28.8.2022 | 11:08
Sannleikurinn um Rússland og Evrópusambandið afhjúpaður
Tímamótagrein um glæpsamlega nýlendustefnu Rússlands og yfirgang Frakka og Þjóðverja innan Evrópusambandsins, ESB, eftir forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Sögulegar áskoranir og fölsk stefnumál - Evrópa á krossgötum".
Pólverjar hafa í sögulegu tilliti haft bitra reynslu af bæði Rússum og Þjóðverjum og hafa í raun verið klemmdir á milli þessara evrópsku stórvelda. Málflutningur forsætisráðherra Póllands á ekki sízt í þessu ljósi brýnt erindi við nútímann, af því að hann skrifar af djúpstæðri þekkingu og skarpri rökhyggju um hegðun þessara nágranna sinna í nútímanum. Það er ófögur lýsing, sem á fullt erindi við Íslendinga, enda eru hér á Íslandi heilu stjórnmálaflokkarnir, sem leynt og ljóst vinna að því að gera Íslendinga þrælbundna stofnanaveldi ESB, þar sem smáþjóðir verða bara að sitja og standa, eins og ríkjandi þjóðir ESB telja henta "heildinni" bezt.
Grein forsætisráðherrans hófst þannig:
"Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir, sem neituðu að taka eftir því, að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu, verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd, að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimir Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli."
Það, sem nú blasir við í Rússlandi, er grímulaus fasismi undir stjórn hryðjuverkamafíu í Kreml. Útþenslufasismi er aldagamall í Rússlandi og talið er, að á dögum Ráðstjórnarríkjanna hafi neisti fasismans verið varðveittur í leyniþjónustunni KGB, og Stalín hallaði sér þangað á stríðsárunum með því að virkja þjóðerniskennd Rússa í "The Great Patriotic War". Hugmyndagræði Pútíns um yfirráð Rússa yfir slavnesku löndunum ásamt Georgíu og Eystrasaltslöndunum á sér þannig sögulegar rætur, en hún stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og sjálfsögðum sjálfsákvörðunarrétti þjóða og er fullkomin tímaskekkja. Í höndum ólígarka og hrotta í Kreml er hér um að ræða nýlendustefnu, þar sem kúga á nágrannaþjóðirnar til undirgefni og skítnýta náttúruauðævi þessara landa til auðsöfnunar ólígarkanna. Úkraína, ekki sízt austurhlutinn, er t.d. gríðarlega auðug af náttúrunnar hendi. Menntunarstig Úkraínumanna og færni er á mun hærra stigi en almennt gerist í Rússlandi, og menning Úkraínumanna ber sköpunargáfu þeirra fagurt vitni. Úkraínumenn höfðu markað sér stefnu um lýðræðislegt stjórnarfar og aðild að stofnunum Vesturlanda. Þetta þoldi Kremlarstjórnin hins vegar ekki, því að hún óttaðist, að frelsisaldan bærist austur yfir landamærin, enda hafa verið mikil samskipti þar á milli, en nú hefur Pútín gert þessar þjóðir að fjandmönnum, og mun seint gróa um heilt á milli þeirra.
Nú, eins og 1939-1945, er tíðarandinn (der Zeitgeist) frelsinu hliðhollur. Hann blæs Úkraínumönnum eldmóð í brjóst, svo að enn mun Davíð sigra Golíat. Við, sem ekki þurfum að vera á vígvöllunum, verðum vitni að stríði um framtíð Evrópu. Rússar munu ekki láta staðar numið, nái þeir Úkraínu á sitt vald, fyrr en þeir hafa skapað óstöðugleika í álfunni, lagt undir sig fleiri ríki og Finnlandíserað hin. Einangrunarhyggju gætir í Bandaríkjunum og fyrrverandi forseti BNA hótaði að draga Bandaríkin út úr NATO. Þar með verður lítil vörn í NATO í framtíðinni. Vonandi verður Úkraínulexían þó til þess að styrkja samstöðu Vesturlanda í bráð og lengd.
"Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess, að hún var ekki nægilega samþætt, heldur vegna þess, að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár. Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum, en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra, sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum, að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu, heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann."
Evrópa hefur lifað í þeirri sjálfsblekkingu, að hægt sé að tryggja friðsamlega sambúð við Rússland með viðskiptum, menningarsamskiptum og diplómatíu. Það var hægt, á meðan það hentaði Rússlandi, en þegar Rússar töldu tímann vera kominn til að láta til skarar skríða, þá létu þeir vopnin tala. Vesturlönd geta því miður aðeins tryggt fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt með því að verða grá fyrir járnum. Það er ekki notaleg framtíðarsýn, en þetta er raunveruleikinn, sem þessi nágranni Evrópu í austri býður upp á. Samskiptin verða í frosti um langa framtíð.
"Sú staðreynd, að rödd Póllands hafi verið hundsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls, sem ESB stendur frammi fyrir í dag. Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis, en stjórnmálavenja sýnir fram á, að rödd Þýzkalands og Frakklands hefur mest áhrif. Þá er um að ræða formlegt lýðræði, sem er í raun fámennisstjórn, þar sem vald er í höndum þeirra sterkustu. Þeir sterkustu geta gert mistök, en geta ekki tekið gagnrýni frá öðrum."
Þarna beinir forsætisráðherra Póllands kastljósinu að lýðræðishallanum innan ESB. Hann er alvarlegra og djúpstæðara vandamál en komið hefur fram í umræðum hérlendis hjá efasemdarmönnum um gagnsemi þess fyrir Ísland að vera þarna aðili. Pólland er stórt land í km2 talið, og þjóðin telur um 40 M manns. Samt hlusta ráðandi ríki, Þýzkaland og Frakkland, ekki á aðvörunarorð Pólverja um mál, sem ætla má af reynslunni, að þeir hafi meira vit á en hinar ráðandi þjóðir. Þessar ráðandi þjóðir voru á stórhættulegri braut í samskiptunum við rússneska ráðamenn, sérstaklega sú, sem mestu ræður í krafti fólksfjölda og efnahagsstyrks.
Hérlendis eru gasprarar, sem reyna að halda því fram, að úr því að Íslendingar séu komnir með aðra löppina inn fyrir þröskuldinn hjá ESB (með EES-samninginum), þá sé miklu eðlilegra fyrir þá að fá sæti við borðið, þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Samkvæmt Morawiecki, sem er innanbúðarmaður hjá ESB, eru bara fulltrúar tveggja þjóða við það borð, svo að barnalegt blekkingarhjal um vald smáþjóða innan ESB fellur niður dautt og ómerkt.
Adolf Hitler talaði á sínum tíma um pólska þjóðríkið eins og Vladimir Putin talar núna (2022) um úkraínska þjóðríkið. Allt var það bull og vitleysa af hálfu einræðisherra stórveldis, sem var kominn á fremsta hlunn með að leggja viðkomandi ríki eða drjúgan hluta þess undir sig. Hvorugur þessara nazistísku einræðisherra (málflutningur og aðgerðir Putins eru liður í þjóðarmorði, þar sem reynt er að ganga af menningu og heilbrigðri þjóðernistilfinningu dauðri) hefur nokkuð til síns máls, hvað verðar tal þeirra um þessar 2 þjóðir.
"Ef mælt er með því, að aðgerðir ESB verði enn háðari Þýzkalandi, en slíku yrði komið á, ef meginregla um einróma samþykki yrði afnumin, þá nægir hér að gera stutta greiningu á ákvörðunum Þýzkalands aftur í tímann. Ef Evrópa hefði undanfarin ár hegðað sér eftir vilja Þýzkalands, værum við í dag í betri eða verri stöðu ?
Ef öll Evrópulönd hefðu fylgt rödd Þýzkalands, þá hefði fyrir mörgum mánuðum verið komin af stað ekki einungis Nord Stream 1, heldur einnig Nord Stream 2. Þá hefði Evrópa orðið svo háð rússnesku gasi, að nánast vonlaust hefði verið að losna undan því fjárkúgunartæki Pútíns, sem ógnar allri álfunni.
Ef öll Evrópa hefði samþykkt tillögu í júní 2021 um að halda leiðtogafund ESB og Rússlands, hefði það haft í för með sér, að Evrópa hefði þá viðurkennt Pútín sem fullgildan samstarfsaðila, og einnig afléttingu refsiaðgerða, sem Rússland hefur verið beitt eftir 2014. Hefði sú tillaga verið samþykkt, hefði Pútín fengið tryggingu fyrir því, að ESB gripi ekki til raunverulegra aðgerða til að verja landhelgi Úkraínu. Þau lönd, sem höfnuðu þessari tillögu þá, voru Pólland, Litháen, Lettland og Eistland."
Í ljósi sögunnar er ljóst, að forsætisráðherra Póllands hefur hér rétt fyrir sér. Þýzka ríkisstjórnin hefur tekið kolrangan pól í hæðina, séð frá hagsmunum fullvalda lýðræðisríkja Evrópu. Allt frá lokum Kalda stríðsins 1989-1991 hafa Þjóðverjar verið á röngu róli, því að mottóið var að styggja ekki Kremlverja, heldur friðþægja þá, hvað sem það kostar. Þannig var hún á móti því að viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, og hún var á móti því að samþykkja inngöngubeiðni aðildarríkja sundraðs Varsjárbandalags í NATO. Henni tókst síðar að hindra inngöngu Úkraínu í NATO, sem Bandaríkin mæltu sterklega með, og hefði hindrað villimannlega styrjöld Rússa gegn úkraínsku þjóðinni frá 2014.
Utanríkisstefna Þjóðverja hefur verið reist á þröngsýni (viðskiptahagsmunum Þýzkalands), skammsýni (röngu mati á fyrirætlunum Kremlverja) og óþörfu þakklæti í garð Rússa fyrir að koma ekki í veg fyrir sjálfsagða endursameiningu Þýzkalands 1990. Rússland hefur valdið Evrópuþjóðunum miklu tjóni og á alls ekki að komast upp með að ráðskast með landamæri fullvalda ríkja, sem ákveðin voru 1945. Að hnika við landamærum Evrópu er stórhættulegt.
Utanríkisstefna Þýzkalands hefur verið lævi blandin, þótt á yfirborðinu hafi hún verið friðsamleg, því að hún hefur borið keim af stórveldapólitík, þar sem hagsmunum minni ríkja hefur mátt fórna fyrir hagsmuni öxulsins Berlín-Moskva. Nú er mál að linni, enda er þetta blindgata, sem nú hefur verið gengin til enda. Væntanlegum kanzlara Þýzkalands, Friedrich Merz, er þetta ljóst. Gangan til baka verður þrautaganga, en mun takast, ef stuðningur Bandaríkjanna bilar ekki.
"Ef Evrópusambandið hefði einnig samþykkt tillögu um reglur um dreifingu innflytjenda árið 2015 í staðinn fyrir að beita harðri pólitík, sem felst í að styrkja eigin landamæri (en það telst vera grunneiginleiki fullvalda ríkis), þá hefðum við orðið að peði í dag frekar en þátttakanda í alþjóða stjórnmálum. Það, sem Pútín kom auga á árið 2015, var einmitt möguleikinn á að nýta innflytjendur í blendingsstríði gegn ESB. Þá réðst hann ásamt Alexander Lúkasjenkó á Pólland, Litháen og Lettland. Hefðum við hlýtt talsmönnum opinna landamæra, væri viðnámsþrek okkar í dag í síðari stórkreppum enn minna."
Rússar ætluðu sér allan tímann að sigla undir fölsku flaggi, reka stöðugan blendingshernað gegn Evrópuþjóðunum til að veikja þær og sundra þeim, svo að þeir kæmust upp með beint árásarstríð án þess að lenda í miklum átökum og gætu síðan Finnlandiserað afganginn af Evrópu í krafti orkusölu þangað. Þetta er ótrúlega fjandsamleg og fífldjörf fyrirætlun gagnvart nágrönnum, enda hefur hún ekki aðeins farið í vaskinn, heldur opinberað, hversu lítils megnugir Rússar eru á flestum sviðum. Rússneski herinn hefur farið halloka fyrir úkraínska hernum. Fyrir vikið er óhætt að segja, eins og forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, sagði á þjóðhátíðardegi Úkraínu, 24. ágúst 2022, að úkraínska þjóðin er nú endurfædd.
"Að síðustu væri stríðinu löngu lokið, ef öll Evrópa hefði sent til Úkraínu vopn í þeim mæli og á þeim hraða, sem Þýzkaland gerir. Stríðinu myndi ljúka með algjörum sigri Rússlands. Og Evrópa væri á barmi annars stríðs, en Rússland héldi áfram vegna hvatningar, sem fælist í veikleikum mótherjans.
Í dag telst hver rödd, sem kemur frá Vesturlöndum, um að takmarka vopnaflutning til Úkraínu, draga úr refsiaðgerðum eða fá "báða aðila" (s.s. árásaraðilann og fórnarlambið) til að ræða saman, merki um veikleika. Þó er Evrópa miklu öflugri en Rússland."
Kratinn, Olaf Scholz, á kanzlarastóli í Berlín, hefur bitið höfuðið af skömm Þjóðverja gagnvart Úkraínu með vífilengjum varðandi afhendingu þýzkra þungavopna til úkraínska hersins. "Die Wende"-vendipunktsræða hans reyndust orðin tóm. Það er enn alvarleg meinloka í hausnum á Þjóðverjum gagnvart afstöðunni til Rússa. Rússar eru langalvarlegasta ógnin við friðinn í Evrópu, og Þjóðverjum, sem forystuþjóð þar, ber skylda til að snúast gegn þeim enn og aftur með kjafti og klóm. Átökunum við þá lauk ekki í maí 1945, því er ver.
"ESB á æ erfiðara með að virða frelsi og jafnrétti allra aðildarríkja. Við heyrum æ oftar, að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins. Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi, þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni.
Frelsis- og jafnréttisskortur eru einnig áberandi á evrusvæðinu. Það að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil tryggir ekki varanlega og samræmda þróun. Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni, sem sést t.a.m. í umframútflutningi sumra ríkja. Hún kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum. Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm."
Þetta er harðasta gagnrýnin á þróunina innan Evrópusambandsins, sem heyrzt hefur, og hún kemur frá forsætisráðherra fremur stórs ríkis innan sambandsins. Mikið hefur gengið á og örvænting gripið um sig hjá minni ríkjum sambandsins áður en gagnrýni af þessu tagi er sleppt út í eterinn. Ráðandi ríkjum innan ESB, Þýzkalandi og Frakklandi, hefur farizt forystuhlutverk sitt svo illa úr hendi, að þverbrestir eru komnir í ESB, og aðeins óttinn við Rússland og stórhættulegir tímar í Evrópu og víðar af völdum glæpahyskis í Kreml heldur nú Evrópusambandinu saman. Evran veldur vandræðum við stjórnun peningamálanna á evru-svæðinu. Hún er of veik fyrir Þýzkaland og of sterk fyrir rómönsku ríkin. Svigrúm til vaxtahækkana til að hemja verðbólguna er lítið sem ekkert hjá ECB, af því að stórskuldugur ríkissjóður Ítalíu myndi þá lenda í greiðsluþroti og óvíst er, að evran mundi lifa það af, enda er bandaríkjadalur nú orðinn verðmætari en evran og svissneski frankinn rýkur upp, sem eru vísbendingar um, hvert fjármagnið leitar nú.
Við þessar aðstæður gera sumir Íslendingar mjög lítið úr sér með því að predika fyrir löndum sínum mikilvægi þess fyrir Ísland að sækja um aðild að ESB og að ganga í myntbandalag Evrópu. Þeim er ekki sjálfrátt, taka kolrangan pól í hæðina og þá hefur nú dagað uppi sem steingervingar. Málflutningur prinsessu Samfylkingarinnar í hinu gamla leikhúsi við Tjörnina um daginn bar þess merki, að þessi bankaprinsessa hefur áttað sig á því, að ekki er vænlegt fyrir flokk hennar að hamra á aðildinni lengur. Hún orðar þetta þó í véfréttastíl um, að flokkurinn undir hennar forystu muni einblína á hagsmuni hins venjulega manns.
"Það verður æ torveldara að verja réttindi, hagsmuni og þarfir meðalstórra og smárra ríkja í árekstri við stór ríki. Um er að ræða brot gegn frelsi og þvingun, sem á sér stað í nafni meintra hagsmuna heildarinnar.
Það gildi, sem var kjarninn í stofnun Evrópusambandsins, var almannaheill. Það var drifkraftur í samþættingu Evrópu frá upphafi. Í dag er það gildi í hættu vegna sérstakra hagsmuna, sem þjóna aðallega þjóðernissjálfhverfu. Kerfið býður okkur upp á ójafnan leik á milli þeirra veikari og sterkari. Í þeim leik er pláss fyrir stærstu ríkin, sem eru efnahagsveldi, og meðalstór og lítil ríki með minna efnahagskerfi. Þeir sterkustu sækjast eftir pólitískum og efnahagslegum yfirráðum, en hinir eftir pólitískri og efnahagslegri fyrirgreiðslu. Fyrir þeim öllum verður hugtakið almannaheill meira og meira abstrakt [afstætt]. Samstaða Evrópu er að verða að merkingarlausu hugtaki, sem jafngildir því að þvinga fram samþykki á einræðisvaldi þess sterkara.
Segjum það bara beint út: skipan Evrópusambandsins ver okkur ekki nægilega vel að svo stöddu gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja. Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því, að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn, enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari."
Það er grimmúðlegt árásarstríð Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hefur leyst grundvallarágreining úr læðingi innan ESB. Það sést með því að skoða söguna, að þýzka ríkisstjórnin, hver sem hún er, er höll undir þau sjónarmið, að Þýzkaland og Rússland eigi að skipta Evrópu á milli sín. Auðvitað verður þá fullveldi minni ríkja fórnarlambið. Bretar og Bandaríkjamenn hafa allt aðra stefnu. Rússar herða nú hálstakið, sem þeir hafa á Þjóðverjum með Nord Stream 1 og hjálparleysi Þjóðverja í orkulegum efnum, sem er fullkomið sjálfskaparvíti og sýnir bezt skipbrot utanríkisstefnu þeirra. Þeir verða nú að taka sér heiðarlega stöðu með Engilsöxunum í stuðningi við Úkraínu, ef trúverðugleiki þeirra í hópi Vesturveldanna á ekki að bíða hnekki. Þolgæði þýzku þjóðarinnar er mikið. Það sýndi hún bezt 1939-1945 og nú á þessum vendipunkti í sögu Evrópu verður afstaða þýzku stjórnarinnar í Berlín til fullveldis óskiptrar Úkraínu prófsteinn á stöðu Þýzkalands í Evrópu 21. aldarinnar.
Lokatilvitnunin í stórmerka blaðagrein forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki:
"Nú þarf að sýna Úkraínu stuðning, til að hún geti endurheimt þau landsvæði, sem hún hefur tapað, og til að hún geti þvingað rússneska herinn til að hörfa. Aðeins þá verður hægt að taka þátt í viðræðum af einhverri alvöru og fá fram raunveruleg stríðslok, en ekki einvörðungu skammvinnt vopnahlé. Aðeins slík stríðslok munu þýða, að við höfum sigrað.
Við verðum einnig að sigrast á ógn af heimsvaldastefnu ESB. Við þurfum á umfangsmiklum endurbótum að halda, þar sem meginreglur ESB endurspegli það, að almannaheill og jafnræði séu sett á oddinn á ný. Það verður ekki að veruleika að hugmyndafræði ESB óbreyttri, þ.e. ef ákvarðanir um stefnumál og forgangs hlutverk ESB verða ekki teknar af öllum aðildarríkjum fremur en af stofnunum ESB. Stofnanir eiga að þjóna hagsmunum ríkja, en ekki ríki hagsmunum stofnana. Grundvallaratriði í samstarfi verður hverju sinni að vera samkomulag fremur en yfirráð þeirra stærstu yfir hinum minni."
Stofnanavæðing ESB er sem sagt dulbúin yfirtaka Þjóðverja og Frakka á ákvarðanatöku innan ESB og eykur þannig enn við lýðræðishalla sambandsins. Íslendingar hafa kynnzt þessari stofnanvæðingu með nánu samstarfi við ESB um Innri markaðinn á grundvelli EES-samningsins, sem gildi tók 1. janúar 1994. Er skemmst að minnast kröfu ESB og þrýstings ríkisstjórnar Noregs um samþykki EFTA-landanna (utan Sviss) á orkulöggjöf um ACER-Orkustofnun ESB. Við sjáum nú, hversu fjarri þessi löggjöf er frá því að stuðla að almannaheill í Noregi vegna útflutnings á raforku frá Noregi til ESB og Englands. Hérlendis er í bígerð uppboðsmarkaður á raforku á grundvelli þessarar löggjafar, og við ríkjandi aðstæður í orkumálum á Íslandi (meiri eftirspurn en framboð) mun slíkur uppboðsmarkaður bitna á heimilum og atvinnurekstri í landinu, svo að ekki sé nú minnzt á orkuskiptin.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.