Japlað á gömlum óttaáróðri

Nýlega er lokið 40 k (k=þúsund) manna ráðstefnu í Sharm El Sheikh í Egyptalandi um meinta yfirvofandi hlýnun jarðar.  0,11 % þátttakenda voru frá Íslandi, en á huldu er til hvers stofnað var til þess fjárausturs og losunar gróðurhúsaloftegunda. Ef einhver þeirra hefur haft eitthvað bitastætt fram að færa fyrir heimsbyggðina, hefur það ekki greinzt fyrir suðinu frá ráðstefnunni, venjulegu heimsendatuði og vafasömum gjörningum í nafni skattgreiðenda á Vesturlöndum. 

Þessar COP-ráðstefnur eru vonlausar trúðasamkomur, því að engin leið er að komast að nokkurri skuldbindandi niðurstöðu eða samvinnu um að draga úr losun koltvíildis.  Ef þátttakendur tryðu í raun og veru heimsendaboðskapnum, sem á almenningi er látinn dynja í síbylju, þá hlyti fyrir löngu að hafa náðst einhhver áþreifanlegur árangur við að draga úr losun CO2-koltvíildis, eins og raunin varð á um freon-efnin (kolflúoríð) til að vernda ósonlag jarðar.  Losun koltvíildis eykst stöðugt á heimsvísu og í flestum löndum, og nú er viðurkennt, að borin von sé til að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C m.v. hitastigið um aldamótin 1800, enda var sú tala gripin úr lausu lofti á COP-ráðstefnunni í París í nóvember-desember 2015.   

Loftslagsáróðurinn stendur á slíkum brauðfótum og ofstækið er svo yfirþyrmandi, að erfitt er að taka hann alvarlega, enda virðast draumóramenn setja hann fram til höfuðs neyzluhyggju og auðhyggju.  Yfirlýsingar um yfirvofandi dómsdag út af hlýnun, jafnvel innan áratugar, hafa tröllriðið málflutningi þessara postula frá frumráðstefnunni um málefnið í Rio de Janeiro 1992. 

Ekki eru mælingar um styrk koltvíildis í andrúmsloftinu og stigul hans dregnar í efa, en hins vegar hefur hitastigshækkun andrúmsloftsins um 1,2°C frá um 1800 verið véfengd á vísindalegum grunni.  Dr John Christy, prófessor og framkvæmdastjóri "Earth System Science Center-ESSC", við háskólann í Alabama/Huntsville, sagði í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd árið 2012, að undanfarið 18 ára tímabil hefði enginn stígandi verið í hitastigi andrúmsloftsins samkvæmt óvéfengjanlegum  gervihnattamælingum. Sú niðurstaða sýnir einfaldlega, að líkan IPCC, sem notað er til að spá fyrir um hitastigsþróun andrúmsloftsins, er kolrangt og birt gögn um hitastigshækkunina eru röng. Um er að ræða flókið kerfi, og höfundar líkana IPCC virðast vera gloppóttir að þessu leyti.  Þegar svona er í pottinn búið, er ástæðulaust að gera sér rellu út af sífrinu frá minni spámönnum, sem SÞ hafa gleypt við, en þar fljúga ýmsir fuglar ófjaðraðir. 

Einn þeirra mörgu, sem gleypir við gögnum frá IPCC, er fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra, Hjörleifur Guttormsson.  Í þeim anda skrifar hann heilmikið í Morgunblaðið, og 22.11.2022 birtist þar greinin:

"Mannkynið fjarri lausn við loftslagsvandanum".

Hún hófst þannig:

"Nú er mannsaldur liðinn frá því mælingar sýndu í hvað stefndi með koltvíoxíðinnihald (CO2) í andrúmslofti jarðar í kjölfar efnahagsumsvifa, sem byggðust á jarðefnaeldsneyti, kolum og olíu.  Sameinuðu þjóðirnar kvöddu til sérfræðinga, sem lögðu grunninn að loftslagssamningi um 1990, sem samþykktur var á ráðstefnunni í Ríó de Janeiro og síðan staðfestur af flestum ríkjum heims.  Fyrsti ársfundur aðildarríkja þessa samnings (COP-1) var haldinn í Bonn árið 1995 og síðan ár hvert, síðast í Egyptalandi, þar sem COP-27 var að ljúka um síðustu helgi.  Sá, sem þetta skrifar, gerði sér ferð á Ríó-ráðstefnuna og COP-4 í Buenos Aires árið 1998 og hefur fylgzt með þróun mála samfellt síðan.  Afleiðingarnar af aukningu CO2 á loftslag jarðar hafa orðið augljósari frá ári til árs, sem leiddi til Parísarsamkomulagsins sögulega á COP-20 árið 2015. Grunnur þess er, að stöðva beri meðaltalshlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum innan við 1,5°C-2,0°C.  Reynslan síðan af áhrifum hlýnunar hefur fest neðri viðmiðunarmörkin í sessi sem eðlilega kröfu, en forsendurnar, til að hún verði að veruleika eru óskhyggja að óbreyttu efnahagsumhverfi."  

Það er ofeinföldun á flóknu kerfi andrúmsloftsins að tengja breytingar á hitastigi þess einvörðungu við hækkun koltvíildisstyrks og segja má, að gervihnattamæligögn dr John Christy afsanni þessi sterku tengsl, því að auðvitað jókst koltvíildisstyrkurinn mjög á tímabilinu 1994-2012, þegar hitastigið jókst ekkert. Sem dæmi má nefna, að vatnsgufa-H2O er öflug gróðurhúsalofttegund og við upphitun eykst geislun út í geiminn með hitastiginu í 4. veldi, svo að kerfið leitar jafnvægis í stað þess að stefna í stjórnlausa upphitun, eins og IPCC og aðrir dómsdagsspámenn halda fram. Allar dómsdagsspár á þessu sviði sem öðrum hafa orðið sér til skammar, en samt valdið ótta, einkum ungviðisins. 

Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, virðist yfirleitt hafa mikið til síns máls, þegar hann stingur niður penna.  Í örgrein í Morgunblaðinu gagnrýnir hann það réttilega, að nú virðast stjórnvöld ætla að skuldbinda Íslendinga til að greiða í loftslagsbótasjóð, fyrir að hafa stuðlað að hækkun koltvíildisstyrks í andrúmslofti, upphæð, sem gæti numið árlega mrdISK 3-4.  Í ljósi sögunnar er þetta fáheyrt.  Það sýnir, hversu leiðitamur loftslagsráðherrann er og laus við að hafa nokkurt leiðtogabein í nefinu, að honum þótti í kjölfar samþykktar um þetta í Sharm El Sheikh sjálfsagt að skuldbinda landsmenn í þessa veru. 

Þorsteinn Sæmundsson er annarrar skoðunar.  Téð grein hans, 28.11.2022:

"Fjármunum kastað á glæ",

hófst þannig:

"Skiptar skoðanir eru um það, hve mikinn þátt mannkynið eigi í hækkuðu hitastigi hér á jörðu.  Sjálfur hallast ég að því, að þessi þáttur vegi býsna þungt, en vil þó engan veginn fullyrða það.  Hitt þori ég að fullyrða, að mannlegar aðgerðir til að hamla gegn hitahækkuninni eru dæmdar til að mistakast.  Í fyrsta lagi eru þær þjóðir, sem mestri loftmengun valda, ekki virkir þátttakendur í aðgerðunum.  Í öðru lagi er engin von til þess, að aðrar þjóðir fylli upp í skarðið, því að það myndi ógna hagvexti þeirra. 

Að við Íslendingar tökum þátt í þessum aðgerðum, er hreinasta hneyksli, eins og ég hef áður fjallað um í blaðagrein: "Barnaskapur og sjálfsblekking", Mbl. 2.4.2022.  Um 90 % af orkunotkun okkar er laus við alla mengun.  Við stöndum bezt allra þjóða í því efni."

Þorsteinn telur tilraunir til að draga úr heimslosun CO2 dæmdar til að mistakast, og við það má bæta skrýtinni viðskiptahugmynd um að flytja CO2 inn til Íslands, blanda það við mikið vatnsmagn og dæla blöndunni niður í jörðina í von um, að blandan umhverfist þar í grjót.  Þessi aðferð er einfaldlega allt of dýr og krefst of mikillar orku og vatns. Sá, sem hefur fyrir því með erfiðismunum að draga CO2 út úr afsogi, mun fremur kjósa að selja það til framleiðslu á rafeldsneyti í grennd við sig en að senda það til Íslands. Varðandi "syndaaflausn" koltvíildislosara spyr Þorsteinn, hvar þessi vitleysa endi eiginlega ?  Fégreiðslur af þessu tagi eru dæmdar til að verða spillingu að bráð.  Við getum notað þetta fé betur hérlendis í sjóvarnargarða vegna hækkandi sjávarstöðu.    

 Einn þeirra, sem sótti messu loftslagskirkjunnar í Egyptalandi nú í vetur, COP-27, var Bergþór Ólason, Alþingismaður.  Hann er þó ekki í þessum sértrúarsöfnuði. Pistill eftir hann birtist á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 28. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

"Loftslagskirkjan messar í Egyptalandi",

og hófst þannig:

"Fyrir réttri viku bárust fréttir af því, að "örþreyttir" samningamenn hefðu náð niðurstöðu um s.k. loftslagsbótasjóð á COP27, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna [SÞ] í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. 

En niðurstöðu um hvað ?  Uppleggið er, að í sjóðinn renni 100 mrdUSD/ár frá þróuðum þjóðum til hinna vanþróuðu, sem verða fyrir tjóni af völdum veðurtengdra atburða.  Það samsvarar 11-földum fjárlögum Íslands [2022], árlega !

Ef mrd 1,5 jarðarbúa af mrd 8,0 stendur undir þessum greiðslum, má reikna með, að hlutur Íslendinga verði á 4. mrd árlega hið minnsta [hlutfall gefur 3,6 mrdISK/ár].  Höfðu embættismennirnir, sem þarna sátu dagana langa, umboð til að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti ?"

Það er tvöföld ástæða fyrir því, að glórulaust er að snara þessum fjármunum úr skuldugum ríkissjóði, sem þessi misserin er rekinn með miklum halla. 

Íslendingar voru fátækastir Evrópuþjóða um aldamótin 1900, enda höfðu þeir mannsaldurinn á undan orðið fyrir um fjórðungsblóðtöku, er atorkufólk hrökklaðist til Vesturheims undan kulda (hafísár), skorti á jarðnæði og atvinnuleysi.  Iðnvæðing hófst hér ekki að kalla fyrr en eftir Síðari heimsstyrjöldina, og var hún knúin áfram með endurnýjanlegum orkulindum.  Nokkru fyrir styrjöldina var farið að draga úr notkun kola og olíu með upphitun húsnæðis með heitu vatni úr iðrum jarðar.  Þannig var þróunin hérlendis með ósambærilegum hætti við önnur Vesturlönd og fáránlegt að láta Íslendinga borga einhvers konar "syndaaflausn", á meðan stórmengarar á borð við Kína, Indland, Indónesíu og Brasilíu er taldir til þróunarlanda og eru undanþegnir greiðslum í þennan sjóð. 

Sjóður á borð við þennan býður heim mikilli spillingarhættu, og það er hætt við stórfelldri misnotkun fjár og litlum framkvæmdum af viti til að aðlaga íbúana og lönd þeirra að breyttum aðstæðum. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekki hægt að orða þetta betur.

Allir alþjóða sjóðir, undantekningarlaust, eru morandi

í spillingu, sjálftöku, (þjófnaði) og þessi verður ekkert öðruvísi.

Flestir svona sjóða eru svo settir á laggirnar af vinstra liði sem

alltaf skuldsetja þegna sína þangað til allir hafa það jafn ömurlegt.

Þá er tilgangnum náð.

M.b.kv. 

Sigurður Kristján Hjaltested, 11.12.2022 kl. 11:29

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, satt er það, Sigurður.  Með þessum sífelldu ráðstefnum eru gæfusnauðar afætur búnar að framkalla einhvers konar eilífðarvettvang til að kjafta hver upp í aðra án þess nokkru sinni að nálgast nokkuð, sem kalla mætti lausn, enda koma lausnir annars staðar frá. 

Bjarni Jónsson, 11.12.2022 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband