21.7.2022 | 17:30
Lítt af setningi slegið
Þegar tilkynnt var um ofureðlileg kaup almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, gaus upp moldviðri loddara og lýðskrumara, sem létu aðalatriði málsins lönd og leið, en einbeittu sér að hugðarefnum sínum, sem eiga það sameiginlegt að vera sjávarútveginum skaðleg. Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, og hann verður að reka á viðskiptagrundvelli. Með rekstur hans er ekki hægt að hlaupa eftir illa ígrundaðri hugmyndafræði um "réttlæti" í ráðstöfun hagnaðar af fjárfestingum í greininni.
Aðalatriði málsins er, að hlutverk íslenzks sjávarútvegs er að skapa hámarksverðmæti úr auðlind íslenzkra fiskimiða fyrir íslenzkt þjóðarbú, enda er auðlindin í þjóðareign, þótt enginn eigi óveiddan fisk í sjó, og þar með hefur ráðherra það mikla vald til inngripa í þessa atvinnugrein að setja aflamark í hverri tegund á hverju fiskveiðiári, og Hafrannsóknarstofnun getur lokað svæðum fyrir fiskiskipum í verndarskyni.
Hverjir fá að stunda sjóinn og eiga aflahlutdeild í hverju settu aflamarki réðist í upphafi af aflareynslu og síðan 1989 af markaðinum upp að hámarksaflahlutdeild í hverri tegund. Algengast er 20 % kvótaþak, en þó aðeins 12 % í þorski per fyrirtæki. Þetta fiskveiðistjórnunar fyrirkomulag hefur tryggt Íslendingum skilvirkasta sjávarútveg í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Greinin varð arðbær í flestum árum, eftir að nægilegri lágmarks samþjöppun var náð, og hún greiðir meira til samfélagsins en aðrar atvinnugreinar. Er það réttlátt, t.d. gagnvart almenningshlutafélögum í greininni, sem berjast við fyrirtæki í öðrum greinum um fjármagn ?
Íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin flytja yfir 96 % afurða sinna á erlendan markað og eiga þar í flestum tilvikum í höggi við stærri fyrirtæki en þau eru sjálf, fyrirtæki, sem njóta þar að auki fjárhagsstuðnings hins opinbera í sínu landi og greiða sáralítið þangað í samanburði við íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Alþingismenn hafa ekki látið sinn hlut eftir liggja við að skekkja samkeppnisstöðu þessarar greinar á erlendum fiskimörkuðum og innlendum fjármagns- og vinnumarkaði. Verða þeir að gæta að sér að mismuna ekki þessari grein úr hófi fram.
Hælbítar íslenzks sjávarútvegs spanna litrófið frá vinstri-sósíalistum með böggum aflóga hugmyndafræði austur-þýzka alþýðulýðveldis Walters Ulbricht og Erichs Honecker til áhangenda kenningarinnar um, að Íslandi sé bezt borgið alfarið innan vébanda Evrópusambandsins - ESB, þ.e. "við borðið", en ekki bara á Innri markaði ESB, eins og 2 önnur EFTA-ríki með EES-samninginum, sem gildi tók 1. janúar 1994.
Sameiginlegt málflutningi allra þessara aðila er að mæla fyrir ráðstöfunum, sem veikja mundu samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins stórlega, og þar með óhjákvæmilega draga úr getu hans til verðmætasköpunar fyrir íslenzka þjóðarbúið úr auðlind þjóðarinnar í lögsögunni og utan hennar samkvæmt samningum ríkisstjórnarinnar. Þessi málflutningur hælbítanna er þess vegna klæddur í búninga, sem eiga að hætti lýðskrumara að höfða til mismunandi fólks. Annars vegar er lofað gríðarlega auknum skatttekjum ríkissjóðs af sjávarútveginum, og hins vegar er lofað uppboðsmarkaði veiðiheimilda og um leið árlegum afskriftum veiðiheimilda þeirra, sem fengu þær úthlutaðar á grundvelli veiðireynslu og/eða hafa keypt þær hingað til. Í raun er þetta sami grautur í sömu skál, sem endar í þjóðnýtingu útgerðanna, þegar öllu er á botninn hvolft. Hvorug aðferðanna er til þess fallin að hámarka verðmæti auðlindar þjóðarinnar í hafinu, heldur munu þær rýra hinn þjóðhagslega hagnað frá því, sem hann getur orðið, ef atvinnugreinin fær að þróast í friði fyrir loddurum, sem lítið skynbragð bera á það, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi, til að atvinnugreinar fái að njóta sín. Engin góð reynsla frá öðrum þjóðum mælir þessum dillum málsbót.
Sjónarhólsgrein um alþjóðaviðskipti birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2022 eftir Stefán E. Stefánsson, blaðamann, undir fyrirsögninni:
"Skref í rétta átt".
Þar stóð m.a.:
"Kaupin á Vísi eru því áhættudreifing í sinni tærustu mynd. Það má ekki sízt sjá, þegar borið er saman úthlutað aflamark [aflahlutdeild] Síldarvinnslunnar annars vegar og Vísis hins vegar í mikilvægum botnfisk- og uppsjávartegundum. Fyrir kaupin var Síldarvinnslan aðeins með 2,7 % hlutdeild í þorski, en Vísir 5,4 %. Í ýsu var hlutdeild Síldarvinnslunnar 3,8 %, en Vísis 6,1 %, og í síld og loðnu er hlutdeild Síldarvinnslunnar í úthlutuðu aflamarki annars vegar 16 % og hins vegar 18 %, [á] meðan hlutdeild Vísis er 0 %. Styrkurinn, sem felst í kaupunum á Vísi er því að efla Síldarvinnsluna í botnfiski."
Þetta er vafalaust hárrétt athugað hjá Stefáni E., og slíkar aðgerðir fyrirtækja eru öllum í hag og koma hvorki Samkeppnisstofnun né stjórnmálamönnum við. Með öflugri stoðir mun Síldarvinnslan standa betur að vígi í samkeppninni á erlendum mörkuðum, þar sem hún samt verður tiltölulega lítil. Sterkari staða á markaði þýðir, að hún getur fengið betri viðskiptakjör á fiskmörkuðum. Þetta er aðalatriði máls, og að hóta fyrirtækjunum enn hærri skattheimtu, af því að þau eru öflug og vel rekin og hafa í sér stækkunarkraft, eins og jafnvel innviðaráðherra gerði sig sekan um, er fyrir neðan allar hellur.
Hér er um að ræða almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands, sem sækir sér fé á hlutabréfamarkað, t.d. til lífeyrissjóða, og stjórnmálamenn verða að gæta að sér og kunna sér hóf í málflutningi, svo að ekki sé hægt að saka þá um atvinnuróg og brot á stjórnarskrárreglu um jafnræði til atvinnufrelsis.
"Við kaupin á Vísi upphófst gamalkunnur söngur þeirra, sem alla tíð hafa öfundazt út í sjávarútveginn hér á landi og þann glæsta árangur, sem náðst hefur í uppbyggingu margra fyrirtækja á þessu sviði. Þeir hinir sömu skella skollaeyrum við öllum þeim rökum, sem borin eru á borð varðandi styrkleika íslenzka kvótakerfisins og þá þrotlausu vinnu, sem lögð hefur verið í uppbyggingu þessara sömu fyrirtækja. Engu er líkara en þessir sömu aðilar telji kerfisbreytingar æskilegar, sem mundu draga enn frekar úr fyrirsjáanleika og ganga af þeirri áhættudreifingu, sem þó er fyrir hendi innan greinarinnar, gjörsamlega dauðri."
Sjávarútvegur er sjálfstæð atvinnugrein, en ekki tilraunaleikhús stjórnmálamanna og annarra viðvaninga á sviði fyrirtækjarekstrar. Fiskveiðiauðlindin er eign þjóðarinnar, en stjórnmálamenn seilast um hurð til lokunnar, þegar þeir halda, að þetta gefi þeim heimild til að ráðskast með sjávarútveginn á leiksviði fáránleikans. Þjóðin er ekki lögaðili, en ákvæðið gefur ríkisvaldinu í nafni þjóðarinnar heimild til að stjórna nýtingu auðlindarinnar og gengur auðvitað ekki út yfir eignarrétt útgerðanna og stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi.
"Söngurinn er allur sniðinn í kringum þá rómantísku hugmynd, að allir eigi að geta róið til fiskjar og að það sé óheppilegt, að fyrirtækin stækki og eflist. Þar er horft fram hjá þeirri staðreynd, að fyrirtækin keppa á alþjóðavettvangi við fyrirtæki, sem í sumum tilvikum eru stærri en allur íslenzki sjávarútvegurinn til samans. Nær allur afli, sem dreginn er á land við Ísland fer á markaði erlendis, og því eiga samkeppnissjónarmið, sem alla jafna mundu gilda um fyrirtæki á innlendum markaði, ekki við. Hvert er annars markmiðið með íslenzkum sjávarútvegi ? Er það ekki að hámarka verðmætin, sem sótt eru í greipar Ægis ?"
Þetta er mergurinn málsins. Alls konar sótraftar eru á sjó dregnir með skoðanir á þessari atvinnugrein, og sameiginlegt málflutningi þeirra er tvennt: atvinnugreinin sé óalandi og óferjandi eins og hún er rekin núna, og stjórnmálamenn (Alþingi og ríkisstjórn) verði að gjörbreyta leikreglunum. Hugmyndafræði þessa svartagallsrauss rekstrarviðvaninga og loddara er öll því markinu brennd, að rekstrarlegur og þjóðhagslegur arður sjávarútvegsins mun minnka, verði reynt að framfylgja hugmyndafræði þeirra.
Það er rangt, sem haldið er fram, að mikil samþjöppun sé í íslenzkum sjávarútvegi, hvort sem litið er til samanburðar við aðrar íslenzkar atvinnugreinar eða til erlendra samkeppnisaðila, eins og Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, sýndi fram á í grein í Morgunblaðinu 14.07.2022. Samkeppnisstofnun, sem er á góðri leið með að eyðileggja tæplega mrdISK 80 viðskipti Símans með Mílu, fer í geitarhús að leita ullar vegna kaupsamnings Síldarvinnslunnar við Vísi í Grindavík. Eftirlitsiðnaðurinn hérlendis gín yfir þáttum, sem honum kemur ekki við og sem hann ræður illa við í þokkabót.
"Myndi þetta sama fólk, sem sífellt talar öflugan sjávarútveg niður, tala fyrir því, að Marel yrði klofið upp í margar smáar einingar, sem gætu svo keppt sín á milli, en þó í baráttu við alþjóðlega risa, sem ættu auðvelt með að ryðja þeim öllum út af markaðinum ?"
Munurinn er sá, að það eru engir beturvitar áberandi um þessa grein iðnaðar, en það er hins vegar enginn hörgull á skrýtnum og fjandsamlegum hugdettum beturvita um íslenzka sjávarútveginn. Þeir eru með sérvizkuhugmyndir, sem ekki væru taldar gjaldgengar í neinu öðru landi.
Hvernig á að ákvarða hámark aflahlutdeildar, s.k. kvótaþak ? Eðlilegast er að hafa hliðsjón af þróun þeirra mála í samkeppnislöndum sjávarútvegsins. Sé það skoðað, kemur í ljós, að kvótaþakið hér hefur setið eftir, sérstaklega í þorskinum, þar sem það er aðeins 12 % hér, en t.d. um 25 % í Noregi. Hið tiltölulega lága kvótaþak hérlendis er farið að standa íslenzkum útgerðarfélögum fyrir þrifum og hefur e.t.v. ýtt undir krosseignatengsl þeirra á milli.
Í lok greinar sinnar skrifaði Stefán E. Stefánsson:
"Nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við um íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Eftir því sem þeim fækkar og þau eflast að innri styrk, því betur mun íslenzkt þjóðarbú standa. Úrtölufólkinu finnst ekki gaman að heyra þetta. Raunar þolir það alls ekki að horfast í augu við þessa staðreynd. En svona er það nú samt."
Þetta er hárrétt hjá höfundinum, en hvers vegna ? Það vefst fyrir "úrtölufólkinu", en er samt sára einfalt, og í stuttu máli er aðallega um að ræða hagkvæmni stærðarinnar. Kostnaður útgerðanna á hvert veitt tonn fer lækkandi með aukinni stærð þeirra og þar með verður framlegð þeirra meiri, og þau geta þá aukið framleiðni sína með fjárfestingum í nýrri tækni án eða með lítilli skuldsetningu. Afleiðingin verður betri aðbúnaður sjómanna um borð og hærri tekjur þeirra með auknum afla á skip. Jafnframt eykst hagnaður fyrirtækjanna og þar með skattstofninn og arðgreiðslur, sem er allra hagur, ekki sízt eigendum hlutafjárins, sem fjármagna fyrirtækin, t.d. lífeyrissjóða í tilviki almenningshlutafélaga á borð við Síldarvinnsluna á Neskaupstað.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Er ekki verið að fara bakdyramegin að 12 prósenta reglunni þegar eitt fyrirtæki á 30 % hlut í öðru fyrirtæki sem kaupir síðan fyrirtæki sem tryggir því 12 % af aflaheimildum í landinu ? Held það sé nauðsynlegt að skýra þessa reglu því þrátt fyrir að sameining fyrirtækja skili hagkvæmni þá þarf líka að vera nýliðun í greininni.
Jósef Smári Ásmundsson, 21.7.2022 kl. 22:14
Reglan, sem Fiskistofa fer eftir, mun vera sú að miða við þröskuldinn 50 % eignarhlut í öðru fyrirtæki með aflahlutdeild, svo að eignarhlutur í þessu öðru fyrirtæki bætist við aflahlutdeild kaupandans. Sé miðað við samkeppnislönd á borð við Noreg, er 12 % kvótaþak of lágt. Nýliðun í fiskveiðum krefst fjármagns, eins og nýliðun í öllum öðrum greinum. Nýliðun í landbúnaði krefst t.d. mikils fjármagns. Mjög jákvætt, þegar fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi breytast í almenningshlutafélög, eins og t.d. í Grindavík nú.
Bjarni Jónsson, 22.7.2022 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.