Þrengist í búi

Það hefur vakið athygli í fyrirlitlegum og glæpsamlegum landvinningahernaði Rússa í Úkraínu, hversu frumstæð, illa skipulögð og mistakagjörn hervél Rússa er í baráttunni við mun fámennari her hraustra og hugrakkra Úkraínumanna, sem fram að þessu hefur skort þungavopn.  Hið síðast nefnda stendur nú til bóta vegna síðbúinna vopnasendinga Vesturveldanna.  Úkraínumönnum berast nú vopn, sem hermenn þeirra hafa hlotið þjálfun á, og vonir standa til, að í krafti þeirra muni Úkraínumönnum verða vel ágengt í gagnsóknum með haustinu (2022).

Stórbokkaháttur og ósvífni forystu Rússlands er með eindæmum í þessu stríði, en nýjasta stóra asnasparkið í þessum efnum kom frá Medvedev, þekktum kjölturakka Putins, í þá veru, að það stappaði nærri geggjun að ætla að saksækja forystu Rússlands, mesta kjarnorkuveldis heims, fyrir stríðsglæpi. Á öllum sviðum hernaðar hefur geta Rússlands hingað til verið stórlega ofmetin.  Það hefur opinberazt í stríði þess við Úkraínu. Það er litlum vafa undirorpið, að þetta frumstæða og árásargjarna ríki færi sjálft langverst út úr því að hefja kjarnorkustríð. Það er kominn tími til að jarðsetja það yfirvarp Rússlandsforystunnar og dindla hennar, að Rússum hafi staðið slík ógn af NATO og mögulegri aðild Úkraínu að þessu varnarbandalagi, að þeir hafi séð sig til neydda að hefja innrás í Úkraínu og ekki skirrast við stríðsglæpum og þjóðarmorði þar.  Þetta er falsáróður og helbert skálkaskjól heimsvaldasinnaðs og árásargjarns ríkis. 

Á einu sviði hefur Rússland kverkatak á Vesturlöndum þrátt fyrir almennan vanmátt, en það er á orkusviðinu, en sú tíð verður vonandi liðin eftir 2 ár. Vesturlönd hafa stöðvað kolakaup af Rússlandi og eru þegar farin að draga úr kaupum á olíuvörum og jarðgasi þaðan og reyna að beina kaupum sínum annað og til lengri tíma að framkvæma orkuskipti, en það er víðast risaátak.  Þetta hefur valdið miklum verðhækkunum á jarðefnaeldsneyti á heimsmarkaði, sem, ásamt annarri óáran í heiminum, gæti valdið eftirspurnarsamdrætti og efnahagskreppu af gerðinni "stagflation" eða verðbólgu með samdrætti og stöðnun.

Þetta virðist nú veita þjóðarbúskap Íslendinga högg, sem óhjákvæmilega mun bitna á lífskjörum þjóðarinnar.  Ef aðilar vinnumarkaðarins semja ekki um kaup og kjör í haust með hliðsjón af versnandi stöðu þjóðarbúsins, gæti brotizt hér út verðbólgubál, stórhættulegt fyrir atvinnulífið og hag heimilanna.

Tíðindi af þessum umsnúningi til hins verra bárust með Morgunblaðsfrétt 07.07.2022 undir fyrirsögninni:

"Olíuverðið farið að bíta".

Hún hófst þannig:

"Vísbendingar eru um, að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi gefið eftir á 2. [árs]fjórðungi [2022] samhliða hækkandi olíuverði.  Höfðu þau þó ekki verið jafnhagfelld síðan haustið 2007."

Þótt hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun þjóðarinnar sé aðeins um 15 %, vegur kostnaður þess þó þungt við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og á viðskiptajöfnuðinn, einkum þegar þegar svo mikil hækkun verður á eldsneytinu, að það dregur úr kaupmætti almennings og framleiðslugetu fyrirtækja á meðal þjóða, þar sem hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun er yfir 2/3, eins og víðast er, eða jafnvel 85 %, og slíkt á við um ýmsar viðskiptaþjóðir okkar.  Frá ársbyrjun 2022 til 06.07.2022 hefur verð Norðursjávarolíu hækkað úr 75 USD/tunna í 114 USD/tunna eða um 52 %. Íslendingar eru þó í þeirri kjörstöðu að geta dregið úr þessum sveiflum viðskiptakjara, en þó með töfum vegna fyrirhyggjuleysis við orkuöflun, eins og minnzt verður á hér á eftir. 

""Fiskverð sem hlutfall af hráolíuverði hefur lækkað verulega á einu ári eða um rúm 30 %. Svipaða sögu er að segja af álverði, en lækkunin er ekki jafnmikil vegna hás álverðs.  Bæði álverðið og olíuverðið eru kauphallarverð, en fiskverðið kemur í grunninn frá Hagstofunni, en mælikvarðinn þar er s.k. verðvísitala sjávarafurða", segir Yngvi [Harðarson hjá Analytica]." 

Í þessu tilviki kann að vera um árstíðabundinn öldudal að ræða ásamt leiðréttingu á skammtímatoppi eftir Kófið, en einnig kann að vera um verðlækkun sjávarafurða og áls að ræða vegna minni kaupmáttar neytenda á mörkuðum okkar sakir mikils kostnaðarauka heimila og fyrirtækja af völdum verðhækkana jarðefnaeldsneytis, en verð afurða okkar voru reyndar í hæstu hæðum í vetur eftir lægð Kófsins.

Megnið af eldsneytisnotkun íslenzka sjávarútvegsins er á fiskiskipunum, og hann  hefur tæknilega og fjárhagslega burði til að laga vélar sínar að "rafeldsneyti" eða blöndu þess og hefðbundins eldsneytis.  Þessa aðlögun geta líka flutningafyrirtækin á landi og sjó framkvæmt, sem flytja afurðirnar á markað, en lengra er í það með loftförin. 

Innlent eldsneyti mun draga úr afkomusveiflum sjávarútvegs og þjóðarbús og hjálpa til við að ná loftslagsmarkmiðunum, sem stjórnvöld hafa skuldbundið þjóðina til á alþjóða vettvangi án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að liðka fyrir orkuöflun virkjanafyrirtækja.  Þarna er allt innan seilingar, svo að ekki er eftir neinu að bíða öðru en raforku frá nýjum virkjunum, en hún virðist raunar lítil verða fyrr en e.t.v. 2027. Það er til vanza fyrir landsmenn í landi mikilla óbeizlaðra, hagkvæmra og sjálfbærra orkulinda.  

Aðra sögu er að segja af áliðnaðinum.  Þar er enn ekkert fast í hendi með að verða óháður kolum, en þau eru notuð í forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna, um 0,5 t/tAl.  Morgunblaðið birti 07.07.2022 útreikninga á rekstrarkostnaði álvers Century Aluminium í Hawesville, Kentucky, þar sem raforkuverðið hefur síðan í ársbyrjun 2021 stigið nánast stöðugt úr 25 USD/MWh í 100 USD/MWh í júlíbyrjun 2022. Þetta hefur skiljanlega snúið hagnaði af verksmiðjunni í rekstrartap, svo að þar verður dregið úr framleiðslu og jafnvel lokað. Þannig hefur orkukreppan náð til Bandaríkjanna, a.m.k. sumra ríkja BNA, og er þar með orðin að heimskreppu minnkandi framboðs og eftirspurnar, þar sem svimandi hátt orkuverð kæfir báðar þessar meginhliðar markaðarins. 

Þetta sést bezt með því að athuga meginkostnaðarliðina í USD/t Al og bera saman við álver á Íslandi:

  •                        Kentucky Ísland
  • Rafmagnskostnaður      1500     600
  • Súrálskostnaður         760     800
  • Rafskautakostnaður      500     600
  • Launakostnaður          200     200
  • Flutningur afurða        50     150
  • Alls                   3010    2350

 Markaðsverð LME fyrir hráál er um þessar mundir um 2400 USD/t Al, svo að rekstur íslenzka álversins með hæsta raforkuverðið slyppi fyrir horn, þótt ekkert sérvöruálag (premía) fengist fyrir vöruna, en hún er um þessar mundir um 500 USD/t Al, svo að framlegð er um 550 USD/t Al m.v. núverandi markaðsaðstæður eða tæplega fimmtungur af tekjum fyrir skattgreiðslur.  Þarna skilur á milli feigs og ófeigs.  Það borgar sig ekki að halda Kentucky-verksmiðjunni í rekstri, nema þar sé kaupskylda á verulegum hluta raforkusamnings, en þar sem raforkuverðið sveiflast eftir stöðu á orkumarkaði, er álverið líklega ekki bundið af kaupskyldu.  Þetta sýnir kosti þess fyrir kaupendur og seljendur raforkunnar að hafa langtímasamninga sín á milli, og það kemur líka mun betur út fyrir launþegana og þjóðarhag. 

Það er yfirleitt ládeyða á álmörkuðum yfir hásumarið.  Nú hafa Kínverjar heldur sótt í sig veðrið aftur við álframleiðslu, en Rússar eru lokaðir frá Evrópumarkaðinum, og álverksmiðjur víða um heim munu draga saman seglin eða þeim verður lokað vegna kæfandi orkuverðs.  Þess vegna má búast við hóflegri hækkun álverða á LME, þegar líða tekur á sumarið, upp í 2700-3000 USD/t Al. Það dugar þó ekki téðu Kentucky-álveri til lífs, nema kostnaður þess lækki.

Iðnaðurinn á Íslandi er í tæknilega erfiðari stöðu en sjávarútvegurinn við að losna við losun gróðurhúsalofttegunda. Tilraunir eru í gangi hérlendis með föngun koltvíildis úr kerreyknum, og það eru  tilraunir í gangi erlendis með iðnaðarútfærslu með byltingarkennt rafgreiningarferli án kolefnis.  Rio Tinto og Alcoa standa saman að tilraunum með nýja hönnun í Kanada, og Rio Tinto á tilraunaverksmiðju í  Frakklandi.  Þar er að öllum líkindum sams konar tækni á ferðinni og frumkvöðlar á Íslandi hafa verið með á tilraunastofustigi.  

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), reit stuttan og hnitmiðaðan pistil í Fréttablaðið, 06.07.2022, undir fyrirsögn, sem vitnar um bjartsýni um, að jarðarbúum muni með kostum sínum og göllum takast að komast á stig sjálfbærni áður en yfir lýkur:

"Bætt heilsa jarðar".

 

Pistlinum lauk undir millifyrirsögninni:

"Aukin orkuöflun í þágu samfélags".

"Eigi þessi framtíðarsýn [Ísland óháð jarðefnaeldsneyti 2040-innsk. BJo] að verða að veruleika, þarf að afla meiri orku á Íslandi og nýta hana betur.  Til þess eru mörg tækifæri án þess að ganga um of á náttúruna.  Þannig er hægt að nýta gjafir jarðar og njóta þeirra á sama tíma [jafnvel betur en ella vegna bætts aðgengis og fræðslu í stöðvarhúsum nýrra virkjana-innsk. BJo].  

Vonandi verður tilefni til að fagna árangri í loftslagsmálum árið 2040.  Íslenzkur iðnaður mun ekki láta sitt eftir liggja til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og að skapa aukin verðmæti."

Það er stórkostlegt, að Íslendingar skuli vera í raunhæfri stöðu til að verða nettó-núll-losarar gróðurhúsalofttegunda eftir aðeins 18 ár og auka jafnframt verðmætasköpunina.  Eins og orkumál heimsins standa núna (raunverulega enginn sjálfbær, stórtækur frumorkugjafi), eru Íslendingar orkulega í hópi örfárra þjóða í heiminum, en hafa skal í huga, að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki.  Íslendingar mega ekki láta villa sér sín, þegar kemur að því að velja orkulindir til nýtingar.  Það má ekki skjóta sig í fótinn með því að ofmeta fórnarkostnað við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir og vanmeta samfélagslegan ábata þeirra og hrökklast síðan í neyð sinni í vindorkuveravæðingu, jafnvel úti fyrir ströndu, eins og þjóðir, sem skortir téðar orkulindir náttúrunnar. Tíminn líður, og embættismenn Orkustofnunar draga enn lappirnar við úthlutun sjálfsagðra virkjanaheimilda, og geta vissulega gert landsmönnum ókleift að standa við markmiðið um Ísland óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.   

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Voðaverk Rússa eru algjörlega óafsakanleg, það er rétt. En kannski er það rétt hjá Páli Vilhjálmssyni að of hörð afstaða Borisar Johnsonar hafi flýtt fyrir afsögn hans. 

 

Þetta er mjög snúið mál.

 

Þetta er prýðileg grein og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir raunveruleika málsins, að það er snúið að fara í umhverfisvæna orkugjafa, en vonandi að það takist þó.

 

Eitt af því sem við Íslendingar getum verið stoltir af er árangurinn í umhverfismálum.

Ingólfur Sigurðsson, 9.7.2022 kl. 15:40

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég held, að það sé ímyndun ein, að einarður stuðningur Borisar Johnsons við Úkraínumenn, sem þeir eru honum augljóslega ævaranlega þakklátir fyrir, hafi flýtt fyrir falli hans.  Fremur hitt, að drengilegur stuðningur hans við Úkraínumenn í orði og á borði hafi tafið fyrir lokaatlögunni að honum. Bretar hafa gefið öðrum gott fordæmi í þessum efnum og kunna því ekki illa.  

Stærsta verkefni Íslendinga á sviði umhverfisverndar er og verður um sinn landgræðsla til að stöðva uppfok lands.  

Bjarni Jónsson, 9.7.2022 kl. 17:55

3 Smámynd: Hörður Þormar

Otto von Habsburg, f.1912, var krónprins austuríska keisaradæmisins. Í ferðalagi til Dresden, rétt fyrir fall múrsins, komst hann í kynni við fyrrv. fanga KGB. Lýstu þeir aðbúnaði í fangabúðunum og kom þar við sögu sérstaklega hrottafenginn maður, að nafni Vladimir Putin.

 Árið 2003  hélt Otto von Habsburg ræðu þar sem hann ræddi um nauðsyn þess að viðhalda hervörnum. Varaði hann eindregið við þessum nýja forseta Rússlands, vitnaði m.a.í ræðu sem Putin hélt í janúar, árið 2000, þar sem hann lýsti áformum sínum um að endurreisa Rússland sem heimsveldi. Því miður tóku fáir mark á aðvörunum þessa 91 árs gamla manns. Otto von Habsburg lést árið 2011.

Ræðan er haldin á þýsku en er með tölvuþýddum textum, vonandi skiljanlegum:                          Otto von Habsburg warnt vor Putin           

Hörður Þormar, 9.7.2022 kl. 21:41

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Áhyggjur og aðvaranir Ottos von Habsburg við þessum fyrrverandi KGB-liða, Vladimir Putin, voru algerlega réttmætar.  Hann hefur virkjað rétttrúnaðarkirkjuna fyrir rússneska yfirgangs- og útþenslustefnu, og Kiril, höfuðklerkur í Moskvu, hefur lýst yfir heilögu stríði til að endurheimta fyrrverandi nýlendur Rússlands í vestri undir kúgun Rússa.  Putin rekur stórrússneska yfirráðastefnu, sem er sambærileg stórþýzku yfirráðastefnu þjóðernisjafnaðarmanna 1933-1945.  Rússland og Rússaher eru hins vegar gegnum morkin af spillingu, enda hafa allar greinar rússneska hersins reynzt afspyrnu lélegar.  Rússar reka þann fyrirlitlega og lágkúrulega hernað að sprengja upp innviði og íbúðarhús fólksins og fremja þannig stríðsglæpi og þjóðarmorð.  Fyrir vikið uppskera þeir fyrirlitningu heimsins og langvarandi útskúfun.  Putin er í stríði við Vesturlönd og vestræn gildi, en her hans er vanmáttugur og skortir baráttuanda.  Hann reynir að vega það upp með lygum um mátt Rússlands jafnframt því, sem hann reynir að sá fræjum ótta og innbyrðis tortryggni á Vesturlöndum.  

Bjarni Jónsson, 10.7.2022 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband