Blekkingaleikur Landverndar

Margir hafa veitt mótsagnakenndum málflutningi Landverndar athygli, en talsmaður hennar og framkvæmdastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur reynt að skáka lygalaupinum Munchhausen í fjarstæðukenndum frásögnum af því, hvernig lifa mætti betra lífi í landinu með því að kippa um 150 mrdISK/ár út úr hagkerfinu með því að draga saman seglin í orkukræfum iðnaði og setja stoppara á ný virkjanaverkefni. 

Það bezta, sem um svona Munchhausen málflutning má segja er, að einfeldningar hafi ofmetnazt og farið inn á svið, sem þeir ráða ekki við. Líklegra er þó, að um vísvitandi blekkingar sé þarna að ræða, þar sem gerð er ósvífin tilraun til að kasta ryki í augu almennings varðandi þjóðhagslega þýðingu iðnaðarins og þörfina á nýjum virkjunum í landinu til að spara jarðefnaeldsneyti og efla hagvöxt sem undirstöðu lífskjarabata almennings og bætts velferðarkerfis.   

Það er eins og ábyrgðarlausir viðvaningar véli um mál hjá Landvernd.  Hvaða áhrif halda menn, að yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um, að hún óskaði eftir því í nafni orkuskipta, að orkufyrirtæki með samninga við orkukræfan iðnað tilkynntu þessum viðskiptavinum sínum, að þau stefndu á helmingun orkusölunnar til þeirra við fyrsta tækifæri. Traust fjárfesta, erlendra sem innlenda, í garð íslenzkra stjórnvalda og Íslands sem fjárfestingarlands mundi gufa upp í einni svipan.

  Þetta mundi leiða til fjármagnsflótta frá landinu og lækkunar á gengi ISK að sama skapi. Þetta yrði bara upphaf stórfelldrar kjaraskerðingar almennings, og samneyzlan yrði að sjálfsögðu að laga sig að tekjulækkun ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þetta er svo foráttuvitlaus boðskapur Landverndar, að vart er á hann orðum eyðandi, en samt hefur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, SI, dr Sigurður Hannesson, séð sig knúinn til að leggja hér orð í belg.  Landvernd hefur á undanförnum árum farið mikinn, tafið mörg framfaramál, ekki sízt með rekistefnu fyrir dómstólum, en nú hefur hún skotið sig í fótinn með yfirgengilegum fíflagangi.

Í Morgunblaðinu 30. júní 2022 tjáðu Sigurður Hannesson og Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, sig við blaðamenn Morgunblaðsins undir fyrirsögninni: 

"Afleiðingin yrði lakari lífskjör".

Upphaf fréttarinnar var þannig:

 "Talsmenn Samtaka iðnaðarins (SI) og Viðskiptaráðs eru ósammála þeirri afstöðu framkvæmdastjóra Landverndar til orkumála, sem kom fram í Morgunblaðinu á þriðjudag [28.06.2022].Ekki nægi að forgangsraða þeirri orku, sem þegar er framleidd, til að mæta aukinni orkuþörf í stað þess að fjölga virkjunum, eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur lagt til, að mati Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI."Íslenzkt samfélag hefur hagnazt ríkulega á orkusæknum iðnaði.  Innlendur kostnaður álveranna á síðasta ári var mrdISK 123.  Það er það, sem varð eftir hér", segir Sigurður.  "Nærri 2 þús. manns eru á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum ásamt verktökum auk afleiddra starfa." Það er ekkert til, sem heitir "forgangsröðun orku", sem þegar hefur verið samið um, nema í skömmtunarástandi.  Landvernd endurvarpar kreppu- og ofríkishugarfari, sem getur ekki leitt til annars en tjóns og líklega lögsókna fyrir dómstólum, jafnvel athugasemda frá ESA og lögsókna gegn orkufyrirtækjunum og/eða eigendum þeirra fyrir ómálefnalega mismunum, þegar aðrar og mun nærtækari lausnir eru í boði.  Landvernd er gegnsýrð af forræðishyggju og boðar, að orkufyrirtækin skuli sitja og standa, eins og ríkið (í höndum trúfélaga Landverndar) skipar fyrir.  Það er einfaldlega óleyfilegt samkvæmt reglum Innri markaðar EES, og innan ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) er áreiðanlega engin samúð með þeim sérlundaða boðskap Landsverndar, að á Íslandi megi ekki virkja meiri endurnýjanlegar orkulindir, á sama tíma og orkuskorturinn er svo grafalvarlegur í Evrópu, að verið er að ræsa gömul kolaorkuver og hætt er við að  loka um 7 kjarnorkuverum um sinn.  Der Zeitgeist (andi tímans) er á móti Landvernd, þótt hún þykist boða nútímalega stefnu.  Stefna Landverndar er fátæktarstefna, og hún hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni með því að tefja orkuframkvæmdir úr hófi fram.  Þegar tekið er tillit til fjölda á launaskrá orkukræfs iðnaðar, verktakanna, sem fyrir þennan iðnað vinna, bæði innan verksmiðjugirðinga og utan, til starfsmanna orkufyrirtækjanna og flutningafyrirtækjanna, sem vinna í aðfanga- og frálagskeðju orkukræfs iðnaðar, er varfærið að áætla, að um 12 þúsund ársverk sé þar að ræða, og fleiri bætast þar við á tímum verulegra nýframkvæmda.  ""Við yrðum verr sett sem samfélag, ef við ætluðum að fórna verðmætasköpun orkusækins iðnaðar til að framleiða rafeldsneyti í þágu orkuskipta", segir Sigurður.  Þá megi ekki gleyma því, að orkusækinn iðnaður, og hugverkaiðnaður að einhverju leyti, séu einu útflutningsgreinarnar, sem nýta eingöngu hreina orku. Aðrar útflutningsgreinar, eins og ferðaþjónusta og sjávarútvegur, noti fyrst og fremst [aðallega] olíu til að knýja verðmætasköpun, sem byggir mikið á flutningum í lofti, á landi og á sjó. Orkuskipti muni þá ganga út á að nota hreina raforku til að framleiða hreina orkugjafa fyrir þessar greinar.  Sigurður segir, að þróun í þá átt sé komin á fleygiferð og rifjar upp, að Samskip hafi nýlega fengið myndarlegan styrk úr norskum sjóði til að gera tilraunir með hreina orkugjafa á skip." Umrædd stefnumörkun Landverndar er aðeins enn eitt dæmið um þá þröngsýni, sem ríkir á þeim bæ.  Hvergi á Vesturlöndum mundi það verða talið ábyrg ráðstöfun íslenzkra orkufyrirtækja að undirlagi ríkisvaldsins að hætta að selja allt að helming þeirrar sjálfbæru raforku, sem nú fer til orkukræfs iðnaðar á Íslandi, því að sú framleiðsla og jafnvel meira mundi þá færast til landa, sem bjóða raforku að mestu leyti framleidda með jarðefnaeldsneyti.  Þannig er boðskapur Landverndar eins umhverfisfjandsamlegur og hugsazt getur á tímum stórfelldrar vöntunar á endurnýjanlegum og kolefnisfríum orkugjöfum.  Við ættum yfir höfði okkar útskúfun á alþjóðavettvangi sem umhverfissóðar og blindingjar, sem ekki skilja þá alvarlegu stöðu, sem orkumál heimsins eru í og verða, þar til orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti hafa farið fram. Landvernd getur ekki notið snefils af trausti eða tillitssemi eftir þetta síðasta útspil, sem setur hana í hóp umhverfissóða á alþjóðavísu. "Hann [dr Sigurður] bendir á, að við séum engu bættari með að taka orku af iðnaði og nýta til annarra greina.  Það auki ekki verðmætasköpun, heldur leiði til stöðnunar og verulegrar afturfarar varðandi lífskjör landsmanna.   "Við breytum hvorki lögmálum hagfræðinnar né eðlisfræðinnar.  Raunveruleikinn er eins og hann er, og við þurfum að laga okkur að því.  Markmið stjórnvalda eru metnaðarfull, og hér er verið að taka ábyrga afstöðu í umhverfismálum í þágu okkar og heimsins alls.  Við hljótum að vilja róa að því öllum árum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum", segir Sigurður." Þarna flettir framkvæmdastjóri SI á sinn hátt ofan af sértrúarsöfnuðinum, sem kallar sig "Landvernd", en ástundar ekki "ábyrga afstöðu" til umhverfismála og er þess vegna ekkert annað en forstokkaður hópur um stöðnun samfélagsins á öllum sviðum, "núllvöxt", sem auðvitað leiðir óhjákvæmilega til hrörnunar samfélagsins, aukinnar eymdar og fátæktar.  Eina leiðin fram á við er að auka skilvirkni á öllum sviðum til að gera landið samkeppnishæfara við útlönd, varfærin og sjálfbær aukin nýting auðlinda með beztu þekkingu og tækni að vopni til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og auka framleiðslu landsmanna til að standa undir hagvexti og bættum lífskjörum.   Téðri frétt Morgunblaðsins lauk þannig: "Jóhannes [Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs] ítrekar, að fjórðungur srarfa á Íslandi sé í iðnaði og þaðan komi fimmtungur landsframleiðslu.  Hann segir [því] enn þá ósvarað, hvað eigi að koma í staðinn fyrir stóriðjuna, og hver annar eigi að greiða fyrir uppbyggingu á dreifikerfinu [flutningskerfi raforku-innsk. BJo].Bætir hann við, að Auður nefni ferðaþjónustuna sem betri kost en stóriðju, en að hans mati er ferðaþjónusta ágæt, þangað til hún er það ekki.  Vísar hann þá til kórónuveirufaraldursins, og hversu sveiflukenndur ferðamannageirinn er.  Að auki tekur hann fram, að ferðaþjónusta sé ekki með háa framleiðni, heldur þvert á móti og krefjist mikils vinnuafls.  "Auðvitað þarf alltaf að huga að forgangsröðun orku, en ef við ætlum að viðhalda efnahagslegri velferð þjóðarinnar, verður það ekki gert með því að draga úr orkunotkun þjóðarinnar.  Það eru draumórar", tekur Jóhannes fram í lokin." Orkukræfur iðnaður og ferðaþjónusta eru ósambærilegar atvinnugreinar, andstæður að flestu leyti hérlendis.  Þar sem hagsmunir þeirra rekast þó engan veginn á hérlendis, fara þessar tvær atvinnugreinar ágætlega saman og höfða til ólíkra aðila í þjóðfélaginu.  Saman gera þær hagkerfi og samfélag sterkara.  Það er rangt, að virkjanir fæli ferðamenn frá og loftlínum fækkar í landinu.  Hérlendar virkjanir eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en öðru máli gegnir um vindorkuverin. Það er þó önnur saga. isal_winter  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Að mínum dómi er þetta einhver besta grein sem hefur verið skrifuð um þetta lið.........

Jóhann Elíasson, 4.7.2022 kl. 14:21

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jóhann.  Það hefur jafnan vakið furðu mína, hversu snögg upp á lagið Landvernd hefur verið gagnvart áformuðum orkuframkvæmdum, jafnvel áður en framkvæmdatilhögun hefur verið kynnt.  Tilgátan um, að umhverfisvernd sé yfirskin eitt, en aðalatriðið sé að koma í veg fyrir framfaraverkefni, sem eru grunnur að atvinnusköpun og vexti hagkerfisins, skýrir þessa héralegu hegðun.  

Bjarni Jónsson, 4.7.2022 kl. 17:55

3 Smámynd: rhansen

storhættulegt lið ..og skrif þessarar konu syna inngrip hun hefur i land og þjóð ...Nkl ekkert ! Eins og allir aðrir hennar pistlar syna ... 

rhansen, 4.7.2022 kl. 18:37

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta lið talar um að flýta "orkuskiptunum" en svo má ekki virkja eina einustu sprænu.  Í mínum huga gengur þessi málflutningur ekki upp....

Jóhann Elíasson, 5.7.2022 kl. 07:57

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jóhann: Auðvitað gengur hún ekki upp í raunveruleikanum, en forysta Landverndar er veruleikafirrt og hefur fengið þá brjálæðislegu hugmynd, að yfirvöld hér skuli beita sér fyrir samdrætti í sölu raforku um allt að 50 % til orkukræfs iðnaðar.  Þetta er fjárhagsleg og atvinnuleg vitfirring á háu stigi.  Slíkt yrði algert einsdæmi í landi, sem státar af nægum óvirkjuðum endurnýjanlegum orkulindum.  Umhverfisvernd er aukaatriði hjá þessu fólki (mengun á alþjóðavísu mundi aukast), en neyzlusamdráttur hjá almenningi aðalatriðið.  Nú hafa þau opinberað sig og um leið skotið sig í fótinn. 

Bjarni Jónsson, 5.7.2022 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband