27.7.2022 | 11:15
Hóflaus skattheimta er hagkerfinu skaðleg
Íslendingar eru ein skattpíndasta þjóð í heimi. Þetta kemur auðvitað fram í samanburði á samkeppnishæfni þjóða, en þar eru Íslendingar eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna, og til að festa góð lífskjör (kaupmátt) í sessi, þarf að bæta samkeppnishæfnina. Skattheimtan leikur þar stórt hlutverk, en hvað er hófleysi í þessu sambandi ? Margar snilldarhugmyndir og drög að lausnum á viðfangsefnum hafa orðið til með uppdráttum á munnþurrkum á matarborðinu undir góðum málsverði. Ein slík er kennd við bandaríska hagfræðinginn dr Arthur B. Laffer - Laffer ferillinn og sýnir, að til er skattheimtugildi (optimum-beztunargildi) á hverju sviði skattlagningar, sem hámarkar beinar heildartekjur (skattspor) hins opinbera af skattlagningunni, en bæði við lægri og hærri skattheimtu verða heildarskatttekjurnar minni.
Staksteinar Morgunblaðsins 25. júlí 2022 báru heitið:
"Skyndilegt áhugaleysi um skatta".
Þar stóð m.a. þetta:
"Afgangurinn [af kaupverði útgerðarfélagsins Vísis], mrdISK 6,0, er greiddur með peningum, en eins og greint var frá í frétt Morgunblaðsins á laugardag [23.07.2022], fer stærstur hluti þeirrar fjárhæðar í skattgreiðslu eða vel á fimmta milljarð króna. ....
Þetta [áhugaleysi ýmissa fjölmiðla á þessari háu skattheimtu] kemur nokkuð á óvart ekki sízt í ljósi þess, að gagnrýnendur viðskiptanna fundu m.a. að því, að ríkið fengi ekkert út úr þeim. Fyrrverandi ríkisskattstjóri, sem hefur jafnan miklar áhyggjur, ef einhvers staðar liggur óskattlögð króna, sagði t.a.m., að viðskiptin færu fram "án þess að þjóðin fengi krónu í sinn hlut"."
Þessi viðskipti eru ofureðlileg og stórfurðulegt að halda því fram, að skattalöggjöfin hérlendis spanni ekki viðskipti af þessu tagi. Það er deginum ljósara, að lítilsigldir vinstri menn ruku upp til handa og fóta vegna viðskipta, sem þá varðar ekkert um, og fóru að fiska í gruggugu vatni í von um, að einhver teldi sig hafa verið hlunnfarinn.
Að lokum stóð í þessum Staksteinum:
"Þjóðin hefur notið þess ríkulega, bæði beint og óbeint, að hér á landi er sjávarútvegur rekinn með hagkvæmum hætti, en er ekki niðurgreiddur, eins og almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar. Eigi hann áfram að skila miklu í þjóðarbúið, þarf hann að búa við viðunandi rekstrarumhverfi, ekki sízt stöðugleika í regluverki."
Hér munar mestu um regluna um frjálst framsal nýtingarréttarins, sem var að verki í hagræðingarskyni, þegar almenningshlutafélagið Síldarvinnslan á Neskaupstað festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík, og önnur regla um sjávarútveginn á við veiðigjöldin, sem er ekkert annað en sérskattur á sjávarútveginn og auðvitað íþyngjandi sem slíkur, enda nemur hann þriðjungi framlegðar fyrirtækjanna (framlegð er það, sem fyrirtækin hafa upp í fastan kostnað sinn). Veiðigjaldið var á sínum tíma réttlætt með því, að í sjávarútveginum væri fólgin auðlindarenta, en sú hefur aldrei fundizt.
Nýjasta dæmið um, að í sjávarútveginum fyndist engin auðlindarenta (þ.e. hagnaður umfram annan atvinnurekstur), kom fram í grein Svans Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Bláa hagkerfisins og sjávarútvegsfræðings, í Morgunblaðinu 21. júlí 2022. Hún hófst þannig:
"Í oft og tíðum ruglingslegri umræðu um sjávarútveginn hafa margir lagt lykkju á leið sína til þess að halda því fram, að hagnaður og afkoma fyrirtækja þar sé önnur og betri en þekkist í íslenzku samfélagi. [Þetta er hin ósanna fullyrðing um auðlindarentu, sem skapi ríkinu rétt til viðbótar skattheimtu - innsk. BJo.] Það geri síðan fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að kaupa "upp" aðrar atvinnugreinar [so what ?]. Ekkert er fjær lagi, því [að] fyrirtæki í sjávarútvegi eru ekki með betri afkomu en gengur og gerist, og arðsemi þar er sízt meiri en við eigum að venjast á íslenzkum fyrirtækjamarkaði. Því miður, liggur mér við að segja, en sem betur fer eru mörg fyrirtæki í sjávarútvegi vel rekin og skila góðri afkomu, þó [að] þau starfi í mjög krefjandi umhverfi, þar sem alþjóðleg samkeppni er hörð, á sama tíma og þau þurfa sífellt að laga sig að breytingum, sem lúta að grunnþáttum greinarinnar."
Svanur Guðmundsson bar síðan saman framlegð í % af veltu fyrirtækja með a.m.k. 80 % af veltu í hverri af 10 atvinnugreinum samkvæmt ársreikningum 2020-2021. Framlegð sjávarútvegs, sem ein atvinnugreina sætir því af hálfu löggjafans, að framlegðin sé skattstofn, nam 25 %, en meðaltal 10 greina var 26,3 %. Hann bar líka saman hagnaðinn sem % af eigin fé fyrirtækjanna. Hjá sjávarútveginum nam hagnaðurinn 14 %, en meðaltal 10 fyrirtækja nam 13,5 %.
Þrátt fyrir að þessi athuguðu 2 ár hefðu verið sjávarútveginum tiltölulega hagfelld, er alls enga auðlindarentu að finna í fórum hans. Hvað veldur því, að sumir hagfræðingar búa til spuna um atvinnugrein, sem gefur skattasjúkum pólitíkusum, embættismönnum, blaðamönnum o.fl. tilefni til að krefjast viðbótar skattlagningar á atvinnugrein, sem á í höggi við niðurgreiddar vörur á erlendum mörkuðum ?
Skattspor sjávarútvegsins er stórt, því að hann veitir mörgum vinnu, bæði beint og óbeint, og greiðir há laun. Hærri skattheimta af honum en nú tíðkast yrði aðför að dreifðum byggðum landsins, þar sem sjávarútvegur er kjölfesta byggðarlaga víða. Óhjákvæmilega drægi hærri skattheimta úr getu sjávarútvegsins til fjárfestinga, sem drægi strax úr hagvexti í landinu, og innan skamms kæmist hann á vonarvöl, því að fólk og fé tæki að forðast hrörnandi atvinnugrein, og hann yrði hreinlega undir í samkeppninni á erlendum mörkuðum.
Í stað þess að vera flaggskip íslenzks atvinnulífs yrði hann að ryðkláfi, sem ríkissjóður yrði sífellt að hlaupa undir bagga með í nafni byggðastefnu. Sú tíföldun veiðigjalda, sem aldurhnignir Berlínarkommar og vizkubrekkur í Icesave-hlekkjum úr HÍ hafa talað fyrir, er ekki einvörðungu svo langt til hægri á X-ási Laffer-ferilsins, að hann sé kominn að núlli (0), heldur hefur Laffer-ferillinn í þessu tilviki skorið X-ásinn, og ríkið fær þá ekki lengur skatttekjur af brjálæðislegri skattheimtu, heldur verður ríkissjóður fyrir útgjöldum við að halda atvinnugreininni á floti. Það er einmitt draumsýn kommúnistans.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni. Útgerðafélög sem einnig reka fiskvinnslur og geta selt sjálfum sér afla á lægra verði en tíðkast á fiskmörkuðum eru að sjálfsögðu niðurgreidd og njóta ríkisstuðnings. Löngu tímabært að klippa milli veiða og vinnslu og setja allann fiskafla á opinn og frjálsan markað, í anda alvöru hægri manna.
Tryggvi L. Skjaldarson, 28.7.2022 kl. 06:42
Sæll, Tryggvi; Hvers vegna er þér svona mikið í mun að koma höggi á þessar fiskvinnslur ? Slíkt yrði einvörðungu til að draga úr verðmætasköpun hérlendis, og útflutningur á óunnum fiski ykist til fiskvinnsla í Evrópusambandinu og á Bretlandi, sem eru með lægri rekstrarkostnað og búa ekki við neinar þær hömlur á eignarhaldi, sem þú vilt koma á hér.
Bjarni Jónsson, 28.7.2022 kl. 10:11
Sæll aftur Bjarni. Ég hef engan áhuga á að koma höggi á neinar fiskvinnslur. Ég vil aftur á móti að allar fiskvinnslur sitji við aama borð. Gleymum ekki að þjóðin á auðlindina og það er löngu tímabært að klippa milli veiða og vinnslu. Ef "þessar fiskvinnslur,, ráða ekki við að keppa um hráefnið við aðra, á frjálsum markaði, eru þær líklega ekki eins velreknar og haldið er fram. Aðdáun á virðiskeðjum og einokun er eitthvað sem erfitt er að tengja við hægrisinnaða áhugamenn um stjórnmál.
Tryggvi L. Skjaldarson, 28.7.2022 kl. 17:38
Sæll, Tryggvi; Hefur Samkeppniseftirlitið gert athugasemd við þau eignatengsl, sem þú nefnir ? Það er langt seilzt að ætla ríkisvaldinu að banna eignatengsl á milli útgerða og fiskvinnsla í ljósi þess, að um 98 % framleiðslunnar fer á erlenda markaði, þar sem íslenzkir útflytjendur eiga í höggi við niðurgreidda starfsemi og þurfa að greiða toll til að koma vöru sinni á markað. Þessir útflytjendur hafa talið sig standa bezt að vígi í samkeppninni á erlendum mörkuðum með því að hafa virðiskeðjuna órofna, eins og þú nefnir. Beturvitar á Alþingi og í Stjórnarráðinu munu hlaupa í felur, ef/þegar neikvæðar afleiðingar af hugmyndafræðilegum inngripum þeirra í atvinnulífið koma í ljós. Það er bezt að skerða ekki frelsi atvinnulífsins til athafna og fjárfestinga og láta atvinnulífið um það, sem það er bezt í, þ.e. að hámarka verðmætin úr hráefninu, sem því er leyft að afla úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þannig mun þjóðinni vegna bezt.
Bjarni Jónsson, 28.7.2022 kl. 18:20
Sæll Bjarni en og aftur. Starfsemi þeirra fyrirtækja sem bæði gera út veiðiskip og stunda vinnslu og kaupa fisk af sjálfum sér, með aðstoð ríkisvaldsins sem samþykkir verðlagningu framhjá frjálsum markaði, er ekkert annað en niðurgreiðsla. Það verð, sem er ákveðið af verðlagsnefnd er að jafnaði mun lægra er útgerðir fá á uppboðsmarkaði. Þetta snýst ekkert um beturvita ( frábært orð) og má velta fyrir sér hvort hér sé ekki um sérhagsmunagæslu að ræða. Gleymum ekki að kvótinn var settur á til að vernda fiskinn í sjónum en ekki til að vernda einstakar fiskvinnslur í landi. Það á nefnilega ekki að skerða frelsi atvinnulífsins til athafna, eins og það sem ég er að gagnrýna hér, Heldur eiga allar fiskvinnslur hér á landi að standa jafnfætis með aðgang að þeim fiski sem hér veiðist. Og leiðin þangað er einföld, allur fiskur á markað. Ekki vil ég gera lítið úr dugnaði þeirra sem niðurgreiðslna njóta í dag en þeir hljóta að geta staðið í lappirnar þótt þeir fari í samkeppnis umhverfi.
Tryggvi L. Skjaldarson, 28.7.2022 kl. 20:44
Sæll, Tryggvi. Þetta hugarfóstur um, að ríkið þvingi útgerðir til að landa öllum afla sínum á innlendum mörkuðum, getur aldrei orðið barn í brók, af því að tíminn hefur hlaupið frá því. Markaðirnir, sem máli skipta á þessum vettvangi, eru á erlendri grundu. Þróunin er sú, að útgerðirnar semja við viðskiptavini sína erlendis, þegar togararnir sigla á miðin, um verð og afhendingartíma. Að landa hér á markaði tefur bara dýrmætan tíma, og slíkt rýrir gæði vörunnar. Það flækir líka rekjanleikann, sem viðskiptavinurinn er farinn að gera kröfu um. Ég er hræddur um, að þvingun stjórnvalda í þessa veru verði aðeins þjóðarbúinu til tjóns, eins og opinber inngrip í frjálsan markað eru vön að valda. Sá þvingaði "frjálsi markaður", sem þú vilt skapa hérlendis fyrir allan fisk, verður aldrei annað en skrípaleikur, sem hafa mun í för með sér aukinn kostnað og verðrýrnun.
Bjarni Jónsson, 29.7.2022 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.