Misheppnuð stjórnun Samfylkingar á höfuðborginni

Það er með eindæmum, hversu mislagðar hendur stjórnmálafólki Samfylkingarinnar eru við stjórnun málefna almennings.  Þótt vítin séu til að varast þau, vantar ekki gorgeirinn í forkólfana, en þeir (þau) tala gjarna, t.d. á Alþingi, eins og þau hafi öðlazt æðsta sannleik um málefni í almannaþágu, en samt eru svikin loforð og mistök á mistök ofan, það sem upp úr stendur, þar sem þau hafa krafsað til sín völd þrátt fyrir dvínandi fylgi, eins og í Reykjavík.

Pólitískur sjálfstortímingarleiðangur  Framsóknarflokksins inn í Ráðhúsið við Tjörnina er reyndar saga til næsta bæjar fyrir flokk, sem annars hefur verið nokkur borgaralegur bragur á undir stjórn Sigmundar og síðar dýralæknisins. Einar, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, virkar nú sem blaðafulltrúi læknisins eða öllu heldur búktalari. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er skeleggur gagnrýnandi borgarstjórnarmeirihlutans. Hann reit grein grein í Morgunblaðið 6. október 2022, sem hann nefndi:

"Neyðarástand á húsnæðismarkaði í Reykjavík".

Þar gat m.a. þetta að líta:

"Húsnæðisstefna Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar hefur verið ráðandi í Reykjavík frá því um aldamót.  Á þessum tíma hafa vinstri stjórnir í Reykjavík knúið fram stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði með ýmsum ráðum, t.d. með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi í stjórnsýslu, hækkun margvíslegra gjalda og álagningu nýrra, t.d. hárra innviðagjalda.  Allar slíkar aðgerðir eru lóð á vogarskálar hækkandi húsnæðisverðs."

Dettur einhverjum í hug, að þessar gjörðir Samfylkingarinnar, sem skreytir sig með öfugmælunum Jafnaðarmannaflokkur Íslands, þjóni hagsmunum alþýðunnar í borginni ?  Allt, sem Samfylkingin tekur sér fyrir hendur, gerir hún með öfugum klónum.  Hún hefur alla sína hundstíð daðrað við auðjöfra, sem varð alræmt fyrir Hrun, enda kemst Kjartan Magnússon að eftirfarandi niðurstöðu í framhaldinu:

"Auk þess að stórhækka húsnæðisverð hefur þessi stefna gefið fjársterkum aðilum kost á að sanka að sér byggingarlóðum og [selt] þar íbúðir til almennings á uppsprengdu verði.  Þessi stefna felur því í sér þjónkun við fjársterka verktaka og stórfyrirtæki, sem hafa hagnazt um tugi, ef ekki hundruði milljarða ISK vegna húsnæðisstefnu vinstri flokkanna."

Þarna kemur Samfylkingin aftan að almenningi, eins og henni er einni lagið.  Hún hagar málum þannig, að markaðurinn geri nýjum kaupendum og öðrum með takmörkuð fjárráð erfitt eða ómögulegt að festa kaup á húsnæði í borginni, en neyðist þess í stað til að flytjast í leiguhúsnæði, þar sem Samfylking einmitt vill hafa almenning.  Sjálfsbjargarfólk á meðal almennings er eitur í beinum Samfylkingar, og hún fer ýmsar krókaleiðir gegn því. 

Sigurður Oddsson, verkfræðingur, ritaði skorinorða grein í Morgunblaðið 3. október 2022, þar sem hann sýndi fram á, hvernig fúskarar borgarstjórnar í umferðarmálum hefðu eyðilagt meginhugmyndir faglegra hönnuða umferðarflæðis í höfuðborginni.  Þarna er um ótrúlega ósvífin skemmdarverk atferlishönnuða að ræða, sem svífast einskis í viðleitni sinni til að skapa farþegagrundvöll fyrir andvana fædda borgarlínuhugmynd sína.  Samfélagshönnuðir af þessu tagi eru eitthvert leiðasta fyrirbrigði nútímans, afætur, sem verða borgurunum óhemju dýrir á fóðrum áður en lýkur.

Grein sína nefndi Sigurður:

"Eyðilegging umferðarmannvirkja".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Eigendur bíla hafa með skattlagningu og eldsneytisgjöldum byggt Háaleitisbraut og Grensásveg, eins og allt gatnakerfi borgarinnar.  Hefur meirihlutinn leyfi til að eyðileggja þessi umferðarmannvirki í þeim tilgangi að tefja umferð."

Nei, auðvitað hefur meirihluti Samfylkingar engan siðferðislegan rétt til slíkrar kúvendingar í skipulagsmálum, enda er hér komið aftan að kjósendum, þar sem engin kynning á þessum klaufaspörkum hefur farið fram fyrir kosningar.  Fallandi fylgi Samfylkingar í borginni gefur til kynna óánægju með afkáraleg vinnubrögð hennar í skipulagsmálum umferðar og húsnæðis.  Lýðræðið er fótum troðið, því að allt eru þetta óvinsælar ráðstafanir.  

"Markvisst hefur verið unnið að því að skemma Bústaðaveginn sem stofnbraut: Við Reykjanesbraut er margbúið að lofa mislægum gatnamótum við Bústaðaveg.  Í stað þess að standa við það er nú komið illa hannað hringtorg, sem tefur alla umferð að og frá Bústaðavegi.  

Við Grensásveg er komið raðhús svo nálægt Bústaðavegi, að þar verður illmögulegt að hafa Bústaðaveginn 2+2-akreinar.  Þannig eru komnir flöskuhálsar á báða enda þess kafla, sem auðvelt var að hafa 2+2."

Skemmdarverk furðudýranna í borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík setur þá stjórnmálamenn, sem þannig nota völd sín, í ruslflokk á meðal sveitarstjórnarmanna á Norðurlöndunum.  Það er fullkomlega ósiðlegt og ólýðræðislegt að beita skipulagsvaldinu til að binda hendur komandi kynslóða við úrlausn umferðar viðfangsefna borgarinnar, eins og Samfylkingin undir furðuforystu læknisins Dags hefur gert sig seka um.  Fyrir vikið er ástæða til að treysta henni ekki fyrir landstjórninni, enda er reynslan af henni þar ömurleg. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Bjarni. Ein mestu kosningasvik síðari ára myndi ég ætla séu að Framsóknarflokkurinn gekk til liðs við fallinn meirihluta. Ég er til æi að veðja á hátt fall flokksins í næstu kosningum. Þessi örflokkur fekk eitt tækifæri, sem er núna, og því er kastað á glæ.

Birgir Loftsson, 20.10.2022 kl. 14:57

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni og takk fyrir síðast.

Það sem kannski veldur mestri furðu er að það er sama hversu oft kjósendur hafna Degi, honum tekst eftir sem áður að halda völdum. Tekst að fífla til sín flokka sem að grunni ættu að vera í algjörri andstöðu við þetta sukk. Fyrst Viðreisn og nú Framsókn. Kannski eru þessir tveir flokkar af sama sauðahúsi og Samfylking. Þá má þjóðin sannarlega óska hjálpar almættisins! 

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 21.10.2022 kl. 09:17

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Birgir.  Ég er sammála þér.  Pólitískur fingurbrjótur Framsóknar opinberar erindisleysi hennar í pólitíkinni á höfuðborgarsvæðinu og víðar.  Vingulshátturinn er svo yfirþyrmandi, að jafnvel þeim, sem reikulir eru í ráðinu og köstuðu atkvæði sínu á glæ vegna yfirborðskennds fréttamanns, sem er pólitískt viðrini (fyrrverandi sjálfstæðismaður), er nú ofboðið og naga sig í handarbökin.

Bjarni Jónsson, 21.10.2022 kl. 11:22

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, takk fyrir síðast, Gunnar, og ánægjulegt samtal í sal Tónlistarskólans á Akranesi um hugðarefni okkar.  Dagur er enginn stjórnandi, svo að mýsnar sjá sér leik á borði og dansa á borðunum alla daga, því að þeim stendur enginn stuggur af kettinum.  Því miður hefur líka skort á einarða forystu í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, og það er eitthvað til í því, að þess vegna hafi vinglarnir ráfað yfir til Dags.  Andstaðan við vitlausasta mál Dags, ofurstrætó, hefur t.d. ekki verið einhlít í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.  

Bjarni Jónsson, 21.10.2022 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband