Skattheimtugleði stjórnmálamanna

Sjókvíaeldi er vaxtarsproti á Vestfjörðum og Austfjörðum og hefur reynzt falla vel að atvinnulífinu, sem þar var fyrir.  Á Vestfjörðum munar enn meir um þessa nýju grein en fyrir austan, því að álverið á Reyðarfirði hefur skapað Austfirðingum sterka kjölfestu í atvinnumálum. Vestfirðingar nutu engrar sambærilegrar kjölfestu og hafa í þokkabót mátt búa við orkuskort í landshlutanum, sem hefur berlega komið fram, þegar Vesturlína hefur rofnað frá stofnkerfi landsins, sem er of oft m.v. nútímakröfur.

Þannig hefur sjókvíaeldið snúið neikvæðri atvinnuþróun Vestfjarða við, en ferðamennskan hefur vissulega hjálpað til í þeim efnum líka, þótt Kófið færði mönnum heim sanninn um fallvaltleika hennar.

Sjókvíaeldið er í örum vexti, sem þýðir, að mikið fjárfestingaskeið og kynning á erlendum mörkuðum á sér stað hjá fyrirtækjunum í greininni. Við slíkar aðstæður er ómetanlegt að njóta öflugs bakhjarls, þar sem eru sjóuð norsk laxeldisfyrirtæki. Þrátt fyrir yfirstandandi uppbyggingarfasa gat ríkisstjórnin ekki setið á sér að stækka peningasuguna, sem beint er að sjóeldisfyrirtækjunum, um 43 % (úr 3,5 % í 5,0 % af veltu).  Gjaldið rennur til fiskeldissjóðs, sem er líka óeðlilegt, því að viðkomandi sveitarfélög þurfa að fjárfesta í sínum innviðum og þjónustustarfsemi vegna aukinna umsvifa fiskeldisins og ættu þess vegna fremur að njóta tekjuaukans beint án milligöngu ríkisins. Ríkisvaldið breiðir úr sér, en gefur lítið sem ekkert af sér í atvinnumálum.  Ráðherra matvæla hefur orðið á og tengt þessa peningasugu við rangan vasa. 

 Í Morgunblaðinu, 15. september 2022, birtist frásögn af þessu ásamt viðtali við framkvæmdastjóra SFS undir fyrirsögninni:

"Fiskeldisgjald hækki um 800 milljónir":

"Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækja í sjávarútvegi, segir hækkun gjaldsins nú koma á óvart.  Hún rifjar upp, að lægri gjaldheimta hér en í Færeyjum hafi verið rökstudd með því, að tekjuskattur væri lægri þar í landi og fyrirtæki hér greiddu þegar gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis og aflagjöld til hafna. Þá bendir hún á, að fiskeldi sé mun lengra á veg komið í Færeyjum en hér við land.  Það skjóti því skökku við, að nú eigi að hækka gjaldið til jafns við það færeyska.  Heiðrún bendir á, að á vegum matvælaráðuneytisins sé verið að marka stefnu fyrir fiskeldi til framtíðar. Sú niðurstaða, að atvinnugrein í uppbyggingu þoli frekari gjaldtöku, komi því á óvart." 

Ráðherrann, sem í hlut á, er ekki þekkt af umhyggju fyrir vexti og viðgangi atvinnuveganna, heldur fremur, að hún vilji, að krumlur ríkisvaldsins læsi sig um þjóðarlíkamann allan, þ.m.t. atvinnuvegina, og hvers vegna þá ekki að nýta valdastöðu sína til að hækka skattheimtu af atvinnugrein í þróun um svona 43 % með einhverri rökleysu eins og þeirri, að þar með sé sama skattheimtustigi náð og einhvers staðar annars staðar. Svona vinnubrögð á efsta stigi stjórnsýslunnar eru svo óvönduð, að þau verður að flokka undir fúsk. Þessi sami ráðherra hefur á öllum sínum ráðherraferli sýnt, að hún er óhæf til sjálfstæðrar greiningarvinnu og rökréttrar ákvarðanatöku á grundvelli verkefnisins, sem fást þarf við hverju sinni.  Þeim mun tamari eru henni klisjurnar og pólitískar upphrópanir af ýmsu tagi, enda af sauðahúsi svartnættis rauðu trúarbragðanna, sem hvergi nokkurs staðar hafa gefizt vel, eins og Venezúela er nú talandi dæmi um. 

Í lok tilvitnaðrar fréttar stóð þetta: 

"Þriðjungur af gjaldinu rennur áfram til sveitarfélaga, ekki beint, heldur með styrkjum til verkefna. Fiskeldisfélögin á Vestfjörðum og Austfjörðum hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag og lagt til, að gjaldið renni beint til sveitarfélaganna til að standa straum af uppbyggingu innviða vegna þessarar nýju atvinnugreinar.  Fasteignaskattar af mannvirkjum landeldis ganga beint til viðkomandi sveitarfélaga, en ekkert er greitt af sjókvíum undan landi.  Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu tekur fram, að sveitarfélögin hafi ekki beðið um hækkun á fiskeldisgjaldinu.  Hins vegar telur hún eðlilegt, að allt gjaldið renni til sveitarfélaganna a.m.k. tímabundið, á meðan þau eru að byggja sig upp eftir 30 ára niðursveiflu."  

Gagnrýni sveitarfélaganna á ráðstöfun fiskeldisgjalds er fyllilega réttmæt.  Fyrirætlun ráðherra og embættismanna um, að gjaldið renni til ríkisins er gott dæmi um drottnunargirni þessara aðila yfir gjaldendum og byggðunum.  Það er í viðkomandi sveitarfélögum, sem lunginn af kostnaðinum fellur til, og ríkið hefur engan siðferðislegan rétt til þessarar skattheimtu.  Þar á bæ hafa menn enga hugmynd um, hvernig bezt er að verja fénu til að styrkja atvinnugreinina með innviðauppbyggingu.  Það er furðulegt, að landsbyggðarþingmenn o.fl. skuli ekki grípa í taumana og leiðrétta þessa vitleysu matvælaráðherrans, sem aldrei kann fótum sínum forráð, heldur er blinduð af miðstýringaráráttu.     

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Hér skrifar pistlahöfundur eins og hann láti koma sér eitthvað á óvart. Þetta var hins vegar algjörlega viðbúið eins og ég rek hérna:

https://geiragustsson.blog.is/blog/geiragustsson/entry/2282983/

Erlendir eigendur íslenska fiskeldisins hafa frá upphafi haft vit á því að skila taprekstri af þessu til að taka skattstofninn í burtu. Eða verður auðlindagjaldið lagt á fyrirtækið óháð afkomu? Þá er þessu sjálfhætt. 

Geir Ágústsson, 1.11.2022 kl. 12:12

2 Smámynd: Rafn Haraldur Sigurðsson

Banna þennan ófögnuð, er að drepa villta stofninn og menga firðina. 

Rafn Haraldur Sigurðsson, 1.11.2022 kl. 21:55

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nú, ert þú, Rafn, búinn að láta Umhverfisstofnun og Matvælastofnun vita af þessum ósköpum, sem hefur farið fram hjá eftirlitsstóðinu ?

Bjarni Jónsson, 2.11.2022 kl. 11:29

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Þó að ég sé kannski ekki á nákvæmlega sömu línu og Rafn þá tel ég hyggilegra að byggja laxeldið uppi á landi eða í algjörlega lokuðum kvíum úti á sjó. Þetta er vissulega dýrara en hættan á sleppingu er alltaf fyrir hendi og ef við ætlum að tvöfalda eldið á næstu árum þá eykst sú hætta töluvert. Auk þess mun markaðurinn hugsanlega bregðast við þeirri gagnrýni sem hefur verið á sjókvíaeldið . Alltaf betra að fara hægt í sakirnar. Í Þorlákshöfn hafa menn verið með nýstárlegar hugmyndir um nýtingu úrgangs frá eldinu og það vegur upp á móti kosnaðaraukanum. Og sennilega er fleira sem gerir það eins og flutningur og ferðir út á eldisstöðvarnar. Kostnaðurinn er oft falinn.

Jósef Smári Ásmundsson, 4.11.2022 kl. 09:31

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jósef Smári;

Það er rétt, að hættan á, að lax sleppi úr sjókvíum er enn fyrir hendi, þótt hún hafi minnkað talsvert á þessari öld.  Það, sem máli skiptir í þessu sambandi, er hættan á blöndun við æxlun og að blönduð afkvæmi eignist afkvæmi.  Þessi hætta er afar lítil hér við land og aðeins lítið brot af hættunni á, að lax sleppi úr sjókvíum.  Hættan er svo lítil, að óþarfi er að gera sér rellu út af henni.  Þróun landeldis hérlendis er spennandi, og það verður áhugavert að fylgjast með, hvernig sjóeldi og landeldi þróast hlið við hlið sem 2 stofnar að öflugri útflutningsgrein.  

Bjarni Jónsson, 4.11.2022 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband