ACER herðir tökin á Noregi

Það var gæfa fyrir Ísland, að aflsæstrengurinn, sem búið var að setja á forgangslista orkuverkefna ESB-ACER, var tekinn út af þeim lista að ósk íslenzkra stjórnvalda í aðdraganda lokaumfjöllunar Alþingis á OP3 (þágildandi orkulöggjöf ESB, OP4 er núgildandi) sumarið 2019.  Annars gæti farið að styttast í svipaðar orkuhremmingar á Íslandi og gengið hafa yfir Norðmenn og valdið þeim gríðarlegum kostnaðarauka og aukið hjá þeim verðbólguna.  Þess vegna er fróðlegt fyrir áhugasama hérlendis að kynna sér, hver þróun samskipta Norðurlandanna við ESB-ACER er á orkusviðinu.

Hjá ACER er nú til athugunar tillaga frá kerfisstjórum aðildarlanda EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þ.á.m. Statnett í Noregi, um að fella þann hluta Noregs, sem er á áhrifasvæði millilandatenginga fyrir raforku, þ.e. Suður-og Austurlandið, inn í stórt fjölþjóðlegt orkuflutningssvæði, sem ætlað er að einfalda útreikninga með samræmdri aðferðarfræði á orkugetu og orkuflutningsgetu stórsvæðisins. Jöfnunarorkumarkaður verður þá sameiginlegur fyrir stórvæðið. Samhliða þessu vinnur ACER með tillögu að nýjum reglum um orku og flutningsgetu til ráðstöfunar samkvæmt langtíma orkusamningum, en tilhneigingin hefur verið að draga úr umfangi þeirra.  Slíkt hentar Íslandi og Noregi illa. 

Áfangaskipt samræming orkumarkaða Orkusambandsins felur í sér svæðisbundnar lausnir sem bráðabirgða skref í átt að fyrirætluninni um heildarsamræmingu, eins og getið er um í viðkomandi reglugerð í OP4 (Orkupakka 4). Það hlýtur að vera kaldranalegt fyrir Norðmenn að vinna að þessu í ljósi þess, að OP4 hefur ekki lagagildi í Noregi, og flestir gera sér ljóst, til hvers refirnir eru skornir, og ófæran blasir nú þegar við í Noregi. 

Noregi mun verða gert að ráðstafa enn meiri orku- og flutningsgetu til þessa sameiginlega orkumarkaðar.

Núna eru 8 orkuviðskiptasvæði í ESB.  Hjá ACER stendur vilji til, að norsku uppboðs- og verðsvæðin verði á norræna og Hansa-svæðinu, þ.e.a.s. með Þýzkalandi, Hollandi, Póllandi og Lúxemborg auk Svíþjóðar og Danmerkur.  Hjá ACER er því haldið fram, að þessi sameining markaðssvæða Noregs við Hansa-sambandið muni leiða til aukinnar "velferðarþróunar", sem er kaldhæðnisleg ályktun frá norsku sjónarhorni.

Í raun þýðir þessi skipulagsbreyting, að Noregur verður skyldaður til að ráðstafa enn stærri hluta flutningsgetu raforku til útlanda til Innri markaðar ESB og þeirra reglna, sem þar eiga við.  Aðferðarfræðin þar er s.k. flot.  Það þýðir, að þar ræður markaðurinn alfarið ferðinni, en stjórnvöld mega engin afskipti hafa af þeim viðskiptum. 

Að Noregur skuli sogast sífellt sterkar inn á Innri markaðinn, er bein afleiðing af, að sumarið 2021 samþykkti Stórþingið 4 reglugerðir, sem boðaðar voru í OP3 og koma í rökréttu framhaldi af honum.  Þær eru í samræmi við ákvæði í OP4. Alþingi hlýtur að hafa samþykkt þessa nálgun að OP4, úr því að reglugerðirnar hafa tekið gildi í EES.  Um þetta hefur verið undarlega hljótt.  Hvað gengur íslenzkum stjórnvöldum til að hlaupa umsvifalaust til, þegar norskur ráðherra hringir ?  Er þetta eitthvert Gamla sáttmála heilkenni ?

Ein þessara reglugerða er um ráðstöfun flutningsgetu fyrir orku, í orkuflutnings mannvirkjunum, sem samið er um til langs tíma (FCA).  Önnur er reglugerð um ákvörðun flutningsgetu og meðferð flöskuhálsa í flutningskerfinu (CACM).  Það er einkum þessi síðar nefnda reglugerð, sem kerfisstjórarnir og ACER nota sem röksemd fyrir því að samþætta Noreg stærra markaðssvæði. Í einföldu máli inniheldur CACM nákvæmar reglur, sem eiga að tryggja, að markaðurinn, en ekki þörf viðkomandi lands að mati stjórnvalda þess, stjórni aðgengi að millilandatengingunum og flutningum eftir þeim. 

Svíþjóð er skylduð til að ráðstafa 70 % af flutningsgetu sinni á raforku til útlanda til markaðarins.

Rafmagnsverðhækkanirnar hafa valdið örvæntingu í Svíþjóð eins og í Noregi.  Mikill verðmunur hefur verið á milli norður- og suðurhlutans, og kerfisstjórinn, Svenska Kraftnät, hefur átt í vandræðum með yfirálag á flutningskerfinu.  Þess vegna sótti Svenska Kraftnät um leyfi orkulandsreglarans, Energimarknadsinspektionen (EI samsvarar RME í Noregi og Orkumálastjóra á Íslandi), til að takmarka útflutninginn.  EI neitaði kerfisstjóranum um almennt leyfi til útflutningstakmarkana og vísaði til þess, að Svíþjóð er skuldbundin til að ráðstafa 70 % flutningsgetunnar til markaðarins samkvæmt ákvæði í endurskoðuðu rafmagnstilskipuninni í ESB OP4.

Aftur á móti veitti EI bráðabirgða undanþágu fyrir ákveðinni útflutningstakmörkun á flutningslínum og -strengjum til Finnlands og Danmerkur (en ekki til Noregs, Þýzkalands og Póllands) með vísun til afhendingaröryggisins.  Dönsku og finnsku orkulandsreglararnir mótmæltu og kærðu til ACER, sem nú hefur hafnað því, að Svíþjóð geti vikizt undan 70 % reglunni.      

ACER lagði mat á afstöðu sænska kerfisstjórans og orkulandsreglarans og rökstuddi höfnunina þannig:

  1. Undanþágan er ekki nauðsynleg til að viðhalda rekstraröryggi sænska raforkukerfisins.
  2. Í umsókninni var ekki tilgreind hámarkslækkun, sem fyrirhuguð væri.
  3. Í umsókninni var ekki tilgreind sú aðferðarfræði, sem fyrirhugað væri að beita til að koma í veg fyrir mismunun á milli orkuviðskipta innanlands og til útlanda.  

Af þessu má ráða, að ACER væni téð orkuyfirvöld í Svíþjóð óbeint um að ætla að veita notendum innanlands forgang að tiltækri orku. Ef t.d. ætti að helminga flutningana til útlanda, þá yrði að skerða orku til a.m.k. ákveðinna notenda í Svíþjóð um helming.  Þetta er algerlega óviðunandi fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Ef Stórþingið og Alþingi ásamt Liechteinsteinum samþykkja OP4, lendir Noregur strax í sömu ófæru og Svíar.  Hið sama varður uppi á teninginum hérlendis, ef Alþingi samþykkir tengingu íslenzka raforkukerfisins við Innri markaðinn, sem yrði fullkomið glapræði. 

Í ESB er ekki sama, hvort í hlut á Jón eða séra Jón.  Í vor bannaði franska ríkisstjórnin tímabundið útflutning á raforku frá Frakklandi til að draga úr verðhækkunum í kjölfar stöðvunar líklega um þriðjungs 56 kjarnakljúfa í frönskum kjarnorkuverum og virtist komast upp með það.   

OP3 er dauður bókstafur á Innri markaði ESB síðan OP4 tók þar við.  OP4 hefur hins vegar ekkert lagagildi í EFTA-löndunum.  Þess vegna verður ekki annað séð en orkulandsreglarar Íslands og Noregs framkvæmi fyrirmæli ESA (frá ACER) í heimildarleysi, og embættismenn og ráðherrar kæra sig kollótta.     

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sæstrengs umræðan er alltaf jafn skopleg, því það er allt fullvirkjað hér. Nema þeir ætli að breyta Hálendinu í vindorkugarð, þeir geta það núna eftir að hálendinu var rænt af héruðum landsins.

Guðjón E. Hreinberg, 20.11.2022 kl. 01:41

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nei, nei.  Það er ekki allt vatnsafl og jarðgufa fullvirkjuð hérlendis, en það er hins vegar nægur markaður innanlands fyrir alla viðbótar orku úr þessum orkulindum. Nú eru Fljótsdælingar að íhuga að láta land undir vindmylluþyrpingar.  Hvað rekur menn áfram í vindmyllur, þegar margir bæjarlækir eru óvirkjaðir ?

Bjarni Jónsson, 20.11.2022 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband