29.10.2022 | 13:53
Vaxtarskeiði fiskeldis er hvergi lokið hérlendis
Nú er saman komin sú þekking og fjármagn í fiskeldi hérlendis, sem saman mynda grundvöll heilbrigðs vaxtar í atvinnugreininni. Við blasir atvinnugrein, sem með þessu móti býr sig í stakkinn til að verða ein af undirstöðum íslenzkrar útflutningsstarfsemi.
Eins og við hlið hinna undirstaðanna, sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar, flutnings erlendra ferðamanna til og frá landinu og sölu gistingar til þeirra, þróast alls konar starfsemi við hlið fiskeldisins, t.d. hönnun og framleiðsla á sjálfvirkum búnaði og fóðurframleiðsla. Sú síðast nefnda á mikla framtíð fyrir sér vegna möguleika á hráefni, sem að öllu leyti getur orðið innlent, og vegna hagstæðrar raforku úr endurnýjanlegum orkulindum. Það, sem þarf til að skjóta stoðum undir innlenda fóðurframleiðslu, er að stórefla kornrækt í landinu. Einkaframtakið er fullfært um það, ef hið opinbera aðeins hefur manndóm í sér til að bjóða kornbændum áfallatryggingu gegn uppskerubresti. Með þessu fæst heilnæmara fæði og fóður með minna kolefnisspori en samsvarandi innflutningur og gjaldeyrissparnaður, sem styrkir ISK að öðru óbreyttu og eykur verðmætaskapandi vinnu í landinu, sem er ígildi útflutningsiðnaðar.
Íslenzkt fjármagn og þekking koma nú af vaxandi krafti inn á öllum sviðis fiskeldis við og á Íslandi ásamt hliðargreinum. Það er eðlileg þróun, en hvaðan kemur þetta fjármagn og þekking ? Hvort tveggja kemur aðallega frá íslenzkum sjávarútvegi, sem er afar ánægjuleg þróun. Ef hins vegar niðurrifspúkar í íslenzkri stjórnmálastétt, gjörsneyddir þekkingu á þörfum atvinnulífsins, hefðu ráðið för á Alþingi, væri nú íslenzkur sjávarútvegaður sá eini í heiminum, sem væri ofurskattlagður, væri þannig í hrörnun og ekki í neinum færum til að hleypa lífi í sprotagreinar. Fyrirtækið, sem hér á eftir kemur við sögu, Laxá fiskafóður á Akureyri, er dótturfélag almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, svo að saga auðhyggju og atvinnusköpunar verður ekki betri. Afætur og skattheimtuskúmar á Alþingi og víðar geta étið það, sem úti frýs, á meðan þekking og fjármagn einkaframtaksins leggur grunn að auðsköpun þjóðar í vexti.
Þann 18. október 2022 birti Gunnlaugur Snær Ólafsson viðtal í Morgunblaðinu við hinn stórhuga Gunnar Örn Kristjánsson (GÖK), framkvæmdastjóra Laxár fiskafóðurs á Akureyri, undir fyrirsögninni:
"Innlend verksmiðja anni eftirspurn":
"Hann segir áherzlu fyrirtækisins vera að framleiða fóður fyrir fiskeldi innanlands."Laxá er með 80 % hlutdeild í sölu fiskafóðurs á landeldismarkaðinum, þannig að við erum með seiðastöðvarnar almennt, landeldisstöðvar fyrir lax og bleikju og svo sjóeldi á regnbogasilungi fyrir vestan. Hvað sjóeldi á laxi varðar, erum við í dag ekki ekki tæknilega útbúnir til að framleiða þetta fituríka fóður, sem notað er, og voru því flutt inn 60 kt á síðasta ári [2021] af fiskafóðri frá Noregi og Skotlandi.""
Það liggja greinilega ónýtt, fýsileg þróunartækifæri til atvinnusköpunar og aukinnar verðmætasköpunar úr afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar til að framleiða meira en 100 kt/ár af fóðri í vaxandi sjókvíalaxeldi og spara þannig um 25 mrdISK/ár af gjaldeyri, er fram líða stundir. Að gera íslenzka fæðuframleiðslu sem sjálfbærasta og sem óháðasta erlendum aðföngum er verðugt verkefni, og með orkuskiptunum og fjölbreyttri ræktun innanlands við batnandi náttúruleg skilyrði hillir undir aukið sjálfstæði innlendrar matvælaframleiðslu. Annað mál er, að ætíð verður við venjulegar aðstæður þörf á innflutningi matvæla, sem ekki eru framleidd hérlendis í neinum mæli.
"Eftirspurn eftir fóðri, sem er umhverfisvænna og með minna kolefnisspori, hefur aukizt í takti við kröfur neytenda til eldisafurða. "Við erum að flytja maís frá Kína og soja frá Suður-Ameríku. Soja skilur eftir sig mikið kolefnisspor vegna skógareyðingar og flutninga. Þannig að við erum að vinna að því að finna eitthvað, sem getur komið í staðinn fyrir þetta jurtamjöl, sem við getum fengið hér innanlands eða innan Evrópu.""
Þetta er heilbrigð og ánægjuleg viðskiptahugmynd, sem verður æ raunhæfari með tímanum vegna vaxandi eftirspurnar og bættra ræktunarskilyrða og þekkingar á Íslandi á því, sem komið getur í staðinn. Það er til mikils að vinna að færa aðfangakeðjur matvælaiðnaðarins í mun meira mæli inn í landið en verið hefur. Það helzt í hendur við aukna meðvitund um nauðsyn bætts matvælaöryggis og auðvitað hollustu um leið.
"Hann bendir einnig á, að unnið sé að sambærilegu verkefni [nýting úrgangs frá skógariðnaði] hér á landi, þar sem fyrirtæki í samstarfi við Landsvirkjun á Þeistareykjum er að skoða notkun koltvísýrings til próteinframleiðslu úr einfrumungum og einnig smærri MATÍS-verkefni, þar sem nýttar eru aukaafurðir úr kornrækt til að búa til prótein með einfrumungum. "Þetta er mjög spennandi verkefni líka. Það væri mikill munur að geta fengið fleiri umhverfisvæn hráefni innanlands.""
Þetta sýnir þróunarkraftinn í fyrirtækjum í fóður- og matvælaiðnaði hérlendis, og það er ekki sízt að þakka afli sjávarútvegsins og fiskeldisins. Hreint koltvíildi, CO2, verður verðmætt hráefni í fóðurgerð og eldsneytisframleiðslu, enda er dýrt að vinna það úr afsogi. Það er þess vegna sóun fólgin í að dæla koltvíildinu niður í jörðina með ærnum tilkostnaði, eins og gert er á Hellisheiði og áform eru um að gera í Straumsvík, en verður sennilega aldrei barn í brók, af því að miklu hagkvæmara er að selja CO2 sem hráefni í framleiðsluferla framtíðarinnar.
"Hann [Gunnar Örn] kveðst eiga sér draum um, að kornrækt hér á landi verði einnig mun meiri í framtíðinni, þar sem núverandi framleiðsla sé langt frá því að svara hráefnisþörf fóðurfyrirtækja. "Það þyrfti ekki endilega að styrkja bændur til að hefja kornrækt. Það þarf bara einhvers konar bjargráðasjóð þannig, að [verði] uppskerubrestur, færu þeir ekki í gjaldþrot. Síðan þyrfti að vera eitthvert söfnunarkerfi í anda kaupfélaganna, svo [að] hægt yrði að kaupa í miklu magni.""
Þarna er að myndast innanlandsmarkaður fyrir kornbændur. Annaðhvort mundu þeir mynda með sér félag um söfnunarstöðvar eða fjárfestar koma þeim á laggirnar. Aðalatriðið er, að eftirspurnin er komin fyrir kornbændur. Það er varla goðgá að tryggja þá gegn áföllum, eins og gert er sums staðar erlendis. Þetta er hagsmunamál fyrir landið allt.
Að lokum kom fram hvatning Gunnars Arnar Kristinssonar:
"Íslendingar ættu að vera fullfærir um að framleiða allt sitt fiskafóður sjálfir og með umhverfisvænni hætti en innflutt, að mati hans. Það skilar mun lægra kolefnisspori og ekki sízt betri sögu um sérstöðu íslenzkra fiskeldisafurða, sem hefði jákvæð áhrif á viðhorf neytenda á erlendum mörkuðum."
Hér er stórhuga sýn um þróun fiskafóðurframleiðslu í landinu sett fram af kunnáttumanni í þeirri grein. Hér er ekkert fleipur á ferð , og GÖK færir fyrir því sannfærandi rök, hvers vegna fiskeldisfyrirtækin hérlendis ættu að taka innlenda framleiðslu fiskafóðurs fram yfir erlenda.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.