Spurður um áhrif á friðlandið segir Elías, að umhverfisáhrif yrðu lítil á láglendi.  Hins vegar yrði rask á landi ofan við 250 m yfir sjávarmáli við byggingu stíflu og stækkun lóna og styrkingu og lengingu vegslóða, en það sjái enginn neðan úr dalnum.  Hann bætir því við, að svæðið sé þegar raskað vegna raflína, sem þar liggi yfir.  Elías bendir á, að lagning nýs vegar um Dynjandisheiði hafi þegar valdið mun meira raski en búast megi við í Vatnsdal.  "Við teljum, að út frá náttúruverndarsjónarmiðum  yrði þetta rask talsvert minna en við sambærilegar framkvæmdir víða annars staðar."   

Tvö lítil stöðuvötn, Flókavatn og Hólmavatn, munu fara undir miðlunarlónið, svo að breytingin á ásýnd landsins yrði lítil.  Stöðvarhúsinu má koma snoturlega fyrir innst í dalnum og verður þá áreiðanlega aðdráttarafl fyrir ferðamanna.  Það er staðreynd, að virkjanir á Íslandi eru vinsælir áningarstaðir ferðamanna.  Vatnsdalsvirkjun mundi bæta aðgengi ferðamanna að náttúru landsins.  Slíka þætti ber að meta meira en forstokkuð fordæmingarviðhorf þeirra, sem dæma áður en virkjunartilhögun er fyrir hendi.

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu frétt:

"Elías segir heimilt samkvæmt lögum að aflétta kvöðum í friðlýsingarskilmálum, ef ríkir almannahagsmunir krefjist.  Telur hann, að svo hátti til með Vatnsdalsvirkjun, þegar litið sé til orkuöryggis Vestfjarða og möguleika á orkuskiptum á næstu árum og áratugum.  Þótt friðlýsingarskilmálum yrði breytt, er það engin trygging fyrir því, að verkefnisstjórn rammaáætlunar gefi grænt ljós á virkjun í Vatnsdal.  Einnig á eftir að vinna umhverfismat og fá önnur nauðsynleg leyfi."

Eins og fram kemur í þessari frétt, hefur orkubússtjórinn mikið til síns máls.  Hagsmunir Vestfirðinga eru svo ríkir í orkumálum að duga til að rökstyðja endurskoðun friðlýsingarskilmála á þessu virkjunarsvæði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband